Unglingar — varist að lifa tvöföldu lífi
„Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni . . . en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.“ — PRÉDIKARINN 11:9.
1, 2. Nefndu dæmi um ungan mann sem lifði tvöföldu lífi.
„ALLT frá byrjun var ég alinn upp í kristnu umhverfi sem vottur Jehóva,“ skrifaði ungur maður. „Samt var líf mitt, jafnvel meðan ég bjó enn heima, í algerri mótsögn við lífsreglur og hugsanagang foreldra minna. Ég lifði í meginatriðum eins og mér sjálfum hentaði, agalaus eins og heimurinn.“
2 Ungi maðurinn heldur áfram: „Jafnvel áður en ég varð 10 ára fór ég að nýta mér báða ‚heimana‘ sem best ég gat — til að njóta viðurkenningar og vináttu í skólanum og um leið viðurkenningar foreldra minna. Í skólanum líkti ég sem best ég gat eftir klæðnaði og hegðun annarra . . . en heima var ég allt annar maður. Þar var ég þessi vel uppaldi, kristni drengur sem foreldrar mínir væntu.“
3. (a) Hverju treystum við en hvað er eigi að síður staðreynd? (b) Hvert er tilefni þess að við beinum athyglinni að unglingum?
3 Við vitum að breytni þessa unga manns er ekki dæmigerð fyrir ykkur unga fólkið í söfnuðinum. Við treystum því að langsamlega flest ykkar séu heiðarleg við foreldra ykkar og söfnuðinn og það gleður okkur. En við vitum líka að sum ungmenni reyna að fela ranga breytni sem best þau geta með því að sýnast á yfirborðinu ráðvandir einstaklingar. Þess vegna verðum við að spyrja: Ert þú þess konar persóna sem þú lætur í veðri vaka gagnvart okkur eða lifir þú tvöföldu lífi? Við spyrjum þessa ekki í gagnrýnishug heldur vegna þess að við elskum ykkur í einlægni og viljum hjálpa ykkur að njóta æsku ykkar með því að lifa henni þannig að þið þóknist Jehóva. — Prédikarinn 11:9, 10; 12:14; 2. Korintubréf 5:10.
4. Hvernig hefur sumt fullorðinna lifað tvöföldu lífi en hvers hefur orðið vart meðal ungs fólks?
4 Ykkur kann að vera spurn hvers vegna við beinum athyglinni að ykkur. Eru hinir fullorðnu eitthvað betri? Enginn vafi leikur á að þeir þurfa líka að gæta þess að lifa ekki tvöföldu lífi. Gehasí, þjónn Elísa, reyndi til dæmis að fela það að hann hafði þegið gjafir af Naaman. (2. Konungabók 5:20-26) Og Ananías og Saffíra reyndu að blekkja postulana. Í því skyni að líta betur út í augum annarra sögðust þau hafa gefið postulunum allt söluverð akursins, þótt þau héldu í raun sumu eftir handa sjálfum sér. (Postulasagan 5:1-4) Ástæðan fyrir því að við beinum athyglinni sérstaklega að ykkur unga fólkinu er sú að þetta vandamál hefur greinilega færst í aukana ykkar á meðal.
Hvers vegna sumir lifa tvöföldu lífi
5. (a) Hvers vegna lifa sumir unglingar tvöföldu lífi? (b) Hvað mætir oft unglingum þegar þeir hegða sér vel og hvað hafa sumir þess vegna gert?
5 Hver er orsök þess? Einn unglingur benti á meginástæðuna þegar hann sagði: „Ég vildi ekki missa vini mína með því að skera mig úr.“ Það er rétt að börn og unglingar verða oft fyrir aðkasti ef þeir hegða sér betur en aðrir. (Samanber 1. Pétursbréf 3:16; 4:4) Til að forðast það og til að afla sér hylli félaga sinna finna sumir unglingar upp á því að drekka sig drukkna eða hafa kynmök. Þrettán ára stúlka — ekki vottur Jehóva — sem fékk bestu einkunn í öllum greinum og tók alltaf þátt í bekkjarsamræðum, sagði í kvörtunartón: „Strákar munu aldrei fá áhuga á fyrirmyndarstelpu eins og mér. . . . Ég er að hugsa um að fá lægri einkunnir eða eitthvað svoleiðis til að lífga upp á mannorð mitt.“
6. Hvað fékk Pétur til að gera það sem rangt var og hvaða áhrif ætti það að hafa á viðhorf okkar til unglinga?
6 Vert er að gefa því gaum að jafnvel Pétur postuli hugsaði einu sinni meira um hvað öðrum fyndist um hann en hitt að gera það sem hann vissi vera rétt. Þegar kristnir Gyðingar frá Jerúsalem heimsóttu Antíokkíu dró Pétur sig úr félagi við kristna menn af þjóðunum, þar eð hann óttaðist að Gyðingar myndu gagnrýna hann fyrir félagsskap sinn við þá. (Galatabréfið 2:11-14) Úr því að jafnvel þroskaðir kristnir menn hafa látið undan óttanum við menn, er þá nokkur furða að óreyndir unglingar kunni að gera það líka? — Orðskviðirnir 22:15.
7. Hvað getur freistað sumra unglinga til að lifa tvöföldu lífi?
7 Önnur skyld ástæða fyrir því að sumir unglingar lifa tvöföldu lífi er sú að þeir halda að þeir séu að missa af einhverju skemmtilegu. Þeir heyra skólafélaga sína tala um það sem þeir hafa verið að gera — „partýið“ sem þeir voru í, æðislegu tónlistina, áfengisdrykkjuna, fíkniefnin og hvílíkt vímuástand þeir komust í! Eða þeir heyra hversu vel þessi strákur eða stelpa kann að kyssa eða hafa kynmök. Við það kviknar löngun hjá unglingunum til að reyna eitthvað af þessu og þeir finna sig lokkaða til að reyna það sem Biblían kallar ‚skammvinnan unað af syndinni.‘ — Hebreabréfið 11:24, 25; 1. Korintubréf 10:6-8.
8. Hver er meginorsök þess að unglingar lifa tvöföldu lífi?
8 Hin eiginlega orsök fyrir því að sumir unglingar lifa tvöföldu lífi er þó sú að Jehóva og hinn komandi nýi heimur er þeim einfaldlega ekki raunverulegur. Þeir trúa ekki fyllilega loforðum Jehóva eða aðvörunum sem orð hans og sýnilegt skipulag gefa um afleiðingar þess að óhlýðnast Jehóva. (Galatabréfið 6:7, 8) Þeir eru ólíkir Móse sem Biblían segir um: „Hann horfði fram til launanna [frá Guði]. . . . hann . . . var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ Jehóva og fyrirheit hans voru Móse raunveruleg. En þá sem lifa tvöföldu lífi skortir slíka trú. Þeir sjá það eitt sem Satan vill að þeir sjái — það sem glitrar og glóir í þessu heimskerfi. Þess vegna kasta þeir sér út í það að njóta skammvinns unaðar af syndinni — en reyna samtímis að fela það undir yfirbragði heilagleikans. — Hebreabréfið 11:26, 27.
Foreldrar, þið getið átt einhverja sök
9. (a) Hvernig geta foreldrar stuðlað að því að börn þeirra lifi tvöföldu lífi? (b) Hvað þurfa þeir sem eldri eru að gera sér ljóst og vera vakandi fyrir?
9 Unglingurinn, sem til var vitnað í byrjun greinarinnar, sagði: „Það sem gerði mig óvinsælan í skólanum hafði í för með sér viðurkenningu og velþóknunarbros heima. En það var ekki nóg fyrir mig. Ég þarfnaðist einhvers sem ég gat stutt mig við, talað við, trúað fyrir tilfinningum mínum, og foreldrar mínir veittu mér það ekki.“ Foreldrar, gætið þið þess að stuðla ekki að því að börnin ykkar lifi tvöföldu lífi? Veitið þið þeim þá persónulegu athygli og leiðsögn sem þau þarfnast? Þið sem eldri eruð þurfið að gera ykkur grein fyrir því gífurlega álagi sem börn og unglingar verða fyrir í skólanum og getur grafið undan trú þeirra, og gera allt sem þið getið til að uppörva börnin og hjálpa þeim. — Sálmur 73:2, 3; Hebreabréfið 12:3, 12, 13.
10. (a) Hvaða forvitni unglinga þurfa foreldrarnir að svala? (b) Hvaða afleiðingu hefur það oft þegar foreldrarnir veita ekki leiðsögn?
10 Unglingar hafa oft margar spurningar um samband við hitt kynið en það er umræðuefni sem margir foreldrar því miður forðast. „Þau áttu aldrei hreinskilnislegt samtal við mig,“ segir lagleg 15 ára stúlka sem hefur skarað fram úr í skóla. „Það sem ég veit um kynferðismál hef ég þurft að læra upp á eigin spýtur. . . . Ég var of feimin til að brydda upp á því enda þótt það væri margt sem mig langaði til að vita.“ Hverjar urðu afleiðingarnar? Hún segir: „Hinn ósýnilegi múr milli mín og foreldra minna varð hærri og hærri og ég varð afar forvitin, kjánaleg og auðtrúa.“ Það endaði með því að hún lét undan ágengum, ungum manni, en hverjir myndir þú segja að báru einnig sök á því? — Orðskviðirnir 22:3; 27:12.
11. (a) Hvernig geta foreldrar sýnt að þeir elska börnin sín? (b) Hvernig munu unglingar að öllum líkindum bregðast við slíkum kærleika?
11 Brýnt er að foreldrar sýni börnum sínum að þeir elski þau í einlægni með því að eyða tíma með þeim, tala við þau um ýmis trúnaðarmál og gefa þeim leiðbeiningar. (Orðskviðirnir 15:22; 20:18) „Ég hef á tilfinningunni að ef þeim þætti í alvöru vænt um mig myndu þau setja einhverjar reglur,“ sagði annar unglingur. Jafnvel þótt börn og unglingar mótmæli reglum ykkar núna munu þeir síðar meir vera þakklátir fyrir þær. Ung stúlka skrifaði móður sinni: „Þótt ég væri alltaf að láta reyna á takmörkin og leita að veikum punktum og leiðum til að sneiða hjá hinum ströngu reglum er ég innilega þakklát fyrir að þú skyldir hafa taumhald á mér.“ Sýndu að þú elskir börnin þín með því að krefjast þess að þau fylgi reglum þínum. Stuðlaðu aldrei að því að þau lifi tvöföldu lífi með því að halda ekki opinni leið samræðna og skoðanaskipta eða með því að vera ekki til taks þegar þau þurfa á þér að halda!
12. Hvaða óhyggileg viðhorf sumra foreldra stuðla stundum að því að börnin lifa tvöföldu lífi?
12 Foreldrar geta einnig með gerólíkum hætti stuðlað að því að börnin þeirra lifi tvöföldu lífi. Það má sjá af orðum hæstaréttardómara í New Jersey í Bandaríkjunum. „Kennarar reyna að aga börn ef þau eru óhlýðin í skólanum en fá svo skammir frá foreldrunum í stað stuðnings.“ Sumir foreldrar virðast ranglega halda að börnin þeirra geti ekki gert neitt rangt. Jafnvel þegar kristnir öldungar eða aðrir ábyrgir einstaklingar í söfnuðinum vekja athygli þeirra á rangri breytni barnanna daufheyrast foreldrarnir við. Þar með stuðla þeir að því börnin þeirra lifi tvöföldu lífi.
Hvað er það í raun að lifa tvöföldu lífi?
13. Hverju jafngildir það í raun að lifa tvöföldu lífi?
13 Það er mikilvægt að horfast í augu við hvað það raunverulega er að lifa tvöföldu lífi: Það er hið sama og að ljúga, svíkja og hræsna. (Sálmur 12:3; 2. Tímóteusarbréf 3:13) Sá sem gerir það líkir eftir Satan sem „tekur á sig ljósengilsmynd.“ (2. Korintubréf 11:14, 15) Það merkir líka að vera eins og trúarleiðtogarnir sem Jesús sagði um: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ (Matteus 23:27, 28) Það að lifa tvöföldu lífi er greinilega alvarlegt brot gegn Guði.
14. Hvers vegna er óhyggilegt að lifa tvöföldu lífi?
14 Annað atriði, sem vert er alvarlegrar íhugunar, er þetta: Það er ekki hægt að breiða yfir hræsni sína endalaust. „Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 20:11; Lúkas 12:1-3) Athafnir þínar, hvort heldur góðar eða slæmar, koma fyrr eða síðar fram í dagsljósið. Og Biblían sýnir að Guð mun refsa hræsnurum mjög stranglega. (Matteus 24:51) Svo sannarlega ættir þú að vilja forðast að lifa tvöföldu lífi!
Hvernig má forðast það
15. Hvað getur hjálpað unglingum að forðast það að lifa tvöföldu lífi?
15 Ein leið til að forðast að lifa tvöföldu lífi er sú að horfast í augu við hvað það í rauninni er og spyrja síðan sjálfan sig: Er það þannig sem ég vil láta muna eftir mér, sem hræsnara, sem eftirbreytanda Satans og faríseanna? Að sjálfsögðu ekki! Þá ættir þú einnig að hugsa um þau alvarlegu vandamál og sorgir sem slíkt líferni mun hafa í för með sér. Minnstu þess hvernig fór fyrir Gehasí þegar hann reyndi að framfleyta sér með lygi. Holdsveiki Naamans fylgdi honum og hann var holdsveikur það sem eftir var ævinnar. Guð sló bæði Ananías og Saffíru til bana fyrir að reyna að sigla undir fölsku flaggi örlætisins. — 2. Konungabók 5:27; Postulasagan 5:5, 9, 10.
16. Hvernig fór fyrir ungum manni sem kaus að lifa eins og heimurinn?
16 Þá eru einnig íhugunarverð dæmi úr nútímanum. Ungur maður í Bandaríkjunum var byrjaður að nema Biblíuna og sækja samkomur í Ríkissalnum. En þá fór hann að fikta við veraldlega lífshætti og hætti félagsskap við söfnuðinn. Nokkur ár liðu og þá skrifaði hann: „Fyrir um það bil tveim mánuðum bað ég Guð að senda vott til mín því að mig langaði til að byrja upp á nýtt. Ég byrjaði að nema en fyrir einum mánuði sprakk sprengjan. Ég greindist vera með Kaposis-sarkmein sem er eitt af einkennum hins ólæknandi sjúkdóms eyðni.“ Hann hélt áfram: „Ef ég hefði bara fylgt og hlýtt aðvörunum Biblíunnar þá væri ég ekki í þessari aðstöðu núna.“ Víst er að þú vilt forðast slíkar afleiðingar. Heimurinn hefur í rauninni ekkert verðmætt að bjóða. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
17. Hvað annað ætti að hjálpa unglingum að forðast það að lifa tvöföldu lífi?
17 Annað getur einnig hjálpað þér að forðast það að lifa tvöföldu lífi, það er að segja að íhuga hvað það sem þú ert að gera mun hafa í för með sér fyrir nafn Jehóva. Unglingurinn, sem nefndur var í byrjun greinarinnar, sagði að einhver hafi sagt við hann er hann þáði vindling: „Ég hélt að vottar Jehóva reyktu ekki. Ert þú ekki vottur?“ Hann sagði síðar að sér hefði liðið hræðilega þegar hann var spurður um þetta, vegna þess að hann var að setja blett á nafn Jehóva. Langar þig til að gera það? Er Guð þér svo lítils virði að þú sért fús til að setja smánarblett á nafn hans líkt og hin ótrúa Ísraelsþjóð til forna? — Sálmur 78:36, 37, 41; Esekíel 36:22.
18. (a) Hver yrðu trúlega viðbrögð foreldranna ef þeir uppgötvuðu að börnin þeirra lifðu tvöföldu lífi? (b) Hvers vegna ætti það að forða kristnum unglingum frá því að lifa tvöföldu lífi?
18 Hugsaðu einnig um mannorð og tilfinningar foreldra þinna. „Það kom að því að foreldrar mínir uppgötvuðu hvernig ég var í raun og veru,“ skrifaði unglingurinn sem áður er getið. „Það var mikið áfall fyrir þau. Það var í fyrsta sinn á ævinni sem ég sá foreldra mína gráta. Það sem ég hafði gert særði þau svo mjög.“ Foreldrar þínir myndu sennilega líka gráta ef þeir fréttu að þú lifðir tvöföldu lífi. Langar þig til þess? „Gott mannorð er dýmætara en mikill auður,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 22:1) Með því að lifa tvöföldu lífi eyðileggur þú mannorð þitt. En það er ekki allt og sumt. Þú setur líka blett á mannorð foreldra þinna, auðmýkir þá og kemur þeim í erfiðleika. — Orðskviðirnir 10:1; 17:21.
19. Hvaða áhrif hafði röng breytni sona Jakobs á hann og hvaða lærdóm má draga af því?
19 Synir Jakobs eru dæmi um hvernig börn geta spillt góðu mannorði foreldra sinna. Þegar Dínu, dóttur Jakobs, var nauðgað drápu bræður hennar karlmennina í borginni og rændu hana síðan. Það varð til þess að Jakob sagði harmandi: „Þið hafið stofnað mér í ógæfu með því að gjöra mig illa þokkaðan af landsmönnum.“ Guð sá jafnvel til þess að Jakob yfirgæfi svæðið. (1. Mósebók 34:30; 35:1) Með hegðun þinni getur þú einnig gert foreldra þína illa þokkaða, látið þá skammast sín fyrir að standa augliti til auglitis við nágranna sína og vini. Biblían er sannmál þegar hún segir: „Heimskur sonur er föður sínum til sorgar og þeirri til angurs, er ól hann.“ — Orðskviðirnir 17:25.
20. Hvaða stórfenglega gjöf hafa kristnir foreldrar gefið börnum sínum?
20 Við treystum því þó að þú viljir ekki valda foreldrum þínum gremju og sorg. Því skalt þú íhuga hvaða áhrif hegðun þín hefur á þá. Og ef þú ert svo heppinn að eiga kristna foreldra skaltu íhuga hvað þau hafa gefið þér — ekki aðeins lífið — heldur annað sem er miklu dýrmætara. Biblían segir um Jehóva: „Miskunn þín er mætari en lífið.“ (Sálmur 63:4) Með því að ala þig upp í sannleikanum hafa foreldrar þínir veitt þér aðgang að miskunn Guðs og hjálpað þér að eiga samband við hann. Það er verðmætara en lífið sjálft, því að Guð mun vekja þig upp til eilífs lífs í paradís ef þú skyldir deyja.
Hjálpaðu öðrum unglingum
21. (a) Hver er ábyrgð unglinga sem vita af rangri breytni annarra? (b) Hvaða gott fordæmi gaf 13 ára stúlka?
21 Hvað ber þér að gera ef þú veist að einhver annar lifir tvöföldu lífi? Í fyrsta lagi skaltu hvetja hann til að snúa sér til öldunganna. Ef hann neitar að gera það er það biblíuleg skylda þín að skýra frá því. (3. Mósebók 5:1) Við gerum okkur ljóst að það getur verið erfitt, en það er hið rétta. „Vel meint eru vinar sárin,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 27:6) Eftir að hafa hlýtt á ræðu um þessa biblíulegu ábyrgð fór 13 ára stúlka til vinstúlku sinnar sem hún vissi að var sek um ranga breytni. Hún sagði henni að hún ætti að játa það fyrir öldungunum. „Síðar athugaði ég hvort hún hafði talað við einhvern öldung,“ skrifar stúlkan. „Hún hafði ekki gert það. Þess vegna fór ég sjálf og talaði við einn þeirra.“ Stúlkan spyr: „Gerði ég hið rétta með því að koma upp um bestu vinkonu mína?“ Að sjálfsögðu gerði hún það! Þótt afleiðingarnar af því kunni fyrst í stað að vera óþægilegar getur árangurinn síðan meir orðið gleðilegur og jafnvel bjargað lífi hins synduga. — Hebreabréfið 12:11.
22. Hvaða viturlega stefnu eru unglingar hvattir til að taka og hver mun afleiðingin verða?
22 Auðvitað er hægt að umflýja allt þetta ef þú gætir þess að lifa ekki tvöföldu lífi. Vertu því vitur. Þroskaðu sterkt einkasamband við Guð eins og þú myndir þroska samband við náinn vin. Gerðu það með því að biðja reglulega til hans, biðja um hjálp hans og með því að nema orð hans, Biblíuna, kostgæfilega, þannig að þú getir í sannleika metið eiginleika hans að verðleikum. Þá munuð þið, unglingar, njóta blessunar og gleðja hjörtu foreldra ykkar. Enn meira máli skiptir þó að þið munuð gleðja hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna lifa sumir unglingar tvöföldu lífi?
◻ Hvernig stuðla foreldrar stundum að því að börnin lifi tvöföldu lífi?
◻ Hverju jafngildir það í raun að lifa tvöföldu lífi?
◻ Hvernig geta unglingar forðast það að lifa tvöföldu lífi?
◻ Hver er ábyrgð unglinga ef þeir vita að önnur ungmenni hafa gerst sek um alvarlega synd?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Trúnaðarsamtöl við börnin sýna kærleika foreldranna.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Ef þér er kunnugt um að einhver annar hefur gerst sekur um alvarlegt brot skalt þú hvetja hann til að skýra öldungunum frá.