Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.3. bls. 28-32
  • „Hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Beðið um að trúin bregðist ekki
  • Horfst í augu við komandi prófraunir með trú
  • Trú okkur til lækningar
  • ‚Hólpnir fyrir trú‘
  • Trúum á loforð Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Iðkið trú byggða á sannleika
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Trúir þú fagnaðarerindinu í alvöru?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Trú – kraftur sem styrkir okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.3. bls. 28-32

„Hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú“

„Jafnskjótt hrópaði faðir barnsins og sagði: ‚Ég trúi, hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú.‘“ — MARKÚS 9:24, NW.

1. Hvað fékk föður nokkurn til að hrópa upp yfir sig: „Hjálpa þú vantrú minni“?

FAÐIR drengs, sem haldinn var illum anda, stóð frammi fyrir Jesú Kristi. Hann þráði svo sannarlega að barn hans fengi lækningu! Lærisveina Jesú hafði skort næga trú til að reka út illa andann, en faðirinn hrópaði: „Ég trúi, hjálpaðu mér hvar sem mig skortir trú.“ Jesús rak þá illa andann út með krafti frá Guði og hefur eflaust styrkt trú þessa föður. — Markús 9:14-29, NW.

2. Á hvaða tvo vegu skammast kristnir menn sín ekki hvað varðar trú?

2 Trúr þjónn Jehóva skammast sín ekkert frekar en vongóður faðir drengsins fyrir að segja: „Ég trúi.“ Vera má að spottarar afneiti krafti Guðs, sannsögli orðs hans og jafnvel sjálfri tilveru hans. En sannkristnir menn viðurkenna fúslega að þeir trúi á Jehóva Guð. Samt má vera að þessir sömu einstaklingar sárbæni föður sinn á himnum er þeir biðja einslega til hans: „Hjálpa þú vantrú minni.“ Þetta gera þeir einnig án þess að skammast sín, vitandi að jafnvel postular Jesú Krists báðu: „Auk oss trú!“ — Lúkas 17:5.

3. Hvað er sérstakt við það hvernig Jóhannes notar orðið „trú“ í guðspjalli sínu og hvers vegna var það viðeigandi?

3 Sérstaklega er talað mikið um trú í kristnu Grísku ritningunum. Reyndar notar Jóhannesarguðspjall ýmis grísk orð tengd „trú“ meira en 40 af hundraði oftar en hin þrjú guðspjöllin samanlagt. Jóhannes lagði áherslu á að það sé ekki nóg að hafa trú; það sé brýnt að iðka hana. Er hann ritaði guðspjallið, um árið 98, sá hann eitraða griparma fráhvarfsins fálmandi eftir veiktrúa kristnum mönnum til að hremma þá. (Postulasagan 20:28-30; 2. Pétursbréf 2:1-3; 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19) Því var lífsnauðsynlegt að iðka trú og láta hana birtast í verkum sem sýndu hollustu við Guð. Erfiðir tímar voru framundan.

4. Hvers vegna er þeim sem hafa trú ekkert ómögulegt?

4 Trú gerir kristna menn færa um að ráða við hvaða erfiðleika sem er. Jesús sagði lærisveinum sínum að hefðu þeir „trú eins og mustarðskorn“ yrði þeim ekkert ómögulegt. (Matteus 17:20) Á þann hátt lagði hann áherslu á mátt trúarinnar sem er ávöxtur heilags anda. Jesús undirstrikaði þannig hvað andi Guðs eða starfskraftur getur gert en ekki hvað menn geta gert. Þeir sem láta leiðast af honum gera ekki hindranir og vandamál á stærð við þúfu að stóru fjalli. Að beita viskunni, sem andi Guðs gefur, hjálpar þeim að sjá hlutina í réttu samhengi. Jafnvel alvarleg vandamál láta undan síga er þau fá að kenna á stuðningskrafti trúarinnar. — Matteus 21:21, 22; Markús 11:22-24; Lúkas 17:5, 6.

Beðið um að trúin bregðist ekki

5-7. (a) Hvaða varnaðarorð lét Jesús falla um trú er hann stofnaði minningarhátíðina? (b) Hvernig gerði trú Péturs hann færan um að styrkja bræður sína?

5 Árið 33 hélt Jesús páska með lærisveinum sínum í síðasta sinn. Þá, eftir að hafa vísað Júdasi Ískaríot frá, stofnaði hann minningarhátíðina er hann sagði: „Yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, . . . Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“ — Lúkas 22:28-32.

6 Jesús bað þess að trú Símonar Péturs þryti ekki. Þótt Pétur stærði sig af því öruggur í bragði að hann myndi aldrei afneita Jesú, gerði hann það þrívegis skömmu síðar. (Lúkas 22:33, 34, 54-62) Sauðirnir tvístruðust er hirðirinn var sleginn til dauða eins og sagt hafði verið fyrir. (Sakaría 13:7; Markús 14:27) Samt sem áður styrkti Pétur andlega bræður sína er hann hafði náð sér eftir fall sitt í snöru óttans. Hann hóf máls á því að finna nýjan mann í stað hins ótrúa Júdasar Ískaríots. Sem talsmaður postulanna á hvítasunnunni árið 33 notaði Pétur þann fyrsta af ,lyklunum,‘ sem Jesús gaf honum, og opnaði leiðina fyrir Gyðinga til að fá aðgang að Guðsríki. (Matteus 16:19; Postulasagan 1:15–2:41) Satan hafði krafist postulanna til að „sælda“ eða sigta þá eins og hveiti, en Guð sá til þess að trú þeirra brygðist ekki.

7 Ímyndaðu þér hvernig Pétri var innanbrjósts þegar hann heyrði Jesús segja: „Ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki.“ Hugsaðu þér! Drottinn hans og herra hafði beðið þess að trú Péturs brygðist ekki. Og hún hvorki brást né þraut hana. Meira að segja urðu Pétur og fleiri fyrstir til að vera smurðir heilögum anda á hvítasunnudeginum, til að verða andleg börn Guðs og væntanlegir samerfingjar Krists í himneskri dýrð. Þar sem heilagur andi starfaði nú með þeim í þeim mæli sem átti sér ekkert fordæmi, gátu þeir sýnt ávexti hans, þar á meðal trú, betur en nokkru sinni fyrr. Hvílíkt svar við bæn þeirra: „Auk oss trú!“ — Lúkas 17:5; Galatabréfið 3:2, 22-26; 5:22, 23.

Horfst í augu við komandi prófraunir með trú

8. Hvaða tímabæra viðvörun hefur skipulagið gefið okkur varðandi uppfyllingu 1. Þessaloníkubréfs 5:3?

8 Sem uppfylling biblíuspádóma heyrum við bráðlega hrópað: „Friður og engin hætta“! (1. Þessaloníkubréf 5:3) Gæti það reynt á trú okkar? Já, því við eigum á hættu að sá árangur sem þjóðirnar virðast ná í að koma á friði komi okkur í opna skjöldu. En við munum ekki láta hrífast með af slíkri friðarboðun ef við höfum hugfast að Jehóva Guð notfærir sér engar af stofnunum þessa heims til að koma á friði. Hann notar sína eigin aðferð við að koma á sönnum friði og það er aðeins fyrir atbeina ríkis hans undir stjórn Jesú Krists. Þess vegna mun hver sá árangur, sem þjóðirnar kunna að ná í þá átt að koma á friði, verða skammvinnur og aðeins á yfirborðinu. Til að hjálpa okkur að halda vöku okkar hvað þetta snertir mun hinn „trúi og hyggni þjónn“ halda áfram að gefa út tímabærar viðvaranir, til þess að hin hrokafulla yfirlýsing um ‚frið og enga hættu‘ frá þjóðum þessa gamla heimskerfis komi þjónum Jehóva ekki í opna skjöldu. — Matteus 24:45-47.

9. Hvers vegna mun tortíming Babýlonar hinnar miklu kalla á hugrekki og trú af okkar hálfu?

9 Hrópið „friður og engin hætta“ verður merki um ‚snögglega tortímingu‘ Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:1-6; 18:4, 5) Þetta mun einnig reyna á kristna trú. Munu vottar Jehóva vera staðfastir í trúnni er fölsk trúarbrögð hrynja til grunna? Auðvitað. Þessi atburður — flestum óvæntur og óskiljanlegur — verður ekki af mannavöldum. Fólk verður að fá að vita að það er í raun og veru dómur Jehóva, til helgunar nafninu sem fölsk trúarbrögð hafa lengi svívirt. En hvernig gætu menn vitað það nema einhver hefði sagt þeim frá því? Og hverjir aðrir en vottar Jehóva mátti búast við að segðu þeim það? — Samanber Esekíel 35:14, 15; Rómverjabréfið 10:13-15.

10. Hvernig mun árás Gógs á fólk Jehóva einnig vera prófraun fyrir trúna?

10 Smurðir vottar Jehóva og félagar þeirra með jarðneska von hafa haft það hugrekki sem þarf til að segja öðrum frá því að Jehóva sé í þann mund að fullnægja dómi yfir Babýlon hinni miklu og því sem eftir er af heimskerfi Satans. (2. Korintubréf 4:4) Í hlutverki sínu sem Góg frá Magóg, en það táknar núverandi niðurlægingu hans, mun Satan leiða saman jarðneskan herafla sinn til allsherjarárásar á þjóna Guðs. Trú votta Jehóva á mátt Guðs þeim til verndar verður prófreynd. En við getum treyst því að Jehóva muni bjarga fólki sínu eins og orð Guðs sagði fyrir. — Esekíel 38:16; 39:18-23.

11, 12. (a) Hvað tryggði hjálpræði Nóa og fjölskyldu hans í flóðinu? (b) Hverju munum við ekki þurfa að hafa áhyggjur af í þrengingunni miklu?

11 Við vitum ekki nákvæmlega ennþá hvernig Jehóva mun vernda fólk sitt í ‚þrengingunni miklu,‘ en það er engin ástæða til að efast um að hann muni gera það. (Matteus 24:21, 22) Aðstaða þjóna Guðs nú á dögum verður svipuð þeirri sem Nói og fjölskylda hans voru í meðan flóðið stóð yfir. Þau voru lokuð inni í örkinni og vötn eyðingarinnar ólguðu kringum þau. Líklegt er að þau hafi verið gagntekin lotningu yfir þessu sjónarspili kraftar Guðs og þau hljóta að hafa beðist innilega fyrir. Það er engin biblíuleg vísbending til um að þau hafi haft áhyggjur og spurt sig: ‚Ætli örkin sé alveg nógu sterkbyggð til að standast eyðingaröflin? Eigum við nægan mat til að láta hann endast þar til flóðið er afstaðið? Getum við samið okkur að þeim breyttu aðstæðum sem verða á jörðinni eftir á?‘ Síðari atburðir sönnuðu að slíkar áhyggjur hefðu verið ástæðulausar.

12 Til að tryggja hjálpræði sitt þurftu Nói og fjölskylda hans að iðka trú. Það þýddi að fylgja fyrirmælum og leiðsögn heilags anda Guðs. Í þrengingunni miklu verður jafnbrýnt að við fylgjum leiðbeiningum heilags anda og hlýðum fyrirmælum Jehóva gegnum skipulag hans. Þá höfum við enga ástæðu til að hafa áhyggjur og spyrja: ‚Hvernig verður andlegum og efnislegum þörfum okkar fullnægt? Hvaða ráðstafanir verða gerðar fyrir aldraða eða þá sem þurfa á sérstakri meðferð eða meðhöndlun læknis að halda? Hvernig mun Jehóva gera okkur mögulegt að lifa af inn í nýja heiminn?‘ Með sterkri trú munu allir trúir þjónar Jehóva leggja allt í öruggar hendur hans. — Samanber Matteus 6:25-33.

13. Hvers vegna munum við þurfa að hafa trú eins og Abraham, þegar þrengingin mikla er hafin?

13 Þegar þrengingin mikla er hafin mun trú okkar á Guð án efa styrktjast stórkostlega. Þá sjáum við að Jehóva er að framkvæma það sem hann sagðist ætla að gera. Þá sjáum við með eigin augum er hann framkvæmir dóm sinn! En munum við hvert og eitt hafa næga trú til að treysta að hann muni varðveita fólk sitt er hann eyðir hinum illu? Verðum við eins og Abraham sem trúði að ‚dómari alls jarðríkis myndi gjöra rétt‘ og ekki tortíma hinum réttlátu með hinum óguðlegu? — 1. Mósebók 18:23, 25.

14. Hvaða spurningar ættu að fá okkur til að grannskoða trú okkar og vinna að því hörðum höndum að styrkja hana?

14 Hversu nauðsynlegt er ekki að við byggjum upp trú okkar núna! Leyfum anda Guðs að hvetja okkur til ‚heilagrar breytni og guðrækni,‘ þar sem endir þessa illa heimskerfis er svo nálægur. (2. Pétursbréf 3:11-14) Þá munu kvíðablandnar hugsanir eins og þessar ekki sækja á okkur í þrengingunni miklu: ‚Á ég rétt á vernd Jehóva? Hefði ég getað gert meira í þjónustu hans? Lagði ég raunverulega nógu hart að mér við að ‚íklæðast hinum nýja manni‘? Er ég sú manngerð sem Jehóva vill hafa í nýja heiminum?‘ Raunsæjar spurningar eins og þessar ættu að fá okkur til að grannskoða trú okkar og vinna að því hörðum höndum að styrkja hana, núna! — Kólossubréfið 3:8-10.

Trú okkur til lækningar

15. Hvað sagði Jesús stundum við þá sem hann læknaði, en hvers vegna styður það ekki trúarlækningar nútímans?

15 Jesús læknaði ekki af líkamlegum kvillum aðeins þá sem höfðu trú. (Jóhannes 5:5-9, 13) Verk hans styðja því á engan hátt hina óbiblíulegu kenningu um trúarlækningar. Að vísu sagði Jesús stundum við þá sem hann læknaði: „Trú þín hefur bjargað þér.“ (Matteus 9:22; Markús 5:34; 10:52; Lúkas 8:48; 17:19; 18:42) En með því var hann einfaldlega að benda á augljósan sannleika: Ef þessa þjáðu einstaklinga hefði skort trú á lækningamátt Jesú hefðu þeir aldrei komið til hans að fá lækningu.

16. Hvaða lækningaráætlun stýrir Jesús núna?

16 Nú á dögum stýrir Jesús Kristur andlegri lækningaráætlun og yfir 4.000.000 manna hafa gert sig móttækilegar fyrir henni. Sem vottar Jehóva njóta þeir andlegs heilbrigðis þrátt fyrir hvern þann líkamlega heilsubrest sem þeir kunna að eiga við að etja. Smurðir kristnir einstaklingar meðal þeirra hafa himneska von og þeir ‚horfa á hið ósýnilega sem er eilíft.‘ (2. Korintubréf 4:16-18; 5:6, 7) Og kristnir menn með jarðneska von hlakka til hinnar stórkostlegu líkamlegu lækningar sem mun eiga sér stað í nýjum heimi Guðs.

17, 18. Hvaða ráðstöfun Jehóva er lýst í Opinberunarbókinni 22:1, 2 og hvernig er trúar krafist af okkur til að njóta gagns af henni?

17 Jóhannes postuli vitnaði í ráðstafanir Guðs til eilífs lífs með þessum orðum Opinberunarbókarinnar 22:1, 2: „Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins. Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“ ‚Lífsvatnið‘ felur í sér sannleiksorð Guðs og allar aðrar ráðstafanir Jehóva til að bjarga hlýðnum mönnum frá synd og dauða og veita þeim eilíft líf á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Efesusbréfið 5:26; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Meðan 144.000 smurðir fylgjendur Jesú eru á jörðinni, drekka þeir af ráðstöfunum Guðs til eilífs lífs gegnum Jesú Krist og eru kallaðir „réttlætis-eikur.“ (Jesaja 61:1-3; Opinberunarbókin 14:1-5) Þeir hafa borið mikinn andlegan ávöxt á jörð. Uppreistir til himna munu þeir, undir þúsund ára stjórn Krists, taka þátt í að úthluta ráðstöfunum lausnargjaldsins „til lækningar þjóðunum“ af synd og dauða.

18 Því sterkari sem trú okkar á þessar ráðstafanir Guðs er, þeim mun viljugri verðum við að fylgja leiðsögn anda hans til að eiga hlut í þeim. Líkamlegur fullkomleiki mun augljóslega nást er einstaklingurinn iðkar trú á Krist og tekur andlegum framförum. Þótt hann hefði verið læknaður með kraftaverki af meiriháttar bæklun mun hann færast nær fullkomleikanum er hann iðkar það sem er rétt. Hann mun reglulega njóta góðs af ráðstöfun Guðs til lækningar vegna fórnar Krists. Trú hefur þannig áhrif á það að við verðum læknuð og fullkomnuð líkamlega.

‚Hólpnir fyrir trú‘

19. Hvers vegna er áríðandi að standa stöðugur í trúnni?

19 Hversu áríðandi er ekki fyrir þjóna Jehóva að vera staðfastir í trúnni, uns nýr heimur Guðs rennur upp og bægir myrkri hins núverandi illa heims eilíflega frá. ‚Vantrúuðum‘ verður kastað í ‚díkið sem logar af eldi og brennisteini,‘ hinn annan dauða. Þetta mun eiga sér stað í síðasta lagi eftir lokaprófraunina við lok þúsund ára stjórnar Krists. (Opinberunarbókin 20:6-10; 21:8) Hlutskipti þeirra sem halda áfram að iðka trú og lifa af til að njóta eilífrar framtíðar er svo sannarlega blessunarríkt!

20. Hvernig mun 1. Korintubréf 13:13 fá sérstaka merkingu við lok þúsund ára stjórnar Krists?

20 Þá munu þessi orð Páls í 1. Korintubréfi 13:13 fá sérstaka merkingu: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ Við munum ekki lengur þurfa að iðka trú á að hið spádómlega loforð í 1. Mósebók 3:15 verði að veruleika eða vona að það verði uppfyllt. Það verður búið að gerast. Sem ráðvandir menn munum við halda áfram að vona á Jehóva, trúa á hann og son hans og bera kærleika til þeirra, því þeir komu uppfyllingu þessa spádóms til leiðar. Þar að auki mun djúpur kærleikur og hjartans þakklæti fyrir hjálpræði okkar binda okkur Guði órjúfanlegum tryggðarböndum um alla eilífð. — 1. Pétursbréf 1:8, 9.

21. Hvað ættum við nú á dögum að gera til að verða ‚hólpnir fyrir trú‘?

21 Jehóva hefur gert dásamlegar ráðstafanir gegnum sýnilegt skipulag sitt til að styrkja trúna. Notfærðu þér þær allar til fullnustu. Sæktu reglulega samkomur fólks Guðs og taktu þátt í þeim. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þú skalt nema orð hans og kristin rit af kostgæfni. Biddu Jehóva innilega um heilagan anda hans. (Lúkas 11:13) Líktu eftir trú þeirra sem taka af auðmýkt forystuna í söfnuðinum. (Hebreabréfið 13:7) Stattu gegn freistingum heimsins. (Matteus 6:9, 13) Já, og dýpkaðu persónulegt samband þitt við Jehóva á hvern þann hátt sem mögulegt er. Umfram allt, haltu áfram að iðka trú. Þá getur þú orðið meðal þeirra sem þóknast Jehóva og hljóta hjálpræði, því Páll sagði: „Af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.“ — Efesusbréfið 2:8.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða prófraunir á trú okkar standa fyrir dyrum?

◻ Á hvaða tvo vegu getur trú okkar gert okkur heilbrigð?

◻ Hversu lengi þurfum við að viðhalda trú okkar, samkvæmt 1. Pétursbréfi 1:9?

◻ Hvaða ráðstafana njótum við til að styrkja trú okkar?

[Mynd á blaðsíðu 29]

Finnur þú persónulega fyrir þörf á meiri trú, eins og faðir drengsins sem Jesús læknaði?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Trú eins og Nói og fjölskylda hans hafði verður nauðsynleg til að lifa af ‚þrenginguna miklu.‘

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila