Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.12. bls. 24-29
  • Uppörvið hver annan er dagurinn færist nær

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Uppörvið hver annan er dagurinn færist nær
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Nafn Guðs hvetur
  • Fylltir gleði og heilögum anda
  • Full ástæða til uppörvunar
  • Berstu gegn kjarkleysi sem djöfullinn ýtir undir
  • Reiddu þig á fórn Krists
  • Uppörvun er dagurinn nálgast
  • Uppörvum hvert annað ,því fremur sem dagurinn færist nær‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Uppörvið hvert annað hvern dag
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Hvetjum til kærleika og góðra verka — hvernig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Hvernig geturðu unnið bug á depurð?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.12. bls. 24-29

Uppörvið hver annan er dagurinn færist nær

„Uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:25.

1, 2. Hvaða dagur nálgast og hvert ætti að vera viðhorf þjóna Jehóva?

ÞEIR sem núna taka þátt í að bjóða öðrum að koma og fá ókeypis ‚lífsins vatn‘ einangra sig ekki. Er hinn mikli sigurdagur Jehóva nálgast fylgja þeir heilræði Biblíunnar: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ — Hebreabréfið 10:24, 25.

2 Ritningin spáir um þennan ‚dag‘ sem ‚dag Jehóva.‘ (2. Pétursbréf 3:10, NW) Úr því að Jehóva er hinn hæsti, almáttugur Guð, er óhugsandi að nokkur dagur beri af hans degi. (Postulasagan 2:20) Hann hefur í för með sér réttlætingu drottinvalds hans sem Guð yfir öllum alheimi. Þessi dagur er þýðingarmeiri en allir aðrir og færist nær.

3. Hvernig var dagur Jehóva nálægur kristnum mönnum á fyrstu öld og hvað um okkur núna?

3 Páll postuli sagði kristnum mönnum á fyrstu öld okkar tímatals að dagur Jehóva nálgaðist. Þeir hlökkuðu til þess að dagurinn rynni upp, en á þeim tíma voru enn 1900 ár uns að því kæmi. (2. Þessaloníkubréf 2:1-3) Þrátt fyrir það var þetta uppörvandi fyrir þá vegna þess að dagurinn myndi örugglega koma og kristnir menn fengju að líta þann blessunarríka dag ef þeir héldu stefnufastir áfram í þeirri trú. (2. Tímóteusarbréf 4:8) Á þeim tíma sáu menn daginn nálgast. Nú á dögum er dagur Jehóva svo sannarlega orðinn nálægur. Stórkostleg uppfylling spádóma Biblíunnar staðfestir það. Bráðlega verður nafn Guðs okkar, Jehóva, helgað um alla eilífð. — Lúkas 11:2.

Nafn Guðs hvetur

4. Hver er orðinn konungur samkvæmt Opinberunarbókinni 19:6 og hvernig kemur nafn hans fram?

4 Nafn Guðs ætti að vera áhugamál alls mannkyns. Biblíuþýðingin Today’s English Version segir: „Lofið Guð! Því að Drottinn, okkar alvaldi Guð, er konungur!“ (Opinberunarbókin 19:6) Samkvæmt þessari 20. aldar biblíuþýðingu er hann Drottinn, alvaldur Guð. Hvorki þessi þýðing né margar aðrar nútímaþýðingar tilgreina nafn þess Guðs er ríkir sem konungur. Þó er nafn Guðs innifalið í upphrópuninni „Hallelúja“ („Lofið Jah“ eða „Lofið Jehóva“) sem er að finna í íslensku biblíunni frá 1981 og mörgum fleiri á erlendum málum í Opinberunarbókinni 19:6. Stærstan hluta okkar tímatals hefur nafn Guðs verið nánast falið í þýðingum Biblíunnar. En eins og við munum sjá hefur nafnið verið þjónum Guðs, bæði fyrr og nú, til mikillar hvatningar.

5, 6. (a) Hvers vegna þurfti Móse að þekkja nafn þess Guðs sem hann var fulltrúi fyrir? (b) Hvaða áhrif hlýtur það að hafa haft á Ísraelsmenn er Móse lagði áherslu á nafn Guðs?

5 Við minnumst þess að þegar hinn hæsti Guð sendi Móse til Ísraelsmanna í þrælkuninni í Egyptalandi kom sú spurning upp í hugum þeirra hver hefði sent Móse. Móse sá fyrir að hinir þjáðu Gyðingar myndu vilja vita nafn þess Guðs sem hann var fulltrúi fyrir. Við lesum um þetta í 2. Mósebók 3:15: „Guð sagði enn fremur við Móse: ‚Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: „[Jehóva], Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.“ Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.‘“

6 Það hlýtur að hafa verið uppörvun fyrir Ísraelsmenn þegar lögð var áhersla á þetta við þá. Frelsun þeirra var tryggð af hálfu hins eina sanna Guðs, Jehóva. Og það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir þá að eiga í vændum að kynnast Guði er hann myndi sýna fram á merkingu einkanafns síns — en ekki einangra sig rembilátur í bragði! — 2. Mósebók 3:13; 4:29-31.

7. (a) Hvernig vitum við að lærisveinar Jesú þekktu nafn Guðs? (b) Hvernig hvarf nafn Guðs í skuggann?

7 Nafn Guðs, Jehóva, og það sem það stóð fyrir, var lærisveinum Drottins Jesú Krists einnig mikil uppörvun. (Jóhannes 17:6, 26) Jesús reyndi ekki að gera sem minnst úr nafni Guðs meðan hann þjónaði á jörð og það var ekki tilgangur hans að láta sitt eigið nafn, Jesús, vera í sviðsljósinu. Það var ekki fyrr en eftir að hið boðaða fráhvarf frá sannkristinni trú hófst að nafn Guðs hvarf í skuggann og nánast hætti að heyrast nefnt í samræðum kristinna manna. (Postulasagan 20:29, 30) Þegar nafn sonar Guðs fór að verða fyrirferðarmeira og skyggja á nafn föðurins var tilbeiðsla þeirra sem játuðu kristni á föðurnum sífellt ópersónulegri, hið innilega samband var horfið og var því ekki mjög uppörvandi.

8. Hvaða áhrif hefur það haft á þjóna Guðs að taka sér nafnið vottar Jehóva?

8 Það var Alþjóðasamtökum biblíunemenda, sem tengdir voru Varðturnsfélaginu, því ólýsanlegt gleðiefni að taka upp nafnið vottar Jehóva árið 1931. Og það var ekki aðeins gleðiefni heldur líka mjög uppörvandi. Þess vegna gátu biblíunemendurnir, sem nú höfðu hlotið nýtt nafn, uppörvað hver annan. — Samanber Jesaja 43:12.

9. Hvað finnst sannkristnum mönnum um hann sem þeir eru vottar fyrir?

9 Sannkristnum nútímamönnum finnst því viðeigandi að segja deili á honum sem þeir eru vottar fyrir, líkt og Jesús Kristur, leiðtogi þeirra, gerði meðan hann var á jörðinni. (Opinberunarbókin 1:1, 2) Já, þeir segja deili á honum sem einn ber nafnið Jehóva. — Sálmur 83:19.

Fylltir gleði og heilögum anda

10-12. (a) Hvaða áhrif myndi starfskraftur Guðs hafa á fylgjendur Jesú? (b) Hvernig vilja hinir glöðu vottar Jehóva koma fram hver við annan?

10 Jesús Kristur sagði postulum sínum að skilnaði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.

11 Veittu athygli að þeir sem nýlega var búið að kenna kristna trú áttu að skírast í nafni heilags anda. Þessi heilagi andi er ekki persóna heldur starfskraftur Jehóva Guðs sem hann beitir fyrir milligöngu Jesú Krists. Á hvítasunnunni úthellti Jehóva Guð þessum starfskrafti sínum, fyrir milligöngu Jesú, yfir vígða fylgjendur Jesú Krists. (Postulasagan 2:33) Þeir fylltust heilögum anda og einn af ávöxtum heilags anda er gleði. (Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 5:18-20) Gleði er örvandi eiginleiki. Lærisveinarnir eiga að fyllast gleði heilags anda. Bænarorð Páls postula eru mjög við hæfi: „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.“ — Rómverjabréfið 15:13.

12 Fylltir þessum anda gleðinnar vilja vottar Jehóva nútímans, þeirra á meðal ‚múgurinn mikli,‘ uppörva hver annan mitt í þessu óvingjarnlega heimskerfi. Páll postuli talaði enda um það að ‚uppörvast saman.‘ — Opinberunarbókin 7:9, 10; Rómverjabréfið 1:12; 14:17.

Full ástæða til uppörvunar

13. Hvaða ástæðu höfum við til að vera kjarkmiklir og uppörva hver annan?

13 Í þessu heimskerfi, þar sem andstæðingur alls réttlætis ræður ríkjum og er jafnvel guð þess, vilja kristnir menn uppörva hver annan innan kristna safnaðarins um víða veröld þar sem heilagur andi Jehóva dvelur og starfar. (Hebreabréfið 10:24, 25; Postulasagan 20:28) Við höfum fullt tilefni til að vera með léttri lund. Við erum innilega þakklát fyrir að búa yfir nákvæmri þekkingu á Jehóva og syni hans og þeim starfskrafti sem þeir beita, það er að segja heilögum anda! Við erum innilega þakklát fyrir þá von sem þeir gefa okkur! Tilbeiðsla okkar er þannig gleðileg. Páll postuli sagði kristnum mönnum sem hann stílaði bréf sitt til að þeir ættu að uppörva hver annan og uppbyggja í helgustu trú. Þeir ættu að gera það ‚því fremur sem þeir sæju daginn færast nær.‘ Og þegar stjórnmálaöfl jarðar þurrka út það sem er kristni aðeins að nafninu til, ásamt öllum öðrum falstrúarbrögðum, þá munu aðstæður kalla enn meira á að við uppörvum hvert annað.

14. Hverjum ber að uppörva hver annan og hvernig?

14 Enda þótt öldungarnir taki forystuna í að uppörva hjörðina hver í sínum söfnuði þurfa allir kristnir menn að uppörva hver annan alveg eins og Hebreabréfið 10:25 hvetur til. Það er í raun krafa til kristinna manna. Uppörvar þú aðra ef þú tilheyrir söfnuðinum? Þér kann að vera spurn hvernig þú getir það og hvað þú getir gert. Í fyrsta lagi getur þú gert það með því einu að vera viðstaddur samkomurnar og með því að styðja hina kristnu ráðstöfun. Það er uppörvun fyrir alla aðra bræður þína og systur á sama hátt og það er líklega uppörvun fyrir þig að sjá aðra sækja safnaðarsamkomur trúfastlega. Trúfesti þín og þolgæði getur líka verið uppörvun fyrir þá. Með því að halda áfram að feta hina kristnu lífsbraut, þrátt fyrir erfiðleika og vandamál lífsins, og gefast aldrei upp getur þú verið hvetjandi fordæmi fyrir aðra.

Berstu gegn kjarkleysi sem djöfullinn ýtir undir

15. Hvers vegna er djöfullinn „í miklum móð“ og gegn hverjum?

15 Við erum ekki þeir einu sem vita að dagur Jehóva er nálægur. Satan djöfullinn veit það líka. Opinberunarbókin 12:12 segir okkur að nú sé vei á jörð „því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ Eins og Opinberunarbókin 12:17 gefur til kynna beinist hin mikla reiði hans að þeim sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ Það leikur enginn vafi á því að djöfullinn vill draga úr okkur kjarkinn! Hann veit líka hvernig hann á að fara að því. Hann þekkir veikleika okkar og vandamál og notfærir sér þau.

16. Hvernig beitir Satan kjarkleysi og vanmáttarkennd sem vopni?

16 Hvers vegna beitir djöfullinn kjarkleysi og vanmáttarkennd sem vopni? Vegna þess að oft hrífur það. Jafnvel sá maður, sem hefur þolgóður staðist beina andstöðu og ofsóknir, getur misst kjarkinn. Satan vill smána og hæða Jehóva Guð og reyna að sýna fram á að hann geti komið fólki til að hætta að þjóna honum. (Orðskviðirnir 27:11; samanber Jobsbók 2:4, 5; Opinberunarbókina 12:10.) Ef hann getur dregið kjarkinn úr þér getur hann fengið þig til að hægja ferðina í þjónustunni við Guð, jafnvel komið þér til að hætta henni og verða óvirkur við prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. — 2. Korintubréf 2:10, 11; Efesusbréfið 6:11; 1. Pétursbréf 5:8.

17. Hvernig komu hin neikvæðu áhrif kjarkleysis fram á dögum Móse?

17 Hin neikvæðu áhrif kjarkleysis og vanmáttarkenndar eru auðsæ af því sem gerðist hjá Ísraelsmönnum í Egyptalandi til forna. Eftir að Móse talaði við Faraó jók þessi harðstjóri stórlega byrðar þeirra og kúgun. Guð sagði Móse að fullvissa Ísraelsmenn um að hann myndi í raun og veru frelsa þá, gera þá að þjóð sinni, sjá þeim fyrir undankomuleið og leiða þá inn í fyrirheitna landið. Móse talaði um það við Ísraelsmenn en 2. Mósebók 6:9 segir: „Þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna þess stranga þrældóms.“ Þessi viðbrögð drógu jafnvel kjark úr Móse til að tala við Faraó eins og honum var fyrirskipað, uns Jehóva sannfærði hann og uppörvaði. — 2. Mósebók 6:10-13.

18. Hvers vegna er brýn þörf fyrir þjóna Guðs að berjast gegn því kjarkleysi sem djöfullinn veldur?

18 Satan djöfullinn þekkir vel hin neikvæðu áhrif sem kjarkleysi og vanmáttarkennd getur haft á þjón Guðs. Eins og Orðskviðirnir 24:10 segja: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ Með því að nú er mjög langt liðið á tíma endalokanna þurfum við að vera máttug og sterk andlega. Það er nógu slæmt að þurfa að berjast við ófullkomleika okkar, veikleika og galla, sem eru okkur fjötur um fót, að ekki bætist við að Satan skuli reyna að misnota sér þá. Við þörfnumst sannarlega hjálpar.

Reiddu þig á fórn Krists

19. Hvað hjálpar okkur að berjast gegn kjarkleysi og hvers vegna?

19 Lausnarfórnin, sem Jehóva sá fyrir í Jesú Kristi, er mikil hjálp í þessu sambandi. Við getum gengið með sigur af hólmi með því að reiða okkur á lausnargjaldið. Það er hættulegt að gera lítið úr þessari ráðstöfun. Að sjálfsögðu syndgum við og gerum mistök svo lengi sem við erum ófullkomin en við þurfum ekki að missa kjarkinn og gefast upp, láta okkur finnast sem öll von sé úti og falla þar með í gildru Satans. Við vitum að búið er að færa fulla fórn fyrir syndirnar. Lausnargjaldið getur afmáð syndir. Ef við tilheyrum ‚múginum mikla‘ verðum við að hafa fullt traust og trú á það að við getum þvegið skikkjur okkar og hvítfágað þær í blóði lambsins. — Opinberunarbókin 7:9, 14.

20. Hvernig gefur Opinberunarbókin 12:11 til kynna að hægt sé að sigrast á úrtölumeistaranum mikla, djöflinum?

20 Í Opinberunarbókinni 12:10 er Satan sagður vera ‚kærandi bræðra vorra sem kærir þá fyrir Guði vorum dag og nótt.‘ Hvernig getum við sigrað svona illskeyttan ákæranda og úrtölumeistara? Ellefta vers sama kafla svarar því: „Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.“ Þjónar Jehóva þurfa því að treysta fullkomlega á lausnargjaldið, blóð lambsins. Notfærðu þér til hins ýtrasta þá uppörvun sem vitnisburðarstarfið veitir og segðu öllum sem þú nærð til frá fagnaðarerindinu um Guðsríki á reglulegum grundvelli.

21. Hvernig gætum við óafvitandi lagt djöflinum lið í að draga kjark úr bræðrum okkar?

21 Stundum getum við, jafnvel óafvitandi, orðið liðsmenn djöfulsins í að draga kjark úr bræðrum okkar. Hvernig? Með því að verða of gagnrýnin, of kröfuhörð eða réttlát úr hófi fram. (Prédikarinn 7:16) Við höfum öll okkar galla og veikleika. Við skulum ekki misnota okkur þá eins og djöfullinn gerir. Við skulum þess í stað tala uppörvandi um bræður okkar og þjóna Jehóva sem skipulögð heild. Við viljum halda áfram að telja kjark hvert í annað og forðast það að draga kjark hvert úr öðru.

Uppörvun er dagurinn nálgast

22, 23. (a) Hvers vegna ættum við ekki að láta öldungana eina um að uppörva aðra? (b) Hvernig er hægt að uppörva umsjónarmenn kristna safnaðarins?

22 Við ættum að einsetja okkur að uppörva alltaf hvert annað er dagurinn nálgast. Gerðu það með trúföstu fordæmi þínu og hughreystingarorðum. Líktu eftir Jehóva og Drottni Jesú Kristi að þessu leyti. Láttu ekki öldunga safnaðarins eina um að uppörva aðra. Öldungarnir þarfnast meira að segja sjálfir uppörvunar. Þeir hafa sína veikleika og galla alveg eins og hinir í hjörðinni, og þeir þurfa að takast á við sömu vandamál við að sjá fjölskyldum sínum farborða í heimi sem versnar dag frá degi. Auk þess hvílir á þeim það sem Páll postuli kallaði áhyggjuna fyrir söfnuðunum. (2. Korintubréf 11:28, 29) Þeir hafa erfitt starf með höndum — þeir þarfnast uppörvunar.

23 Þú getur uppörvað mjög þá sem eru í umsjónarstöðum innan kristna safnaðarins með því að vera samvinnuþýður við þá. Þá ert þú að fylgja heilræðinu í Hebreabréfinu 13:17: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“

24. Hvað ættum við að gera og hvers vegna á þessum degi kjarkleysis og vanmáttarkenndar?

24 Við lifum á degi kjarkleysis og vanmáttarkenndar. Hjörtu manna verða magnþrota af ótta við það sem koma mun yfir heimsbyggðina eins og Jesús sagði fyrir. (Lúkas 21:25, 26) Þar eð þau eru svo mörg vandamálin sem letja og draga kjark úr okkur þurfum við að ‚uppörva hver annan og það því fremur sem við sjáum að dagurinn færist nær.‘ Fylgjum hinu góða ráði Páls postula í 1. Þessaloníkubréfi 5:11: „Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna ættu kristnir menn að uppörva hver annan enn meira en fyrr?

◻ Hvernig hefur þekking á nafni Guðs verið þjónum hans til uppörvunar?

◻ Á hvaða vegu getum við hvert og eitt uppörvað hvert annað?

◻ Hvers vegna verðum við að gæta þess að taka ekki þátt í því starfi djöfulsins að draga kjark úr bræðrunum?

[Mynd á blaðsíðu 26]

Öldungarnir taka forystuna í að uppörva hjörðina í söfnuðum sínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila