Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.12. bls. 4-7
  • Sönn trúarbrögð reka burt ótta — hvernig?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sönn trúarbrögð reka burt ótta — hvernig?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Rætur og greinar hjátrúarinnar
  • Á hverju byggist óttinn við hina dánu?
  • Hvað er sálin samkvæmt Biblíunni?
  • Ótti byggður á blekkingu
  • ‚Gefið yður Guði á vald‘ — gerir þú það?
  • Trúarbrögð og hjátrú vinir eða óvinir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Djöflarnir staðhæfa ranglega að hinir dánu séu á lífi
    Andar hinna dánu — geta þeir hjálpað þér eða gert þér mein? Eru þeir til í raun og veru?
  • Líf eftir dauðann — hverju trúir fólk?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.12. bls. 4-7

Sönn trúarbrögð reka burt ótta — hvernig?

BRESKU rithöfundarnir Edwin og Mona Radford höfðu unnið að því að safna dæmum um hjátrúarhugmyndir. Eftir að hafa safnað liðlega tvö þúsund dæmum komust þau að þeirri niðurstöðu að sömu hjátrúarhugmyndanna gætti í Skotlandi, Indlandi og Úganda og jafnvel einnig í Mið-Ameríku. Þeim kom þessi niðurstaða mjög á óvart og leiddu eðlilega hugann að því hver gæti verið orsökin. Rihöfundurinn Robertson Davies segir réttilega: „Hjátrú virðist tengjast einhverjum trúarsjóði sem er miklu eldri en þau trúarbrögð sem við þekkjum.“ Hvaða ‚trúarsjóður,‘ til orðinn fyrir daga kristninnar, er þá uppspretta hjátrúarinnar?

Rætur og greinar hjátrúarinnar

Biblían bendir á Sínearland (landsvæðið milli fljótanna Tígris og Efrat, síðar nefnt Babýlonía) sem fæðingarstað falskra trúarhugmynda, þeirra á meðal hjátrúarinnar. Þar tók „mikill veiðimaður“ að nafni Nimrod að reisa hinn illræmda Babelsturn. Ætlunin var að nota hann til falskrar guðsdýrkunar. Jehóva Guð ónýtti þó áform þeirra sem unnu að turnbyggingunni með því að rugla tungumál þeirra. Bygging turnsins stöðvaðist smám saman og menn tvístruðust. (1. Mósebók 10:8-10; 11:2-9) En hvert sem menn fóru fluttu þeir með sér sömu trúaratriðin, hugmyndirnar og goðsagnirnar. Babel var hins vegar áfram miðstöð falskra trúarbragða og jók jafnframt áhrif sín sem móðir og brjóstmóðir galdra, kukls og hjátrúar svo sem stjörnuspáfræði. (Samanber Jesaja 47:12, 13; Daníel 2:27; 4:7.) Bókin Great Cities of the Ancient World segir: „Stjörnuspáfræðin byggðist á tveim babýlonskum hugmyndum: Dýrahringnum og guðlegu eðli himintunglanna. . . . Babýloníumenn eignuðu reikistjörnunum þau áhrif sem búast mátti við af guðdómi hverrar fyrir sig.“

Hvernig hafa þessir fornu atburðir haft áhrif á okkur? Opinberunarbók Biblíunnar bendir á að falskt trúarkerfi, sem teygir anga sína um allan heiminn, hafi vaxið upp úr hugmyndum Forn-Babýlonar. Þetta trúarheimsveldi er nefnt „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 7:5) Að sjálfsögðu hefur framrás tímans og þróun mála á hverjum stað haft sín áhrif á þær hugmyndir sem komnar eru frá Babýlon. Hinar fjölskrúðugu trúarhugmyndir nútímans eru afleiðingin af því. En alveg eins og fjölbreytileg tré geta vaxið úr sama jarðvegi, eins eiga fjölbreytilegar trúarhugmyndir og hjátrúargrillur út um allan heiminn rætur sínar í sama jarðvegi — Babýlon. Við skulum taka eitt dæmi til að lýsa því hvernig ein af hjátrúarhugmyndum Babýlonar hefur komist inn í nálega öll trúarbrögð nútímans.

Á hverju byggist óttinn við hina dánu?

Babýloníumenn trúðu að maðurinn ætti sér andlegan hluta sem lifði af líkamsdauðann og gæti snúið aftur og haft góð eða slæm áhrif á þá sem eftir lifðu. Þeir fundu því upp trúarsiði sem ætlað var að friða hina látnu og afstýra hefnd þeirra. Þessi trú er enn ljóslifandi víða um heim. Í Afríku gegnir hún til dæmis „miklu hlutverki í daglegu lífi næstum allra . . . þjóðfélaga.“ — African Religions — Symbol, Ritual, and Community.

Jafnvel þeir sem játa kristna trú í þessum löndum eru ekki ósnortnir. Til dæmis viðurkennir Henriette, 63 ára kona af afrískum uppruna: „Þótt ég væri virkur meðlimur mótmælendakirkjunnar á staðnum óttaðist ég ‚anda‘ hinna dánu. Við bjuggum nálægt kirkjugarðinum og hvenær sem líkfylgd nálgaðist húsið okkar vakti ég barnið mitt og hélt því þéttingsfast að mér þar til líkfylgdin var hjá. Ég óttaðist að annars gæti ‚andi‘ hins látna komist inn í húsið mitt og tekið sér bólfestu í sofandi barninu.“

Hjátrú af þessu tagi lifir vegna kenningarinnar um ódauðlega sál sem kristni heimurinn hefur í hávegum. Mannkynssagan segir okkur að grískir heimspekingar — einkanlega Plató — útfærðu nánar hugmyndir babýloníumanna um ódauðleika. Breskur lektor í guðfræði, John Dunnett, segir að undir árifum þeirra hafi „hugmyndin um ódauðleika sálarinnar að miklu leyti náð að gagnsýra hina kristnu kirkju.“ Þessi babýlonska kenning hefur haldið milljónum manna í þrælkun hjátrúarótta.

Sönn trúarbrögð reka hins vegar burt slíkan ótta vegna þess að þau byggjast ekki á trúarhugmyndum frá Babýlon heldur á kenningum Biblíunnar.

Hvað er sálin samkvæmt Biblíunni?

Fyrsta bók Biblíunnar segir okkur að maðurinn hafi orðið sál eða lifandi persóna. (1. Mósebók 2:7) Þegar maðurinn deyr, þá deyr sálin þess vegna líka. Spámaðurinn Esekíel tekur undir það: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4; Rómverjabréfið 3:23) Sálin er dauðleg og lifir ekki eftir líkamsdauðann. Sálmur 146:4 segir: „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ Þar af leiðandi kemst John Dunnett, lektor, að þeirri niðurstöðu að ódauðleiki sálarinnar sé „eftir sem áður óbiblíulegt trúaratriði.“

Ef engin ódauðleg sál er til eru heldur ekki til „andar“ látinna til að hrjá og hrella menn á jörðinni. Grundvöllur hjátrúaróttans við hina dánu verður þar með að engu.

Ótti byggður á blekkingu

Hjátrúaróttinn við hina dánu er lífsseigur, meðal annars sökum þess að uggvekjandi atburðir gerast — eins og sá þegar miðaldra kona í Súrinam heyrði nafn sitt kallað að næturlagi. Hún lét sem hún heyrði það ekki, en þá fóru ósýnilegar „hendur“ að snerta hana, og þegar hún andmælti því lá við sjálft að ósýnilegt afl kyrkti hana. Þér kann að vera spurn, hver hafi verið þar að verki, ef „andar“ hinna látnu eru ekki lifandi. En sem fyrr leysir þekking á Biblíunni okkur úr fjötrum hjátrúaróttans.

Hún greinir frá því að illar andaverur eða illir andar séu til. En þessir illu andar eru ekki sálir hinna látnu. Þeir eru englar Guðs sem gerðu uppreisn og tóku sér stöðu með Satan, „honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9; Jakobsbréfið 2:19; Efesusbréfið 6:12; 2. Pétursbréf 2:4) Biblían sýnir okkur að illir andar hafa yndi af því að blekkja, skelfa og ásækja menn. Í Lúkasi 9:37-43 er greint frá því að illur andi hafi ‚gripið ungan pilt, teygt hann svo að hann froðufelldi‘ og hafði verið að gera út af við hann. Jafnvel meðan verið var að leiða drenginn til Jesú „slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega.“ „En,“ segir frásagan, „Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.“

Athyglisvert er að Cyclopedia of Biblical, Theological and Ecclesiastical Literature skilgreinir hjátrú sem „dýrkun falsguða.“ Ef þú viðhefur einhverjar hjátrúarathafnir ert þú kannski óafvitandi að geðjast ‚falsguðum‘ eða illum öndum! Slík falsguðadýrkun er alvarleg móðgun við Jehóva Guð. — Samanber 1. Korintubréf 10:20 og 5. Mósebók 18:10-12.a

‚Gefið yður Guði á vald‘ — gerir þú það?

Myndir þú hafa hugrekki til að snúa bakinu við þessum illu öndum með því að snúa baki við allri hjátrú? Illir andar eru að vísu voldugir, en eftir að hafa sýnt fram á að við verðum að velja á milli þess að þjóna Jehóva Guði eða illu öndunum spurði Páll postuli: „Munum vér vera máttugri en hann [Jehóva]?“ (1. Korintubréf 10:21, 22) Það erum við auðvitað ekki — en höfum hugfast að Satan og illir andar hans eru heldur ekki máttugri en Guð! Þessir illu andar „skjálfa“ meira að segja af ótta við Jehóva. (Jakobsbréfið 2:19,NW) En alvaldur Guð býður þér vernd sína ef þú biður um hana. Biblíuritarinn Jakob heldur áfram: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréfið 4:7) Hjátrúaróttinn mun líka flýja frá þér.

Þúsundir manna um allan heim, sem einu sinni lifðu við stöðugan ótta og þrælkun hjátrúar, geta borið því vitni. Djöfullinn flúði frá þeim! Á hvaða veg? Hafðu hugfast að þekking er öflugasti óvinur hjátrúar. Prófessor Rudolph Brasch, sérfræðingur um uppruna hjátrúarhugmynda, segir: „Það er menntun sem skiptir máli — því menntaðra sem fólk verður, þeim mun minni tök hefur hjátrú á því.“

Þegar Henriette, sem áður er getið, þáði boð votta Jehóva um ókeypis biblíunám sá hún þess vegna fljótt í gegnum blekkingarvef illu andanna. Hjátrúin missti tök sín á henni. Hún og þúsundir annarra hafa kynnst af eigin raun sannleiksgildi orðanna í Hebreabréfinu 2:15. Þar segir Páll postuli að Jesús muni ‚frelsa alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.‘ Líkt og hin mikla næturdögg regnskógarins gufar upp í morgunsól hitabeltisins leysist hjátrúaróttinn upp í sannleiksljósi Biblíunnar.

Fjölmargir ‚þrælar óttans‘ hafa fjarlægt verndargripina af sér og börnum sínum. Núna er þeim innanbrjósts líkt og Ísak, 68 ára manni í Suður-Afríku sem áður var galdralæknir. Eftir að hafa numið Biblíuna með vottum Jehóva sagði hann: „Ég er mjög hamingjusamur og frjáls því að ég er ekki lengur þjakaður af ótta við andana.“ Orð Jesú hafa reynst sönn: „Þér . . . munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“! — Jóhannes 8:31, 32.

Já, sönn trúarbrögð reka burt ótta!

[Neðanmáls]

a Sumar biblíuþýðingar (til dæmis King James Version, Douay, The Comprehensive Bible) nota orðið „hjátrú“ í Postulasögunni 25:19 sem þýðingu á gríska orðinu deisidaimonias sem merkir „ótti við illa anda.“ Sjá einnig neðanmálsathugasemd í New World Translation Reference Bible.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila