Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.2. bls. 5-8
  • Flóðið í þjóðsögum veraldar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Flóðið í þjóðsögum veraldar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Athyglisverð samsvörun
  • Fornar flóðsagnir
  • Sagnir frá Austurlöndum fjær
  • Sagnir frá Ameríku
  • Suður-Kyrrahaf og Asía
  • Sameiginlegur uppruni
  • Frásagan af Nóa og flóðinu mikla – er hún bara goðsögn?
    Biblíuspurningar og svör
  • Heill heimur leið undir lok!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Ferst heimurinn aftur í flóði?
    Lærum af kennaranum mikla
  • Leiðarbók Nóa — hefur hún einhverja þýðingu fyrir okkur?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.2. bls. 5-8

Flóðið í þjóðsögum veraldar

FLÓÐIÐ á dögum Nóa olli svo ógurlegri eyðingu að mannkynið gat aldrei gleymt því. Yfir 2400 árum síðar talaði Jesús Kristur um það sem sannsögulega staðreynd. (Matteus 24:37-39) Þessi ógnaratburður skildi eftir svo óafmáanleg spor í sögu mannkynsins að hann varð hluti af þjóðsögum manna um heim allan.

Í bókinni Myths of Creation áætlar Philip Freund að yfir 250 þjóðir og þjóðflokkar eigi sér yfir 500 þjóðsögur um flóðið. Eins og við er að búast hafa þessar þjóðsögur verið færðar stórlega í stílinn í aldanna rás og skreyttar ímynduðum persónum og atburðum. Eigi að síður má finna ákveðin, sameiginleg undirstöðuatriði í þeim öllum.

Athyglisverð samsvörun

Er menn fluttust búferlum frá Mesópótamíu eftir flóðið tóku þeir með sér frásagnir af þessum heimshamförum til allra heimshorna. Þannig eiga íbúar Asíu, Norður-Ameríku, Mið-Ameríku og eyjanna á Suður-Kyrrahafi sér munnmælasögur um þennan mikla atburð. Hinar mörgu sagnir um flóðið voru til komnar löngu áður en þetta fólk komst í kynni við Biblíuna. Þrátt fyrir það eru ýmis undirstöðuatriði þessara sagna sameiginleg með frásögn Biblíunnar af flóðinu.

Sumar sagnanna geta um ofbeldisfulla risa er bjuggu á jörðinni fyrir flóðið. Biblían gefur líka til kynna að fyrir flóðið hafi óhlýðnir englar gert sér efnislíkama af holdi, átt mök við konur og getið af sér kyn risavaxinna manna sem nefndir eru nefílím. — 1. Mósebók 6:1-4; 2. Pétursbréf 2:4, 5.

Flestar flóðsagnir gefa í skyn að einn maður hafi verið varaður við að koma myndi flóð af völdum Guðs. Að sögn Biblíunnar varaði Jehóva Guð Nóa við því að hann myndi eyða illum og ofbeldisfullum mönnum. Guð sagði Nóa: „Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni.“ — 1. Mósebók 6:13.

Sagnir um flóðið geta þess yfirleitt að það hafi haft í för með sé eyðingu um alla jörðina. Biblían segir það líka: „Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.“ — 1. Mósebók 7:19, 22.

Flestar flóðsagnir segja að maður hafi lifað flóðið af ásamt einum eða fleiri einstaklingum. Margar sagnanna segja hann hafa bjargast á báti, er hann hafði smíðað, og segja hann hafa tekið land á fjalli. Biblían segir líka að Nói hafi smíðað örk. Hún bætir við: „Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni.“ (1. Mósebók 6:5-8; 7:23) Að sögn Biblíunnar ‚nam örkin staðar á Araratsfjöllum‘ þar sem Nói og fjölskylda hans gengu á land. (1. Mósebók 8:4, 15-18) Sagnir geta þess einnig að þeir sem lifðu af flóðið hafi byrjað að auka kyn sitt til að byggja jörðina aftur mönnum, eins og Biblían segir að fjölskylda Nóa hafi gert. — 1. Mósebók 9:1; 10:1.

Fornar flóðsagnir

Við skulum hafa fyrrnefnd atriði í huga þegar við skoðum nokkrar af flóðsögnunum. Við skulum byrja á Súmerum, fornri þjóð er byggði Mesópótamíu. Útgáfa þeirra af flóðsögninni fannst á leirtöflu sem grafin var úr rústum Nippúr. Leirtaflan segir að guðirnir Anú og Enlíl hafi afráðið að eyða mannkyninu í miklu flóði, en með því að guðinn Enkí varaði Siúsúdra og fjölskyldu hans við komust þau undan á stórum báti.

