Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.1. bls. 10-15
  • Leitaðu hælis hjá Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leitaðu hælis hjá Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Öflugur kór boðbera Guðsríkis
  • Vígi þar sem við megum búa
  • Prédikað með trúarvissu
  • ‚Fjársjóður gæsku‘
  • Leitaðu hælis í nafni Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.1. bls. 10-15

Leitaðu hælis hjá Jehóva

„Hjá þér, [Jehóva], leita ég hælis.“ — SÁLMUR 31:2.

1. Hvernig lætur Sálmur 31 í ljós traust á hæfni Jehóva til að veita hæli?

HLJÓMFÖGUR rödd syngur um mann sem reiðir sig á Jehóva þótt hann sé úrvinda á huga og líkama. Trúin hrósar sigri, segir í þessu helga ljóði. Í útréttum örmum hins alvalda finnur þessi maður skjól fyrir ofsækjendum sínum sem hundelta hann. „Hjá þér, [Jehóva], leita ég hælis,“ segir í sálmi hans. „Lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu.“ — Sálmur 31:2.

2. (a) Á hvaða tveim undirstöðum getum við byggt traust á Jehóva sem vígi okkar? (b) Hvers konar Guð er Jehóva?

2 Sálmaritarinn á sér eitt hæli — hið besta! Annað má vera vafa undirorpið en þessi staðreynd stendur: Jehóva er vígi hans og verndarbjarg. Traust hans hvílir á tveim öruggum undirstöðum. Önnur er trú hans, sem Jehóva mun ekki láta verða til skammar, og hin er réttlæti Jehóva sem merkir að hann mun aldrei yfirgefa þjón sinn fyrir fullt og allt. Jehóva er ekki Guð sem smánar trúfasta þjóna sína; hann gengur ekki á bak orða sinna. Hann er Guð sannleikans og umbunar þeim sem leggja traust sitt á hann í einlægni. Á endanum mun trúin fá sína umbun! Þeim verður bjargað! — Sálmur 31:6, 7.

3. Hvernig miklar sálmaritarinn Jehóva?

3 Sálmaritarinn finnur styrk hið innra þegar hann semur tónlistina sem bylgjast og rís frá djúpum harmi og kvöl upp í hátind trúarvissu. Hann miklar Jehóva fyrir tryggan kærleika hans. „Lofaður sé [Jehóva],“ syngur hann, „því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.“ — Sálmur 31:22.

Öflugur kór boðbera Guðsríkis

4, 5. (a) Hvaða öflugur kór syngur Jehóva lof nú á dögum og hvernig hafa þeir gert það síðastliðið þjónustuár? (Sjá þjónustuskýrslu í erlendum útgáfum blaðsins.) (b) Á hvaða hátt gefur aðsóknin að minningarhátíðinni vísbendingu um að fleiri einstaklingar séu fúsir til að taka undir með boðberakór Guðsríkis? (Sjá þjónustuskýrslu.) (c) Hvaða hópur í söfnuði þínum kann að vera í aðstöðu til að taka undir með kórnum?

4 Nú á dögum hafa ljóðlínur þessa sálms öðlast nýtt líf. Enginn illur andstæðingur, engar náttúruhamfarir og engar efnahagsþrengingar fá kæft lofsönginn til Jehóva; náð hans við þjóna sína hefur sannarlega reynst dásamleg. Um heim allan söng öflugur kór, sem stærstur var 4.709.889 í 231 landi, boðskapinn um Guðsríki á síðasta þjónustuári. Himnesk stjórn Jehóva í höndum Krists Jesú er hæli sem mun ekki valda þeim vonbrigðum. Á síðasta ári vörðu þessir boðberar úr 73.070 söfnuðum alls 1.057.341.972 klukkustundum til trúboðsstarfsins. Það varð til þess að 296.004 einstaklingar gáfu tákn um vígslu sína til Guðs með vatnsskírn. Og það sem gerðist á alþjóðamótinu „Kennsla Guðs“ í Kíev í Úkraínu í ágúst síðastliðnum kom öllum viðstöddum ánægjulega á óvart. Þeir urðu vitni að mjög markverðum atburði þegar mesta fjöldaskírn sannkristinna manna, sem sögur fara af, átti sér stað! Eins og spáð var í Jesaja 54:2, 3 er fólk Jehóva að útbreiðast meir en nokkru sinni fyrr.

5 En fleiri fúsir þegnar Guðsríkis bíða eftir að það komi að þeim að taka undir með kórnum. Á síðastliðnu ári sótti undraverður fjöldi minningarhátíðina um dauða Jesú, eða 11.865.765 manns. Vonandi eiga margir þeirra eftir að verða hæfir til að syngja söng Guðsríkis hús úr húsi á þessu þjónustuári. Þær horfur hljóta að gera óvin sannleikans, Satan djöfulinn, ævareiðan! — Opinberunarbókin 12:12, 17.

6, 7. Útskýrðu hvernig áhugasamur maður sigraðist á ásókn illra anda með hjálp Jehóva.

6 Satan mun reyna að hindra aðra í að taka undir með þessum öfluga kór. Á Taílandi finna boðberar til dæmis fyrir því að fólk sætir í vaxandi mæli árásum illra anda. Margir einlægir einstaklingar hafa hins vegar verið leystir undan valdi þeirra með hjálp Jehóva. Eftir að hafa heimsótt galdralækni af einskærri forvitni var maður einn undir áhrifum illra anda í tíu ár. Hann reyndi að losna undan valdi þeirra með hjálp prests en án þess að fá nokkra raunverulega bót. Prédikari votta Jehóva í fullu starfi hóf biblíunám með manninum og kenndi honum frá Biblíunni að það væri aðeins ein leið fyrir hann til að losna undan valdi illra anda — að afla sér nákvæmrar þekkingar á sannleikanum, setja trú sína á Jehóva Guð og ákalla hann í bæn. — 1. Korintubréf 2:5; Efesusbréfið 4:6, 7; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

7 Nóttina eftir þetta samtal dreymdi manninn látinn föður sinn sem hótaði honum ef hann byrjaði ekki aftur að starfa sem andamiðill. Fjölskylda hans fór að líða fyrir það. Maðurinn neitaði að láta beygja sig og hélt áfram biblíunáminu og byrjaði að sækja samkomur. Í einu náminu útskýrði brautryðjandinn að stundum gætu hlutir, sem notaðir væru við andatrúarathafnir, gefið illu öndunum færi á að ásækja fólk sem væri að reyna að losna undan valdi þeirra. Maðurinn mundi þá að hann átti einhverja olíu sem hann hafði notað sem verndargrip. Hann gerði sér nú ljóst að hann yrði að henda henni. Eftir að hann losaði sig við hana hafa illir andar ekki ónáðað hann framar. (Samanber Efesusbréfið 6:13; Jakobsbréfið 4:7, 8.) Hann og konan hans taka góðum framförum í námi sínu og sækja biblíufræðslusamkomur reglulega.

8, 9. Hvaða öðrum hindrunum hafa sumir boðberar Guðsríkis sigrast á?

8 Aðrar hindranir geta deyft óm fagnaðarerindisins. Vegna mjög bágs efnahagsástands í Gana hefur fólki verið sagt upp störfum. Framfærslukostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi sem gerir það verulegum vandkvæðum bundið að afla sér brýnustu lífsnauðsynja. Hvernig hafa þjónar Jehóva tekist á við erfiðleikana? Með því að treysta ekki á sjálfa sig heldur á Jehóva. Til dæmis skildi maður eftir lokað umslag í móttöku deildarskrifstofunnar dag einn. Í umslaginu var jafnvirði 14.000 króna eða þriggja mánaða lágmarkslauna. Gjafarinn lét ekki nafns síns getið en á umbúðirnar var skrifað: „Ég missti vinnuna en Jehóva hefur séð mér fyrir annarri. Ég er honum og syni hans, Kristi Jesú, þakklátur. Hjálagt er smáframlag til að aðstoða við útbreiðslu fagnaðarerindisins um ríkið áður en endirinn kemur.“ — Samanber 2. Korintubréf 9:11.

9 Samkomusókn stuðlar að þjálfun þeirra sem taka undir með hinum öfluga kór er syngur Jehóva lof. (Samanber Sálm 22:23.) Í suðurhluta Hondúras er söfnuður sem kallast El Jordán. Hvað er svona sérstakt við þennan litla hóp? Það er trúföst samkomusókn hans. Af 19 boðberum safnaðarins þurfa 12 að fara yfir breiða á til að sækja samkomur í hverri viku. Það er litlum vandkvæðum bundið á þurrkatímanum því að þá geta þeir stiklað yfir ána á steinum. Á regntímanum er hins vegar annað uppi á teningnum. Það sem áður var sakleysisleg á breytist þá í straumhart fljót sem sópar burt öllu er á vegi þess verður. Til að yfirstíga þessa hindrun verða bræðurnir og systurnar að vera góðir sundmenn. Áður en þau fara yfir ána setja þau samkomufötin í tina eða málmbala og þekja hann síðan með plastpoka. Besti sundmaðurinn notar balann sem flotholt og syndir fremstur yfir ána. Á hinum árbakkanum þurrka þau sér, klæða sig og koma síðan glöð og tandurhrein í ríkissalinn! — Sálmur 40:10.

Vígi þar sem við megum búa

10. Hvers vegna getum við snúið okkur til Jehóva á álagstímum?

10 Hvort sem þú sætir beinum árásum illra anda eða finnur fyrir álagi annars staðar frá getur Jehóva verið vígi þitt. Ákallaðu hann í bæn. Hann hlustar með athygli jafnvel á veikustu stunur þjóna sinna. Það var reynsla sálmaritarans sem orti: „Hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar. Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér. Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.“ — Sálmur 31:3-5.

11. Útskýrðu hvers vegna vígi Jehóva er ekki til bráðabirgða.

11 Jehóva veitir ekki aðeins skjól um stundar sakir heldur óvinnandi vígi þar sem við getum búið örugg. Forysta hans og handleiðsla hafa ekki brugðist þjónum hans. Kraftur Guðs mun ónýta öll vélabrögð Satans og afkvæma hans. (Efesusbréfið 6:10, 11) Þegar við treystum Jehóva af öllu hjarta mun kraftur hans kippa okkur úr snöru Satans. (2. Pétursbréf 2:9) Síðastliðin fjögur ár hafa prédikunarstarfi votta Jehóva opnast dyr í um 35 löndum. Á þeim svæðum heims, þar sem þjóðfélagslegar, efnahagslegar og pólitískar aðstæður tálma prédikun fagnaðarerindisins, hafa sumir sauðumlíkir menn flust þangað sem auðveldara er að ná til þeirra. Japan er eitt slíkt land.

12. Hvernig gerði brautryðjandi í Japan Jehóva að vígi sínu?

12 Erlent vinnuafl hefur streymt til Japans og þar hafa verið stofnaðir margir söfnuðir þar sem töluð eru erlend mál. Reynsla bróður í japönskumælandi söfnuði sýnir hve frjósamur þessi akur erlendra tungumála er. Hann langaði til að fara og þjóna þar sem þörfin væri meiri. Hins vegar stýrði hann þegar tíu biblíunámum þar sem hann var. Einn vina hans sagði við hann í glensi: „Ef þú ferð þangað sem þörfin er meiri þyrftir þú að stjórna 20 biblíunámum þar!“ Honum var úthlutað nýju starfssvæði og hann fór til Híroshíma. En eftir fjóra mánuði var hann aðeins kominn með eitt biblíunám. Dag einn kom hann til manns frá Brasilíu sem talaði aðeins portúgölsku. Þar eð bróðirinn gat ekki talað við manninn keypti hann sér kennslubók í portúgölsku. Eftir að hafa lært nokkur einföld orð og orðatiltæki, sem algeng eru í samræðum, heimsótti hann manninn aftur. Húsráðandinn var steinhissa þegar bróðirinn heilsaði honum á portúgölsku og með breiðu brosi galopnaði hann dyrnar og bauð honum inn. Biblíunám var hafið. Innan tíðar var bróðirinn kominn með 22 biblíunám, 14 á portúgölsku, 6 á spænsku og 2 á japönsku!

Prédikað með trúarvissu

13. Hvers vegna ætti enginn að reyna að fá okkur með sektarkennd til að þjóna Jehóva?

13 Með trúartrausti syngja þjónar Jehóva söng Guðsríkis og í fullu trausti þess að Jehóva sé hæli þeirra. (Sálmur 31:15) Þeir munu ekki verða til skammar — Jehóva mun ekki lítillækka þá því að hann mun standa við orð sín. (Sálmur 31:18) Djöfullinn og djöflasveitir hans munu verða niðurlægðar. Með því að þjónum Jehóva er falið að prédika boðskap sem er laus við smán eru þeir ekki að prédika vegna sektarkenndar sem aðrir vekja með þeim. Það er ekki þannig sem Jehóva eða sonur hans hvetja þjóna sína til að dýrka sig. Þegar hjörtu manna eru full trúar og þakklætis fyrir gæsku og náð Jehóva er það gott hjartaástand þeirra sem kemur munninum til að mæla. (Lúkas 6:45) Þess vegna er hver sá tími sem við notum til þjónustunnar í hverjum mánuði, einkum ef sá tími er það besta sem við getum gert, góður, ekki skammarlegur. Kunnu ekki Jesús og faðir hans fyllilega að meta eyri ekkjunnar? — Lúkas 21:1-4.

14. Hvað er hægt að segja um brautryðjandastarfið? (Sjá einnig þjónustuskýrslu.)

14 Fyrir vaxandi fjölda boðbera er brautryðjandastarf innifalið í því að tilbiðja af allri sálu — 890.231 á síðasta ári þegar flestir voru! Ef þeim heldur áfram að fjölga jafnhratt og á síðasta ári fara þeir líklega yfir 1.000.000 á þessu. Eftirfarandi reynslufrásaga sýnir hvernig systir í Nígeríu gerðist brautryðjandi. Hún skrifar: „Þegar ég var um það bil að ljúka framhaldsskóla hjálpaði ég til við að elda fyrir þá sem sóttu brautryðjendaskóla votta Jehóva. Ég hitti þar tvær systur sem voru eldri en amma mín. Þegar ég komst að því að þær voru brautryðjendur og voru í skólanum hugsaði ég með mér: ‚Ef þessar tvær geta verið brautryðjendur, því þá ekki ég?‘ Ég gerðist því líka reglulegur brautryðjandi eftir að ég lauk skóla.“

15. Á hvaða hátt getur óformlegur vitnisburður rutt brautina fyrir aðra til að leita hælis hjá Jehóva?

15 Það geta ekki allir verið brautryðjendur en allir geta borið vitni. Áttatíu og tveggja ára systir í Belgíu fór út að kaupa kjöt. Hún veitti athygli að eiginkona kjötkaupmannsins var mjög áhyggjufull út af umbrotum í stjórnmálunum nýverið. Systirin lét því smáritið Hverju trúa vottar Jehóva? fylgja seðlunum þegar hún borgaði kjötið. Þegar systirin kom næst í búðina spurði kona kjötkaupmannsins umsvifalaust hvað Biblían segði um möguleikann á þriðju heimsstyrjöldinni. Systirin færði henni bókina Sannur friður og öryggi — hvernig? Fáeinum dögum síðar, þegar systirin gekk inn í búðina, var kona kaupmannsins með fleiri spurningar handa henni. Systirin kenndi í brjósti um þessa konu; hún hreinlega varð að bjóða henni biblíunám sem hún þáði. Núna vill kona kjötkaupmannsins láta skírast. Og hvað um kjötkaupmanninn? Hann las smáritið og er núna að nema Biblíuna líka.

‚Fjársjóður gæsku‘

16. Hvernig hefur Jehóva lagt fyrir fjársjóð gæsku handa þjónum sínum?

16 Hefur ekki Jehóva ‚sýnt dásamlega náð‘ þeim sem hafa leitað hælis hjá honum núna í álagi hinna síðstu daga? Eins og ástríkur, umhyggjusamur faðir hefur Jehóva lagt fyrir fjársjóð gæsku handa jarðneskum börnum sínum. Hann hefur úthellt hamingju yfir þá í allra augsýn, alveg eins og sálmaritarinn segir: „Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.“ — Sálmur 31:20, 22.

17-19. Hvað gott hlaust af því í Gana að gamall maður skyldi lögskrá hjónaband sitt?

17 Veraldlegt fólk verður því sjónarvottar að heiðarleika þeirra sem tilbiðja Jehóva og það undrast. Til dæmis fór 96 ára gamall maður í Gana, sem hafði búið í óvígðri sambúð í 70 ár, á skrifstofu hjónabandsskráningarstjórans og bað um að hún yrði lögskráð. Skráningarfulltrúinn var steini lostinn og spurði: „Ertu viss um að þú viljir það? Á þínum aldri?“

18 Maðurinn útskýrði: „Ég vil vera einn af vottum Jehóva og taka þátt í þýðingarmesta starfinu fyrir heimsendi — því starfi að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. Þetta starf leiðir til eilífs lífs. Vottar Jehóva hlýða landslögum, þeirra á meðal lögunum um skráningu hjónabanda. Þess vegna bið ég um skráningu.“ Embættismaðurinn var hvumsa. Hann skráði hjónabandið og gamli maðurinn yfirgaf skrifstofuna ánægður yfir því að búa nú í löglegu hjónabandi. — Samanber Rómverjabréfið 12:2.

19 Eftir á velti skráningarfulltrúinn fyrir sér því sem hann hafði heyrt. ‚Vottar Jehóva . . . þýðingarmesta starfið . . . heimsendir . . . Guðsríki . . . eilíft líf.‘ Það olli honum heilabrotum hvaða þýðingu allt þetta hefði í lífi 96 ára manns svo að hann ákvað að leita vottana uppi til að kanna málið frekar. Hann þáði heimabiblíunám og tók skjótum framförum. Núna er þessi skráningarfulltrúi skírður vottur. Þannig getur það leitt af sér ótalmargt gott fyrir okkur og þá sem eru sjónarvottar að breytni okkar þegar við hlýðum Jehóva, jafnvel í því sem öðrum finnst smáatriði. — Samanber 1. Pétursbréf 2:12.

20. Hvernig leiddi heiðarleiki ungrar systur í Mýanmar til góðs vitnisburðar?

20 Þeir sem eldri eru og hafa látið sannleikann móta sig til að verða heiðarlegt fólk geta gefið hinum ungu gott fordæmi í þessum óheiðarlega heimi. Í Mýanmar býr slík ung systir. Hún er af fátæku almúgafólki komin og er ein tíu systkina. Faðir hennar, sem er lífeyrisþegi, er reglulegur brautryðjandi. Dag einn fann systirin demantshring í skólanum og lét kennarann strax fá hann. Þegar bekkurinn mætti til kennslu næsta dag sagði kennarinn honum hvernig hringurinn hefði fundist og verið afhentur til að skila til eiganda síns. Síðan bað hann ungu systurina að standa frammi fyrir öllum bekknum og útskýra hvers vegna hún hefði gert þetta því að hann vissi að önnur börn hefðu kannski ákveðið að halda honum. Systirin útskýrði að hún væri vottur Jehóva og að Guði hennar geðjast ekki að þjófnaði eða neins konar óheiðarleika. Allur skólinn frétti af þessu og hin unga systir okkar fékk gott tækifæri til að bera vitni fyrir jafnt kennurum sem nemendum.

21. Hvaða mynd gefur framferði ungs fólks, sem treystir á Jehóva, af honum?

21 Í Belgíu kom kennari með athyglisverða athugasemd í kennslustund um votta Jehóva. Hann hafði tekið eftir framferði eins af nemendum sínum, sem var líka ung systir, og sagði: „Ég hef annað álit á vottum Jehóva núna. Fordómar höfðu komið mér til að halda að þeir væru umburðarlausastir allra manna. Þeir reyndust hins vegar hinir umburðarlyndustu, án þess þó að slaka á frumreglum sínum.“ Ár hvert verðlauna kennarar bestu nemendur sína. Meðal annars eru veitt verðlaun fyrir frammistöðu í siðfræði. Í þrjú ár í röð verðlaunaði þessi kennari börn votta Jehóva fyrir þrjár bestu einkunnirnar. Þannig fer oft fyrir þeim sem setja traust sitt og tryggð á Jehóva. — Sálmur 31:24.

22. Hver eru hin sigri hrósandi niðurlagsorð Sálms 31 og hvernig hjálpa þau okkur á lokadögum þessa heimskerfis?

22 Sálmi 31 lýkur með sigri hrósandi niðurlagsorðum: „Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á [Jehóva].“ (Sálmur 31:25) Jehóva mun því alls ekki yfirgefa okkur nú þegar við stöndum frammi fyrir lokadögum ills heimskerfis Satans, heldur mun hann nálægja sig okkur mjög og gefa okkur kraft sinn. Jehóva er trúfastur og bregst ekki. Hann er hæli okkar; hann er turn okkar. — Orðskviðirnir 18:10.

Manst þú?

◻ Hvers vegna getum við með trúartrausti gert Jehóva að hæli okkar?

◻ Hvaða merki eru um að öflugur kór syngi lofsöng Guðsríkis með hugrekki?

◻ Hvers vegna megum við treysta því að net Satans muni ekki fanga þjóna Jehóva?

◻ Hvaða fjársjóð hefur Jehóva lagt fyrir handa þeim sem leita hælis hjá honum?

[Myndir á blaðsíðu 12, 13]

Þeir sem leita hælis hjá Jehóva eru öflugur kór boðbera Guðsríkis — 4.709.889 að tölu!

1. Senegal

2. Brasilía

3. Síle

4. Bólivía

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila