Við þörfnumst nýs heims
STALDRAÐU við eitt augnablik og virtu fyrir þér umhverfi þitt. Geðjast þér að því sem þú sérð?
Vera má að þú eigir þægilegt heimili í fallegu og snyrtilegu byggðarlagi. Ef til vill hefur þú einnig áhugavert starf sem skilar þér góðum tekjum, og þar að auki kann heilsufar þitt og fjölskyldu þinnar að vera gott. Þegar allt er talið finnst þér kannski að þú búir við tiltölulega gott öryggi og hamingju.
En hugsaðu um önnur bæjarhverfi, aðra landshluta og aðra heimshluta. Virtu fyrir þér allan heiminn. Er það fögur mynd sem fyrir augu ber? Lýsir hún lífshamingju, friði og velsæld?
Ef spár, sem gerðar voru fyrr á öldinni, hefðu gengið eftir hefðu vísindin nú verið búin að vinna bug á öllum alvarlegum sjúkdómum, sjá öllum fyrir meira en nógum mat, bæta umhverfið og koma á traustum friði. En hafa þessar spár ræst?
Það þarf ekki mikla rannsókn til að komast að raun um að jörðin er allt annað en friðsöm. „Allt frá biblíutímanum hefur fólk verið hvatt til að smíða plógjárn úr sverðum sínum,“ skrifar Michael Renner í ritinu State of the World 1990. „Aldrei fyrr hefur þessi hvatning verið jafnbrýn. Hið linnulausa vígbúnaðarkapphlaup hefur hrakið mannkynið fram á hengiflug gereyðingar.“
Fréttir eru nógar af innanlandsátökum og stríðum sem ganga nærri þjóðum víða um heim. Samkvæmt einni heimild voru 22 stríð enn í gangi árið 1988.a Hve margir höfðu fallið í þessum stríðum? Fram að því ári og að því meðtöldu „höfðu fallið alls 4.645.000 manns í öllum þeim styrjöldum sem háðar voru árið 1988; þar af voru sjötíu og sex af hundraði óbreyttir borgarar,“ segir í dagblaðinu St. Louis Post-Dispatch.
Stefnir þróunin í heiminum í átt til friðar? „Sagt er að kalda stríðinu sé lokið og að nú sé tækifæri til að koma á friði. En skoðum málið betur,“ segir í grein í Kaliforníublaðinu San Jose Mercury News. Og þar segir áfram: „Í þriðja heiminum geysa styrjaldir án þess að horfur séu á að linni. Þetta eru hinar gleymdu styrjaldir heimsins. Flestar eru styrjaldirnar milli stjórnvalda og eigin þjóðar: Blóðug borgarastríð þar sem barist er um land, trú, ósætti þjóðabrota og ættbálka, stjórnmálavöld, jafnvel fíkniefni. . . . Allt frá suðurodda Afríku til Suðustur-Asíu hafa stríð hrakið milljónir manna á flótta. Akrar liggja ósánir, ráðist er á heilsugæslustöðvar, búpeningur drepinn, foreldrar myrtir með hrottalegum hætti í ásýnd barna sinna, tíu ára piltar gerðir burðarmenn og síðan hermenn, ungum stúlkum nauðgað. Í þessum löndum, sem eru næstum gleymd, hafa stríð skilið eftir sig eyðingu og þjóðfélagsumrót sem hugsanlegt er að þessi þjóðfélög bíði aldrei bætur. . . . Rannsóknir sýna að 9. áratugur aldarinnar hefur verið vettvangur fleiri styrjalda en nokkur annar áratugur sögunnar.“
Margir þeir, sem tekst að flýja til landa sem eru betur sett, uppgötva að þar ógna ofbeldisglæpir þeim friði sem þeir leita að. „Hin langvinna ásókn afbrota [í Bandaríkjunum] hefur haldið áfram allan níunda áratuginn, þrátt fyrir spár þess efnis að henni myndi linna,“ segir í U.S. News & World Report. „Dæmigerðar tölur eru 8,1 milljón alvarlegra afbrota svo sem morða, líkamsárása og innbrota á einu ári. . . . Skelfilegast er þó hversu útbreidd og óútreiknanleg blóðtakan er orðin. Hagstofa bandaríska dómsmálaráðuneytisins áætlar að 83 af hundraði barna, sem nú eru tólf ára, verði einhvern tíma fórnarlömb ofbeldis eða ofbeldistilraunar, ef heldur fram sem horfir. Og því fer fjarri að allir lögbrjótar fái makleg málagjöld.“ Statistisk tiårsoversigt 1989 upplýsir að í Danmörku takist einungis að upplýsa 20 af hundraði afbrota sem lögreglu er tilkynnt um. Ástandið er svipað víðast hvar í heiminum. Komið hefur fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna ‚að víða um lönd verði glæpir æ tíðari og alvarlegri.‘
En jafnvel þótt öll stríð, vopn og afbrot yrðu þurrkuð út af jörðinni í einu vetfangi væri líf manna eftir sem áður í hættu. „Þjakandi fátækt, skefjalausir sjúkdómar og stórfellt ólæsi einnkennir líf hundruða milljóna manna í þróunarlöndunum,“ segir í skýrslunni State of the World 1990 sem gefin er út af Worldwatch-stofnuninni. „Umhverfiseyðing, sem á sér ekkert fordæmi í sögunni, blasir við öllu mannkyni — jafnt ríkum sem fátækum, jafnt hernaðarlega sterkum sem veikum.“
Já, jafnvel það sem býr öllu mannkyni nauðsynleg lífsskilyrði á jörðinni er í hættu. „Jörðin í heild er verr á sig komin [en árið 1970],“ segir ritstjórinn Paul Hoffman í tímaritinu Discover. „Sorphaugar eru yfirfullir. Lofttegundir, sem valda gróðurhúsaáhrifum, eru að hita upp andrúmsloftið. Ósonlagið um jörð er að þynnast. Eyðimerkur stækka og regnskógarnir minnka. Á hverri klukkustund verða 17 jurta- og dýrategundir aldauða.“
Við þetta má svo bæta afleiðingum stöðugrar mengunar jarðar og vatns. Að auki fjölgar jarðarbúum stöðugt sem veldur því að meira og meira ræktanlegt land er tekið undir byggingar og vegi sem síðan flýtir útrýmingu jurta- og dýrategunda. Ferskt vatn verður sífellt fágætara og súrt regn heldur áfram. Að auki má nefna þau áhrif sem loftmengun og hættuleg úrgangsefni hafa á heilsu manna. Að öllu samanlögðu blasir stórkostleg hætta við mannkyni. Hver sem við erum og hvar sem við búum þurfum við andrúmsloft, mat, drykkjarvatn og hráefni — ómenguð og í hæfilegu magni — til að lifa. Í skýslunni State of the World 1990 segir: „Fyrir hina fátæku var níundi áratugurinn samfelld hörmung, tími fátæklegs viðurværis og aukinnar dánartíðni.“
Getur nokkur maður neitað því að við þörfnumst sárlega nýs heims, vegna þess að mannkyninu er ógnað á svo marga vegu? En er það raunhæfur möguleiki? Hver ætti að geta skapað slíkan heim? Hvaða hindranir þarf að yfirstíga áður en reikistjarnan jörð getur talist öruggur og lífvænlegur bústaður? Við skulum kanna það nánar.
[Neðanmáls]
a „Stríð“ er skilgreint sem átök er að minnsta kosti ein ríkisstjórn á aðild að og kostar minnst 1000 manns lífið á einu ári.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 4]
WHO, ljósmynd P. Almasy