Varst þú einu sinni tengdur skipulagi Jehóva?
UNGI maðurinn var mjög sneyptur og niðurdreginn. Fötin hans voru gauðrifin, en báru þess merki að hafa einu sinni staðist kröfur tískunnar. Auðséð var á þeim að ungi maðurinn hafði ekki átt sjö dagana sæla. Hugur hans reikaði heim á æskuheimilið og honum fór að bjóða við því spillta líferni, sem hann hafði lifað, og hvernig hann hafði sólundað föðurarfi sínum sem hann hafði heimtað að fá í hendur fyrir tímann. Ekki bætti það líðan hans að maginn var galtómur. Hann hafði heimþrá. Jafnvel þjónum föður hans leið miklu betur en honum! Hann óskaði sér þess innilega að vera í þeirra sporum!
En hvers konar móttökur fengi hann hjá föður sínum ef hann sneri heim núna? Hann gat tæplega búist við því að vera tekið fagnandi eða einu sinni leyft að stíga inn fyrir hússins dyr eftir að hafa misnotað sér góðvild föður síns svona gróflega. En þrátt fyrir þessar hugrenningar var sú tilfinningin öllu yfirsterkari í huga hans og hjarta að hann yrði að snúa heim.
Ósköp gerði þessi ungi maður sér litla grein fyrir hvaða tilfinningar faðir hans bar í brjósti til hans! Hann átti mjög óvæntar viðtökur í vændum þegar hann sneri heim á ný. Meira að segja „er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“ — Lúkas 15:20.
Ert þú fluttur úr foreldrahúsum líkt og glataði sonurinn? Ert þú orðinn fjarlægur föður þínum, Jehóva og skipulagi hans? Langar þig nú til að ‚snúa heim‘ aftur?
Þeir sem hafa fjarlægst skipulag Jehóva hafa sjaldnast gert það á nákvæmlega sama hátt og glataði sonurinn. Margir bárust einfaldlega afleiðis hægt og hægt, svo hægt að það var tæpast merkjanlegt — líkt og lítinn árabát rekur hægt frá landi. Sumir hafa látið fjárhagsörðugleika, fjölskylduvandamál, veikindi eða jafnvel það að „komast áfram“ í heiminum íþyngja sér svo að ekkert rúm hefur verið eftir fyrir andleg málefni. Aðrir hafa látið einstaklinga, sem voru tengdir kristna söfnuðinum, verða sér hneykslunarefni eða yfirgefið hann af því að þeir voru ekki sammála þeim skilningi sem skipulag Jehóva hafði á einhverju biblíulegu atriði. Þá eru ónefndir þeir sem misstu kjarkinn og lögðu árar í bát þegar hið núverandi heimskerfi leið ekki undir lok á þeim tíma sem þeir höfðu vænst.
Ef þú ert ekki lengur starfandi með skipulagi Jehóva er líklegt að ein eða fleiri af þessum ástæðum eigi við þig. En hver sem orsökin er, er ekki orðið tímabært núna að íhuga hvort þú eigir ekki að snúa við? — Matteus 18:12-14.
Lést þú hneykslast?
Í ljósi þess hve mannkynið er fjarlægt fullkomleikanum er við því að búast að af og til verði árekstrar manna á milli. Sumir hafa látið það verða sér hneykslunarefni. Aðrir hafa hneykslast þegar einstaklingur, sem þeir báru djúpa virðingu fyrir, gerðist skyndilega sekur um fljótfærni, ókristna hegðun eða alvarlega rangsleitni.
Stendur þú í þessum sporum? Hvað sem kann að hafa orðið þér hneykslunarefni var það örugglega ekki Jehóva sem olli því. (Galatabréfið 5:7, 8) Er þá í rauninni nokkur ástæða til að skera á samband sitt við hann vegna þess sem einhver annar hefur gert? Ættum við ekki öllu heldur að halda áfram að þjóna honum í trúfesti í trausti þess að hann viti hvað er að gerast og muni sýna kærleika í samskiptum við okkur? — Kólossubréfið 3:23-25.
Sú er reynsla sumra að með tímanum hefur það sem í upphafi hneykslaði þá farið að virðast smávægilegra en það var og jafnvel horfið með öllu. Með því að íhuga málið í ró og næði hafa þeir kannski jafnvel komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið þeir sjálfir sem fóru rangt að. Oft er það svo þegar menn hafa verið ósammála eða hneykslast á einhverjum leiðbeiningum eða aga sem þeim var veittur. Þegar menn líta um öxl gera þeir sér kannski ljóst að slíkur agi var veittur í sönnum kærleika og með þeirra eigin hag að leiðarljósi. (Hebreabréfið 12:5-11) Það er því hyggilegt að fara eftir ráðum Páls. Hann skrifaði: „Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.“ — Hebreabréfið 12:12, 13.
Varst þú ósammála kenningu?
Vera kann að þú hafir yfirgefið skipulag Jehóva vegna þess að þú varst ósammála því um eitthvert biblíulegt kenningaratriði. Rétt eins og Ísraelsmenn, sem bjargað var frá Egyptalandi, „gleymdu fljótt verkum“ Guðs í sína þágu og „treystu eigi á ráð hans,“ eins kannt þú að hafa ályktað í fljótfærni að fyrst skipulagið væri ekki sammála því sem þú taldir rétt væri best að þú segðir skilið við það. (Sálmur 106:13) Ef til vill hefur þetta atriði verið skýrt nánar síðan, annaðhvort með því að sjá það í nýju ljósi eða staðfesta enn frekar með ítarlegri biblíurannsóknum undir handleiðslu anda Guðs. Hefði ekki verið betra einfaldlega að halda tryggð við skipulagið og bíða Jehóva?
Gott er að hafa hugfast að Jehóva hefur alltaf unnið í gegnum eitt skipulag. Á okkar dögum útbýtir hinn „trúi og hyggni þjónn“ andlegri fæðu „á réttum tíma.“ Taktu eftir að ‚húsbóndinn átti að finna þjóninn breyta svo er hann kæmi.‘ (Matteus 24:45-47) Hverjir gera sér núna grein fyrir að húsbóndinn sé kominn? Hverjir eru önnum kafnir við það starf sem hér er getið um? Aðeins þeir sem tengdir eru skipulagi kristinna votta Jehóva!
Þegar sumir lærisveinanna yfirgáfu Jesú sagði Pétur postuli: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ Pétur var ekki í minnsta vafa um að Jesús væri Messías. Þegar því mörgum af lærisveinunum þóttu orð Jesú hneykslanleg gerði Pétur sér ljóst að það væri óhyggilegt að yfirgefa uppsprettu ‚orða eilífs lífs.‘ Með tíð og tíma yrðu efasemdir eða misskilningur leiðréttur. (Jóhannes 6:51-68; samanber Lúkas 24:27, 32.) Svo er enn nú á dögum eftir því sem Jehóva leiðbeinir þjónum sínum skref fyrir skref á vegi sannleikans. — Orðskviðirnir 4:18.
Snúðu aftur núna
„Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til [Jehóva],“ hvatti spámaðurinn Jeremía. (Harmljóðin 3:40) Sumir veigra sér kannski við því af ótta við að söfnuðurinn veiti þeim ekki hlýjar viðtökur. En hver voru viðbrögð föðurins þegar glataði sonurinn sneri aftur heim? „Nú varð að halda hátíð og fagna,“ sagði faðirinn, „því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“ (Lúkas 15:32) Hliðstæðar, hlýjar viðtökur bíða þeirra sem ‚snúa sér aftur til Jehóva‘ í einlægri löngun til að gera vilja hans. — Samanber Lúkas 15:7.
En kristni söfnuðurinn hefur ekki látið við það sitja að bíða þess að taka fagnandi á móti slíkum einstaklingum ef þeir kynnu að ákveða að snúa aftur heim. Í dæmisögu Jesú hljóp faðirinn út til móts við son sinn „er hann var enn langt í burtu.“ Eins líta vottar Jehóva á það sem skyldu sína að leita uppi þá sem einu sinni voru tengdir skipulagi Jehóva og hjálpa þeim að snúa aftur.
En hvað skal gera varðandi þá sem gerðust sekir um alvarlega rangsleitni meðan þeir voru fjarlægir skipulagi Jehóva? Og hvað um þá sem þurfti að víkja úr samfélagi við þjóna Guðs vegna alvarlegra synda en eru síðan hættir ókristilegri breytni? Öldungarnir munu vita hvernig hægt er að veita þeim vingjarnlega og kærleiksríka aðstoð til að þeir geti eignast gott samband við Jehóva á ný. Hver sá sem þráir að snúa við og lifa í samræmi við vilja Guðs ætti því að láta öldungana vita af þeirri löngun sinni. „‚Komið og útkljáum málin okkar í milli,‘ segir Jehóva. ‚Þó að syndir ykkar reyndust sem skarlat skulu þær verða hvítar sem snjór.‘“ — Jesaja 1:18, NW.
Okkar himneski faðir er góður, hlýr og kærleiksríkur! Hann er þolinmóður og ber umhyggju fyrir einu og sérhverju okkar. Hann vill ekki að neitt okkar farist með þessu óguðlega heimskerfi. (2. Pétursbréf 3:9) Það var Jehóva sem hvatti þjóna sína til forna með þessum orðum: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ Þetta boð stendur enn þann dag í dag. — Malakí 3:7.
Tíminn er þó orðinn knappur þannig að þú skalt ekki draga á langinn að þiggja það. Öðlastu á ný ‚gnótt friðar þeirra er elska lögmál Guðs‘ ásamt þjónum Jehóva. „Þeim er við engri hrösun hætt,“ heldur sálmaritarinn áfram. (Sálmur 119:165) Elskar þú lög Jehóva í fylgsnum hjarta þíns? Ef þú ert vígður þjónn Guðs var það þess vegna sem þú vígðir þig honum. Ekkert — alls ekkert — getur verið þýðingarmeira en það að endurheimta samband þitt við Jehóva. Snúðu ekki baki við honum. Hugleiddu þetta mál vandlega og legðu það fyrir Guð í bæn. Ef þú hefur saknað einingar og hlýju þjóna Jehóva er enn ekki of seint að snúa aftur til skipulags Jehóva. Gerðu það án tafar.