‚Sælir eru þeir sem þolgóðir hafa verið‘
1. Hvaða ástand á jörðinni hefur frá 1914 uppfyllt Matteus 24:3-8 og hvaða fullyrðingar viðvíkjandi Þjóðabandalaginu og Sameinuðu þjóðunum hafa reynst haldlitlar?
Í BÓK eftir Robert Nisbet, sem nefnist The Present Age, er talað um „75 ára stríðið sem staðið hefur nánast óslitið frá 1914.“ Það var það sem Jesús Kristur sagði fyrir varðandi tíma endalokanna, „hernað og ófriðartíðindi,“ meðal annars heimsstyrjaldir. (Matteus 24:3-8) Þjóðabandalagið var sett á laggirnar árið 1920 „til að koma í veg fyrir styrjaldir að eilífu.“ Það brást hrapallega þeim vonum sem við það voru bundnar! Sameinuðu þjóðirnar voru settar á stofn árið 1945 „til að bjarga komandi kynslóðum frá bölvun styrjalda.“ Í bók Max Harrelsons, Fires All Around the Horizon, segir: „Sá dagur hefur tæplega liðið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að ekki hafi verið barist einhvers staðar.“
2. Hvers spyrja sumir í sambandi við ástandið í heiminum en hvaða spurninga ættum við að spyrja?
2 Hryðjuverk og ofbeldi, spilling og fátækt, fíkniefni og drepsóttir — allt þetta gerir ófagra mynd enn dapurlegri. Sumir spyrja kannski: ‚Hvernig getur mannkynið haldið áfram að þola slíkt ástand?‘ Við ættum þó frekar að spyrja: ‚Hvernig þolir Guð mönnum það að spilla svona jarðnesku sköpunarverki hans? Hve miklu lengur mun hann leyfa óguðlegum mönnum að eyða jörðina og hrúga háðung á hans heilaga nafn?‘
3. (a) Hvers spurði spámaðurinn Jesaja og hvers vegna? (b) Hverju svaraði Jehóva honum og hvað gefur það til kynna fyrir okkar tíma?
3 Spámaðurinn Jesaja varpaði fram svipaðri spurningu. Honum var falið að boða samlöndum sínum boðskap frá Jehóva. Hann var varaður við því fyrirfram að þeir myndu hvorki gefa honum né þeim Guði, sem sendi hann, gaum. Jesaja spurði því: „Hversu lengi, [Jehóva]?“ Já, hversu lengi myndi Jesaja þurfa að prédika fyrir þessu þverúðuga fólki, og hversu lengi myndi Jehóva umbera þá óvirðingu sem fólst í því að boðskap hans skyldi enginn gaumur gefinn? Jehóva svaraði: „Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt.“ (Jesaja 6:8-11) Eins er það núna að Guð umber slíka óvirðingu uns upp rennur tiltekinn tími hans til að fullnægja dómi á heimi þar sem hinn ótrúi kristni heimur er fremstur meðal lögbrjóta.
4. Hvernig lyktaði þolgæði Jobs og hvaða trygging er fólgin í því fyrir okkur?
4 Jehóva hefur lengi þolað háðsglósur Satans. Fyrir um það bil 3600 árum sýndi hinn trúfasti Job einnig þolgæði og hrakti þá ögrandi ásökun Satans að hann gæti ekki varðveitt ráðvendni ef á hann reyndi. Sannarlega gladdi það hjarta Jehóva! (Jobsbók 2:6-10; 27:5; Orðskviðirnir 25:11) Eins og hálfbróðir Jesú, Jakob, sagði síðar: „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ Þeir sem sýna þolgæði með Jehóva nú á dögum mega einnig treysta á hamingjurík málalok. — Jakobsbréfið 5:11.
5. Hvernig sýndi Jesús fram á að þolgæðis yrði krafist af þjónum Guðs nú á dögum og í hvaða starfi yrðu þeir að sýna þrautseigju?
