Eru öll trúarbrögð jafngóð?
„Örlög okkar tíma eru hræðileg. Við þurfum á trúarbrögðum að halda en við finnum hvergi Guð sem passar við þau.“ — Lucian Blaga, rúmenskur heimspekingur og ljóðskáld.
„Trúarbrögð og klerkar hafa verið og munu líklega um langan aldur vera meðal verstu óvina framfara og frelsis.“ — Khristo Botev, ljóðskáld frá Búlgaríu.
MEÐFYLGJANDI tilvitnanir enduróma þær ógöngur sem margt einlægt fólk er í. Innst inni finnur það fyrir trúarþörf en hinn leyndardómsfulli Guð, sem klerkarnir kenna, er ekki Guð sem það getur skilið og elskað. Það gerir sér enn fremur grein fyrir því að klerkarnir og trúarbrögð þeirra hafa átt stóran þátt í að tálma framförum og frelsi mannsins. Enda þótt menn viðurkenni trúarþörf sína í vaxandi mæli gerir heiðarlegt fólk sig ekki ánægt með hvaða trúarbrögð sem er.
Mikilvægur munur
Trúarbrögð gegna lykilhlutverki í uppbyggingu og sögu mannkynsins. The New Encyclopædia Britannica talar um trúarbrögð „sem staðeynd mannlegrar reynslu, þjóðmenningar og sögu“ og bætir við: „Í öllum þáttum mannlífsins sjást merki trúarlegrar hollustu og viðhorfa.“ En sagan sýnir að engin af helstu trúarbrögðum heims hafa verið mannkyninu til blessunar.
Indverski stjórnmálamaðurinn Jawaharlal Nehru sagði eitt sinn: „Það hneyksli sem kallað er trúarbrögð, eða að minnsta kosti skipulögð trúarbrögð, jafnt á Indlandi sem annars staðar, hefur fyllt okkur hryllingi.“ Þegar litið er á þær styrjaldir sem háðar hafa verið og þau glæpaverk sem framin hafa verið í nafni trúarbragða, er þá í fullri hreinskilni hægt að vera ósammála honum?
Á 18. öld kom franski heimspekingurinn Voltaire fram með athyglisverða skilgreiningu. Hann skrifaði: „Trúarbrögðin, segið þið, hafa leitt af sér ótal óhæfuverk. Þið ættuð frekar að segja hjátrúin, hjátrúin sem ríkir yfir okkar dapurlega hnetti. Hjátrú er grimmasti óvinur þeirrar hreinu tilbeiðslu sem við skuldum almættinu.“ Voltaire barðist gegn trúarlegu umburðarleysi síns tíma en hvikaði ekki frá trú sinni á Guð sem skapara alheimsins. Hann sá muninn á sönnum trúarbrögðum og fölskum.
Nauðsyn þess að velja
Ekki eru allir sammála Voltaire. Sumir telja sig sjá gott í öllum trúarbrögðum og finnst þar af leiðandi engin þörf á því að leita uppi hin sönnu trúarbrögð. Slíkir einstaklingar ættu að veita athygli aðvörun spámannsins Jesaja sem skrifaði: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.“ (Jesaja 5:20) Fölsk trúarbrögð hafa verið mikið böl fyrir mannkynið. Þau hafa leitt af sér andlegt myrkur og skilið eftir beiskt bragð í munni hreinhjartaðra manna.
Valið stendur þess vegna ekki á milli guðleysis og þess að aðhyllast einhver trúarbrögð. Svo einfalt er það ekki. Um leið og einhver gerir sér ljóst að Guðs sé þörf verður hann að leita uppi hin sönnu trúarbrögð. Eins og rannsóknarmaðurinn Émile Poulat orðaði svo vel í Le Grand Atlas des Religions: „Það sem trúarbrögðin krefjast er svo gífurlega breytilegt að ómögulegt er að trúa því öllu.“ Í samræmi við þetta segir franska alfræðibókin Encyclopædia Universalis: „Ef maður 21. aldarinnar snýr aftur til trúarbragða . . . verður hann að gera upp við sig hvort hinir helgu hlutir, sem honum er boðið upp á, eru sannir eða falskir.“
Hvernig velja á hina réttu trú
Hvað getur hjálpað okkur að velja hina réttu trú? Franska alfræðibókin Encyclopædia Universalis er á réttri braut þegar hún leggur áherslu á mikilvægi sannleikans. Trú sem byggir á falskenningum getur ekki verið sönn. Mesti spámaður sem uppi hefur verið sagði: „Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:24.
Þessi spámaður var Jesús Kristur og hann lýsti einnig yfir: „Varist falsspámenn [„falska trúarkennara,“ Phillips]. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. . . . Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“ (Matteus 7:15-17) Þegar einlægt fólk sér vondan ávöxt hinna „stóru“ trúarbragða heimsins, og jafnvel sértrúarsafnaða og trúarreglna sem sprottið hafa upp, fara margir að líta á þau öll sem ‚slæm tré,‘ hreinlega ekki nógu góð. En hvernig getur það fundið hina sönnu trú?
Að sjálfsögðu er það vonlaust verk að ætla að rannsaka öll trúarbrögð bæði utan og innan kristna heimsins áður en þú velur; þau skipta þúsundum. Ef við hins vegar notum — eins og Jesús sagði — sannleika og ávexti sem mælikvarða, þá er mögulegt að bera kennsl á sönn trúarbrögð.
Sannleikur og ávextir
Jesús talaði um sannleika. Með það í huga er rétt að spyrja hvaða trúarhópur hafni hinum trúarlegu ósannindum fornrar goðafræði og grískrar heimspeki sem gagnsýrir flest trúarbrögð. Ein slík ósannindi er sú kenning að maðurinn hafi ódauðlega sál.a Þessi trú hefur síðan orðið kveikjan að kenningunni um logandi helvíti, kenningu sem svívirðir Guð.
Jesús minntist líka á ávexti. Þekkir þú trúarbrögð sem hafa skapað ósvikið alþjóðlegt bræðralag þar sem kynþátta-, tungumála- og þjóðernishindrunum er rutt úr vegi með kærleika og gagnkvæmum skilningi? Þekkir þú alheimstrúarsamfélag manna sem vilja frekar sæta ofsóknum en að láta stjórnmálamenn eða trúarleiðtoga eggja sig til að hata bræður sína og systur og myrða þau í nafni þjóðernishyggju eða trúarbragða? Ef trúarbrögð hafna slíkum trúarlegum ósannindum og bera slíka ávexti er það kröftugur vitnisburður um að þau séu sönn, er ekki svo?
Sönn trúarbrögð eru iðkuð nú á dögum
Eru slík trúarbrögð til? Já, þau eru til. En þú verður að viðurkenna að það eru engin af helstu trúarbrögðum heimsins. Ætti það að koma okkur á óvart? Nei. Í sinni frægu fjallræðu sagði Jesús: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ — Matteus 7:13, 14.
Hvar er þá sönn trúarbrögð að finna? Í öllu lítillæti og hreinskilni verðum við að segja að vottar Jehóva mynda alþjóðlegt samfélag sem gengur á þessum ‚þrönga og mjóa vegi.‘ Víst er það satt að stóru kirkjudeildirnar kalla votta Jehóva með fyrirlitningu sértrúarsöfnuð. En það var einmitt það sem fráhverfir trúarleiðtogar á fyrstu öldinni kölluðu frumkristna menn. — Postulasagan 24:1-14.
Hvers vegna eru vottar Jehóva vissir um að hafa hina sönnu trú? Þeir mynda alþjóðlegt bræðrafélag sem teygir sig til yfir 200 landa og þeir hafa yfirstigið sundrung vegna þjóðernis, kynþáttar, tungumáls og stéttar. Og þeir neita að trúa á kenningar — þótt gamlar séu — sem ganga augljóslega í berhögg við það sem Biblían segir. En hvernig komust þeir í slíka öfundsverða aðstöðu? Og hvað felur það í sér að iðka sannra trú? Fjallað er um þessar og aðrar spurningar varðandi trúarbrögð í næstu tveimur greinum.
[Neðanmáls]
a Vel skjalfestar heimildir fyrir goðsögulegum uppruna þessarar kenningar er að finna í bókinni Mankind’s Search for God, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 52-7.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Krossferðirnar voru hluti hinna vondu ávaxta falskra trúarbragða.
[Rétthafi]
Bibliothèque Nationale, París
[Mynd á blaðsíðu 8]
Sönn trúarbrögð bera góða ávexti.