Spurningar frá lesendum
◼ Er viðeigandi af kristnum manni að senda blóm þegar einhver deyr, annaðhvort heim til fjölskyldu hans eða til útfararinnar?
Í sumum löndum er það siður að gera það. Hins vegar hefur það stundum haft trúarlega merkingu. Við skulum því skoða málið allrækilega, einkum með tilliti til þess að ýmsir aðrir siðir geta virst hafa áþekk tengsl við fölsk trúarbrögð. Tökum eftir athugasemdum The Encyclopedia of Religion (1987):
„Blóm tengjast hinu helga tilverusviði vegna sambands síns við guði og gyðjur. Flóra, hin rómverska gyðja vors og blóma, færir blómum fegurð og angan . . . Hægt er að blíðka guði og dýrka . . . með því að færa þeim mat og blóm.
Notkun blóma í sambandi við helgisiði tengda hinum dánu er þekkt um allan heim. Grikkir og Rómverjar þöktu látna og grafir þeirra blómum. Sálir deyjandi Búddhatrúarmanna í Japan eru bornar til himins á lótusblómi og legsteinar í grafreitum hvíla gjarnan á úthöggnum lótusblómum . . . Tahítíbúar leggja blómvönd vafinn í burkna hjá líkinu og hella síðan ilmvatni með blómailmi yfir það í því skyni að auðvelda för þess inn til hins helga framhaldslífs . . . Blóm geta líka tengst helgistundum í mynd reykelsis eða ilmvatns.“
Vitandi það að blóm hafa verið notuð í tengslum við falstrú hefur sumum kristnum mönnum fundist að þeir ættu ekki að gefa eða senda blóm vegna útfarar. Tilfinningar þeirra geta einnig endurspeglað löngun til að forðast veraldlega siði, því að fylgjendur Jesú ‚eru ekki af heiminum.‘ (Jóhannes 15:19) En þar koma einnig til sögunnar ritningargreinar, sem varða þetta mál, og staðbundin viðhorf.
Blóm eru ein góðra gjafa Guðs sem hinir lifandi mega njóta. (Postulasagan 14:15-17; Jakobsbréfið 1:17) Blómskrúðið, sem hann skapaði, hefur verið notað við sanna guðsdýrkun. Ljósastikan í tjaldbúðinni var skreytt ‚möndlublómi, knöppum og blómi.‘ (2. Mósebók 25:31-34) Í musterinu var útskurður með pálmum og blómfléttum. (1. Konungabók 6:18; 29, 32) Ljóst er að sannir guðsdýrkendur þurftu ekki alltaf að forðast að nota blóm eða blómsveiga þótt heiðingjar notuðu slíkt. — Postulasagan 14:13.
En hvað um hina almennari spurningu þess efnis hvort við eigum að fylgja siðvenjum, svo sem greftrunarsiðum? Biblían nefnir marga siði, suma sem var óviðeigandi fyrir sanna guðsdýrkendur að halda, aðra sem þeir héldu. Fyrri Konungabók 18:28 nefnir þann „sið“ Baalsdýrkenda að ‚kalla hárri röddu og rista sig skinnsprettum‘ — sið sem sannir guðsdýrkendur fylgdu ekki. Á hinn bóginn gefur Rutarbók 4:7 ekki til kynna að ákveðinn „siður í Ísrael við endurlausn og skipti“ hafi verið vanþóknanlegur.
Í tengslum við hrein trúarleg atriði gátu jafnvel þróast siðir sem voru Guði þóknanlegir. Þegar Guð gaf fyrirmæli um páskahátíðina minntist hann ekki á vín, en á fyrstu öld var það orðinn siður að hafa vínbikara við páskamáltíðina. Jesús og postular hans höfnuðu ekki þessum trúarsið. Þeir sáu ekkert athugavert við hann og fylgdu honum. — 2. Mósebók 12:6-18; Lúkas 22:15-18; 1. Korintubréf 11:25.
Eins er það með suma útfararsiði. Egyptar höfðu fyrir sið að smyrja hina dánu. Hinn trúfasti ættfaðir Jósef brást ekki sjálfkrafa þannig við: ‚Þetta er heiðinn siður þannig að við Hebrear verðum að forðast hann.‘ Nei, hann „bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn,“ bersýnilega í þeim tilgangi að hægt væri að greftra Jakob í fyrirheitna landinu. (1. Mósebók 49:29–50:3) Gyðingar mótuðu síðar aðra greftrunarsiði, svo sem að baða líkið og greftra það á dánardegi. Frumkristnir menn fylgdu slíkum siðum Gyðinga. — Postulasagan 9:37.
En hvað nú ef greftrunarsiður er álitinn hafa vissa merkingu sem byggð er á villutrú, svo sem trúnni á ódauðlega sál? Alfræðibókin, sem vitnað var í hér á undan, nefndi að sumir ‚legðu blómvönd vafinn í burkna hjá líkinu og helltu síðan ilmvatni með blómailmi yfir líkið til að auðvelda för þess inn til hins helga framhaldslífs.‘ Þótt slíkur siður sé viðhafður ber ekki að skilja það svo að þjónar Guðs verði sjálfkrafa að forðast allt þvílíkt. Enda þótt Gyðingar hafi ekki trúað á ‚för inn til hins helga framhaldslífs‘ segir Biblían: „Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftunar.“ — Jóhannes 12:2-8; 19:40.
Kristnir menn ættu að forðast athafnir sem stangast á við sannleika Biblíunnar. (2. Korintubréf 6:14-18) Alls kyns hlutum, táknmyndum og athöfnum hefur þó einhvern tíma og einhvers staðar verið gefin fölsk trúarleg merking eða verið tengt óbiblíulegum kenningum. Tré hafa verið tilbeðin, hjartalaga tákn hafa verið álitin heilög og reykelsi hefur verið brennt við heiðnar trúarathafnir. Þýðir það að kristinn maður megi aldrei nota reykelsi, hafa tré til skrauts eða bera hjartalaga skartgrip?a Það er ekki réttmæt ályktun.
Sannkristinn maður ætti að íhuga eftirfarandi: Myndu aðrir halda að ég hefði tekið upp óbiblíulegar trúarathafnir eða trúarskoðanir ef ég héldi ákveðinn sið? Staður og stund gætu svarað því. Siður (eða tákn) kann að hafa haft falstrúarlega merkingu fyrir árþúsundum eða gæti haft slíka merkingu nú á tímum í fjarlægu landi. En í stað þess að leggja út í tímafreka athugun á því skaltu spyrja þig: ‚Hver er almenn skoðun manna þar sem ég bý?‘ — Samanber 1. Korintubréf 10:25-29.
Ef alkunna er að ákveðinn siður (eða tákn svo sem krossinn) hefur falstrúarlega merkingu skaltu forðast hann. Kristnir menn myndu því ekki senda krosslaga blómaskreytingu eða rautt hjarta ef það er álitið hafa trúarlega merkingu. Eins má vera að blóm hafi einhverja trúarlega merkingu einhvers staðar séu þau notuð með ákveðnum hætti við jarðarför. Kristnir menn ættu að forðast það líka. Hér er ekki átt við það að líta beri á það sem trúarlega athöfn einfaldlega að koma með blómvönd til útfarar eða færa sjúkum vini blóm á spítala, og þar með forðast það.b
Þvert á móti er það algengur siður víða um lönd að gefa blóm og litið er á það sem viðeigandi vináttuvott. Blóm búa yfir fegurð og geta verið yndisauki á sorgarstund. Þau geta líka vottað samúð og umhyggju. Annars staðar kann að vera siður að láta slíka umhyggju í ljós með gestrisni svo sem á þann hátt að búa syrgjendum máltíð. (Mundu þá ástúð sem borin var til Dorkasar vegna áhuga hennar á öðrum og umhyggju fyrir þeim. [Postulasagan 9:36-39]) Þar sem slíkt er ekki greinilega sett í samband við einhverja falstrú eru margir votta Jehóva vanir að færa sjúkum vini á spítala eða þeim sem séð hafa á bak ástvini í dauðann blóm til að gleðja hann. Auk þess geta þeir á einstaklingsgrundvelli látið í ljós áhuga sinn og umhyggju með því að vera hjálpsamir. — Jakobsbréfið 1:27; 2:14-17.
[Neðanmáls]
a Heiðnir menn hafa löngum notað reykelsi með blómailmi við trúarathafnir sínar, en það var ekki rangt af þjónum Guðs að nota reykelsi í sannri guðsdýrkun. (2. Mósebók 30:1, 7, 8; 37:29; Opinberunarbókin 5:8) Sjá einnig greinina „Are They Idolatrous Decorations?“ í enskri útgáfu Vaknið! þann 22. desember 1976.
b Taka ætti tillit til óska fjölskyldunnar, því að sumir afþakka blóm og láta vita að andvirði blóma, sem menn kynnu að vilja gefa, skuli frekar renna til safnaðarins eða einhvers góðs málefnis.