Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.12. bls. 5-7
  • Hvernig getur fagnaðarerindið orðið þér til góðs?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig getur fagnaðarerindið orðið þér til góðs?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fólk sem fagnaðarerindið hjálpaði
  • Hvað merkir fagnaðarerindið nú á dögum?
  • Máttur fagnaðarerindisins nú á tímum
  • Blessun sem er framundan
  • Flytjið gleðitíðindi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Hvert er fagnaðarerindið í raun og veru?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Gleðitíðindi
    Syngjum af gleði fyrir Jehóva
  • Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.12. bls. 5-7

Hvernig getur fagnaðarerindið orðið þér til góðs?

BIBLÍAN er mikils metin sem bókmenntaverk — jafnvel meðal guðleysingja. Fáir lesa hana hins vegar til að nota það sem hún segir. Enn fremur er fagnaðarerindið, sem hún inniheldur, nálega tvö þúsund ára gamalt og margir virðast þar af leiðandi halda að það beri að færa það í nútímabúning, gera það nýtískulegra. Er fagnaðarerindið gamaldags eða úrelt? Alls ekki.

Karlar og konur, ungir og aldnir í milljónatali vita að Biblían er ómetanlegt hjálpargagn. Það kemur heim og saman við formálsorð biblíuþýðingarinnar Today’s English Version: „Biblían er ekki bara mikið bókmenntaverk sem ber að virða og sýna lotningu; hún er fagnaðarerindi handa fólki alls staðar — boðskapur sem ber bæði að skilja og nota í daglegu lífi.“

Hvaða þýðingu hefur fagnaðarerindið fyrir þig? Notar þú það sem leiðarvísi í daglegu lífi? Líttu á hvernig fagnaðarerindið varð til góðs sumum sem hlustuðu á það á fyrstu öldinni og hvernig sumir hafa notið góðs af því á okkar tímum.

Fólk sem fagnaðarerindið hjálpaði

Á dögum Jesú löðuðust einstaklingar, svo sem önnum kafnir fiskimenn og húsmæður, að fagnaðarerindinu og kynntust sannleikanum um tilgang Guðs með manninn. Fagnaðarerindið gerbreytti lífi þeirra og varð þeim oft mikill léttir. Tökum dæmi: María Magdalena losnaði úr fjötrum illra anda. Sakkeus, fyrrum yfirtollheimtumaður, sneri baki við ágirnd sem ráðið hafði lífi hans. (Lúkas 8:2; 19:1-10) Blindum og holdsveikum var hjálpað er þeir komu til Jesú, hans sem prédikaði fagnaðarerindið. (Lúkas 17:11-19; Jóhannes 9:1-7) Jesús gat réttilega sagt: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ — Matteus 11:5.

Þótt það væri mikils virði að læknast af meinum sínum skipti þó enn meira máli hvernig fagnaðarerindið breytti mörgum þessara bágstöddu einstaklinga. Hjartahreinir menn fylltust örvandi framtíðarvon. Þeir settu traust sitt á ríki Guðs — sem var langtum betra en eitthvert þjóðfélagslegt fagnaðarerindi. (Matteus 4:23) Vonir þeirra brustu ekki við dauða Jesú. Postulasagan 5:42 lýsir hvernig lærisveinar Jesú störfuðu jafnvel eftir þann atburð: „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ Á fyrstu öld fékk fólk víða um lönd andlega hjálp vegna þess að það brást jákvætt við slíkri prédikun.

Tíðindin um Guðsríki voru bestu fréttir þess tíma. Eru þau enn góðar fréttir?

Hvað merkir fagnaðarerindið nú á dögum?

Ef þú þráir friðsælan og öruggan heim, þá eru tíðindin um Guðsríki tvímælalaust góð. Í heimi þar sem hundruð milljóna manna eru vannærð og svelta, þar sem skelfilegir sjúkdómar ógna öllum, þar sem glæpir aukast með ógnvekjandi hraða og þar sem óstöðugleiki á vettvangi stjórnmálanna verður æ útbreiddari eru þau einu raunverulegu og varanlegu gleðifréttirnar. Fagnaðarerindið er eina vonin um að ástand heimsmála batni í raun og veru.

Þess vegna spáði Jesús um okkar daga: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessi orð eru að rætast á eftirtektarverðan hátt með prédikun votta Jehóva í meira en 200 löndum. Kaþólskt rit, Nova Evangelização 2000, hrósar vottunum fyrir það og segir: „Hvar finnum við votta Jehóva? Við dyrnar hjá fólki. Og til að vera vottur Jehóva verður maður, auk þess að tilheyra Jehóva, að vera vottur. Þess vegna sjáum við þá starfa, boða og kunngera það sem þeir hafa kynnst.“

Enginn nýtur þó sjálfkrafa góðs af fagnaðarerindinu. Það hjálpar þeim einum sem hlusta og hlýða. Til að sýna fram á það sagði Jesús dæmisöguna um mann sem fór út til að sá sæði. Ólíkur jarðvegur, sem sæðið féll í, táknaði ólíkt hjartalag þeirra sem heyrðu fagnaðarerindið. Jesús sagði: „Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans . . . En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.“ — Matteus 13:18-23.

Eins og á fyrstu öldinni leggja flestir lítið á sig til að skilja fagnaðarerindið. Þeir skilja ekki inntak þess og fara þannig á mis við hagnaðinn af því. Aðrir sýna að þeir kunna að meta fagnaðarerindið og læra hvernig þeir eiga að samstilla líf sitt vilja Guðs. Þannig uppskera þeir blessun. Hvorum hópnum tilheyrir þú?

Máttur fagnaðarerindisins nú á tímum

Reynslan ber því vitni að skilningur á fagnaðarerindinu hjálpar þeim sem voru „vonlausir og guðvana í heiminum.“ (Efesusbréfið 2:12; 4:22-24) Roberto frá Rio de Janeiro var hjálparþurfi. Frá unglingsaldri hafði hann lifað spilltu lífi, leiðst út í neyslu fíkniefna, siðleysi og þjófnað. Loks lenti hann í fangelsi. Meðan Roberto var þar fór hann að nema Biblíuna með votti sem heimsótti hann. Hann tók svo góðum andlegum framförum að fangavist hans var stytt til muna.

Eftir að Roberto var sleppt úr fangelsi hitti hann unga stúlku sem hann hafði einu sinni ógnað með byssu og rænt. Hún var líka að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Hvað gerðist? Í bréfi, sem sagði frá þessum atburði, stóð meðal annars: „Þau hittust í Ríkissalnum í fyrsta sinn eftir árásina. Fundur þeirra var hjartnæmur. Báðum vöknaði um augu og þau föðmuðust eins og systkin. Núna eru bæði þjófurinn fyrrverandi og fórnarlamb hans þjónar Jehóva.“

Isabel var líka hjálparþurfi þar sem hún var þekkt fyrir geðvonsku sína. Hún var djúpt sokkin í spíritisma og galdra og illir andar kvöldu hana. Þegar hún nam Biblíuna með vottum Jehóva komst hún að raun um að fagnaðarerindið hjálpaði henni sannarlega. Eftir að hafa numið um tíma hristi hún af sér fjötra illu andanna og breytti persónuleika sínum. Hún lærði loksins að stjórna skapi sínu. Núna er hún trúföst kristin kona, þekkt fyrir ljúfmannlega framkomu.

Já, fagnaðarerindið er ekki bara fræðikenning. Það býr yfir raunverulegum krafti til að breyta lífi manna. (1. Korintubréf 6:9-11) En fagnaðarerindið gerir meira; það gefur líka fyrirheit um blessunarríka framtíð.

Blessun sem er framundan

Samkvæmt orði Guðs eru framtíðarhorfurnar stórkostlegar. Við munum sjá rætast bæn Jesú um að ríki Guðs komi og að vilji hans verði gerður á jörðu eins og á himni. (Matteus 6:10) Innan skamms verður hið núverandi heimskerfi, með allri sinni niðurdrepandi spillingu og ofbeldi, þurrkað út og himnesk stjórn Guðs, ríki hans, mun ríkja yfir hjartahreinum mönnum sem eru fúsir til að hlusta á fagnaðarerindið og hlýða því. — Daníel 2:44.

Róttækar umbætur munu fylgja í kjölfarið er trúföstum mönnum verður falið það verkefni að breyta jörðinni í paradís þar sem auðmjúkir menn munu lifa að eilífu. (Sálmur 37:11, 29) Það eru sannarlega góðar fréttir, fagnaðarerindi, að glæpir, sjúkdómar, hungur, mengun og stríð munu hverfa að eilífu! Getur þú séð sjálfan þig og fjölskyldu þína fyrir þér í þessum nýja heimi þar sem ríkir friður og fullkomin heilsa og enginn þarf að óttast sjúkdóma eða dauða? — Opinberunarbókin 21:4.

Að vísu finnst mörgum slík gleðitíðindi vera grunnfærnisleg eða hrein ímyndun. En þeir hafa rangt fyrir sér. Fagnaðarerindið er byggt á traustustu sönnunum sem hugsast getur og það hefur þegar breytt lífi milljóna manna. Þess vegna skalt þú aldrei láta hræða úr þér kjarkinn þótt aðrir trúi ekki.

Hugsaðu þér forsjálan mann sem kaupir land á svæði, þar sem byggð er vaxandi, í von um að hagnast á fjárfestingu sinni. Ætli einhver myndi áfellast hann fyrir slíka fjárfestingu? Nei. Líklegra er að fólk myndi telja hann skynsaman. Hví þá ekki að vera forsjáll varðandi Guðsríki og fjárfesta í fagnaðarerindinu ef svo má að orði komast? Þar eð það hefur hjálpræði, björgun, í för með sér getur engin önnur fjárfesting verið ábatasamari. — Rómverjabréfið 1:16.

Hvernig getur þú fjárfest í fagnaðarerindinu? Í fyrsta lagi með því að vera fús til að þiggja kennslu hjá Guði. Farðu síðan eftir því sem þú lærir. Fylgdu þeim frumkröfum sem hebreski spámaðurinn til forna tiltók: „Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ (Míka 6:8) Það kostar tíma og viðleitni að læra að ganga með Guði, en vottar Jehóva, sem hjálpuðu Roberto og Isabel, eru meira en fúsir til að hjálpa þér við það — eins og þeir hafa hjálpað milljónum annarra gegnum árin.

Meðan þú bíður þess að fyrirheit Guðs uppfyllist skaltu hlúa að fjárfestingu þinni með því að lifa í samræmi við fagnaðarerindið, hafa hugarró og þroska nánara samband við Guð. Fjárfesting þín verður örugg — engin efnahagskreppa eða pólitískt umrót getur ógnað henni. Að síðustu mun hún skila þér stórkostlegum arði. Hver er sá arður? Jóhannes postuli skrifaði: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sáðkorn fagnaðarerindisins falla í mismunandi jarðveg.

[Rétthafi]

Garo Nalbandian

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila