Spádómar Daníels — draumar sem snerta þig
„Ég leiði hugann að spámönnum ykkar til forna í Gamla testamentinu og táknunum sem boða Harmagedón, og ég get ekki varist þeirri hugsun hvort — hvort við séum sú kynslóð sem mun sjá það verða. Ég veit ekki hvort þið hafið veitt athygli nokkrum þessara spádóma nýverið, en þið megið trúa mér að þeir lýsa þeim tímum sem við göngum í gegnum núna.“ — Ronald Reagan Bandaríkjaforseti.
REAGAN Bandaríkjaforseti er ekki sá eini sem hefur velt fyrir sér hvort við lifum núna þá tíma sem spádómar Biblíunnar tala um. Milljónir manna hafa undrast stórlega hve nákvæmlega núverandi ástand í heiminum svarar til spádóma Biblíunnar. Þessir spádómar tala þó um meira en aðeins verri hörmungar en áður hafa þekkst; þeir tala líka um réttláta nýja skipan sem mun fylgja í kjölfarið.
Þessi grein er sú fyrsta í greinaflokki sem birtast mun í þrem næstu tölublöðum Varðturnsins, auk þessa, og ætlað er að hjálpa þér að kynnast einum hinna fornu spámanna, Daníel. Vel má vera að þú hafir heyrt hans getið. Hann var Gyðingur af göfugu ætterni. Á unglingsaldri var hann fluttur sem útlagi til Babýlonar þar sem hann hlaut menntun við hirð Nebúkadnesars, annars konungs hins nýbabýlonska heimsveldis. Þetta var í lok sjöundu aldar fyrir okkar tímatal, fyrir eyðingu Jerúsalem. Útlegð Daníels í Babýlon stóð fram til haustsins 539 f.o.t., en eftir það þjónaði hann við hirð fyrstu valdhafa medísk-persneska heimsveldisins. Meðan útlegð hans stóð yfir túlkaði hann drauma og sá sýnir sem varða okkar daga. Það sem Daníel sagði fyrir snertir þig og fjölskyldu þína.
Spádómlegir draumar og sýnir
Draumar og sýnir Daníelsbókar eru spádómar sem rættust bæði skömmu eftir að þeir voru bornir fram og vísuðu líka langt, langt fram í tímann. Þeir eru heimssagan skrifuð fyrirfram. Þeir segja fyrir valdabaráttu manna, konungaætta og heimsvelda allt frá dögum Daníels út í gegn um söguna fram til okkar tíma, ‚tíðar endalokanna.‘ — Daníel 8:17, 19.
Skammtímauppfylling spádómanna ætti að styrkja traust okkar til þeirrar uppfyllingar sem nær til okkar daga. Við skulum athuga hvernig sumir þessara spádóma rættust forðum daga.
Einn spádómurinn var birtur í draumi þar sem geysihátt tré var höggvið og bundið um „sjö tíðir“ eða ár uns því var leyft að vaxa á ný. (Daníel 4:10-17) Í skammtímauppfyllingu sinni átti þessi spádómur við Nebúkadnesar konung sem dreymt hafði drauminn. Aðeins ári síðar var hann ‚höggvinn upp,‘ greinilega vegna geðsjúkdóms. Í sjö ár hegðaði hann sér eins og dýr merkurinnar. Síðan, „að liðnum þessum tíma“ sem spáð var, endurheimti Nebúkadnesar vit sitt og hásæti. (Daníel 4:28-37) Samkvæmt fræðibókinni The International Standard Bible Encyclopedia benda fornar heimildir til að Nebúkadnesar hafi veikst undir lok stjórnartíðar sinnar. En þessi draumur átti sér líka langtímauppfyllingu eins og sýnt verður fram á síðar í þessari greinaröð.
Annar skammtímaspádómur í Daníelsbók kom þannig fram að skrifað var á yfirnáttúrlegan hátt á vegg í veislusal þar sem sonarsonur Nebúkadnesars, Belsasar, og höfðingjar hans héldu veislu. (Daníel 5. kafli) Þeir svívirtu hin helgu ker sem tekin höfðu verið úr musteri Jehóva í Jerúsalem. Vegna innblásturs túlkaði Daníel þann dómsboðskap frá Guði sem birtist með þessum hætti. „Á hinni sömu nótt“ rættist spádómurinn, Babýlon féll og „Belsasar Kaldeakonungur [var] drepinn“ eins og gríski sagnfræðingurinn Xenofon staðfestir. (Daníel 5:30) Núna stendur skrifað á vegginn hvað á eftir að koma yfir hið illa heimskerfi. Það verður líka skýrt nánar síðar í þessari greinaröð.
Innsigli rofið „er að endalokunum líður“
Undir lok spádómsbókar sinnar flytur Daníel þennan boðskap sem engill færði honum: „En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ — Daníel 12:4.
„Þekkingin“ á uppfyllingu biblíuspádómanna hefur sannarlega vaxið og orðið mikil. Þessi aukni skilningur hefur sannfært milljónir alvarlega þenkjandi biblíunemenda um að við lifum nú við þau ‚endalok‘ og að réttlætisríki Guðs sé í nánd. (Daníel 2:44) Daníelsbók á þar hlut að máli eins og bent er á í Soncino Books of the Bible: „Lokasigur réttlætisins og stofnsetning Guðsríkis, sem á eftir fer, gegna stóru hlutverki í Daníelsbók.“
Langar þig til að sjá „lokasigur réttlætisins“? Ef svo er skipta spádómssýnir og draumar Daníels þig miklu máli. Greinin hér á eftir veitir þér innsýn í suma þeirra og leggur fram rök fyrir því að Daníelsbók sé áreiðanleg spádómsbók.