Babýlonska söguljóðið um Gilgames greinir frá ýmsum smáatriðum. Það segir frá heimsókn Gilgames til forföður síns, Útnapistíms sem veitt hafði verið eilíft líf eftir að hann lifði flóðið af. Í samræðum þeirra segir Útnapistím frá því að honum hafi verið sagt að smíða skip og fara með nautgripi, villidýr og fjölskyldu sína á skipsfjöl. Hann smíðaði skipið eins og stóran tening, 60 metra á kant, með sex þilförum. Hann segir Gilgames að stormurinn hafi staðið í sex daga og sex nætur og segir svo: „Er sjöundi dagurinn rann upp slotaði fárviðrinu og flóðinu, sem hafði skollið á eins og óvænt árás, og áfall orrustunnar leið hjá. Sjórinn varð sléttur, stormsveipurinn gekk niður og flóðinu linnti. Ég leit yfir hafið og hljómur raddanna var þagnaður. Og allt mannkynið var orðið að leir.“

Eftir að skipið tók niðri á Nisírfjalli sleppti Útnapistím dúfu sem sneri aftur til skipsins er hún fann engan hvíldarstað. Því næst sleppti hann svölu og allt fór á sömu leið. Loks sleppti hann hrafni og þegar hann kom ekki aftur vissi Útnapistím að flóðið hafði rénað. Hann sleppti þá dýrunum og færði fórn.

Þessi ævaforna sögn er að ýmsu leyti keimlík frásögn Biblíunnar af flóðinu. Hana skortir þó hin lifandi smáatriði og einfaldleik þeirrar sögu sem Biblían segir, og hvorki er stærð arkarinar raunhæf né rétt tilgreind sú tímalengd sem Biblían segir frá. Til dæmis segir í söguljóðinu um Gilgames að stormurinn hafi staðið í sex daga og sex nætur en Biblían segir aftur á móti að ‚steypiregn hafi dunið yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur‘ — linnulaust úrfelli sem loks færði alla jörðina í kaf. — 1. Mósebók 7:12.

Þótt Biblían segi að átta manns hafi lifað af flóðið minnist grísk sögn aðeins á Devkalíon og Pýrru, konu hans. (2. Pétursbréf 2:5) Gríska sögnin segir að jörðin hafi, fyrir flóðið, verið byggð ofbeldisfullum mönnum sem kallaðir voru bronsmennirnir. Guðinn Seifur ákvað að eyða þeim í miklu flóði og sagði Devkalíon að smíða stóra kistu og fara ofan í hana. Er flóðinu linnti settist kistan á Parnassusfjall. Devkalíon og Pýrra gengu af fjallinu og komu mannkyninu af stað á ný.

Sagnir frá Austurlöndum fjær

Á Indlandi er til flóðsögn þar sem maðurinn Manú lifir af. Hann vingast við smáfisk sem vex upp í stórfisk og varar hann við miklu eyðingarflóði. Manú smíðar bát sem fiskurinn dregur á eftir sér uns hann strandar á fjalli í Himalajafjöllum. Er flóðið sjatnar gengur Manú af fjallinu og endurnýjar mannkynið með Ídu, persónugervingi fórnar sinnar.

Samkvæmt kínversku flóðsögninni gefur þrumuguðinn tveim börnum, þeim Núva og Fúxí, tönn. Hann segir þeim að gróðursetja hana og leita skjóls í stóru graskeri er vaxa muni af henni. Tré vex hratt af tönninni og á því stórt grasker. Þegar þrumuguðinn lætur koma úrfelli klifra börnin inn í graskerið. Flóðið, sem af hlýst, drekkir öllum öðrum jarðarbúum en Núva og Fúxí bjargast og byggja heiminn mönnum á ný.

Sagnir frá Ameríku

Indíánar Norður-Ameríku hafa ýmsar sagnir sem er það sameiginlegt að flóð tortímir öllum nema fáeinum einstaklingum. Til dæmis segja Aríkara-indíánar, sem eru af ættbálki Kaddó-indíána, að jörðin hafi einu sinni verið byggð svo sterkri þjóð að hún hafi gert gys að guðunum. Guðinn Nesarú eyddi þessu risum í flóði en verndaði sína þjóð, dýrin og maís í helli. Havasúpaí-indíánar segja að guðinn Hókómata hafi valdið flóði sem eyddi mannkyninu. Maðurinn Tókópa bjargaði hins vegar dóttur sinni Púkehe með því að loka hana inni í holum trjábol.

Meðal indíána í Mið- og Suður-Ameríku er að finna flóðsagnir sem eru áþekkar í megindráttum. Mayar í Mið-Ameríku trúðu að mikill regnsnákur hefði eytt heiminum í vatnsflóði. Útgáfa Simalpópóka í Mexíkó segir að flóð hafi fært fjöllin í kaf. Guðinn Teskatlipóka varaði manninn Nata við sem holaði trjábol að innan þar sem hann og kona hans, Nena, leituðu skjóls uns vatnið sjatnaði.

Sintsja-menn í Perú eiga sér sögn um fimm daga flóð sem eyddi öllum mönnum nema einum sem talandi lamadýr leiddi á öruggan stað á fjalli uppi. Ajmarar í Perú og Bólivíu segja að guðinn Vírakotsja hafi komið upp úr Títíkaka-vatni og skapað heiminn og óvenjustóra og sterka menn. Þetta fyrsta mannkyn reitti Vírakotsja til reiði og hann eyddi því í flóði.

Túpínamba-indíánar í Brasilíu tala um þann tíma en mikið flóð drekkti öllum forfeðrum þeirra nema þeim sem komust undan í eintrjáningum eða uppi í hávöxnum trjám. Kashínáar í Brasilíu, Makúsíar í Gvajana, Karíbar í Mið-Ameríku og Ónar og Jaganar í Tierra del Fugero í Suður-Ameríku eru meðal þeirra ættkvísla sem eiga sér flóðsagnir.

Suður-Kyrrahaf og Asía

Út um eyjar Suður-Kyrrahafsins eru sagnir algengar um flóð sem fáeinir lifðu af. Til dæmis er til sögn á Samóaeyjum um flóð endur fyrir löngu sem eyddi öllum nema Pilí og konu hans. Þau leituðu hælis á kletti og eftir flóðið fjölguðu þau mannkyninu á ný. Á Havajieyjum reiddist guðinn Kane mönnunum og sendi flóð til að eyða þeim. Núʹú einn komst undan á stórum báti sem loks tók niðri á fjalli.

Á Mindanaó, sem er hluti Filippseyja, segja Ata-menn að jörðin hafi einu sinni verið hulin vatni og öllum verið eytt nema tveim karlmönnum og konu. Ibanar í Saravak á Borneó segja að einungis fáeinir menn hafi komist undan flóði með því að flýja upp á hæstu hæðir. Í sögn Igorota á Filippseyjum lifðu ein systkini af með því að leita hælis á Pókisfjalli.

Soyotar í Síberíu segja að risafroskur, sem jörðin hvíldi á, hafi hreyft sig og valdið því að allt fór í kaf. Gamall maður og fjölskylda hans björguðust á fleka sem hann hafði smíðað. Er flóðið rénaði settist flekinn uppi á háu fjalli. Úgríar í Vestur-Síberíu og Ungverjalandi segja einnig að þeir sem lifðu flóðið af hafi notað fleka en rekið til ýmissa heimshluta.

Sameiginlegur uppruni

Hvað getum við ályktað út frá þessum mörgu flóðsögnum? Þótt mikill munur sé á þeim er sumt sameiginlegt með þeim og það bendir til þess að þær eigi rætur sínar að rekja til ógleymanlegs heimsflóðs. Þótt sagnirnar hafi tekið ýmsum litbrigðum í aldanna rás er grunntónninn í þeim eins og þráður sem tengir þær einum, miklum atburði — heimsflóðinu sem sagt er frá í hinni einföldu, ólituðu frásögu Biblíunnar.

Úr því að flóðsagnir finnast yfirleitt meðal þjóða og þjóðflokka sem komust ekki í snertingu við Biblíuna fyrr en á síðustu öldum væri vitleysa að halda því fram að frásögn Biblíunnar hafi haft áhrif á þær. Auk þess segir The International Standard Bible Encyclopedia: „Hin mikla útbreiðsla flóðsagnanna er almennt skoðuð sem merki um allsherjareyðingu mannkynsins í flóði . . . Auk þess voru sumar hinna fornu frásagna skrifaðar af þjóðum sem voru mjög svo andsnúnar hinni hebresk-kristnu hefð.“ (2. bindi, bls. 319) Við getum því ályktað með góðri vissu að flóðsagnirnar staðfesti að frásaga Biblíunnar styðjist við raunsanna atburði.

Við búum í heimi sem er fullur af siðleysi og ofbeldi og það er því hyggilegt af okkur að lesa frásögn Biblíunnar af flóðinu í 6. til 8. kafla 1. Mósebókar. Ef við ígrundum ástæðuna fyrir heimsflóðinu — hin óguðlegu verk fyrir augliti Guðs — munum við sjá flóðið sem alvarlega aðvörun.

Bráðlega mun hið óguðlega heimskerfi, sem nú er, þurfa að taka út óhagstæðan dóm af hendi Guðs. Til allrar hamingju munu þó sumir lifa hann af. Þú getur orðið einn þeirra ef þú tekur til þín áminningu og hvatningu Péturs: „Vatnsflóðið [gekk] yfir þann heim, sem þá var [á dögum Nóa], svo að hann fórst. En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast. . . . Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ — 2. Pétursbréf 3:6-12.

Ætlar þú að hafa nálægð þessa dags Jehóva fast í huga? Ef þú gerir það og breytir í samræmi við vilja Guðs, þá munt þú njóta mikillar blessunar. Þeir sem þóknast þannig Jehóva Guði geta haft trú á þann nýja heim sem Pétur talar um er hann bætir við: „En eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Babýlonsku flóðsagnirnar bárust mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Tekur þú til þín aðvörun Péturs með því að hafa dag Jehóva fast í huga?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila