Hafa þeir sannað Biblíuna fara með rangt mál?
HAFA náttúruvísindamenn og biblíugagnrýnendur í raun sýnt fram á villur, skáldskap og goðsagnir í Biblíunni? Áður en við tökum slíkar niðurstöður góðar og gildar ættum við að minnast þess að lærðir menn hafa ekki alltaf rétt fyrir sér þótt þeir lýsi skoðunum sínum af miklu sjálfsöryggi og myndugleik. Oft hvílar þær á veikum grunni.
Vafasamar forsendur
Sem dæmi um mynduglega yfirlýsingu biblíugagnrýnanda skulum við líta á orð S. R. Drivers um Daníelsbók. Samkvæmt hefð, og bókinni sjálfri, skrifaði Daníel spámaður hana í Babýlon á sjöttu öld f.o.t. (Daníel 12:8, 9) S. R. Driver fullyrðir að bókin hafi verið skrifuð löngu síðar. Með hvaða rökum? Ein „sönnun“ hans er sú að það sé að finna grísk orð í bókinni. Driver staðhæfir: „Fullyrða má að þessi orð væru ekki í Daníelsbók nema hún hafi verið skrifuð eftir að grísk menning var tekin að breiðast út um Asíu með landvinningum Alexanders mikla.“ Landvinningar Alexanders áttu sér stað um árið 330 f.o.t.
Driver virðist mjög viss í sinni sök. Þó nefnir hann aðeins þrjú grísk orð máli sínu til stuðnings, og öll eru þau heiti á hljóðfærum. (Daníel 3:5) Með því að Grikkir höfðu náin tengsl við vesturhluta Asíu allt frá því að sögur hófust má spyrja hvernig hægt sé með gildum rökum að staðhæfa að hljóðfæri með grískum nöfnum hafi ekki verið notuð í Babýlon á sjöttu öld f.o.t. Það eru harla veigalítil rök fyrir því að véfengja að uppruni og aldur Daníelsbókar sé sá sem Biblían segir!
Sem annað dæmi má nefna þá meðferð sem fyrstu fimm bækur Biblíunnar fá. Samkvæmt hefð var það Móse sem skrifaði þær að stærstum hluta um árið 1500 f.o.t. Gagnrýnendur telja sig hins vegar sjá ólíkan ritstíl í þessum bókum. Þeir benda enn fremur á að stundum sé talað um Guð með nafni, Jehóva, en stundum með hebreska orðinu fyrir „Guð.“ Af því draga þeir þá ályktun að þessar bækur séu sambland rita frá ýmsum tímum sem dregin hafi verið saman í sína endalegu mynd einhvern tíma eftir árið 537 f.o.t.
Þessi kenning á miklu fylgi að fagna þótt enginn hafi getað fært nein rök fyrir því að Móse hafi ekki átt að geta kallað skaparann bæði Guð og Jehóva. Enginn hefur sýnt fram á að hann hafi ekki getað beitt mismunandi ritstíl er hann fjallaði um mismunandi efni á mismunandi tímabilum ævi sinnar, eða er hann sótti efnivið í eldri heimildir. John Romer bætir við í bók sinni Testament — The Bible and History: „Það mælir ákaflega sterkt gegn þessari greiningaraðferð í heild sinni að enn þann dag í dag hafa ekki fundist agnarminnstu handritaslitur úr fortíðinni sem sanna að hinir ólíku textar, sem fræðimenn nútímans hafa svo mikið dálæti á, hafi verið til.“
Fræðiritið Cyclopedia eftir McClintock og Strong nefnir eina meginforsendu sem margir biblíugagnrýnendur gefa sér og ganga út frá: „Fræðimenn . . . gefa sér þá forsendu að þeir sögulegu atburðir, sem liggja að baki frásögninni, eigi sér eingöngu náttúrlega skýringu líkt og allt annað sem við lítum á sem staðreyndir. . . . Ef ritari talar um sem staðreynd atburð er liggur utan ramma þekktra náttúrulögmála, þá . . . hefur umræddur atburður ekki átt sér stað.“
Margir gefa sér sem staðreynd að kraftaverkin, sem Biblían segir frá, hafi aldrei átt sér stað af því að þau liggja utan ramma þekktra náttúrulögmála. Á sama hátt er litið á langdræga spádóma sem óhugsandi þar eð menn geta ekki séð langt fram í tímann. Öll kraftaverk hljóti að vera goðsagnir eða þjóðsögur. Sérhver spádómur, sem hefur uppfyllst svo ekki verður móti mælt, hljóti að hafa verið skrifaður eftir að atburðurinn gerðist.a Sumir fullyrða því að spádómarnir í Daníelsbók hafi verið búnir að uppfyllast á annarri öld f.o.t. og að bókin hljóti að hafa verið skrifuð þá.
Forsendur af þessu tagi, sem menn gefa sér fyrirfram, eru byggðar á ákveðnu trúaratriði: að Guð sé ekki til eða grípi að minnsta kosti aldrei inn í gang mannkynssögunnar. En boðskapur Biblíunnar er allur á þá lund að Guð sé til og gegni veigamiklu hlutverki í mannkynssögunni. Ef það er rétt — og öll rök hníga að því — er botninn dottinn úr biblíugagnrýni nútímans að stærstum hluta.
Hafa náttúruvísindin sýnt fram á að Biblían fari með rangt mál?
En hvað má segja um þá staðhæfingu að náttúruvísindin hafi sýnt fram á að við getum ekki trúað Biblíunni? Sannleikurinn er sá að þegar Biblían lætur orð falla um eitthvað, sem við köllum vísindi, er hún í langflestum tilfellum sammála því sem vísindin telja til staðreynda.
Til dæmis eru í Biblíunni mjög raunhæf fyrirmæli um hreinlæti og smitsjúkdóma. Bókin Manual of Tropical Medicine segir í því sambandi: „Enginn getur annað en hrifist af hinum nákvæmu hreinlætisreglum Mósetímans. . . . Að vísu var flokkun sjúkdóma afar einföld — þeir skiptust í bráða sjúkdóma, nefndir ‚plága‘; og langvinna sjúkdóma með einhvers konar útbrotum sem voru kallaðir ‚líkþrá‘ — en hinar afar ströngu reglur um sóttkvíun gerðu líklega mikið gagn.“
Tökum einnig sem dæmi orð Biblíunnar: „Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.“ (Prédikarinn 1:7) Þetta hljómar ósköp keimlíkt þeim lýsingum á hringrás vatnsins sem lesa má í skólabókum okkar tíma. Vatnið berst til sjávar með ánum, gufar þar upp og berst aftur inn yfir land sem ský, og þar fellur það til jarðar sem vatn eða snjór og seytlar aftur út í árnar.
Vísindamenn hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að fjöllin rísi og sígi og að þau fjöll, sem nú eru, hafi einu sinni legið undir sjó. Það kemur heim og saman við skáldleg orð sálmaritarans: „Vatnið náði upp yfir fjöllin. Fjöllin hófust upp, dalirnir þrykktust niður, þángað sem þú festir þá.“ — Sálmur 104:6, 8, ísl. bi. 1859.
Rithöfundur nokkur fullyrðir: „Allir ritarar Gamlatestamentisins litu á jörðina sem flata og minntust stundum á stólpa er hún stæði á.“ Þetta er ekki rétt. Jesaja talaði um „hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni.“ (Jesaja 40:22) Job sagði um skaparann: „Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Lýsing Biblíunnar á jörðinni sem hnetti er svífur um í geimnum án nokkurs sýnilegs stuðnings hljómar mjög svo nútímanleg.
Þróunarkenningin
Hvað má þá segja um árekstur Biblíunnar og þróunarkenningarinnar?b Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: „Yfirgnæfandi meirihluti vísindamanna viðurkennir þróunarkenninguna.“ Biblían kennir hins vegar, á máli sem er nógu einfalt til að menn gætu skilið áður en vísindin komu til sögunnar, að lífið sé bein sköpun Guðs og að grunntegundir lífveranna hafi ekki þróast hver af annarri heldur verið skapaðar. — 1. Mósebók 1:1; 2:7.
Þróunarsinnar eru í mörgu líkir biblíugagnrýnendum. Þeir hafa mjög ákveðnar skoðanir og bera þær mynduglega á borð. Fáeinir eru þó nógu heiðarlegir til að viðurkenna að þróunarkenningin hafi sínar veiku hliðar. Einn segir: „Ógerlegt er að sannprófa þróunarlíkan Darwins með tilraunum eða beinum athugunum, eins og venja er í vísindum, . . . enda er það í raun kenning um sögulega endurgerð. . . . Enn fremur fjallar þróunarkenningin um röð einstæðra atburða, uppruna lífsins, uppruna vitsmuna og svo framvegis. Einstæða atburði er aldrei hægt að endurtaka eða rannsaka með tilraunum af neinu tagi.“ (Evolution: A Theory in Crisis eftir Michael Denton) Annar talar um að „þróun lífsins sé staðreynd.“ Eigi að síður bendir hann á veruleg vandkvæði á því að sanna þessa „staðreynd“: „Engir hlekkir finnast milli helstu tegundarhópa dýranna þótt leitað sé.“ — The Neck of the Giraffe eftir Francis Hitching.
Hve mikið geta þeir vitað?
Rökin fyrir þróunarkenningunni koma að miklu leyti frá jarðfræðingum og steingervingafræðingum — mönnum sem fást við rannsóknir á fjarlægri fortíð jarðar. Þeir standa frammi fyrir ekki ósvipuðum vandamálum og stjarnfræðingar. Með hjálp margvíslegs tækjabúnaðar rannsaka stjarnfræðingar geislun sem komin er óralangt utan úr geimnum frá stjörnum, reikistjörnum, vetrarbrautum og framandi himintunglum svo sem dulstirnum. Þeir reyna að gjörnýta sér handbærar upplýsingar og setja fram kenningar um torráðnustu hluti svo sem eðli stjarnanna og uppruna alheimsins. Þeir hafa sjaldan tækifæri til að sannprófa kenningar sínar, og þegar það tekst reynast þær oft ófullnægjandi eða hreinlega rangar.
Útvarpsstjörnufræðingurinn Gerrit Verschuur segir: „Könnunargeimför Bandaríkjamanna hafa leitt í ljós átakanlega fátækt í þekkingu okkar á alheiminum. Úr nálægð reyndist Mars vera gerólíkur nokkru því sem við gátum ímyndað okkur frá jörðu. . . . Enginn stjarnfræðingur gerði sér í hugarlund að belti Júpíters væru svona stórkostleg að gerð. Satúrnus kom mest á óvart þegar myndavélar Voyagers sýndu snúna hringi, tungl á höfrungahlaupi og yfir þúsund smáhringi. . . . Það virðist gilda sama regla um geiminn og sýni ljósmynduð á rannsóknarstofu. Við hverja nýja stækkun koma fram óvæntar upplýsingar sem gera okkur ráðvillta og breyta því sem við héldum áður.“
Jarðfræðingar, steingervingafræðingar og aðrir, sem koma fram með stærsta hluta af „sönnunargögnunum“ fyrir þróunarkenningunni, eru að fást við jafnfjarlæga atburði og hluti og stjarnfræðingarnir — ekki í rúmi heldur tíma. Á sama hátt og stjarnfræðingar byggja vitneskju sína á daufri geislun sem borist hefur lengri veg en hægt er að gera sér í hugarlund, eins verða þessir vísindamenn að láta sér nægja ógreinileg spor úr fortíð jarðar sem hafa varðveist fyrir tilviljun. Líkt og hjá stjarnfræðingum hljóta margar af niðurstöðum þeirra að vera rangar.
Er Biblían trúverðug?
Íhugult fólk þarf því ekki að falla í stafi af lotningu fyrir skoðunum lærðra manna sem halda því fram að Biblían sé ekki trúverðug. Það er þó í sjálfu sér engin sönnun fyrir því að þú getir trúað henni. Til þess þarft þú að gera það sem margir gagnrýnendur Biblíunnar hafa ekki gert — að opna Biblíuna sjálfur og lesa hana með opnum huga. (Postulasagan 17:11) Fyrir nokkrum árum viðurkenndi ástralskur rithöfundur sem hafði áður gagnrýnt Biblíuna: „Í fyrsta sinn á ævinni gerði ég það sem yfirleitt er talin fyrsta skylda blaðamanns: að sannreyna þær upplýsingar sem ég hafði. . . . Og ég varð mállaus því að það sem ég las [í guðspjöllunum] var hvorki munnmælasögur né natúralískur skáldskapur. Þetta voru frásögur fréttamanna; frásagnir sjónarvotta eða milliliða af óvenjulegum atburðum. . . . Fréttaflutningur hefur ákveðinn blæ og þennan blæ finnum við í guðspjöllunum.“
Við hvetjum þig til að líkja eftir þessum rithöfundi. Lestu Biblíuna sjálfur. Þegar þú ígrundar hina djúptæku visku Biblíunnar, spádómana sem hafa ræst með undraverðum hætti og hið athyglisverða innra samræmi hennar verður þér ljóst að hún er annað og meira en safn óvísindalegra goðsagna. (Jósúabók 23:14) Þegar þú reynir sjálfur hvernig viska Biblíunnar getur breytt lífi þínu til betri vegar, þá munt þú ekki vera í minnsta vafa um að Biblían er orð Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Já, Biblían er trúverðug! — Jóhannes 17:17.
[Neðanmáls]
a Margir biblíunemendur gera sér grein fyrir að þessi kenning er röng því að Grísku ritningarnar, sem voru skrifaðar á fyrstu öld okkar tímatals, segja frá uppfyllingu margra spádóma Hebresku ritninganna sem auðvelt er að sýna fram á að hafi verið skrifaðar öldum áður. Til dæmis segja bæði Grísku ritningarnar og veraldlegir sagnfræðingar frá því hvernig spádómurinn í Daníelsbók 9:24-27 uppfylltist í smáatriðum.
b Ítarlega umræðu um þróunarkenninguna og sköpunarsöguna er að finna í bókinni Life—How did it get here? By evolution or by creation? gefin út árið 1985 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Það er jafnerfitt fyrir steingervingafræðinga að sjá hvað gerðist aftur í grárri forneskju og stjarnfræðinga að skilja eðli þeirra hluta sem eru á ystu mörkum hins sýnilega heims.