Getur trú tilbúin af mönnum fullnægt þörfum okkar?
UM 450 milljónir manna játa hindúatrú. Einn af heimspekingum hindúa, dr. S. Radhakrishnan, segir: „Trúarbrögð eru miklu frekar viðleitni til að afhjúpa hin dýpstu fylgsni veru mannsins en opinberun sem við getum tileinkað okkur í trú.“ Hann bætir við: „Maðurinn er vafalaust mælikvarði allra hluta.“
Hindúar eiga sér enga miðstjórn, ekkert ákveðið tilbeiðsluform og enga eina bók, eins og Biblíuna, sem sé grundvöllur trúar þeirra. Í gegnum aldirnar hefur komið fram mikið safn hindúískra rita og sex mismunandi skólar eða stefnur innan hindúaískrar heimsspeki: Nyāya (rökgreining), Vaiśeshika (eðlisfræðiþekking), Sānkhya (samruni frumefna), Mīmāmsā (eftirgrennslan) og Vedānta (uppfylling Veda).
Þessar heimspekistefnur hafa verið þróaðar af ýmsum hindúakennurum á mismunandi tímum og skeiðum sögunnar, hver með sínar ólíku aðferðir við guðsdýrkun. Nyāya beitir til dæmis flóknum rökleiðsluaðferðum til að sanna tilvist Guðs með ályktunum (eins og til dæmis að álykta að vindurinn sé til vegna þess að skrjáfar í laufi trjánna).
Þessi aðferð hefur augljóslega ýmislegt til síns ágætis því að Biblian segir: „Því að hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) En getur eitthvert rökleiðslukerfi hjálpað okkur að þekkja skaparann? Getur slík rökfræði sagt okkur hvert nafn hans er? Getur hún útskýrt uppruna alheimsins eða ástæðuna fyrir því að þjáningum og illsku er leyft að viðgangast? Getur hún gefið okkur fullnægjandi framtíðarvon? Við skulum sjá hvor trúin svarar þessum spurningum betur — trú byggð á opinberuðum sannindum eða trú sem er upphugsuð af mönnum.
Kenningar manna í samanburði við Biblíuna
Hindúar hafa velt eðli Guðs mikið fyrir sér. Vedānta-heimspekin byggir til dæmis hugmyndir sínar á trúarritum sem nefnast Upanishadritin. Í þessum ritum er grennslast fyrir um eðli Guðs og samband hans við menn.
Biblían skarar samt sem áður fram úr í því að gefa skýrar og greinagóðar upplýsingar um eðli Guðs. Honum er lýst sem skapara allra hluta. (Opinberunarbókin 4:11) Honum er lýst sem persónu, ekki sem nafnlausu afli. „Þau skulu lofa nafn [Jehóva], því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni,“ segir Biblían í Sálmi 148:13. Hann er sagður vera „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ (2. Mósebók 34:6) Hann jafnvel býður ófullkomnum mönnum að kynnast sér og eiga við sig samband! (Sálmur 34:9) Er ekki það sem Biblían segir um Guð miklu betra en heimspekilegar eftirgrennslanir?
Upanishadritin grennslast fyrir um eðli sjálfsins í manninum. Aðeins í Biblíunni er þó að finna lykilinn að því að skilja manninn, því að hún leiðir í ljós hið synduga eðli hans. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Þar af leiðandi verður maðurinn stöðugt að berjast gegn röngum tilhneigingum. — Rómverjabréfið 7:20, 25.
Upanishadritin brjóta til mergjar spurningar varðandi illsku og endurgjald. Biblían segir hins vegar greinilega að illskan á jörðinni stafi af því að maðurinn hafi valið sér þá stefnu að vera óháður Guði. „Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.“ (Prédikarinn 7:29) Um endanlegt endurgjald illskunnar segir Ritningin: „Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans. Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs . . . þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu. Þrenging og angist . . . Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.“ — Rómverjabréfið 2:6-9, 11.
Meðan Upanishadritin basla við að útskýra leiðina til hjálpræðis segir Biblían einfaldlega: „Hjá [Jehóva] er hjálpin.“ (Sálmur 3:9) Þeim sem fylgja vegi Jehóva er lofað: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Biblían gefur einföld, hrein, bein og skiljanleg svör við spurningum sem mennskir hugsuðir standa ráðþrota frammi fyrir. Enginn heimspekingur hefði getað fundið þessi svör af eigin rammleik.
Biblían — opinberun frá Guði?
Merkir þetta sjálfkrafa að þú getir treyst Biblíunni sem opinberun frá Guði? Já, fyrir því eru margar ástæður.
Í fyrsta lagi er einungis eðlilegt að ætla að Guð opinberi sig manninum á einhvern hátt. Hvað finnst þér um mann sem eignast börn en hleypst síðan á brott og yfirgefur þau? Hvað fyndist þér um það ef hann eftirléti börnunum alls enga vitneskju um sjálfan sig; léti þau meira að segja ekki vita nafn sitt? Þér þætti hann sennilega mesta hrakmenni. Er þá ekki skynsamlegt að ætla að ástríkur skapari opinberi sig sínum jarðnesku börnum á einhvern hátt?
‚En hvers vegna ætti hann að gera það í einhverri bók?‘ kannt þú að spyrja. ‚Myndi ekki almáttugur Guð nota eitthvað áhrifameira — kannski það að tala af himni ofan?‘ Guð hefur talað af himni ofan við allmörg tækifæri, eins og til dæmis þegar hann gaf boðorðin tíu. Svo skelfdir voru Ísraelsmenn við þau náttúrufyrirbæri, sem þá urðu, að þeir sárbændu Móse: „Lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki.“ Þeir stóðu því í hæfilegri fjarlægð þegar Jehóva talaði við Móse. (2. Mósebók 20:18-22)a En jafnvel Móse hefði getað gleymt þeim orðum sem Guð talaði. Í visku sinni lét Jehóva því Móse, og aðra trúfasta menn síðar, færa orð sín í letur. (2. Mósebók 34:28) Menn geta því lesið hugsanir Guðs í ró og næði þegar þeir vilja. Þeir geta grandskoðað, hugleitt og ígrundað það sem Guð hefur að segja. — Sjá Jósúa 1:8; einnig 1. Tímóteusarbréf 4:15.
Að vísu var Biblían skrifuð af mönnum alveg eins og menn skrifuðu rit hindúa. En mennirnir, sem skrifuðu Biblíuna, gerðu það undir áhrifum heilags anda Guðs. (2. Pétursbréf 1:21) Rit þeirra voru ekki heimspekilegar vangaveltur. Auk þess ber Biblían glögg merki um handleiðslu Guðs. Getur það verið að þakka nokkru öðru en handleiðslu Guðs að Biblían skuli segja nákvæmlega í hvaða röð lífverurnar komu fram á jörðinni? (1. Mósebók 1. kafli) Getur nokkuð annað en handleiðsla Guðs skýrt það að Biblían skuli hafa sagt réttilega fyrir meira en 2700 árum, ekki aðeins að jörðin sé hnöttótt heldur líka að hún ‚svífi í tómum geimnum‘? (Jobsbók 26:7; Jesaja 40:22) Getur nokkuð annað en handleiðsla Guðs skýrt hina óbrigðulu nákvæmni spádómanna, svo sem spádómsins í Jesaja 44:28 þar sem persneski sigurvegarinn Kýrus mikli var nafngreindur um 130 árum fyrir fæðingu sína? Hefði nokkur maður getað sagt fyrir um það fyrir 2500 árum að tvær andstæðar þjóðafylkingar myndu leika aðalhlutverkið á sjónarsviði heimsins núna? — Daníel 11:27, 36-40.
Það á sér því öruggan grunn að trúa á Biblíuna sem opinberun á vilja Guðs. Við hvetjum þig til að rannsaka með opnum huga það sem hún hefur að segja. Vottar Jehóva munu fagna því að hjálpa þér að gera það. Þá mun guðsdýrkun þín ekki vera fánýt eftirsókn eftir mannlegri speki. (Matteus 15:9) Þá munt þú ekki heldur ‚tilbiðja það sem þú þekkir ekki‘ eins og Samverjar til forna gerðu. (Jóhannes 4:22) Með hjálp anda Guðs getur þú meira að segja kynnst hinum djúpu sannindum Guðs, því að ‚ef þú leitar hans mun hann gefa þér kost á að finna sig.‘ — 1. Korintubréf 2:10; 2. Kroníkubók 15:2.
[Neðanmáls]
a Sjá einnig 2. Mósebók 33:11; Matteus 3:17; 17:5; Jóhannes 12:28.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Milljónir manna aðhyllast trúarbrögð sem eru upphugsuð af mönnum, en hafa þau gefið fullnægjandi svör við spurningum manna um Guð?
[Mynd á blaðsíðu 6]
Biblían sagði ekki aðeins að jörðin væri hnöttótt heldur líka að hún ‚héngi í tómum geimnum.‘ Er það ekki glögg vísbending um innblástur frá Guði?