Harmagedón — stríð sem tryggir sannan frið
Á MÁLI þeirra sem fjalla um alþjóðamál er oft notað enska orðið MAD til að lýsa ástandinu ein og það er nú. Bæði merkir orðið „vitskertur“ og er auk þess skammstöfun fyrir „Mutual Assured Destruction.“ Það mætti þýða „fullvissa um gagnkvæma tortímingu“ og vísar til kjarnorkuvígbúnaðarins. Þetta orðalag á vel við. Á þeim 40 árum, sem liðin eru síðan fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd í stríði yfir Híróshíma í Japan, hafa kjarnorkuvopnabúr veraldar vaxið hreint ótrúlega. Sumar skýrslur herma að þau geymi jafngildi 12 milljarða tonna af TNT-sprengiefni, eða um 3 tonn fyrir hvert mannsbarn á jörðinni!
Jehóva Guð ‚skapaði jörðina ekki til þess að hún væri auðn heldur byggileg‘ og mun ekki leyfa þjóðunum að halda sjálfsmorðsför sinni áfram. (Jesaja 45:18; sjá einnig Sálm 104:5) Áður en þeim gefst tækifæri til að nota öll sín banvænu vopn hver gegn annarri, og tortíma í leiðinni sjálfum sér og eyðileggja umhverfi sitt, mun skapari og eigandi jarðarinnar og alls sem á henni er grípa inn í. Þá mun, samkvæmt loforði hans, verða ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda,‘ Harmagedón Biblíunnar! — Opinberunarbókin 16:14, 16.
Harmagedón verður því annað og meira en ein styrjöldin enn til að reyna að losa mannkynið úr pólitískri sjálfheldu sinni. Það stríð mun koma til leiðar því sem maðurinn hefur í aldanna rás aðeins getað látið sig dreyma um. Það mun uppræta allar orsakir styrjalda manna í milli. Það mun koma á sönnum friði á jörðinni. Framar öllu öðru mun það endurreisa réttmætt drottinvald eiganda jarðarinnar, Jehóva Guðs, yfir öllu sköpunarverki sínu. Hvernig mun öllu þessu verða áorkað? Við skulum athuga það.
Friður — með því að fjarlægja öll stríðsvopn
Ein af ástæðunum fyrir því að þjóðunum hefur ekki tekist að hætta að berjast er sú að þær hafa ekki getað losað sig við verkfærin sem eru notuð til að berjast með. Jafnvel þótt þær viti að linnulaust vígbúnaðarkapphlaup er hreinasta sjálfsmorð eru þær ekki fúsar til að hætta því eða hægja á því. Það mun því vera algert „furðuverk“ þegar Jehóva grípur inn í og gerir það sem þjóðirnar ekki geta: „Brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ — Sálmur 46:9, 10.
Jehóva hefur í fortíðinni sýnt hæfni sína til að gera óvirk og ónýt öflugustu og skelfilegustu vopn sem þjóðirnar gátu otað fram. Til dæmis frelsaði hann þjóð sína, Ísraelsmenn, sem virtist varnarlaus, undan hervaldi fyrsta heimsveldisins, Egyptalands, með því að beita náttúruöflunum í Rauðahafinu. (2. Mósebók 15:3-5) Á svipaðan hátt voru hin háþróuðu árásarvopn Jabíns, konungs Kanverja, ‚níu hundruð járnvagnar‘ undir forystu hershöfðingjans Sísera, gerð algerlega ónothæf þegar Jehóva lét verða skyndiflóð í á. Alger upplausn varð meðal óvinahersins sem varð til þess að hann var stráfelldur til síðasta manna. Árangurinn varð sá að ‚friður varð í landinu í fjörutíu ár.‘ — Sjá Dómarabókina 4. kafla og 5:21, 31.
Þessi afdrifaríki bardagi gegn herjum Jabíns konungs átti sér stað í Kísondal „hjá Megiddóvötnum.“ (Dómarabókin 5:19-21) Það gefur okkur því stórbrotna fyrirmynd af allsherjarsigri Jehóva í hinu tilvonandi stríði við Harmagedón.
Hvaða „durlarfull“ öfl, ef nokkur, Jehóva mun beita gegn óvinum sínum vitum við ekki. Það sem við vitum er að hann ræður yfir öflum sem geta gersigrað herafla þjóðanna. Vísindamenn vita til dæmis að öflugt rafsegulhögg — sem þeir geta meira að segja sjálfir framkallað með kjarnorkusprengingu í háloftunum — getur gert óvirk öll fjarskipta- og njósnatæki heillar þjóðar og valdið algerri ringulreið. Rökrétt er að ætla að Jehóva muni gereyða vopnabúrum þjóðanna til að leggja grunn að sönnum friði.
Friður — aðeins fyrir þá sem vilja hann
Oft hefur verið sagt að stryjaldir séu háðar af fólki, ekki af vopnunum. Þess vegna myndi það ekki í sjálfu sér tryggja varanlegan frið þótt öllum hervopnum væri eytt. Eigi sannur friður að komast á þarf að útrýma stjórnmála-, kynþátta- og þjóðernishatri sem skiptir heiminum niður í fjölmargar fylkingar og herbúðir. Það mun Jehóva gera með því að láta verða það sem milljónir manna um allan heim hafa beðið um: „Til komi þitt ríki.“ — Matteus 6:9, 10.
Jafnvel þótt uppfylltir biblíuspádómar sýni glöggt að Messíasarríkið í höndum Jesú Krists hafi verið stofnsett á himnum á heimsstyrjaldarárinu 1914 var því ekki tekið fagnandi af þjóðunum. Engin þeirra lét sér til hugar koma að leggja niður vopn og afsala sér fullveldi sínu. Í æðisgenginni baráttu sinni um heimsyfirráðin drógust þær þess í stað inn í stærstu styrjöld sem háð hafði verið fram til þess tíma.
Í spádómi í öðrum sálminum lýsti Biblían þessu svo: „Hví geysa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð? Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn [Jehóva] og hans smurða.“ Þess vegna fyrirskipaði Jehóva sínum tilnefnda konungi, Jesú Kristi: „Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.“ — Sálmur 2:1, 2, 9; 110:2.
Þessum sigri hins smurða konungs Guðs er lýst í smáatriðum á myndrænu máli í Opinberunarbókinni 19:11-20:3. Orðið Guðs, Jesús Kristur, studdur af hersveitum engla, sést þar ríða hvítum hesti og „hann dæmir og berst með réttvísi. . . . Af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með.“ Síðan er hinum óguðlegu slátrað umvörpum. Eftir sinn fullkomna sigur mun hinn sigursæli konungur síðan snúa sér að sjálfum höfuðpaurnum að baki allra hörmunga og þjáninga á jörðinni. Sýnin í Opinberunarbókinni lýsir því eins og því væri þegar lokið: „Hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.“
Friður — í þúsund ár og að eilífu
Getur þú ímyndað þér hvað þúsund ára friður mun þýða fyrir mannkynið? Mörgum heimildarmönnum er ljóst að vinna mætti bug á hungri, sjúkdómum og fátækt meðal þjóðanna fyrir aðeins brot af þeim hundruðum milljarða króna sem eytt er í hergögn og stríðsrekstur ár hvert. Hugleiddu aðeins hvað mun gerast þegar allar auðlindir jarðarinnar verða notaðar í uppbyggilegum tilgangi. Það var enginn óskhyggjudraumur sem Jesaja lýsti þegar honum var blásið í brjóst að spá um stjórn ‚friðarhöfðingjans,‘ Jesú Krists: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ — Jesaja 9:6, 7.
Hin áleitna spurning, sem þú stendur frammi fyrir, er þessi: Munt þú lifa af eyðinguna við Harmagedón og verða eilífs friðar aðnjótandi? Þú kannt að spyrja hvað þú þurfir að gera til að lifa af? Biblían segir: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ (Sefanía 2:2, 3) Vottar Jehóva munu fúslega hjálpa þér til að gera það. Ef þú fylgir þessari hvatningu mun Harmagedón ekki þýða gereyðingu fyrir þig heldur sannan frið.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Við Rauðahafið sýndi Jehóva mátt sín til að gera öflug stríðsvopn óvirk.