Fögnum nýjum frelsisheimi Guðs
„[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — OPINBERUNARBÓKIN 21:4.
1, 2. Hver einn getur veitt ósvikið frelsi og hvað lærum við um hann af Biblíunni?
SAGAN hefur sýnt fram á sannleiksgildi þess sem spámaðurinn Jeremía sagði: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Hver einn getur stýrt skrefum mannsins rétt? Jeremía hélt áfram: „Leiðréttu mig, ó Jehóva.“ (Jeremía 10:23, 24, NW) Já, einungis Jehóva getur veitt raunverulegt frelsi undan þeim vandamálum sem þjaka mannkynið.
2 Biblían kemur með mörg dæmi um hæfni Jehóva til að færa þeim sem þjóna honum frelsi. „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Dómar Jehóva yfir falskri guðsdýrkun voru líka skráðir og þeir eru „til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:11.
Guð frelsar þjóna sína
3. Hvernig sýndi Jehóva hæfni sína til að frelsa þjóð sína í Egyptalandi?
3 Sem dæmi um hæfni Guðs til að fullnægja dómi á falskri guðsdýrkun og frelsa þá sem gera vilja hans má nefna það sem gerðist þegar þjónar hans til forna voru þrælar í Egyptalandi. Önnur Mósebók 2:23-25 segir: „Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs. Og Guð heyrði andvarpanir þeirra.“ Alvaldur Guð sýndi yfirburði sína á falsguðum Egyptalands í ægiþrungnu sjónarspili er hann lét tíu plágur koma yfir þjóðina. Hver plága var til þess gerð að niðurlægja einhvern guð Egyptalands og sýna fram á að þessir guðir voru falskir og gátu ekki hjálpað Egyptunum sem dýrkuðu þá. Þannig frelsaði Guð þjóð sína og eyddi Faraó og her hans í Rauðahafinu. — 2. Mósebók 7. til 14. kafli.
4. Hvers vegna var það ekki ranglátt af Guði að fullnægja dómi sínum á Kanverjum?
4 Þegar Guð leiddi Ísraelsmenn inn í Kanaanland var djöfladýrkendunum, sem bjuggu þar, útrýmt og landið gefið þjóð Guðs. Sem drottinvaldur alheimsins hefur Jehóva rétt til að fullnægja dómi sínum á spilltum trúarbrögðum. (1. Mósebók 15:16) Halley’s Bible Handbook segir um trú Kanverja: „Tilbeiðsla . . . kanverskra guða fólst í yfirgengilegasta kynsvalli; musteri þeirra voru spillingarbæli. . . . Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum sem helgiathöfn frammi fyrir þeim; og síðan með því að myrða frumgetin börn sín að fórn handa þessum sömu guðum. Svo virðist sem Kanaanland hafi að verulegu leyti orðið eins konar Sódóma og Gómorra á landsvísu.“ Höfundur bætir við: „Átti siðmenning, er einkenndist af jafnviðurstyggilegum sora og grimmd, sér nokkurn tilverurétt lengur? . . . Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“
5. Hvernig er það fyrirmynd um okkar tíma að Guð skyldi frelsa þjóna sína til forna?
5 Þessi frásaga um hvernig Guð lét til skarar skríða gegn falskri guðsdýrkun og frelsaði sáttmálaþjóð sína og gaf henni land, sem hann hafði heitið, var fordæmi þess sem koma skyldi. Það vísar til þess þegar Guð mun í mjög náinni framtíð útrýma öllum fölskum trúarbrögðum og stuðningsmönnum þeirra og leiða nútímaþjóna sína inn í nýjan heim þar sem réttlæti býr. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 13, 14; 2. Pétursbréf 3:10-13.
Ósvikið frelsi í nýjum heimi Guðs
6. Nefndu sumt af því stórkostlega frelsi sem Guð mun veita í nýja heiminum.
6 Í þessum nýja heimi mun Guð blessa þjóna sína með öllum þeim dásemdum þess frelsis sem hann fyrirhugar mannkyninu. Þar verður frelsi undan kúgun pólitískra og efnahagslegra afla og falstrúarafla. Þar verður frelsi undan synd og dauða og fólk mun eiga fyrir sér eilíft líf á jörð. „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29; Matteus 5:5.
7, 8. Hvað munu menn fá að reyna þegar þeir öðlast fullkomna heilsu í nýja heiminum?
7 Skömmu eftir að nýi heimurinn gengur í garð verður íbúum hans lyft með kraftaverki upp til stórkostlegrar hreysti og heilbrigðis. Jobsbók 33:25 segir: „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ Jesaja 35:5, 6 lofar: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“
8 Þau ykkar sem eru þjáð vegna elli eða bágrar heilsu, ímyndið ykkur að þið séuð í nýja heiminum og vaknið hvern dag hraust og þróttmikil. Hrukkurnar hafa vikið fyrir sléttri, heilbrigðri húð — engin þörf er á húðkremi lengur. Dauf sjón eða blind augu hafa fengið fullkomna sjón á ný — enginn þarf gleraugu framar. Menn hafa fengið fullkomna heyrn á ný — hendið frá ykkur heyrnartækjunum. Bæklaðir limir eru nú sterkir og heilir — losið ykkur við göngustafi, hækjur og hjólastóla. Enginn er veikur framar — hendið frá ykkur öllum lyfjunum. Því spáir Jesaja 33:24: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ Hann segir einnig: „Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ — Jesaja 35:10.
9. Hvernig verður bundinn eilíflega endi á stríð?
9 Engum verður fórnað í stríði framar. „[Guð] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ (Sálmur 46:10) Konungur Guðsríkis, Kristur Jesús sem Jesaja 9:6 kallar ‚Friðarhöfðingja,‘ mun aldrei leyfa stríðsvopn framar. Vers 7 bætir við: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“
10, 11. Hvað mun alger friður þýða fyrir jörðina?
10 Hvílík blessun verður það fyrir mannkynið og jörðina að verða alveg laus við öll stríðsvopn, því að allt fram á okkar dag eru vopn, sem notuð voru í styrjöldum fortíðar, að drepa fólk. Í einu landi, Frakklandi, hafa yfir 600 sprengjusérfræðingar látist frá 1945 við það að reyna að gera sprengiefni fyrri stríða óvirk. Yfirmaður sprengjueyðinga í Frakklandi sagði: „Við erum enn að finna virkar fallbyssukúlur úr fransk-prússneska stríðinu árið 1870. Til eru stöðuvötn full af eitruðum handsprengjum úr fyrri heimsstyrjöldinni. Öðru hverju ekur bóndi á dráttarvél yfir jarðsprengju úr síðari heimsstyrjöldinni, ætlaðri til að granda skriðdrekum, og springur í loft upp. Þetta dót er út um allt.“ Dagblaðið The New York Times sagði fyrir tveim árum: „Á þeim 45 árum, sem liðin eru frá síðari heimsstyrjöldinni, hafa [sprengjueyðingasveitir] fjarlægt úr [franskri] jörð 16 milljónir sprengikúlna, 490.000 sprengjur og 600.000 tundurdufl. . . . Milljónir [hektara] eru enn afgirtar með hnédjúpt lag af vopnum og umkringdar skiltum sem aðvara: ‚Snertið ekki. Lífshætta.‘“
11 Nýi heimurinn verður sannarlega ólíkur. Allir munu hafa góð húsakynni, kappnóga fæðu og það umbunarríka og friðsæla starf að breyta allri jörðinni í paradís. (Sálmur 72:16; Jesaja 25:6; 65:17-25) Aldrei aftur mun sprengjum rigna í milljónatali yfir mennina og jörðina. Það var slíkur nýr heimur sem Jesús hafði í huga er hann sagði við mann sem lét í ljós trú á hann: ‚Þú munt vera með mér í paradís.‘ — Lúkas 23:43.
Menntun til lífs
12, 13. Hvaða fræðslustarf sögðu Jesús og Jesaja fyrir á okkar tímum?
12 Þegar einhver lærir um nýjan heim Guðs lærir hann líka að á okkar dögum hefur Jehóva myndað skipulegan heimssöfnuð helgaðan sannri guðsdýrkun. Hann verður kjarni nýja heimsins og Guð notar hann núna til að fræða aðra um tilgang sinn. Þetta kristna skipulag vinnur að fræðslustarfi um allan heim sem er að eðli og umfangi ólíkt öllu öðru sem gert hefur verið áður. Jesús sagði fyrir að þetta yrði gert. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
13 Jesaja talaði líka um þetta fræðslustarf á heimsmælikvarða: „Það skal verða á hinum síðustu dögum [á okkar tímum], að fjall það, er hús [Jehóva] [hin hátt upphafna hreina tilbeiðsla] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi . . . og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ — Jesaja 2:2, 3.
14. Hvernig getum við þekkt þjóna Guðs nú á tímum?
14 Vitnisburðurinn um Guðsríki út um víða veröld er því eindregin sönnun fyrir því að við lifum við endalok þessa illa heimskerfis og að hið sanna frelsi sé í nánd. Þeim sem heimsækja fólk og færa því vonarboðskapinn um nýjan heim Guðs er lýst í Postulasögunni 15:14 sem ‚lýð er ber nafn Guðs.‘ Hverjir bera nafn Jehóva og vitna um Jehóva og ríki hans um víða veröld? Saga 20. aldarinnar svarar: einungis vottar Jehóva. Þeir eru nú yfir fjórar milljónir talsins í liðlega 66.000 söfnuðum um allan heim. — Jesaja 43:10-12; Postulasagan 2:21.
15. Hvernig getum við þekkt sanna þjóna Guðs í tengslum við stjórnmál?
15 Önnur sönnun þess að vottar Jehóva uppfylli spádómana um þessa prédikun Guðsríkis er nefnd í Jesaja 2:4. „Og [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Þeir sem prédika ríki Guðs um allan heim mega því ‚ekki temja sér hernað framar.‘ Jesús sagði að þeir mættu ‚ekki vera af heiminum.‘ (Jóhannes 17:16) Það merkir að þeir verða að vera hlutlausir í stjórnmálum og ekki taka afstöðu í deilum og stríðum þjóðanna. Hverjir eru ekki af heiminum og temja sér ekki hernað framar? Enn svarar saga 20. aldar: einungis vottar Jehóva.
16. Hve rækilegt verður fræðslustarf Guðs um allan heim?
16 Fræðslustarf votta Jehóva um allan heim mun jafnvel halda áfram eftir að Guð bindur enda á þann illa heim sem nú er. Jesaja 54:13 segir: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva].“ Svo rækileg verður þessi kennsla að Jesaja 11:9 segir fyrir: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ Bæði þeir sem lifa af endalok þessa gamla heims og börn sem kunna að fæðast í nýja heiminum munu þarfnast áframhaldandi kennslu, og eins þeir milljarðar manna sem lifna munu í upprisunni. Að lokum mun sérhverjum manni, sem lifir á jörðinni, verða kennt hvernig hann á að beita frjálsum vilja sínum á réttan hátt innan þess ramma sem lög Guðs setja. Og hver verður árangurinn? „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.
Mikið frelsi nú þegar
17. Hvað sagði Móse þjóð Guðs til forna að gera?
17 Þegar Ísraelsmenn til forna stóðu á þröskuldi fyrirheitna landsins talaði Móse til þeirra og sagði: „Ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og [Jehóva] Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: ‚Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð.‘ Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og [Jehóva] Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann?“ — 5. Mósebók 4:5-7.
18. Hvaða stórkostlegt frelsi hljóta þeir nú þegar sem þjóna Guði?
18 Þær milljónir manna, sem tilbiðja Jehóva, standa líka á þröskuldi fyrirheitins lands — nýja heimsins. Með því að þeir hlýða lögum Guðs eru þeir nálægir honum og skera sig úr öllum öðrum mönnum. Guð hefur nú þegar frelsað þá úr fjötrum falstrúarhugmynda, kynþáttastefnu, fíkniefnaneyslu, þjóðernishyggju, styrjalda og farsóttar samræðissjúkdóma. Enn fremur hefur hann sameinað þá órjúfanlegum kærleiksböndum í alþjóðlegu bræðrafélagi. (Jóhannes 13:35) Þeir eru ekki uggandi út af framtíðinni heldur „fagna af hjartans gleði.“ (Jesaja 65:14) Þeir njóta stórkostlegs frelsis nú þegar vegna þess að þeir þjóna Guði sem stjórnanda. — Postulasagan 5:29, 32; 2. Korintubréf 4:7; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
Aðrir frelsaðir úr fjötrum falstrúar
19, 20. Hvernig frelsar kenning Biblíunnar um ástand hinna dauðu fólk?
19 Margir sem vottar Jehóva prédika fyrir eru líka að finna þetta frelsi. Í löndum þar sem forfeðradýrkun er stunduð eru sannir tilbiðjendur Guðs til dæmis að kenna einlægu fólki að hinir dánu séu hvergi á lífi og geti ekki unnið tjón þeim sem lifandi eru. Vottar Jehóva benda á Prédikarann 9:5 þar sem segir að ‚þeir sem lifa viti að þeir eiga að deyja en hinir dauðu viti ekki neitt.‘ Þeir benda líka á Sálm 146:4 sem segir samkvæmt orðalagi Nýheimsþýðingarinnar að þegar maðurinn deyi ‚hverfi hann aftur til jarðarinnar; á þeim degi verði hugsanir hans að engu.‘ Biblían sýnir þannig að það sé enginn vofukenndur andi eða ódauðleg sál til sem getur læknað hina lifandi eða skelft þá. Það er því alger óþarfi að sóa peningum, sem búið er að afla með striti og erfiði, í að kaupa sér þjónustu galdralækna eða presta.
20 Slík nákvæm biblíuþekking frelsar fólk úr fjötrum falskenninga um helvítiseld og hreinsunareld. Þegar því menn læra frá Biblíunni að hinir dánu séu meðvitundarlausir, eins og í djúpum svefni, þá gera þeir sér ekki lengur áhyggjur af því hvað orðið sé um látna ástvini þeirra. Þess í stað hlakka þeir til þess stórkostlega tíma sem Páll postuli talaði um er hann sagði: ‚Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ — Postulasagan 24:15.
21. Hverjir verða vafalaust í hópi hinna upprisnu og hver verða líklega viðbrögð þeirra?
21 Í upprisunni verða hinir dánu reistir upp til að lifa á jörð þar sem hinn arfgengi dauði frá Adam verður að eilífu horfinn. Enginn vafi leikur á að meðal þeirra sem vaktir verða til lífs verða börn sem fórnað var Mólok, ungir menn sem fórnað var guðum Asteka og ótaldar milljónir sem fórnað hefur verið stríðsguðinum. Þessi fyrrverandi fórnarlömb falskra trúarhugmynda verða sannarlega undrandi og glöð. Þessir upprisnu einstaklingar geta þá sagt með hamingjuhreim: „Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel?“ — Hósea 13:14.
Leitaðu Jehóva
22. Hvað verðum við að hafa í huga ef við viljum lifa í nýjum heimi Guðs?
22 Langar þig til að lifa í réttlátum nýjum heimi Guðs þar sem ríkja mun ósvikið frelsi? Ef svo er, þá skalt þú taka til þín orðin í 2. Kroníkubók 15:2: „[Jehóva] er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ Og hafðu hugfast að einlæg viðleitni þín til að kynnast Guði og þóknast honum mun ekki fara fram hjá honum. Hebreabréfið 11:6 segir að Guð „umbuni þeim, er hans leita.“ Og Rómverjabréfið 10:11 segir: „Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.“
23. Hvers vegna ættum við að fagna nýjum frelsisheimi Guðs?
23 Nýr heimur ósvikins og varanlegs frelsis er rétt við sjóndeildarhring. Þar mun ‚jafnvel sjálf sköpunin verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ Og Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Rómverjabréfið 8:21; Opinberunarbókin 21:4) Þá munu allir þjónar Jehóva lyfta höfðum sínum og fagna nýjum frelsisheimi Guðs með því að hrópa upp yfir sig: ‚Við þökkum þér, Jehóva, að loksins skuli komið raunverulegt frelsi!‘
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig sýndi Jehóva að hann gæti frelsaði þjóna sína?
◻ Hvaða stórkostlegt frelsi mun ríkja í nýja heiminum?
◻ Hvernig er Jehóva að mennta þjóna sína fyrir lífið?
◻ Nefndu nokkra þætti þess frelsis sem þjónar Guðs njóta nú þegar vegna þess að þeir þjóna honum.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jehóva sýndi sig ofjarl falsguða Egypta og frelsaði tilbiðjendur sína.
[Myndir á blaðsíðu 12, 13]
Nú á tímum þekkjast sannir þjónar Guðs á því að þeir vinna fræðslustarf hans um allan heim og bera nafn hans.