Viðurkenning – en af hverju var hún dregin til baka?
Á ÞINGI kaþólskra biskupa í Bologna á Ítalíu í nóvember árið 1985 gerði kaþólska kirkjan harða hríð að vottum Jehóva. Undir stefinu: „Kristur, Guð okkar og von: Kristnir menn andspænis vottum Jehóva,“ fullyrti prestur að nafni Giovanni Marinelli að „trú og þjóðfélagi stafaði ógn af“ vottunum. Vegna þess hve ört þeim fjölgar á Ítalíu meðal kaþólskra sakaði hann vottana um að vera ‚sjúkdóm sem ræðst einkum á þá sem eru veikastir fyrir.‘
Kaþólskar sóknir og biskupsdæmi út um alla Ítalíu fengu fyrirmæli um að veita vottunum virka mótspyrnu. Hvernig? Með því að stofna í bæ hverjum hópa er skyldu „setja sig inn í“ starfsemi vottanna í því skyni að „opna augu trúaðra.“
Hvernig hefur slíkt herútboð gegn vottum Jehóva reynst? Í bréfi, sem birtist í sóknarblaðinu í Piario, skrifar prestur: „Persónulega geðjast mér vel að vottum Jehóva; ég játa það fúslega. Ykkur er öllum fullkomlega frjálst að vera á annarri skoðun og kannski jafnvel setja mig út af sakramentinu. . . . Hegðun þeirra votta Jehóva, sem ég þekki, er ólastanleg, þeir eru vingjarnlegir, . . . [og] mjög sannfærandi. Hvenær mun okkur skiljast að sannleikann þarf að kynna með viðeigandi hætti? Að þeir sem boða sannleikann þurfa ekki að vera áhugalausir, illlyktandi, ósnyrtilega til fara og sóðalegir?
Auk þess koma vottar Jehóva heim til fólks. Á sínu eigin heimili, í sínu venjulega umhverfi standa menn best að vígi. . . . Þeir geta rétt út höndina og dregið fram biblíuna sína . . . úr hillunni og sannreynt að rétt sé farið með versið sem vitnað er í, það sé rétt útskýrt og svo framvegis.
Ég vil láta þess getið að það orkar mjög sterkt á mig að vottar Jehóva finna sig persónulega ‚kallaða‘ . . . til þjónustu orðsins. Það er verkefni sem við höfum gleymt fyrir löngu og hefur valdið kristniboði okkar óbætanlegu tjóni. ‚Hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki?‘ Mér virðast vottar Jehóva heilsteyptir; ekki aðeins að því er varðar heimili, atvinnu og afþreyingu, heldur líka einkanám í kenningum sínum og það hvernig þeir hjálpa öðrum að skilja þær. En það eru jarðarfarir votta Jehóva sem hrífa mig mest. Ef ég ber þær saman við okkar kaþólsku jarðarfarir þar sem einungis hinn látni er hljóður, þar sem enginn hefur biblíu í hönd til að fylgja sameiginlegum upplestri. . . . Hvílíkt ljós! Hvílíkar bænir! Hvílík trú! Hvílík sálarró! Hver veit hvort ég get staðist þá freistingu að bæta við erfðaskrá mína: ‚Ég vil að vottar Jehóva sjái um útför mína.‘ Hver veit!
Inngangsorð þeirra eru mjög viðeigandi. Kannski er það vegna þess að ég er líka óánægður að ég skil opinskáar ásakanir þeirra. Þeir segja: ‚Heimurinn, sem við lifum í, er fullur ofbeldis og siðleysis.‘ Treystir þú þér til að andmæla þeim? Ég geri það ekki. . . . ‚Kaþólska kirkjan, sem er fjölmennasta og elsta kirkjudeildin, ber höfuðábyrgð á slíkri spillingu.‘ Ætlar þú að andmæla því? Ekki ég. Þeir eru viðkunnanlegt fólk, vel siðað, . . . helgað þjónustu sinni. Vottar Jehóva búa yfir því hugrekki sem fylgir rökfestu. Þeir ljúka máli sínu með því að segja: ‚Yfirgefið kirkjur ykkar og komið yfir til okkar.‘
Mér er ljóst að það væri hægara sagt en gert fyrir mig að snúa baki við þeirri trú sem ég fékk með móðurmjólkinni og snúast á sveif með annarri. En hvers vegna ekki að stíga skrefið ef það er skynsamlegt? Þegar allt kemur til alls er það engin auðmýking að breyta um trú. . . . Það væri auðmýking að yfirgefa trú sína til þess eins að vera í tómarúmi, vera slitinn frá akkerinu og hrekjast án markmiðs. En ef ég héldi að þvotturinn minn væri hvítur aðeins vegna þess að ég hefði ekki séð þinn? Það virðist skynsamlegt að velja mér betra þvottaefni sem þvær hvítara en hvítt! Markmið trúboða er eitt og aðeins eitt: Að breyta trú fólks. . . . Hvers vegna ætti ég ekki að breyta um trú ef samviska mín segði mér að gera það? Ef prédikari sannfærði mig? Ef það væri skynsamlegt? Ef trú votta Jehóva er réttari . . . þá . . . ætla ég að fylgja vottum Jehóva . . . Ég vil vita hvort vottar Jehóva hafa á réttu að standa.“
Í lok bréfsins lagði presturinn áherslu á að þótt vottarnir tækju Jehóva fram yfir Jahve sem framburð á nafni Guðs væri það ‚engin ástæða fyrir sig til að hverfa frá þeim miklu mætum sem hann hefði á vottum Jehóva.‘ Hvers vegna? „Þegar öllu er á botninn hvolft,“ bætti hann við, „þá eru þeir vottar Guðs og það er það sem máli skiptir!“
Eftirskrift: Bréf prestsins virðist hafa valdið miklu stormviðri á æðri stöðum innan klerkaveldis kirkjunnar. Í síðara tölublaði sóknarblaðsins dró hann til baka orð sín um votta Jehóva.