Heimsfriður hvað mun hann þýða í raun?
HEIMSFRIÐURINN, sem Guð hefur í huga, er annað og meira en aðeins alþjóðlegt vopnahlé eða sjálfhelda kjarnorkuvígbúnaðarins. Það má sjá af því hvernig Biblían notar hugtakið „friður.“
Hebresku ritningarnar („Gamlatestamentið“) nota orðið shalom um frið. Ein mynd þessa orðs kemur fyrir í 1. Mósebók 37:14 þar sem ættfaðirinn Jakob segir Jósef syni sínum: „Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það.“a Shalom kemur aftur fyrir í 1. Mósebók 41:16 þar sem það er þýtt „til heilla.“
Í biblíulegum skilningi er friður því meira en aðeins það að fjandskap linni. Hann felur einnig í sér heilbrigði, öryggi og vellíðan. Þetta tímarit hefur oft bent á að menn séu ófærir um að leysa þá þraut hvernig koma eigi á friði. Aðeins Jesús Kristur, ‚Friðarhöfðinginn,‘ getur leyst hana og raðað bútunum rétt saman þannig að lausnin verði sannur friður á jörð. (Jesaja 9:6, 7) Athugum til dæmis það sem biblíuspádómur í Sálmi 72:7, 8 segir um stjórn hans: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.“ Hugsaðu þér þetta — heilbrigði, öryggi og vellíðan um víða veröld! Slíkt verður aldrei tryggt með pólitískum sáttmálum. Aðeins Guðsríki getur gert það og það mun gera meira. Biblían gefur okkur hrífandi innsýn í þá friðarveröld sem framundan er. Við skulum skoða nokkur dæmi.
Afvopnun um víða veröld — með aðferð Guðs!
Sálmur 46:9, 10 segir: „Komið, skoðið dáðir [Jehóva], hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ Orðin ‚bogi,‘ ‚oddur‘ og ‚skjöldur‘ eru tákn hvers kyns vopna eða stríðstóla. Jehóva gengur því miklu lengra en aðeins að fækka vopnum eða afvopna þjóðirnar. Hann eyðir algerlega kjarnorkuvopnum, fallbyssum, skriðdrekum, skotpöllum, handsprengjum, plastsprengjum, rifflum, skammbyssum — öllu sem ógnað gæti heimsfriðinum!
En vopnin ein valda ekki stríði. Yfirleitt á stríð rætur að rekja til haturs, ágirndar eða ofbeldishneigðar ófullkominna manna. (Samanber Jakobsbréfið 4:1-3.) Ríki Guðs mun því ráðast að þessari undirrót styrjalda með því að afmá slík persónueinkenni meðal manna. Hvernig? Með fræðsluátaki um víða veröld. „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.
Eftir að mannkynið hefur verið ‚af Guði frætt‘ mun það ekki lengur líta á ólíkan kynþátt sem tilefni átaka, fjandskapar eða fyrirlitningar. (Jóhannes 6:45) „Guð fer ekki í manngreinarálit“ og íbúar jarðar munu endurspegla óhlutdrægni hans. (Postulasagan 10:34) Guðsríki mun einnig sjá til þess að sérhvert tilefni átaka þjóða í milli verði úr sögunni, með því að afnema landamæri þjóða. ‚Frá hafi til hafs og til endimarka jarðar‘ munu allir sverja stjórn Krists hollustueið, fúslega og fullir þakklætis. — Sálmur 72:8.
Til að slíkur friður geti varað mun Guðsríki einnig uppræta eitthvert sterkasta sundrunarafl í sögu mannkyns: falstrúarbrögð. (Sefanía 2:11) Mannkynið verður sameinað í tilbeiðslu sinni á hinum eina sanna Guði. (Jesaja 2:2, 3) Um allan heim munu menn líta á hver annan sem bræður!
Friður á heimilinu
Friður um víða veröld væri þó lítils virði ef heimili manna væru vettvangur móðgana, meiðandi orða og hótana er gengju eins og byssukúlur manna í milli. Þannig er þó ástatt á mörgum heimilum nú til dags. Á sumum heimilum er rótgróinn fjandskapur falinn bak við múra kulda og þagnar.
Sannur friður útheimtir því ró og friðsæld innan veggja heimilisins. Samkvæmt fræðsluáætlun Guðsríkis verður eiginmönnum og eiginkonum kennt að sýna hvoru öðru ást og virðingu. (Kólossubréfið 3:18, 19) Börnum verður kennt að ‚vera hlýðin foreldrum sínum í öllu.‘ (Kólossubréfið 3:20) Þá verða engir uppreisnargjarnir táningar sem valda foreldrum sínum áhyggjum og vonbrigðum. Hlýðni og samstarf verður regla en ekki undantekning. Börnin verða öllum til yndis og ánægju.
Fjárhagsörðugleikar valda víða mikilli spennu í fjölskyldulífinu nú á dögum því að bæði hjónin þurfa oft að vinna langan vinnudag utan heimilis. Undir stjórn Krists verður létt af fjölskyldum hinum þjakandi fjárhagsbyrðum — uppsprengdri húsaleigu, himinháum húsnæðisskuldum og síhækkandi sköttum og atvinnuleysi. Næga atvinnu verður að fá sem bæði reynir á hugvit og framtak og veitir lífsfyllingu. Og enginn mun þurfa að vera heimilislaus. Taktu eftir hvernig spádómurinn í Jesaja 65:21-23 leggur áherslu á þessi atriði: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, . . . eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, . . . og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“
Hugsaðu þér að búa á stað þar sem óprýði, hávaði og óþefur stórborgarumhverfisins sækir ekki að þér! Hugsaðu þér að búa á grænni jörð — þinni jörð — sem er vel ræktuð, prýdd og snyrt af mikilli natni. Hugsaðu þér að anda að þér lofti sem er ferskt og hreint og heyra hin sefandi hljóð náttúrunnar en ekki glymjanda nútímasiðmenningar. Að vísu eru sumir svo heppnir að búa við eitthvað af þessu í takmörkuðum mæli, en undir stjórn Guðsríkis munu allir fá að búa við friðsælar aðstæður. Þar verða engir fátækir, engir hungraðir, og gæðum lífsins ekki misskipt. — Sálmur 72:13, 14, 16.
Biblían heitir því enn fremur að „hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ (Orðskviðirnir 2:22) Það þýðir að glæpir verða stöðvaðir með öllu. Ef yngsta barnið þitt fer út að leika sér þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að kynferðisafbrotamaður eða barnaræningi liggi í leyni, að drukkinn ökumaður missi stjórn á bifreið sinni eða hópur unglinga undir áhrifum fíkniefna sé þar á sveimi. Barnið þitt getur leikið sér úti fullkomlega óhult.
Friður og persónuleg vellíðan
Að síðustu er að nefna persónulega vellíðan. Jafnvel paradís slær ekki á kvöl krabbameinssjúklings eða sársaukann samfara liðagigt. Sannur friður þarf því að fela í sér upprætingu sjúkdóma, veikinda og dauða. Er slíkt gerlegt? Meðan Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann margsinnis að hann réði við alls konar sjúkleika sem hrjáir mennina. (Matteus 8:14-17) Frá himneskum sjónarhóli sínum mun Kristur geta unnið kraftaverk um víða veröld! „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast,“ segir Biblían, „og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ — Jesaja 33:24; 35:5, 6.
Herferð Krists gegn þjáningum manna mun þó ekki láta staðar numið þar. Páll postuli segir um konungdóm Krists: „Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:25, 26) Þetta þýðir að allri þeirri eyðileggingu, sem dauðinn hefur valdið mannkyninu frá öndverðu, verður snúið við. Jesús Kristur sagði sjálfur: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Krists] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Ótaldar milljónir manna, sem hafa lifað og dáið í eymd og bágindum, munu þar með fá tækifæri til að eiga hlutdeild í hinum komandi heimsfriði.
Munt þú fá að njóta hans? Vottar Jehóva hvetja þig til að fræðast meira um það sem Biblían kennir um þetta efni.b Vonin um raunverulegan frið í heiminum er of hrífandi, of raunveruleg til að láta skeika að sköpuðu. Þú mátt reysta því að ef þú leggur þig fram um að nema orð Guðs og fara eftir því, þá mun ‚Guð friðarins vera með þér‘ — að eilífu! — Filippíbréfið 4:9.
[Neðanmáls]
a Bókstaflega þýtt: „Sjáðu frið bræðra þinna og frið hjarðarinnar.“
b Þú getur fengið ókeypis aðstoð við að nema Biblíuna heima hjá þér með því að hafa samband við útgefendur þessa tímarits.
[Myndir á blaðsíðu 5]
Jehóva mun stöðva styrjaldir „til endimarka jarðar.“
[Rétthafi]
Ljósmynd: Bandaríski flugherinn
[Myndir á blaðsíðu 6]
Hjón munu læra að vera friðsöm í samskiptum hvort við annað.