Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.4. bls. 24-29
  • Kærleikur (agape) – það sem hann er og það sem hann er ekki

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kærleikur (agape) – það sem hann er og það sem hann er ekki
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Það sem kærleikurinn er ekki
  • Annað sem kærleikurinn er ekki
  • Það sem kærleikurinn er
  • „Lifið í kærleika“
    Nálgastu Jehóva
  • „Þeirra er kærleikurinn mestur“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Uppbyggist í kærleika
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Kærleikur – dýrmætur eiginleiki
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.4. bls. 24-29

Kærleikur (agape) – það sem hann er og það sem hann er ekki

‚Auðsýnið . . . í bróðurelskunni kærleika.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5, 7.

1. (a) Hvaða eiginleiki er fremstur allra samkvæmt Biblíunni? (b) Hvaða fjögur grísk orð eru oft þýdd „kærleikur“ og hvert þeirra er notað í 1. Jóhannesarbréfi 4:8?

EF TIL er einn eiginleiki eða dyggð, sem orð Guðs, Biblían, tekur fram yfir aðra, þá er það kærleikur. Á grísku, frumtungu hinna kristnu ritninga, eru fjögur orð sem oft eru þýdd „kærleikur.“ Sá kærleikur, sem við beinum athyglinni að núna, er ekki eʹros (orðið kemur ekki fyrir í kristnu Grísku ritningunum) sem er sprottinn af kynferðislegu aðdráttarafli, ekki heldur storgeʹ, tilfinning byggð á blóðböndum, og ekki heldur filiʹa, hlýlegur kærleikur milli vina sem byggist á því að þeir hafa hver annan í hávegum og við fjölluðum um í greininni á undan. Það sem við ræðum núna um er agaʹpe — kærleikur byggður á meginreglu sem mætti segja að jafngilti óeigingirni. Þetta er sá kærleikur sem Jóhannes postuli átti við þegar hann sagði: „Guð er kærleikur.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

2. Hvaða góð skýring hefur verið gefin á kærleikanum (agaʹpe)?

2 Um þennan kærleika (agaʹpe) segir prófessor William Barclay í riti sínu, New Testament Words: „Agapē er bundið huganum: það er ekki bara tilfinning sem kviknar óbeðin í hjörtum okkar [eins og vera kann með filiʹa]; það er meginregla sem við lifum eftir af ráðnum hug. Agapē er fyrst og fremst tengt viljanum. Það er sigur, afrek og árangur. Enginn hefur að eðlisfari elskað óvini sína. Að elska óvini sína er sigur yfir öllum náttúrlegum tilhneigingum og tilfinningum. Agapē . . . er í rauninni krafturinn til að elska það sem ekki er hægt að elska, að elska fólk sem okkur geðjast ekki að.“

3. Hvaða áherslu lögðu Jesús Kristur og Páll á kærleikann?

3 Já, eitt af því sem gerir hina hreinu tilbeiðslu á Jehóva Guði ólíka öllum öðrum tilbeiðslumyndum er áherslan sem hún leggur á þessa tegund kærleikans. Jesús Kristur sagði réttilega að tvö mestu boðorðin væru þessi: „Æðst er þetta: . . . ‚Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘ Annað er þetta: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ (Markús 12:29-31) Páll postuli lagði sömu áherslu á kærleikann í 13. kafla 1. Korintubréfs. Eftir að hafa undirstrikað að kærleikurinn væri hinn æðsti og ómissandi eiginleiki lauk hann máli sínu með því að segja: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1. Korintubréf 13:13) Jesús sagði réttilega að kærleikurinn ætti að vera auðkenni fylgjenda hans. — Jóhannes 13:35.

