Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.2. bls. 3-4
  • Flóðið ógleymanlega

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Flóðið ógleymanlega
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Frásaga Biblíunnar af flóðinu
  • Leitin að örkinni
  • Er búið að finna örkina hans Nóa?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Flóðið mikla
    Biblíusögubókin mín
  • Átta manns lifa flóðið af
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Örkin hans Nóa séð með augum skipaverkfræðings
    Vaknið! – 2007
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.2. bls. 3-4

Flóðið ógleymanlega

FYRIR um það bil 4300 árum gekk gríðarlegt flóð yfir jörðina og færði allt í kaf. Í einu vetfangi afmáði það nálega allar lifandi verur. Svo magnað var flóðið að það skildi eftir óafmáanleg spor í sögu mannkynsins svo að sagan af flóðinu gekk mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð.

Um 850 árum eftir flóðið færði hebreski biblíuritarinn Móse frásöguna af heimsflóðinu í letur. Hún hefur varðveist í 1. Mósebók Biblíunnar þar sem lesa má lifandi og nákvæma lýsingu atburðarásarinnar í 6. til 8. kafla.

Frásaga Biblíunnar af flóðinu

Af lýsingu Biblíunnar á flóðinu er augljóst að það er sjónarvottur sem segir frá: „Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp. Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina. Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf.“ — 1. Mósebók 7:11, 17, 19.

Um áhrif flóðsins á lifandi verur segir Biblían: „Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn.“ Nói komst hins vegar af við áttunda mann, ásamt fulltrúum allra dýra-, fugla- og lífverutegunda sem hreyfast á jörðinni. (1. Mósebók 7:21, 23) Öll voru þau varðveitt í stórri, fljótandi örk sem var um 133 metra löng, 22 metra breið og 13 metra há. Þar eð eina hlutverk arkarinnar var að vera vatnsþétt og fljóta var hún flatbotna með þveran stafn og var hvorki búin stýri né neins konar drifbúnaði. Örkin hans Nóa var einfaldlega stórt, kassalaga skip.

Fimm mánuðum eftir að flóðið hófst settist örkin á Araratsfjöll sem nú tilheyra Austur-Tyrklandi. Nói og fjölskylda hans yfirgáfu örkina og stigu á þurrt land einu ári eftir að flóðið hófst, og tóku aftur upp venjubundna lifnaðarhætti. (1. Mósebók 8:14-19) Tíminn leið og fólkinu fjölgaði nóg til að hefja byggingu borgarinnar Babel og hins illræmda turns í nánd við Efratfljótið. Þaðan dreifðust menn svo smám saman út til allra heimshluta er Guð ruglaði tungumál mannkyns. (1. Mósebók 11:1-9) En hvað varð um örkina?

Leitin að örkinni

Síðan á nítjándu öld hefur oftsinnis verið reynt að finna örkina á Araratsfjöllum. Þar eru tveir aðaltindar, annar 5165 metra hár og hinn 3914 metra. Hærri tindurinn er snævi þakinn árið um kring. Sökum þeirra loftslagsbreytinga, sem fylgdu í kjölfar flóðsins, hlýtur örkin að hafa horfið undir snjó á skömmum tíma. Sumir trúa því statt og stöðugt að örkin sé enn á fjallinu, djúpt undir ísnum. Þeir segja að ísinn hafi stundum bráðnað nægilega til að örkin hafi að hluta til komið í ljós um stuttan tíma.

Bókin In Search of Noah’s Ark vitnar í orð Armena, er George Hagopian hét, sem sagðist hafa séð örkina er hann kleif Araratfjall árið 1902 og aftur árið 1904. Í fyrra sinnið sagðist hann hafa klifrað upp á sjálfa örkina. „Ég stóð uppréttur og sá yfir allt skipið. Það var langt. Á hæðina var það um fjörutíu fet [12 metrar].“ Um síðari för sína á fjallið sagði hann: „Ég sá eiginlega engar bogalínur. Þetta var ólíkt öllum öðrum skipum sem ég hef séð. Það leit frekar út eins og flatbotna prammi.“

Á árabilinu 1952 til 1969 gerði Fernand Navarra fjórar tilraunir til að finna merki um örkina. Í þriðju ferð sinni á Araratfjall kleif hann niður í sprungu í jöklinum þar sem hann fann svartan trébút fastan í ísnum. „Það hlýtur að hafa verið mjög langt,“ sagði hann, „og ef til vill enn fast við burðarvirki skipsins. Ég gat einungis skorið eins og lá í trénu uns ég náði um fimm feta [1,5 metra] löngum bút.“

Prófessor Richard Bliss, einn allmargra sérfræðinga sem rannsakaði tréð, sagði: „Trésýni Navarra er burðarbiti gegndreyptur bikkenndri hrátjöru. Hann er með sportappa og nót. Og hann er greinilega handhöggvinn og gerður ferningslaga.“ Tréð var áætlað um fjögur til fimm þúsund ára gamalt.

Hvað sem líður tilraunum til að finna örkina á Araratfjalli er hina óyggjandi sönnun fyrir því að hún hafi verið notuð til björgunar gegnum heimsflóðið mikla að finna í frásögn 1. Mósebókar af þeim atburði. Finna má staðfestingu þeirrar frásögu í hinum mörgu flóðsögum frumstæðra þjóða um allan heim. Við skulum líta á þann vitnisburð í næstu grein.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Burðargeta arkarinnar samsvaraði burðargetu 10 vöruflutningalesta með um það bil 25 vagna hver!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila