Spurningar frá lesendum
◼ Er það viðeigandi fyrir kristinn mann að kaupa happdrættismiða sér til skemmtunar ef ágóðinn rennur til líknar- eða menningarmála?
Biblían er á engan hátt mótfallin viðeigandi afþreyingu því Jehóva er „hinn sæli Guð.“ (1. Tímóteusarbréf 1:11, ísl. bi. 1912) Þjónar hans geta notið tónlistar, sómasamlegra dansa, matar eða drykkjar í hófi, og íþrótta og leikja innan skynsamlegra marka. (Sálmur 150:4; Prédikarinn 2:24) En fjárhættuspil, sem happdrætti flokkast vissulega undir, brýtur bersýnilega í bága við hinar vitru ráðleggingar Guðs.
Happdrætti felst í því að selja tölusetta miða og draga síðan um vinningshafa eða velja tölu með einhverjum hætti af handahófi.a Oft er einn risastór vinningur allt upp í tugi milljóna króna. Svona háar fjárhæðir hafa slíkt aðdráttarafl að happdrættin eru orðin „algengasta tegund fjárhættuspila.“ (The World Book Encyclopedia) Hundruð milljónir manna spila fjárhættuspil með þessum hætti.
Sumir halda því fram að það sé ekkert rangt eða skaðlegt að spila í happdrætti vegna þess að miðinn sé yfirleitt ódýr, enginn sé þvingaður til þátttöku og hluti ágóðans renni til líknar- og menningarmála. En halda slík rök?
Enda þótt sumir haldi því fram að það sé ósköp saklaus og ódýr dægrastytting að kaupa happdrættismiða blundar fégirndin alltaf undir niðri. Fólk kaupir happdrættismiða í von um að vinna háar fjárhæðir. Það gengur þvert á ráðleggingar Guðs um að varast ágirnd sem getur verið svo alvarlegur löstur að hún hindri menn í að ‚erfa Guðsríki.‘ Því gæti þurft að víkja kristnum manni úr söfnuðinum, sýni hann þráláta fégirnd með því að stunda fjárhættuspil. (1. Korintubréf 5:11; 6:10) Biblían segir: „Arfur, sem í upphafi var skjótfenginn, blessast eigi að lokum.“ (Orðskviðirnir 20:21) Ef kristinn maður finnur hjá sér einhverja löngun til að ‚freista gæfunnar‘ í happdrætti ætti hann að hugsa alvarlega um þá fégirnd sem happdrættið byggir á. Efesusbréfið 5:3 segir að ‚ágirnd eigi ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal okkar,‘ og þaðan af síður ætti kristinn maður að láta undan henni.
Þeir sem spila í happdrætti eru að stærstum hluta fátækt fólk, þegar litið er til alls heimsins. Jafnvel þótt miðinn sé ódýr er eytt í hann fé sem nota ætti til brýnustu þarfa fjölskyldunnar — matarkaupa, nægilegs fatnaðar og betri heilsugæslu. Sá sem segist vera kristinn en sér ekki fjölskyldunni fyrir slíkum nauðsynjum „er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
Þótt einstaklingur eða fjölskylda gangi ekki nærri sér með því að kaupa happdrættismiða er ekki þar með sagt að það geri öðrum ekkert mein. Hvers vegna? Vegna þess að næstum alla, sem kaupa happdrættismiða, langar til að vinna. Hvaðan kemur vinningsféð? Ef miðinn kostar 100 krónur og vinningurinn er 10.000.000 króna þýðir það að vinningshafinn fær það fé sem 100.000 manns greiddu fyrir sína miða. Samræmist þetta boði Guðs um að girnast ekki eigur annarra? (5. Mósebók 5:21) Í raun er vinningsféð tekið frá miklu fleira fólki, því að miklu fleiri en 100.000 miðar þurfa að seljast. Talsverður hluti fjárins fer í rekstrarkostnað og hluti til þeirrar líknar- eða menningarmála sem básúnað er að sé aðaltilgangurinn með happdrættinu. Jafnvel þótt einhver hafi efni á að eyða 100 krónum í happdrættismiða má spyrja hvort allir hinir hafi það. Og þegar einhver hlýtur vinning er það sennilega tilkynnt í fjölmiðlum sem síðan hvetur enn fleiri til að spila í happdrættinu eða kaupa fleiri miða þótt þeir hafi ekki efni á því.
Enginn getur horft fram hjá því að happdrætti höfðar til draumsins um að eignast fé án þess að vinna fyrir því. Já, happdrætti hvetur til leti eða skírskotar til hennar. Biblían brýnir aftur á móti fyrir þjónum Guðs að vera sparsamir, iðjusamir og duglegir. Í stað þess að stuðla að því hugarfari að vilja fá allt fyrir ekkert segir hún: „Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:10; Orðskviðirnir 13:4; 20:4; 21:25; 1. Þessaloníkubréf 4:9-12.
Enda þótt aðrir spili í happdrætti að vild sinni og það sé löglegt réttlætir það ekki þátttöku kristinna manna. Sumar ríkisstjórnir leyfa aðrar tegundir fjárhættuspila og jafnvel vændi og fjölkvæni. Þó að slíkt sé löglegt og margir notfæri sér það þýðir það ekki að það sé viðeigandi í augum Guðs. Kristnir menn reyna þess í stað að endurspegla viðhorf Davíðs: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns.“ — Sálmur 25:4, 5.
Ef kristinn mann langar í einlægni til að hjálpa fátækum, fötluðum eða öldruðum getur hann að sjálfsögðu gert það annaðhvort beint eða á annan hátt án þátttöku í fjárhættuspili.
[Neðanmáls]
a Þótt fjárhættuspil af þessu tagi sé oftast nefnt happdrætti eru lottó, getraunir, skafmiðar, hlutaveltur og annað slíkt mjög keimlíkt.