Það sem kærleikurinn er ekki

4. Hve mörg neikvæð og jákvæð atriði tengd kærleikanum nefnir Páll í 1. Korintubréfi 13:4-8?

4 Sagt hefur verið að það sé auðveldara að segja hvað kærleikurinn sé ekki en að skilgreina hvað hann sé. Það er nokkur sannleikur í því vegna þess að í kærleikskafla sínum, 1. Korintubréfi 13. kafla, telur Páll upp níu atriði í 4. til 8. versi sem kærleikurinn er ekki og sjö sem hann er.

5. Hvernig er „afbrýði“ skilgreind og hvernig er hún notuð í jákvæðri merkingu í Ritningunni?

5 Það fyrsta, sem Páll segir að kærleikurinn sé ekki, er að hann sé „ekki afbrýðisamur“ (NW). Það kallar á nánari skýringu af því að afbrýði hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Orðabók skilgreinir lýsingarorðið „afbrýðisamur“ sem það að „þola ekki samkeppni“ og að „krefjast óskiptrar hollustu.“ Þannig sagði Móse í 2. Mósebók 34:14 (NW): „Þú mátt ekki falla fram fyrir neinum öðrum guði því að Jehóva, sem heitir Afbrýðisamur, er afbrýðisamur Guð.“ Í 2. Mósebók 20:5 (NW) segir Jehóva: „Ég, Jehóva Guði þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“ Páll postuli tók í svipaðan streng þegar hann skrifaði: „Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs.“ — 2. Korintubréf 11:2.

6. Hvaða dæmi úr Biblíunni sýna hvers vegna kærleikurinn er ekki afbrýðisamur?

6 Yfirleitt hefur „afbrýði“ þó neikvætt inntak og það er þess vegna talin upp með verkum holdsins í Galatabréfinu 5:20 (NW). Slík afbrýði er eigingjörn og kveikir hatur, og hatur er andstæða kærleikans. Það var afbrýði sem kom Kain til að hata Abel svo mjög að hann myrti hann og afbrýði kom hinum tíu hálfbræðrum Jósefs til að hata hann svo mikið að þeir vildu koma honum fyrir kattarnef. Kærleikur er ekki afbrýðisamur og öfundsjúkur yfir því sem aðrir eiga eða hafa fram yfir aðra eins og Akab konungur öfundaði Nabót af víngarði hans. — 1. Konungabók 21:1-19.

7. (a) Hvaða atvik sýnir að Jehóva hefur vanþóknun á raupi? (b) Hvers vegna raupar kærleikurinn ekki einu sinni í hugsunarleysi?

7 Páll segir okkur þessu næst að kærleikurinn sé „ekki raupsamur.“ Raup ber vott um kærleiksskort því að það kemur okkur til að setja okkur á háan hest. Jehóva hefur vanþóknun á raupurum eins og sjá má af því hvernig hann auðmýkti Nebúkadnesar konung þegar hann raupaði. (Daníel 4:30-35) Oft raupa menn í hugsunarleysi af því að þeir eru yfir sig ánægðir af eigin afrekum eða eignum. Sumum hættir til að gorta af árangri sínum í hinni kristnu þjónustu. Aðrir eru eins og öldungurinn sem hreinlega varð að hringja í vini sína til að segja þeim að hann hefði keypt bíl sem kostaði næstum 3,5 milljónir króna. Allt slíkt er kærleikslaust af því að það upphefur rauparann yfir áheyrendur hans.

8. (a) Hvert er viðhorf Jehóva til þeirra sem hreykja sér upp? (b) Hvers vegna hegðar kærleikurinn sér ekki þannig?

8 Síðan er okkur sagt að kærleikurinn ‚hreyki sér ekki upp.‘ Sá sem hreykir sér upp er drambsamur og upphefur sig kærleikslaust yfir aðra. Slíkt hugarfar er mjög óviturlegt því að „Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ (Jakobsbréfið 4:6) Kærleikur hefur þveröfug áhrif; hann metur aðra sér meiri. Páll skrifaði í Filippíbréfinu 2:2, 3: „Gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“ Slíkt hugarfar lætur öðrum líða vel en þrætugirni hins drambsama lætur öðrum líða illa.

9. Hvers vegna hegðar kærleikurinn sér ekki ósæmilega?

9 Páll segir enn fremur að kærleikurinn ‚hegði sér ekki ósæmilega.‘ Orðabók skilgreinir „ósæmilegt“ sem „gróflega óviðurkvæmilegt eða sem misbýður mannasiðum og velsæmi.“ Sá sem hegðar sér ósæmilega (kærleikslaust) virðir ekki tilfinningar annarra. Margir biblíuþýðendur þýða gríska orðið sem „ruddalegur.“ Slíkur maður virðir að vettugi það sem er talið viðeigandi og smekklegt. Sá sem er kærleiksríkur og tillitssamur forðast hvaðeina sem er ruddalegt eða ósæmilegt og misbýður eða jafnvel hneykslar.

Annað sem kærleikurinn er ekki

10. Á hvaða hátt leitar kærleikurinn ekki síns eigin?

10 Þessu næst er okkur sagt að kærleikurinn ‚leiti ekki síns eigin,‘ það er að segja þegar persónulegir hagsmunir okkar og annarra eiga í hlut. Postulinn segir annars staðar: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ (Efesusbréfið 5:29) Þegar persónulegir hagsmunir okkar og annarra rekast á, og engar aðrar meginreglur Biblíunnar varða málið, ættum við þó að gera eins og Abraham gerði við Lot og láta hinn aðilann ganga fyrir. — 1. Mósebók 13:8-11.

11. Hvað merkir það að kærleikurinn reiðist ekki?

11 Kærleikur er ekki móðgunargjarn. Páll segir okkur því að kærleikurinn „reiðist ekki.“ Hann er ekki hörundssár. Hann iðkar sjálfstjórn. Hjón ættu sérstaklega að taka til sín þessa áminningu með því að varast að hækka róminn óþolinmóðlega eða hrópa hvort að öðru. Til eru ýmsar aðstæður þar sem er auðvelt að láta reita sig til reiði og þess vegna fannst Páli nauðsynlegt að ráðleggja Tímóteusi: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,“ — já, reiðist ekki — „hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25.

12. (a) Hvað merkir það að kærleikurinn sé ekki langrækinn? (b) Hvers vegna er óviturlegt að vera langrækinn?

12 Páll heldur áfram að ræða um það sem kærleikurinn er ekki og ráðleggur: „Kærleikurinn . . . er ekki langrækinn.“ Það merkir ekki að kærleikurinn taki ekki eftir því sem misgert er. Jesús benti á hvernig við ættum að taka á málum þegar einhver hefur gert alvarlega á hlut okkur. (Matteus 18:15-17) En kærleikurinn leyfir okkur ekki að vera langrækin og ala með okkur gremju í garð annarra. Að vera ekki langrækinn merkir að vera fús til að fyrirgefa og gleyma eftir að málið hefur verið tekið biblíulegum tökum. Já, kveldu ekki sjálfan þig með því að vera sífellt að rifja upp það sem gert var á hlut þinn, vera langrækinn!

13. Hvað merkir það að gleðjast ekki yfir óréttvísinni og hvers vegna gerir kærleikurinn það ekki?

13 Enn fremur er okkur sagt að kærleikurinn ‚gleðjist ekki yfir óréttvísinni.‘ Heimurinn gleðst yfir óréttvísinni eins og sjá má af vinsældum rita, kvikmynda og sjónvarpsþátta sem eru fullir af ofbeldi og klámi. Öll slík gleði er eigingjörn og tekur ekkert tillit til réttlátra meginreglna Guðs eða velferðar annarra. Með allri slíkri eigingjarnri gleði er verið að sá í holdið og á sínum tíma munu menn uppskera glötun af holdinu. — Galatabréfið 6:8.

14. Hvers vegna er hægt að segja með öryggi að kærleikurinn bregðist aldrei?

14 Að lokum segir Páll um það hvað kærleikurinn sé ekki: „Kærleikurinn bregst aldrei.“ (NW) Meðal annars bregst kærleikurinn aldrei eða gengur til þurrðar af því að Guð er kærleikur og hann er ‚konungur eilífðarinnar.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:17) Í Rómverjabréfinu 8:38, 39 erum við fullvissuð um að kærleikur Jehóva til okkar muni aldrei bregðast: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ Og kærleikurinn bregst aldrei að því leyti að hann standi ekki fyrir sínu. Kærleikur ræður við allar aðstæður og allar áskoranir.

Það sem kærleikurinn er

15. Hvers vegna nefnir Páll langlyndi fyrst sem jákvæða hlið kærleikans?

15 Páll snýr sér nú að jákvæðu hliðinni, því sem kærleikurinn er, og segir: „Kærleikurinn er langlyndur.“ Sagt hefur verið að það sé ekkert til sem heiti kristilegt bræðralag án langlyndis, það er að segja án þess að umbera hver annan með þolinmæði. Það stafar af því að við erum öll ófullkomin og annmarkar okkar og ágallar reynir á aðra. Engin furða er að Páll postuli skuli nefna þetta atriði fyrst í lýsingu sinni á kærleikanum.

16. Á hvaða vegu geta fjölskyldumeðlimir verið góðviljaðir hver við annan?

16 Páll segir líka að kærleikurinn sé „góðviljaður.“ Kærleikurinn er með öðrum orðum hjálpsamur, hugulsamur og tillitssamur við aðra. Góðvild birtist bæði í stóru og smáu. Miskunnsami Samverjinn var vissulega góðviljaður við manninn sem ræningjarnir réðust á. (Lúkas 10:30-37) Kærleikurinn hefur yndi af því að vera kurteis. Að segja: „Réttu mér brauðið“ er skipun en að segja: „Viltu rétta mér brauðið?“ er beiðni. Eiginmenn eru góðviljaðir við eiginkonur sínar þegar þeir fara eftir heilræðinu í 1. Pétursbréfi 3:7: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ Eiginkonur eru góðviljaðar við menn sína þegar þær sýna þeim „lotningu“ eða djúpa virðingu. (Efesusbréfið 5:33) Feður eru góðviljaðir við börn sín þegar þeir fylgja ráðleggingunni í Efesusbréfinu 6:4: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“

17. Á hvaða tvo vegu samgleðst kærleikurinn sannleikanum?

17 Kærleikur gleðst ekki yfir óréttvísinni heldur „samgleðst sannleikanum.“ Kærleikur og sannleikur haldast í hendur — Guð er kærleikur og samtímis er hann „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Kærleikur gleðst yfir því að sjá sannleikann sigra og afhjúpa lygina. Það á sinn þátt í hinni miklu aukningu sem á sér stað meðal tilbiðjenda Jehóva nú á dögum. En vegna hins óhagstæða samanburðar óréttvísinnar við sannleikann kann hugsunin einnig að vera sú að kærleikurinn gleðjist með réttvísinni. Kærleikurinn gleðst yfir sigri réttvísinnar eins og tilbiðjendum Jehóva er fyrirskipað að gera við fall Babýlonar hinnar miklu. — Opinberunarbókin 18:20.

18. Í hvaða skilningi breiðir kærleikurinn yfir allt?

18 Páll segir okkur líka að kærleikurinn ‚breiði yfir allt.‘ Hann „bakmælir“ ekki bróður eins og óguðlegum mönnum er gjarnt. (Sálmur 50:20; Orðskviðirnir 10:12; 17:9) Já, hugsunin hér er sú sama og í 1. Pétursbréfi 4:8: „Kærleikur hylur fjölda synda.“ Að sjálfsögðu hindrar hollusta mann í að breiða yfir grófar syndir gegn Jehóva og gegn kristna söfnuðinum.

19. Á hvaða hátt trúir kærleikurinn öllu?

19 Kærleikurinn „trúir öllu.“ Kærleikurinn er jákvæður, ekki neikvæður. Það merkir ekki að kærleikurinn sé auðtrúa. Hann er ekki fljótur til að trúa æsifengnum staðhæfingum. En til að öðlast trú á Guð er nauðsynlegt að hafa viljann til að trúa. Kærleikurinn er því ekki efagjarn eða gagnrýninn úr hófi fram. Hann streitist ekki gegn því að trúa eins og guðsafneitarinn sem fullyrðir kreddufastur að það sé enginn Guð til, og hann er ekki heldur eins og efasemdamaðurinn sem staðhæfir kreddufastur að það sé hreinlega ómögulegt að vita hvaðan við séum komin, hvers vegna við séum hér og hver framtíðin verði. Orð Guðs veitir okkur vissu um allt þetta. Kærleikurinn er líka reiðubúinn til að trúa vegna þess að hann er fullur trúnaðartrausts og ekki tortrygginn um of.

20. Hvernig er kærleikur tengdur von?

20 Páll postuli fullvissar okkur enn fremur um að kærleikurinn ‚voni allt.‘ Þar eð kærleikurinn er jákvæður, ekki neikvæður, hefur hann sterka von um allt sem er lofað í orði Guðs. Okkur er sagt að „sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.“ (1. Korintubréf 9:10) Á sama hátt og kærleikur er fullur trúnaðartrausts er hann líka vongóður og vonar alltaf hið besta.

21. Hvernig fullvissar Biblían okkur um að kærleikurinn sé umberi allt?

21 Loks erum við fullvissuð um að kærleikurinn ‚umberi allt.‘ Hann getur gert það vegna þess sem Páll postuli segir okkur í 1. Korintubréfi 10:13: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ Kærleikurinn fær okkur til að íhuga hin mörgu dæmi úr Biblíunni um þjóna Guðs sem voru þolgóðir, en Jesús Kristur var þeirra fremstur eins og við erum minnt á í Hebreabréfinu 12:2, 3.

22. Hvaða eiginleika verðum við, börn Guðs, alltaf að láta okkur umhugað um að sýna?

22 Kærleikurinn (agaʹpe) er svo sannarlega fremstur allra eiginleika sem við, kristnir vottar Jehóva, þurfum að rækta, bæði með hliðsjón af því sem hann er og því sem hann er ekki. Megum við sem börn Guðs alltaf láta okkur umhugað um að sýna þennan ávöxt anda Guðs. Með því að gera það erum við að líkjast Guði því að við skulum muna „Guð er kærleikur.“

Manst þú?

◻ Hvernig sýndu Jesús Kristur og Páll að kærleikurinn væri fremstur allra eiginleika?

◻ Í hvaða skilningi er kærleikur ekki afbrýðisamur?

◻ Hvernig ‚breiðir kærleikurinn yfir allt‘?

◻ Hvers vegna má segja að kærleikurinn bregðist aldrei?

◻ Á hvaða tvo vegu samgleðst kærleikurinn sannleikanum?

[Rammi á blaðsíðu 28]

KÆRLEIKUR (AGAPE)

Hann er ekki Hann er

1. Afbrýðisamur 1. Langlyndur

2. Raupsamur 2. Góðviljaður

3. Hreykir sér ekki upp 3. Samgleðst sannleikanum

4. Hegðar sér ekki ósæmilega 4. Breiðir yfir allt

5. Leitar ekki síns eigin 5. Trúir öllu

6. Reiðigjarn 6. Vonar allt

7. Langrækinn 7. Umber allt

8. Gleðst ekki yfir óréttvísinni

9. Bregst aldrei

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jehóva auðmýkti Nebúkadnesar fyrir raupsemi hans.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila