Að finna lykil bróðurelskunnar
‚Auðsýnið í . . . guðrækninni bróðurelsku.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5-7.
1. Hver er ein meginástæðan fyrir því að þjónar Jehóva hafa svona mikla ánægju af því að koma saman?
LÆKNIR, sem var ekki vottur Jehóva, var einu sinni viðstaddur þegar dóttir hans útskrifaðist úr biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, þar sem hún hafði hlotið þjálfun til trúboðsstarfs. Hann var svo snortinn af gleði viðstaddra að hann lét í ljós þá skoðun sína að veikindi hlytu að vera fátíð meðal þessa fólks. Hvað gerði þennan mannsöfnuð svona hamingjusaman? Ef út í það er farið, hvað gerir allar samkomur fólks Jehóva, hvort heldur safnaðarsamkomur, svæðismót eða umdæmismót, ánægjulega viðburði? Er það ekki bróðurelskan sem það sýnir hvert öðru? Tvímælalaust er bróðurelskan ein ástæðan fyrir því að sagt hefur verið að enginn trúarhópur hafi jafnmikla ánægju, hamingju og gleði af trúnni og vottar Jehóva.
2, 3. Hvaða tvö grísk orð lýsa þeim tilfinningum sem við ættum að bera hvert til annars og hvað merkja þau nákvæmlega?
2 Við ættum að reikna með því að finna slíka bróðurelsku miðað við orð Péturs postula í 1. Pétursbréfi 1:22: „Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta.“ Einn aðalliður gríska orðsins, sem hér er þýtt ‚bróðurelska,‘ er filiʹa (væntumþykja). Merking þess er nátengd merkingu agaʹpe, orðsins sem er yfirleitt þýtt „kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þótt bróðurelska og kærleikur séu oft notuð jöfnum höndum hafa þau hvort sitt sérstaka merkingarsvið. Við ættum ekki að rugla þeim saman eins og margir biblíuþýðendur gera. (Við fjöllum nánar um hvort orð fyrir sig í þessari grein og greininni á eftir.)
3 Fræðimaður segir um merkingarmun þessara tveggja grísku orða að filiʹa sé „orð sem tvímælalaust tákni hlýju og innileik og væntumþykju.“ Á hinn bóginn er agaʹpe bundnara huganum. Okkur er til dæmis sagt að elska (agaʹpe) óvini okkar en það þýðir ekki að okkur finnist vænt um þá. Hvers vegna ekki? Vegna þess að „vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Það gefur enn fremur til kynna mun á þessum orðum að Pétur postuli skuli segja: ‚Auðsýnið í bróðurelskunni kærleika.‘ — 2. Pétursbréf 1:5-7; samanber Jóhannes 21:15-17, NW.a
Dæmi um mjög sérstaka bróðurelsku
4. Hvers vegna þótti Jesú og Jóhannesi sérlega vænt hvor um annan?
4 Orð Guðs gefur okkur mörg góð dæmi um mjög svo sérstaka bróðurelsku. Þessi sérstaka væntumþykja er ekki sprottin af einhverjum duttlungum heldur byggist á jákvæðu mati á framúrskarandi eiginleikum. Vafalaust er þekktasta dæmið hversu vænt Jesú Kristi þótti um Jóhannes postula. Enginn vafi leikur á að Jesús bar bróðurelsku til allra trúfastra postula sinna og það af góðu tilefni. (Lúkas 22:28) Meðal annars sýndi hann það með því að þvo fætur þeirra og kenna þeim þar með lexíu í auðmýkt. (Jóhannes 13:3-16) En Jesú þótti sérlega vænt um Jóhannes eins og Jóhannes nefnir hvað eftir annað. (Jóhannes 13:23; 19:26; 20:2) Alveg eins og Jesús hafði ástæðu til að láta sér þykja vænt um lærisveina sína og postula er líklegt að Jóhannes hafa gefið Jesú ástæðu til að þykja sérlega vænt um sig með því að meta Jesú enn meir en hinir. Við sjáum það af ritum Jóhannesar, bæði guðspjalli hans og innblásnum bréfum þar sem hann minnist margoft á kærleikann. Að Jóhannes hafi öðrum fremur metið andlega eiginleika Jesú má sjá af því sem hann skrifaði í Jóhannesi kafla 1 og 13 til 17, svo og af því hve oft hann minnist á tilveru Jesú áður en hann varð maður. — Jóhannes 1:1-3; 3:13; 6:38, 42, 58; 17:5; 18:37.
5. Hvað er hægt að segja um það hve vænt Páli og Tímóteusi þótti hvor um annan?
5 Okkur ætti ekki heldur að yfirsjást hin mjög svo sérstaka bróðurelska Páls postula og kristins félaga hans, Tímóteusar, hvor til annars, sem byggðist áreiðanlega á því að þeir kunnu að meta eiginleika hvors annars. Í ritum Páls er að finna hrósyrði um Tímóteus, svo sem: „Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. . . . En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.“ (Filippíbréfið 2:20-22) Í bréfum Páls til Tímóteusar kemur víða í ljós hve innilega vænt honum þótti um hann. Til dæmis lesum við í 1. Tímóteusarbréfi 6:20: „Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir.“ (Sjá einnig 1. Tímóteusarbréf 4:12-16; 5:23; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.) Samanburður á bréfum Páls til Tímóteusar og bréfi hans til Títusar undirstrikar sérstaklega hve vænt honum þótti um þennan unga mann. Vinátta þeirra hlýtur að hafa verið jafnverðmæt í augum Tímóteusar eins og greina má af orðum Páls í 2. Tímóteusarbréfi 1:3, 4: „Án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum. Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði.“
6, 7. Hvaða tilfinningar báru Davíð og Jónatan hvor til annars og hvers vegna?
6 Hebresku ritningarnar koma einnig með ágæt dæmi, svo sem vináttu Davíðs og Jónatans. Við lesum að eftir að Davíð drap Golíat „lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.“ (1. Samúelsbók 18:1) Það sem kom Jónatan vafalaust til að þykja sérlega vænt um Davíð var að hann kunni að meta á kostgæfni Davíðs gagnvart nafni Jehóva og hugrekki hans er hann gekk á hólm við risann Golíat.
7 Svo vænt þótti Jónatan um Davíð að hann hætti lífi sínu til að verja hann fyrir Sál konungi. Jónatan lét sér aldrei gremjast að Jehóva skyldi hafa valið Davíð sem næsta konung Ísraels. (1. Samúelsbók 23:17) Davíð þótti jafnvænt um Jónatan sem er ljóst af orðum hans þegar hann syrgði Jónatan látinn: „Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ Samband þeirra einkenndist greinilega af því að þeir mátu hvor annan mjög mikils. — 2. Samúelsbók 1:26.
8. Hvaða tveim konum þótti sérstaklega vænt hvor um aðra og hvers vegna?
8 Við finnum líka gott dæmi í Hebresku ritningunum um sérstakt kærleiksþel tveggja kvenna, Naomí og tengdadóttur hennar, ekkjunnar Rutar. Minnumst orða Rutar við Naomí: „Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rutarbók 1:16) Hljótum við ekki að álykta að Naomí hafi, með framkomu sinni og með því að tala um Jehóva, vakið þessi jákvæðu viðbrögð hjá Rut? — Samanber Lúkas 6:40.
Fordæmi Páls postula
9. Hvað sýnir að Páll var til fyrirmyndar í bróðurelskunni?
9 Eins og við höfum séð bar Páll mjög svo sérstaka bróðurelsku til Tímóteusar. En hann gaf líka afbragðsfordæmi í því að sýna bræðum sínum almennt innilega bróðurelsku. Hann sagði öldungunum frá Efesus að hann hefði ‚áminnt stöðugt sérhvern þeirra með tárum dag og nótt í þrjú ár.‘ Innileg bróðurelska? Tvímælalaust! Og þeir báru sömu tilfinningar til Páls. Þegar þeir heyrðu að þeir myndu ekki sjá hann framar tóku þeir „að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.“ (Postulasagan 20:31, 37) Var þetta ekki bróðurelska byggð á því að þeir mátu hver annan að verðleikum? Jú! Bróðurelsku hans má einnig sjá af orðum hans í 2. Korintubréfi 6:11-13: „Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru. Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt. En svo að sama komi á móti, — ég tala eins og við börn mín —, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.“
10. Hvaða skortur á bróðurelsku kom Páli til að segja frá prófraunum sínum í 2. Korintubréfi 11. kafla?
10 Ljóst er að bróðurelska margra Korintumanna til Páls postula og mat þeirra á honum var ekki sem skyldi. Sumir sögðu því í kvörtunartón: „Bréfin [frá Páli] eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ (2. Korintubréf 10:10) Þess vegna minntist Páll á hina ‚stórmiklu postula‘ þeirra og fann sig knúinn til að segja frá þeim prófraunum, sem hann hafði þolað, eins og tíundað er í 2. Korintubréfi 11:5, 22-33.
11. Hvað ber vitni um væntumþykju Páls í garð kristinna manna í Þessaloníku?
11 Innileg væntumþykja Páls í garð þeirra sem hann þjónaði kemur sérstaklega fram í orðum hans í 1. Þessaloníkubréfi 2:8: „Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ Svo vænt þótti honum um þessa nýju bræður að þegar hann þoldi ekki lengur við að bíða eftir að heyra hvernig þeir stæðust ofsóknir sendi hann Tímóteus sem flutti honum góð tíðindi er hresstu Pál mikið. (1. Þessaloníkubréf 3:1, 2, 6, 7) Uppsláttarritið Insight on the Scriptures lýsir þessu vel: „Náin og innileg bróðurelska tengdi Pál og þá sem hann þjónaði.“
Að meta aðra að verðleikum — lykill bróðurelskunnar
12. Hvers vegna ættum við að sýna bræðrum okkar innilega væntumþykju?
12 Lykill bróðurelskunnar er ótvírætt sá að meta aðra að verðleikum. Hafa ekki allir vígðir þjónar Jehóva eiginleika sem við kunnum að meta, sem laða fram kærleiksþel okkar og væntumþykju? Öll erum við að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis hans. Öll erum við að heyja hugdjarfa baráttu gegn þrem, sameiginlegum óvinum: Satan og illum öndum hans, hinum óguðlega heimi undir stjórn Satans og arfgengum tilhneigingum hins fallna holds. Ættum við ekki alltaf að taka þá afstöðu að bræður okkar séu að gera sitt besta miðað við aðstæður? Allir menn á jörðinni eru annaðhvort Jehóva megin eða Satans. Vígðir bræður okkar og systur eru Jehóva megin, já, okkar megin og verðskulda þar með bróðurelsku okkar.
13. Hvers vegna ætti okkur að vera mjög hlýtt til öldunganna?
13 Hvað um það að meta öldungana að verðleikum? Ættum við ekki ávallt að bera hlýhug til þeirra í ljósi þess hvernig þeir strita í þágu safnaðarins? Eins og við öll þurfa þeir að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum. Þeir hafa líka sömu skyldur og við hin að nema, sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í þjónustunni á akrinum. Auk þess hvílir á þeim sú skylda að undirbúa dagskráratriði fyrir samkomurnar, flytja opinbera fyrirlestra og taka á vandamálum sem koma upp í söfnuðinum og stundum kostar það margra klukkustunda dómnefndarfundi. Við viljum svo sannarlega ‚hafa slíka menn í heiðri.‘ — Filippíbréfið 2:29.
Sýndu bróðurelskuna í verki
14. Hvaða ritningarstaðir leggja ríkt á við okkur að sýna bróðurelsku?
14 Til að þóknast Jehóva verðum við að láta innilega bróðurelsku okkar til trúbræðra okkar birtast í verki eins og Jesús Kristur og Páll gerðu. Við lesum: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð.“ (Rómverjabréfið 12:10) „Ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.“ (1. Þessaloníkubréf 4:9) „Bróðurkærleikurinn haldist.“ (Hebreabréfið 13:1) Himneskur faðir okkar hefur svo sannarlega velþóknun á því að við sýnum jarðneskum börnum hans bróðurelsku.
15. Nefndu nokkrar leiðir til að láta í ljós bróðurelsku.
15 Á postulatímanum voru kristnir menn vanir að heilsa hver öðrum með „heilögum kossi“ eða „kærleikskossi.“ (Rómverjabréfið 16:16; 1. Pétursbréf 5:14) Svo sannarlega var það merki bróðurelsku! Víðast hvar í heiminum væri einlægt, vingjarnlegt bros og þétt handtak betur við hæfi nú á dögum. Í löndum Rómönsku Ameríku, svo sem Mexíkó, heilsast fólk gjarnan með því að faðmast sem er álitið merki ósvikinnar væntumþykju. Þetta innilega kærleiksþel bræðranna í þessum heimshluta skýrir kannski að einhverju leyti hina miklu aukningu þar um slóðir.
16. Hvaða tækifæri höfum við til að sýna bróðurelsku í ríkissalnum?
16 Leggjum við lykkju á leið okkar til að sýna bróðurelsku þegar við komum í ríkissalinn? Það kemur okkur til að vera með uppörvandi orð á vörunum, einkum við þá sem virðast niðurdregnir. Okkur er sagt að ‚hughreysta niðurdregnar sálir.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:14, NW) Það er vissulega ein leið til að tjá innilega bróðurelsku. Önnur góð leið er sú að þakka fyrir ágætan, opinberan fyrirlestur, dagskráratriði sem var skilað vel, góða viðleitni nemanda í Guðveldisskólanum og svo framvegis.
17. Hvernig ávann öldungur sér elsku safnaðarins?
17 Hvað um það að bjóða mismunandi bræðrum og systrum heim til okkar í mat eða kannski hressingu eftir samkomu ef það er ekki of áliðið? Ættum við ekki að láta leiðbeiningar Jesú í Lúkasi 14:12-14 ráða? Einu sinni var fyrrverandi trúboði skipaður umsjónarmaður í forsæti í söfnuði þar sem allir hinir voru af öðrum kynþætti. Hann fann að það skorti nokkuð á bróðurelsku í söfnuðinum þannig að hann tók til við að bæta úr því. Hvernig þá? Á hverjum sunnudegi bauð hann nýrri fjölskyldu heim til sín í mat. Að ári liðnu voru allir farnir að sýna honum innilega bróðurelsku.
18. Hvernig getum við sýnt veikum bræðrum og systrum bróðurelsku?
18 Þegar bróðir eða systir eru veik, annaðhvort heima eða á spítala, kemur bróðurelska okkur til að láta hann vita að okkur sé annt um hann. Hvað um þá sem eru á elli- eða hjúkrunarheimilum? Hví ekki að heimsækja þá, hringja eða senda þeim kort til að tjá hlýjar tilfinningar okkar?
19, 20. Hvernig getum við sýnt að við höfum gefið bróðurelskunni meira rými?
19 Þegar við látum slíka bróðurelsku í ljós getum við spurt okkur: ‚Er ég hlutdrægur í bróðurelsku minni? Hafa hörundslitur, menntun eða efnislegar eignir áhrif á þá bróðurelsku sem ég sýni? Þarf ég að gefa bróðurelsku minni meira rými eins og Páll postuli hvatti kristna menn í Korintu til að gera?‘ Bróðurelska fær okkur til að líta bræður okkar jákvæðum augum og meta þá að verðleikum fyrir góða eiginleika þeirra. Bróðurelska hjálpar okkur líka að gleðjast yfir framförum bróður okkar í stað þess að öfunda hann af þeim.
20 Bróðurelska ætti einnig að láta okkur vera vakandi fyrir því að hjálpa bræðrum okkar í þjónustunni. Í söngbókinni frá 1984, sem er notuð víða um lönd, er það orðað þannig í lauslegri þýðingu í einum söngnum (númer 92):
Hjálpum öllum hinum veikburða
þannig að þeir geti talað djarflega.
Vanrækjum aldrei hina ungu,
hjálpum þeim að verða sterkir og öruggir.
21. Hvaða viðbragða megum við vænta þegar við sýnum bróðurelsku?
21 Við skulum ekki gleyma að meginreglan í fjallræðu Jesú á við þegar við tjáum bróðurelsku okkar: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúkas 6:38) Við njótum sjálf góðs af því að sýna bróðurelsku, láta í ljós að við höfum í hávegum þá sem eru þjónar Jehóva eins og við sjálf. Þeir sem hafa yndi af því að sýna bróðurelsku uppskera ósvikna hamingju.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina á eftir: „Kærleikur (agape) — það sem hann er og það sem hann er ekki.“
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða grísk orð fjalla um tilfinningar okkar og hvaða merkingarmunur er á þeim?
◻ Hver er lykill bróðurelskunnar?
◻ Hvaða dæmi höfum við úr Ritningunni um sérstaka bróðurelsku?
◻ Hvers vegna ætti okkur að þykja innilega vænt um bræður okkar og öldungana?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Pétur postuli hvatti bræður sína til að sýna bróðurelsku í trú sinni og öðrum kristnum eiginleikum.