Kynslóðin frá 1914 — hvers vegna þýðingarmikil?
„Lesendur okkar vita að um árabil höfum við búist við því að þessu tímaskeiði lyki með ógurlegum erfiðleikatíma, og við væntum þess að hann brjótist skyndilega út og af krafti ekki löngu eftir október 1914.“ — Úr The Watch Tower and Herald of Christ’s Presence, 15. maí 1911.
FRÁ 1879 hefur tímaritið, sem þá var kallað The Watch Tower and Herald of Christ’s Presence (nú þekkt á íslensku sem Varðturninn kunngerir ríki Jehóva) oft bent á að spádómar Biblíunnar hafi vísað sérstaklega á árið 1914. Er nær dró þessu ári voru lesendur blaðsins minntir á að búast mætti við ‚ógurlegum erfiðleikatímum.‘
Kristnir menn komu þessum upplýsingum á framfæri vítt og breitt og þeir byggðu þær á skilningi sínum á ‚tíðunum sjö‘ og ‚tímum heiðingjanna‘ sem nefndir eru í Biblíunni.a Þeir skildu það svo að þetta tímabil ætti að vera 2520 ára langt — hafi hafist þegar hinu forna ríki Davíðs í Jerúsalem var kollvarpað og myndi ljúka í október árið 1914.b — Daníel 4:16, 17; Lúkas 21:24.
Þann 2. október árið 1914 tilkynnti Charles Taze Russell, þáverandi forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, djarfmannlega: „Heiðingjatímarnir eru liðnir; konungarnir eru búnir með sína stjórnartíð.“ Hann reyndist svo sannarlega hafa rétt fyrir sér. Óséð augum manna átti sér stað mikilvægur atburður á himnum í október 1914 sem skók heiminn. Jesús Kristur, hinn varanlegi erfingi ‚hásætis Davíðs,‘ hóf stjórn sína sem konungur yfir öllu mannkyni. — Lúkas 1:32, 33; Opinberunarbókin 11:15.
‚En,‘ spyrð þú kannski, ‚hvers vegna versnaði þá ástandið á jörðinni ef Kristur byrjaði að stjórna árið 1914?‘ Vegna þess að ósýnilegur óvinur mannkynsins, Satan, var enn til. Fram til 1914 hafði Satan aðgang að himnum. Það breyttist þegar Guðsríki var sett á stofn árið 1914. „Þá hófst stríð á himni.“ (Opinberunarbókin 12:7) Satan og illir andar hans voru yfirbugaðir og varpað niður til jarðar með skelfilegum afleiðingum fyrir mannkynið. Biblían sagði fyrir: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:12.
Á fyrstu öld okkar tímatals sagði Jesús að ósýnileg nærvera hans sem nýr konungur jarðar myndi einkennast af sýnilegum táknum. Hann var spurður: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Svar hans var: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ — Matteus 24:3, 7, 8.
Í samræmi við þetta fylgdi alvarlegur matvælaskortur í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar því að eðlileg matvælaframleiðsla fór úr skorðum í meira en fjögur ár. Hvað um ‚jarðskjálfta á ýmsum stöðum‘? Á áratugnum eftir 1914 fórust yfir 350.000 manns í ekki færri en tíu alvarlegum jarðskjálftum. (Sjá rammann.) Kynslóðin frá 1914 fann svo sannarlega fyrir ‚upphafi fæðingarhríðanna.‘ Og alla tíð síðan hafa ‚fæðingarhríðirnar‘ gengið reglulega yfir í mynd náttúruhamfara, hungursneyðar og ótal styrjalda.
Engu að síður eru fréttirnar um hið stofnsetta ríki Guðs árið 1914 góðar fréttir vegna þess að þetta ríki mun bjarga þessari jörð frá gereyðingu. Hvernig? Það mun útrýma öllum fölskum, hræsnisfullum trúarbrögðum, spilltum stjórnum og illum áhrifum Satans. (Daníel 2:44; Rómverjabréfið 16:20; Opinberunarbókin 11:18; 18:4-8, 24) Enn fremur mun það innleiða nýjan heim þar sem „réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.
Skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina tóku Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru þá kallaðir, að gera sér grein fyrir sérréttindum sínum varðandi annan þátt táknsins um nærveru Jesú sem konungur. Jesús Kristur sagði fyrir: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
Frá hinni smáu byrjun árið 1919 hafa vottar Jehóva haldið linnulaust áfram að útbreiða ‚fagnaðarerindið‘ með þeim árangri að nú er verið að safna saman milljónum manna frá meira en 200 löndum sem þegnum Guðsríkis. Og blessunin, sem þessir þegnar eiga í vændum, er ekki lítil. Guðsríki mun uppræta styrjaldir, matvælaskort, glæpi og kúgun. Það mun jafnvel sigrast á sjúkdómum og dauða! — Sálmur 46:10; 72:7, 12-14, 16; Orðskviðirnir 2:21, 22; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Áður en kynslóðin frá 1914 hverfur af sjónarsviðinu verður prédikun Guðsríkis búin að ná tilgangi sínum. „Þá,“ sagði Jesús, „verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ — Matteus 24:21, 22.
Gerðu ekki þau mistök sem kynslóðin fyrir 1914 gerði. Heimurinn mun ekki halda áfram eins og hann er núna. Ótrúlegar breytingar eru framundan. Fyrir þá sem taka viturlega afstöðu eru framtíðarhorfurnar stórkostlegar.
Hlustaðu því á orð spámannsins til forna: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ (Sefanía 2:3) Hvernig getum við fylgt þessu ráði? Greinarnar á eftir hjálpa okkur að fá svar við því.
[Neðnamáls]
a Titilsíða Scenario of the Photo-Drama of Creation, 1914.
b Nánari upplýsingar er að finna í 16. kafla bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Tafla á blaðsíðu 7]
Jarðskjálftar á áratugnum eftir 1914
Tími: Staður: Látnir:
13. janúar 1915 Avezzanó, Ítalíu 32.600
21. janúar 1917 Bali, Indónesíu 15.000
13. febrúar 1918 Kwangtung-hérað, Kína 10.000
11. október 1918 Púertóríkó (vesturhluti) 116
3. janúar 1920 Veracruz, Mexíkó 648
7. september 1920 Reggio di Calabria, Ítalíu 1.400
16. desember 1920 Ningsia-hérað, Kína 200.000
24. mars 1923 Szechwan-hérað, Kína 5.000
26. maí 1923 Íran (norðausturhluti) 2.200
1. september 1923 Tókíó-Yókóhama, Japan 99.300
Byggt á töflunni „Mestu jarðskjálftar heims“ í bókinni Terra Non Firma, eftir James M. Gere og Haresh C. Shah.