Heimsfriður gölluð hugsýn
MIKIL bjartsýni ríkir um það að nú sé mönnum að takast að tryggja frið í heiminum. Carol Goar skrifar í dálki sínum í dagblaðinu The Toronto Star: „Friðarsamningar eru gerðir allt frá Afghanistan til Angóla. Staðbundin átök, sem virtust engan enda ætla að taka fyrir fáeinum mánuðum, eru nú í rénum að því er best verður séð. Og það er mjög uppörvandi að sjá að Sameinuðu þjóðirnar eru að endurfæðast.“ Dálkahöfundurinn segir að þetta hafi hleypt af stað vonaröldu um allan heim. Í ritstjórnargrein í dagblaðinu USA Today var tekið í svipaðan streng: „Friður er að brjótast út um allan heim.“
Vakið hefur sérstaka athygli nýverið það sem blaðið UN Chronicle kallar „yfirstandandi sættir Sovétríkjanna og Bandaríkjanna.“ Brottflutningur hersveita, ótrúlegir atburðir í Austur-Evrópu og umræður um fækkun í herliði — allt hefur þetta vakið vonir um að stórveldin séu nú loks að hætta vígbúnaðarkapphlaupinu. Í heimi þar sem her og vígbúnaður sogar til sín yfir 50 þúsund milljarða króna á ári, að því er talið er, hljóta það að teljast góðar fréttir.
En hversu líklegt er í raun að draumur manna um heimsfrið rætist? Jafnvel bjartsýnustu menn viðurkenna að það sé langur vegur milli samdráttar í vígbúnaði og algerrar afvopnunar. Alger útrýming kjarnorkuvopna myndi kalla á gagnkvæmt traust þjóða í milli sem á sér ekkert fordæmi í sögunni. Því miður hafa samskipti stórveldanna löngum einkennst af gagnkvæmu vantrausti. Eins og spáð er í Biblíunni hafa menn verið mjög „ósáttfúsir“ á þessu sviði á okkar tímum. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.
Ekki eru heldur allir sannfærðir um að friður myndi fást með útrýmingu kjarnorkuvopna. Jafnvel þótt takast mætti að telja þjóðir heims á að taka kjarnorkuvopn sín algerlega úr umferð er eftir sem áður hægt að myrða á áhrifaríkan hátt með hefðbundnum vopnum. Um það bera báðar heimsstyrjaldirnar vitni. Enn fremur myndu menn hvort eð er ráða yfir tækni til að smíða kjarnorkuvopn á nýjan leik — strax við fyrstu merki um pólitíska spennu. Sumir taka jafnvel undir með stjórnmálafræðingnum Richard Ned Lebow sem segir: „Nokkrar kjarnorkusprengjur gera menn sennilega varkára.“
En svo lengi sem kjarnorkuvopn eru til myndi sérhver yfirlýsing um að nú hefði tekist að koma á friði vera háðuleg því að hættan á gereyðingu væri alltaf fyrir hendi. Eins er það ef þau vandamál, sem ræna milljónir manna friðinum dags daglega, verða áfram óleyst. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier Pérez de Cuéllar, talar um „neyð milljóna samborgara okkar sem eru heimilislausir eða búa við algerlega óviðunandi húsnæði. Vandamálið versnar stöðugt.“ UN Chronicle skýrir enn fremur frá því að vanþróað efnahagslíf þjaki „tvo þriðju mannkyns og fátækt og örbirgð sé stundum svo mögnuð að enginn munur sé á henni og þeim þjáningum sem eru samfara styrjöld.“ Og hvað um aðstæður þeirra tólf milljóna flóttamanna sem taldar eru vera í heiminum? Ætli minni vígbúnaður eða jafnvel alger afvopnun geti tryggt þeim frið?
Augljóst er að hugsýn manna um frið í heiminum er meingölluð — þröngsýn, skammsýn og ófullnægjandi. Er þá einhver von um frið er byggist á betri forsendum? Svo sannarlega. Þetta tímarit hefur áður bent á að Biblían veiti okkur örugga von um frið.a Innan skamms mun Jesús Kristur, konungur Guðsríkis, koma á friði sem gengur miklu lengra en menn hafa nokkurn tíma getað gert sér vonir um. En hvað mun þessi friður í raun og veru þýða fyrir mannkynið? Fjallað verður um það í greininni sem fylgir.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Friður — veruleikinn?“ í Varðturninum þann 1. apríl 1990.