5 Jesús tók greinilega fram að þolgæðis yrði krafist af þjónum Guðs á okkar tímum. Er hann sagði fyrir táknið um ‚endalok heimskerfisins‘ bætti hann við: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ Í hverju ætti hann að vera staðfastur? Jesús sagði það strax í næstu setningu: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:3, 13, 14) Þá fyrst „mun endirinn koma.“ — Sjá einnig Markús 13:10, 13; Lúkas 21:17-19.
Hvers vegna Jehóva sýnir langlyndi
6. Hvers vegna er Jehóva afbragðsfordæmi um langlyndi og hvaða ástæðu hefur hann meðal annars haft til þess?
6 Páll postuli lét þess getið að ‚Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefði með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar.‘ (Rómverjabréfið 9:22) Hvers vegna hefur Jehóva umborið tilvist hinna óguðlegu, þessara kerja reiðinnar, svona lengi? Ein ástæðan er sú að hann vildi sýna fram á að stjórn manna, óháð skapara hans, væri dæmd til að mistakast. (Jeremía 10:23) Innan skamms verður drottinvald Guðs upphafið er hann sannar að hann einn getur komið á friði, eindrægni og hamingju meðal manna fyrir milligöngu ríkisins í höndum Jesú. — Sálmur 37:9-11; 45:2, 7, 8.
7. Af hvaða annarri ástæðu hefur Jehóva sýnt þolinmæði og hvernig hefur það verið milljónum manna til gagns frá og með fjórða áratug aldarinnar?
7 Jehóva hefur líka sýnt langlyndi „til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar.“ (Rómverjabréfið 9:23) Þessi ker miskunnarinnar eru ráðvandir, smurðir kristnir menn sem eru „leystir út úr hóp mannanna“ til að ríkja með Kristi Jesú í ríkinu á himnum. Unnið hefur verið að því að innsigla hinar 144.000 allt frá dögum postulanna. Nú er því brátt lokið. (Opinberunarbókin 7:3; 14:1, 4) Og sjá! Allt frá fjórða áratug þessarar aldar hefur þolinmæði Jehóva orðið til þess að safnað hefur verið saman milljónum annarra, ‚miklum múgi af öllum þjóðum,‘ sem fagna þeim framtíðarhorfum að mega lifa af lokaþrengingu veraldar og hljóta að erfð eilíft líf á jörð sem verður paradís. (Opinberunarbókin 7:4, 9, 10, 13-17) Ert þú hluti af þessum mikla múgi? Ertu þá ekki glaður yfir því að Jehóva skuli hafa umborið ker reiðinnar fram til þessa? Þú verður eigi að síður að halda áfram að sýna úthald líkt og Jehóva.
Þolgæðið umbunað
8. Hvers vegna þurfum við öll að sýna þolgæði og hvaða fordæmi um þolgæði ættum við að virða vandlega fyrir okkur?
8 Öll þörfnumst við þolgæðis ef við eigum að öðlast fyrirheitin. Eftir að hafa lýst þeim frumsannindum í Hebreabréfinu 10:36 lýsir Páll postuli í smáatriðum hinni frábæru trú og þolgæði mikils „fjölda votta“ forðum daga. Síðan áminnir hann okkur um að ‚þreyta þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan og beina sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans,‘ þjónaði Jesús þolgóður af heilu hjarta og missti aldrei sjónar á laununum. Fordæmi hans styrkir okkur mjög í að sýna úthald! — Hebreabréfið 12:1, 2.
9. Hvaða afleiðingar hefur þolgæði nútímamanna haft?
9 Fjöldamörg dæmi eru einnig úr nútímanum um þolgæði. Vera má að þú þekkir eða hafir þekkt bræður eða systur sem hafa skarað fram úr í þolgæði sínu. Sannarlega var trúfesti þeirra hvetjandi fyrir okkur. Og ár hvert senda vottar Jehóva Biblíufélaginu Varðturninum skýrslur um starf sitt um allan heim sem bera ríkulega vott um þolgæði þeirra og ráðvendni. Starfsskýrslan í heild sinni er birt í flestum erlendum útgáfum þessa tímarits, svo og í Árbók votta Jehóva 1990. Þar er dregið saman í hnotskurn hið mikla starf sem unnið var á árinu 1989 og er fagur vitnisburður þess hvernig vottarnir hafa sýnt dyggð og þolgæði í trú sinni. — 2. Pétursbréf 1:5, 6.
Stórkostlegasta starfsár okkar
10. (a) Hve mörg lönd og eyjaþyrpingar tóku þátt í prédikun fagnaðarerindisins árið 1989 og hversu margir tóku þátt í starfinu? (b) Hve margir brautryðjendur skýrðu frá starfi þegar flest var og hve mörgum stundum var varið til þjónustunnar á akrinum í heild?
10 Eins og skýrslan ber með sér var hið komandi ríki Jehóva prédikað í 212 löndum og eyjaþyrpingum. Kæri lesandi Varðturnsins, naust þú þeirra sérréttinda að vera einn þeirra 3.787.188 sem tóku þátt í þessu stórkostlega starfi? Varst þú einn af þeim 808.184 sem tóku þátt í brautryðjandastarfi þann mánuð er talan var hæst? Hvert svo sem framlag þitt hefur verið til þeirra 835.426.538 klukkustunda, sem varið var samanlagt til þjónustunnar á akrinum árið 1989, hefur þú ástæðu til að fagna. — Sálmur 104:33, 34; Filippíbréfið 4:4.
11. (a) Hvers vegna er aðsóknin að minningarhátíðinni þann 22. mars síðastliðinn fagnaðarefni og hvers vegna? (b) Hversu margir nýir vottar létu skírast síðastliðið þjónustuár?
11 Þú getur líka glaðst yfir að alls skyldu 9.479.064 vera viðstaddir um allan heim þann 22. mars síðastliðinn til að minnast dauða Jesú! Sú tala gefur til kynna að möguleiki sé á 5.691.876 nýjum boðberum Guðsríkis, ef hægt er að beina þessum áhugasömu, sauðumlíku einstaklingum inn í sauðabyrgið til að eiga reglulegan þátt í að þjóna Jehóva. Getum við hjálpað þeim? (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9, 15) Margir sýna nú þegar jákvæð viðbrögð eins og sjá má af því að alls 263.855 nýir vottar létu skírast þjónustuárið 1989.
12. Nefndu nokkur atriði sem taflan gefur ekki upplýsingar um (a) varðandi prentsmiðjur Varðturnsfélagsins (b) varðandi dreifingu tímarita og öflun áskrifta.
12 Sumt verður ekki lesið af skýrslunni. Eftirspurnin eftir ritum — biblíum, bókum, bæklingum, tímaritum — var óstöðvandi. Prentsmiðjur Varðturnsins í New York notuðu því 23.581 tonn af pappír til að prenta 35.811.000 biblíur, bækur og bæklinga sem er 101% aukning miðað við árið 1988. Í öðrum stórum prentsmiðjum Varðturnsins, einkanlega í Þýskalandi, Ítalíu og Japan, var unnið á vöktum til að styðja ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ í því að gefa andlegan „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Fjölmörg lönd dreifðu óvenjumiklu af tímaritum og öfluðu óvenjumargra áskrifta í apríl og maí, þegar sérstök áhersla var lögð á þau tölublöð Varðturnsins sem fjölluðu um ‚Babýlon hina miklu.‘ (Opinberunarbókin 17:5) Vafalaust munu aðstoðarbrautryðjendur og aðrir vottar streyma út á akurinn um allan heim í apríl næstkomandi. Það verður áreiðanlega besta vitnisburðarherferð okkar í ár. — Samanber Jesaja 40:31; Rómverjabréfið 12:11, 12.
13. Hvaða lönd eru talin upp í töflunni sem ekki voru tilgreind á síðasta ári? Gerðu grein fyrir ástæðunni.
13 Ef þú skoðar skýrsluna munt þú koma auga á lönd sem ekki voru nefnd með nafni síðasta ár. Þar má núna finna Ungverjaland og Pólland þar sem starf okkar hefur nýverið hlotið lagalega viðurkenningu. Við erum þakklát yfirvöldum þessara landa fyrir að sýna vottum Jehóva slíka tillitssemi. Þannig hefur bænum bræðrafélagsins um víða veröld verið svarað „til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.
14. Nefndu nokkur merkisatriði varðandi umdæmismótin „Guðrækni“ í Póllandi.
14 „Guðrækni“! Já, jafnvel í Póllandi var hægt að halda umdæmismótin „Guðrækni“ á þrem stöðum í ágústmánuði! Hinir 91.024 bræður okkar í Póllandi reyndust vera stórkostlegir gestgjafar. (Hebreabréfið 13:1, 2, 16) Eins og fyrir kraftaverk tókst tugþúsundum bræðra — Tékka, Þjóðverja, Rússa og fleiri — að fá vegabréfsáritun og þeir komu með langferðabílum, járnbrautarlestum eða jafnvel fótgangandi. Þúsundir manna komu flugleiðis frá Norður- og Suður-Ameríku, Vestur-Evrópu og jafnvel alla leið frá Kyrrahafseyjum og Japan. Hinir gríðarstóru leikvangar, sem bræður okkar höfðu gert tandurhreina, voru varla nógu stórir til að taka við 65.710 í Katowice, 40.442 í Poznan og 60.366 í Varsjá — samanlagt 166.518! Á öllum þrem stöðunum var skírnin sjón sem kallaði gleðitár fram í augu margra. Í Poznan voru níu ára boðberi og níræður boðberi skírðir, og alls létu skírast 6.093 á mótunum þrem, þeirra á meðal fjölmargir unglingar, margir hverjir frá löndum þar sem sagt hafði verið að trúarbrögðin myndu deyja út með gamla fólkinu. En þannig fer ekki fyrir hinni sönnu trú sem byggist á orði Guðs! (Samanber Sálm 148:12, 13; Postulasöguna 2:41; 4:4.) Þolgæði bræðra okkar í Austur-Evrópu hefur hlotið ríkulega umbun!
Trúfesti sýnd þrátt fyrir prófraunir
15. Hvernig hafa vottarnir í Líbanon sýnt þolgæði og staðfestu og með hvaða góðum árangri?
15 Líkt og Páll postuli þurfa vottar Jehóva að sýna þolgæði við fjölmargar og fjölbreytilegar aðstæður. (2. Korintubréf 11:24-27) Í Líbanon er borgarastyrjöld í algleymingi. Hvernig bregðast bræður okkar við ástandinu? Með staðfestu og einurð. Árið 1989 var mikið um skot- og sprengjuárásir, en jafnvel á þeim slóðum þar sem þær voru harðastar voru bræðurnir staðráðnir í að hægja ekki á ferðinni. Söfnuður í Beirút skýrir svo frá: „Komið var reglulega saman til þjónustu á akrinum öll kvöld vikunnar. Þrátt fyrir hættulegt ástand misstu bræðurnir ekki kjarkinn. Við komumst yfir fleiri starfssvæði en nokkru sinni fyrr. Í apríl náðum við nýju brautryðjendahámarki. Ný biblíunám voru stofnuð og fleiri tímaritum og bókum var dreift en fyrr.“
16. Hvernig hafa bræður okkar í Kólombíu sýnt þolgæði með því að bera fagnaðarerindið til borga þar sem engir vottar voru?
16 Kólombía hefur verið mjög í fréttunum vegna fíkniefnasölu og ofbeldis. En trúfesti og þolgæði kristinna manna þar er einnig fréttaefni. Nýlega voru sérbrautryðjendur, skipaðir til skamms tíma, sendir til 31 borgar með 10.000 íbúa eða fleiri þar sem engir vottar bjuggu. Þegar fólk, sem nýlega hafði sýnt áhuga í einni borginni, komst að raun um að brautryðjendurnir yrðu þar í aðeins fáeina mánuði sárbændu þeir þá um að dvelja þar áfram. Í annarri borg skrifuðu 18 áhugasamir einstaklingar undir þakkarbréf fyrir þá andlegu hjálp sem þriggja mánaða dvöl brautryðjendanna hafði veitt þeim og föluðust eftir frekari hjálp. „Þetta er alvarlegt málefni,“ sögðu þeir. Vart þarf að taka það fram að í báðum tilvikum voru gerðar ráðstafanir til að halda áfram að rækta áhugann. Það kostar þolgæði að starfa á afskekktum slóðum en brautryðjendurnir, sem gera það, hljóta ríkulega umbun erfiðis síns.
17, 18. (a) Undir hvaða kringumstæðum hafa vottar Jehóva sýnt þolgæði á Ítalíu? (b) Hvernig hefur vottunum vegnað þrátt fyrir lygar sem hafa verið útbreiddar um þá?
17 Á Ítalíu mæta vottar Jehóva megnri andstöðu klerka, en í krafti Jehóva hafa þeir staðið hana af sér. Í ýmsum kirkjusóknum létu prestar dreifa límmiðum með áletrun þess efnis að vottar Jehóva skyldu ekki hringja dyrabjöllunni. Sóknarbörnunum var ætlað að líma þá á útihurðirnar hjá sér. Margir prestar fengu unga pilta til að líma þessa límmiða á allar hurðir á vissu svæði — jafnvel þar sem vottar bjuggu! En vottarnir láta ekki auðveldlega hræða úr sér kjarkinn og oft nota þeir límmiðana til að hefja samræður. Einnig var fjallað ítarlega um málið í dagblöðum og sjónvarpi allra landsmanna og fordæmt það umburðarleysi í trúmálum sem þessi aðför lýsti. Lögð var á það áhersla að slíkar aðferðir væru í raun merki um veikleika kirkjunnar. Háskólaprófessor ofbauð svo hinn umdeildi límmiði að hann gerðist áskrifandi að tímaritunum Varðturninn og Vaknið!
18 Kaþólska kirkjan á Ítalíu notar jafnvel fráhvarfsmenn til að bera út lygar um þjóna Jehóva, en það kemur ekki heldur að neinu haldi því að hinir 172.382 boðberar eru velþekktir og virtir. Maður sagði votti, sem kom í heimsókn til hans, að hann hefði lesið margt ófagurt um okkur í ritum fyrrverandi votta. Hann reis því öndverður gegn bróður sínum er hann gerðist einn af vottum Jehóva. Að nokkrum tíma liðnum tók hann að veita athygli þeim góðu áhrifum sem trúskipti bróður hans höfðu haft á hann. Hann fór að velta fyrir sér hvernig nokkuð, sem átti að vera svona slæmt, gæti skilað svona góðum árangri. Hann bað því vottinn, sem heimsótti hann, um biblíunám. — Samanber Kólossubréfið 3:8-10.
Þar sem áhugi er lítill
19, 20, (a) Hvaða ástand hefur kallað á þolgæði af hálfu vottanna í Finnlandi og hvað er eftirtektarvert varðandi könnun sem kirkjufélög stóðu fyrir? (b) Hvaða frásaga sýnir hve mikilvægt er að sýna þolgæði í prédikun fagnaðarerindisins?
19 Í löndum, þar sem heimsóknir votta Jehóva eru tíðar, ríkir oft almennt áhugaleysi gagnvart fagnaðarerindinu. Þannig er það til dæmis í Finnlandi. Kirkjufélögin þar í landi gengust fyrir skoðanakönnun þar sem í ljós kom að 70 af hundraði aðspurðra var ekkert gefið um heimsóknir votta Jehóva. Þrjátíu af hundraði voru hins vegar ekkert sérlega mótfallnir þeim og þar af sögðu 4 af hundraði að þeim beinlínis geðjaðist vel að vottum Jehóva. Það er ekki svo lítil tala. Fjögur prósent af íbúum Finnlands svara til 200.000 manna. Til samanburðar má nefna að tala boðbera þar í landi er nú 17.303!
20 Boðberi var úti í starfinu þegar húsráðandi vakti athygli hans á þessari könnun og spurði: „Veistu ekki að 70 af hundraði okkar telja heimsóknir ykkar óæskilegar? Hvers vegna haldið þið áfram að koma aftur og aftur?“ Boðberinn svaraði: „Jú, en sama könnun leiddi í ljós að 4 af hundraði ykkar er hlýtt til okkar. Við erum að leita að þessu fólki. Jafnvel þótt það næmi aðeins einum af hundraði myndum við samt sem áður ganga hús úr húsi til að reyna að finna það.“ Húsráðandinn hugsaði sig um andartak og spurði svo: „Er boðskapur ykkar svona þýðingarmikill fyrir þá?“ Boðberinn svaraði: „Langar þig til að heyra hann?“ Innan skamms tók þessi húsráðandi að sýna fagnaðarerindinu áhuga.
Það sem framtíðin ber í skauti sér
21. (a) Hvers konar baráttu verðum við að heyja í þessu heimskerfi og hvers vegna? (b) Hvað getum við þurft að þola og um hvað fullvissar spádómur Habakkuks okkur?
21 Hvernig erum við hugsandi? Erum við staðráðin í að sýna þolgæði ásamt Jehóva og Kristi Jesú allt til enda? Það er kannski ekki svo langur tími en við verðum að sýna þolgæði! Í kerfi Satans verðum við að heyja harða baráttu vegna trúarinnar því að siðleysi heimsins, spilling og hatur umkringir okkur á alla vegu. (Júdasarbréfið 3, 20, 21) Vera kann að við þurfum að þola ofsóknir í einni mynd eða annarri. Á þessari stundu þjást þúsundir bræðra okkar í fangelsum og sumir sæta grimmilegri barsmíð. Þeir eru þakklátir fyrir bænir okkar í þeirra þágu. (2. Þessaloníkubréf 3:1, 2) Innan mjög skamms tíma verður núverandi heimskerfi horfið af sjónarsviðinu! Eins og Habakkuk segir: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ — Habakkuk 2:3.
22. Hvaða málalokum megum við treysta ef við sýnum þolinmæði líkt og spámennirnir og þolgæði líkt og Job?
22 Lærisveinninn Jakob hvetur okkur hlýlega: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni [Jehóva] og liðið illt með þolinmæði.“ Við sem tölum í nafni Jehóva getum varðveitt ráðvendni gegnum erfiðustu þrengingar líkt og Jesaja, Jeremía, Daníel og fleiri gerðu. Við getum sýnt þolgæði á sama hátt og Job. Honum var sannarlega umbunað þolgæði sitt! Miskunn Jehóva og elskurík góðvild mun færa okkur sambærilega umbun — ef við höldum út allt til enda. Og megi orð Jakobs rætast á einu og sérhverju okkar: „Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ — Jakobsbréfið 5:10, 11; Jobsbók 42:10-13.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig lagði Jesús áherslu á þörfina á þolgæði?
◻ Af hvaða ástæðum hefur Jehóva sýnt þolgæði?
◻ Nefndu nokkur meginatriði úr því starfi sem unnið var árið 1989.
◻ Hvernig hefur bræðrunum í Póllandi verið umbunað þolgæði sitt?
◻ Hvernig hafa vottarnir í Líbanon, Kólombíu og á Ítalíu sýnt trúfesti í prófraunum?