Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.9. bls. 8-12
  • Kennsla Guðs og kenningar illra anda

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kennsla Guðs og kenningar illra anda
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kenningar illra anda koma í ljós
  • Kenningar illra anda nú á dögum
  • Kennsl borin á kenningar illra anda
  • Fastheldni við kennslu Guðs
  • Unglingar, kenningu hvers farið þið eftir?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Hvernig getum við staðið gegn illum öndum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Þekktu óvin þinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Jesús hefur vald yfir illum öndum
    Lærum af kennaranum mikla
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.9. bls. 8-12

Kennsla Guðs og kenningar illra anda

„Sumir [munu] ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:1.

1. Í hvaða miðri orrustu eru kristnir menn?

ÍMYNDAÐU þér að þú byggir alla ævi á styrjaldarsvæði. Hvernig væri að fara að sofa við hávaðann af skothríð og vakna upp við fallbyssudrunur? Í sumum heimshlutum þarf fólk því miður að búa við slíkt. Í andlegum skilningi búa þó allir kristnir menn við slíkar aðstæður. Þeir eru mitt í stórorrustu sem hefur geisað í um 6000 ár og færst í aukana á okkar dögum. Hvert er þetta aldagamla stríð? Barátta sannleikans gegn lyginni, kennslu Guðs gegn kenningum illra anda. Það eru ekki ýkjur að kalla hana — að minnsta kosti út frá hlutdeild eins höfuðpaursins í henni — miskunnarlausustu og mannskæðustu átökin í mannkynssögunni.

2. (a) Hvaða tvær hliðar eru gegn hvor annarri samkvæmt orðum Páls? (b) Hvað átti Páll við með ‚trú‘?

2 Páll postuli nefndi tvær hliðar þessarar baráttu þegar hann skrifaði Tímóteusi: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Taktu eftir að lærdómar eða kenningar illra anda áttu eftir að verða sérstaklega áhrifaríkar „á síðari tímum.“ Séð frá dögum Páls lifum við núna á slíkum tímum. Taktu líka eftir hvað er í andstöðu við kenningar illra anda, nefnilega ‚trúin.‘ Hér stendur ‚trúin‘ fyrir kennslu Guðs, sem byggð er á þeim innblásnu orðum frá Guði sem Biblían hefur að geyma. Slík trú er lífgandi. Hún kennir kristnum manni að gera vilja Guðs. Hún er sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. — Jóhannes 3:16; 6:40.

3. (a) Hvað verður um þá sem falla í baráttu sannleikas og lyginnar? (b) Hver stendur á bak við kenningar illra anda?

3 Enginn sem fellur frá trúnni nær að öðlast eilíft líf. Hann fellur í stríðinu. Það hefur sannarlega sorglegar afleiðingar að leyfa kenningum illra anda að leiða sig afvega. (Matteus 24:24) Hvernig getum við sem einstaklingar forðast að falla í valinn? Með því að hafna algerlega þessum lygakenningum sem þjóna aðeins tilgangi „höfðingja illra anda,“ Satas djöfulsins. (Matteus 12:24) Eins og við má búast eru kenningar Satans lygar vegna þess að Satan er „lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Lítum á hversu kunnáttusamlega hann notaði lygar til að afvegaleiða fyrstu foreldra okkar.

Kenningar illra anda koma í ljós

4, 5. Hvaða lygi sagði Satan Evu og hvers vegna var það svo mikil illmæli?

4 Þeir atburðir eru skráðir í Biblíunni, í 1. Mósebók 3:1-5. Satan notaði höggorm til að nálgast konuna Evu og spurði hana: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Spurningin virtist saklaus en líttu aftur á hana. „Er það satt?“ Satan virtist hissa, eins og hann væri að segja: ‚Hví skyldi Guð segja þvílíkt og annað eins?‘

5 Í sakleysi sínu lét Eva í ljós að þannig væri þetta. Hún þekkti kennslu Guðs í þessu máli, að Guð hefði sagt Adam að þau myndu deyja ef þau ætu af skilningstré góðs og ills. (1. Mósebók 2:16, 17) Spurning Satans vakti greinilega áhuga hennar og þess vegna hlustaði hún þegar hann kom sér að efninu: „Þá sagði höggormurinn við konuna: ‚Vissulega munuð þið ekki deyja!‘“ Hvílík illmæli! Satan sakaði Jehóva, Guð sannleikans, Guð kærleikans, skaparann, um að ljúga að mennskum börnum sínum. — Sálmur 31:6; 1. Jóhannesarbréf 4:16; Opinberunarbókin 4:11.

6. Hvernig dró Satan góðvild og drottinvald Jehóva í efa?

6 En Satan sagði meira. Hann hélt áfram: „En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ Samkvæmt orðum Satans vildi Jehóva Guð — sem hafði búið svo ríkulega í haginn fyrir fyrstu foreldra okkar — meina þeim um eitthvað dásamlegt. Hann vildi hindra þau í að vera eins og guðir. Satan dró því í efa góðvild Guðs. Hann ýtti einnig undir það að menn dekruðu við sjálfa sig og virtu lög Guðs viljandi að vettugi og sagði að slík hegðun væri til góðs. Í raun véfengdi Satan drottinvald Guðs yfir sinni eigin sköpun, lét að því liggja að Guð hefði engan rétt til að takmarka athafnir mannsins.

7. Hvenær heyrðust kenningar illra anda fyrst og hvernig eru þær svipaðar nú á dögum?

7 Með þessum orðum Satans fóru menn að heyra kenningar illra anda. Þessar skaðlegu kenningar stuðla enn þá að sams konar óguðlegum meginreglum. Alveg eins og Satan gerði í Edengarðinum véfengir hann enn þá rétt Guðs til að setja mælikvarða um hegðun, og núna eru aðrar uppreisnargjarnar andaverur gengnar til liðs við hann. Hann ber enn brigður á drottinvald Jehóva og reynir að fá menn til að óhlýðnast himneskum föður sínum. — 1. Jóhannesarbréf 3:8, 10.

8. Hverju glötuðu Adam og Eva í Eden, en hvernig reyndist Jehóva sannorður?

8 Í þessari fyrstu smáskæru í baráttunni milli kennslu Guðs og kenninga illra anda tóku Adam og Eva ranga ákvörðun og glötuðu von sinni um eilíft líf. (1. Mósebók 3:19) Þegar árin liðu og líkamar þeirra byrjuðu að hrörna var það þeim ljóslifandi staðfesting á því hver hafði logið og hver hafði sagt satt áður fyrr í Eden. Hundruðum ára áður en þau dóu í líkamlegum skilningu urðu þau hins vegar þau fyrstu til að falla í valinn í orrustunni milli sannleika og lygi, þá er skapari þeirra, uppspretta lífsins, dæmdi þau óverðug þess að lifa. Það var þá sem þau dóu í andlegum skilningi. — Sálmur 36:10; samanber Efesusbréfið 2:1.

Kenningar illra anda nú á dögum

9. Hversu áhrifaríkar hafa kenningar illra anda verið í aldanna rás?

9 Eins og skráð er í Opinberunarbókinni var Jóhannes postuli hrifinn vegna innblásturs til ‚Drottins dags‘ sem hófst árið 1914. (Opinberunarbókin 1:10) Á þeim tíma var Satan og illum öndum hans varpað út af himninum til nágrennis jarðarinnar, og var það mikið bakslag fyrir þennan andstæðing hins mikla skapara okkar. Nú heyrðist ekki lengur rödd hans á himni ásaka þjóna Jehóva í sífellu. (Opinberunarbókin 12:10) En hvernig hafði kenningum illra anda miðað áfram á jörðinni frá því í Eden? Frásagan segir: „Drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Heill heimur hafði lotið í lægra haldi fyrir lygum Satans. Það er engin furða að Satan skuli vera nefndur ‚höfðingi þessa heims.‘ — Jóhannes 12:31; 16:11.

10, 11. Á hvaða hátt eru Satan og illir andar hans virkir nú á dögum?

10 Viðurkenndi Satan ósigur eftir að honum hafði verið komið burt af himni? Alls ekki! Hann ákvað að halda áfram að berjast gegn kennslu Guðs og þeim sem halda sér fast við hana. Eftir að Satan hafði verið varpað frá himni hélt hann hernaði sínum áfram: „Þá reiddist drekinn [Satan] konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ — Opinberunarbókin 12:17.

11 Auk þess að berjast gegn þjónum Guðs hellir Satan áróðri sínum yfir heiminn og leitast við að halda taki sínu á mannkyninu. Í einni af sýnum Jóhannesar postula á Drottins degi í Opinberunarbókinni sá hann þrjú villidýr sem voru táknrænir fulltrúar fyrir Satan, jarðneskt stjórnmálakerfi hans og hið ríkjandi heimsveldi á okkar tímum. Út úr munni þessara þriggja komu froskar. Hvað táknuðu þeir? Jóhannes skrifar: „Þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.“ (Opinberunarbókin 16:14) Kenningar illra anda eru augljóslega mjög virkar á jörðinni. Satan og illir andar hans berjast enn gegn kennslu Guðs og þeir munu halda því áfram uns Jesús Kristur, Messíasarkonungurinn, stöðvar þá með valdi. — Opinberunarbókin 20:2.

Kennsl borin á kenningar illra anda

12. (a) Hvers vegna er hægt að standa gegn kenningum illra anda? (b) Hvernig reynir Satan að ná marki sínu með þjóna Guðs?

12 Geta guðhræddir menn staðið gegn kenningum illra anda? Þeir geta það sannarlega, af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að kennsla Guðs er öflugri, og í öðru lagi vegna þess að Jehóva hefur afhjúpað herkænskubrögð Satans til þess að við getum staðið gegn þeim. Eins og Páll postuli sagði ‚er okkur ekki ókunnugt um vélráð hans.‘ (2. Korintubréf 2:11) Við vitum að Satan notar ofsóknir sem eina aðferð til að ná marki sínu. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hann er þó miklu slóttugri þegar hann reynir að hafa áhrif á hugi og hjörtu þeirra sem þjóna Guði. Hann afvegaleiddi Evu og kom röngum hvötum fyrir í hjarta hennar. Hann reynir það sama nú á tímum. Páll skrifaði Korintumönnum: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ (2. Korintubréf 11:3) Skoðum hvernig hann hefur spillt hugsun manna almennt.

13. Hvaða lygar hefur Satan sagt mannkyninu síðan í Eden?

13 Við Evu ásakaði Satan Jehóva um að ljúga og sagði að menn gætu verið eins og guðir ef þeir óhlýðnuðust skapara sínum. Hið synduga ástand mannkynsins nú á dögum sannar að það var Satan, ekki Jehóva, sem var lygarinn. Nútímamenn eru engir guðir. Satan fylgdi hins vegar þessari fyrstu lygi eftir með öðrum lygum. Hann kom fram með þá hugmynd að mannssálin sé ódauðleg, hún deyi ekki. Þannig vingsaði hann frammi fyrir mönnum þeim möguleika að þeir yrðu eins og guðir á annan hátt. Á grundvelli þessarar falskenningar kom hann síðan af stað spíritisma og forfeðradýrkun og kenningunum um helvíti og hreinsunareld. Þessar lygar þrælbinda enn þá hundruð milljóna manna. — 5. Mósebók 18:9-13.

14, 15. Hver er sannleikurinn um dauðann og framtíðarvon mannsins?

14 Það sem Jehóva sagði Adam var að sjálfsögðu sannleikur. Adam dó vissulega þegar hann syndgaði gegn Guði. (1. Mósebók 5:5) Þegar Adam og niðjar hans dóu urðu þeir dauðar sálir, meðvitundarlausar og óvirkar. (1. Mósebók 2:7; Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Allar mannssálir deyja af því að þær hafa erft syndina frá Adam. (Rómverjabréfið 5:12) Í Eden hét Jehóva hins vegar komu sæðis sem myndi berjast gegn verkum djöfulsins. (1. Mósebók 3:15) Það sæði var Jesús Kristur, eingetinn sonur Guðs. Jesús dó syndlaus og lífið, sem hann fórnaði, varð lausnargjald til að endurheimta mannkynið frá hinu dauðvona ásigkomulagi sínu. Þeir sem í hlýðni iðka trú á Jesú hafa möguleika á að öðlast eilífa lífið sem Adam glataði. — Jóhannes 3:36; Rómverjabréfið 6:23; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

15 Lausnargjaldið, ekki einhver þokukennd hugmynd um að sál lifi líkamsdauðann, er hin raunverulega von mannkynsins. Þetta er kenning Guðs. Hún er sannleikur. Hún sýnir líka á dásamlegan hátt kærleika Jehóva og visku. (Jóhannes 3:16) Sannarlega ættum við að vera þakklát fyrir að hafa lært þessi sannindi og vera leyst undan kenningum illra anda um þessi mál. — Jóhannes 8:32.

16. Hverjar eru langtímaafleiðingarnar þegar menn fylgja eigin visku?

16 Með lygum sínum í Edengarðinum hvatti Satan Adam og Evu til að sækjast eftir að vera óháð Guði og reiða sig á eigin visku. Núna sjáum við langvarandi afleiðingar þess í þeim glæpum, efnahagsþrengingum, styrjöldum og yfirgengilega ójöfnuði sem er að finna í heiminum nú á dögum. Ekki er að furða að Biblían skuli segja: „Speki þessa heims er heimska hjá Guði.“ (1. Korintubréf 3:19) Engu að síður sýna flestir þá heimsku að velja frekar að þjást en að veita kenningum Jehóva athygli. (Sálmur 14:1-3; 107:17) Kristnir menn, sem hafa tekið við kennslu Guðs, forðast að falla í þá gildru.

17. Hvaða ‚rangnefndu þekkingu‘ hefur Satan stuðlað að og hverjir eru ávextir hennar?

17 Páll skrifaði Tímóteusi: „Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar, sem nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Þessi ‚þekking‘ stendur einnig fyrir kenningar illra anda. Á dögum Páls vísaði hún líklega til fráhvarfshugmyndanna sem sumir í söfnuðinum héldu á lofti. (2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Seinna spillti rangnefnd þekking, eins og gnostisismi og grísk heimspeki, söfnuðinum. Í heiminum nú á tímum eru guðleysi, efahyggja, þróunarkenningar og æðri biblíugagnrýni dæmi um rangnefnda þekkingu, svo og óbiblíulegar hugmyndir sem fráhvarfsmenn nú á dögum halda á lofti. Ávexti allrar þessarar rangnefndu þekkingar má sjá í siðferðishnignuninni, hinu útbreidda virðingarleysi fyrir yfirvaldi, óheiðarleikanum og sjálfselskunni sem einkennir heimskerfi Satans.

Fastheldni við kennslu Guðs

18. Hverjir leita kennslu hjá Guði nú á dögum?

18 Jafnvel þótt Satan hafi hellt kenningum illra anda yfir jörðina síðan á tímum Edengarðsins hafa alltaf verið einhverjir sem leituðu að kennslu Guðs. Slíkir einstaklingar skipta milljónum nú á dögum. Meðal þeirra eru þeir sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum sem hafa þá öruggu von að ríkja með Jesú í himnesku ríki hans og hinn vaxandi mikli múgur ‚annarra sauða‘ sem eiga þá von að erfa jarðneskan vettvang þess ríkis. (Matteus 25:34; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:3, 9) Þeim hefur núna verið safnað saman í eitt heimsskipulag sem orðin í Jesaja eiga við: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ — Jesaja 54:13.

19. Hvað felst í því að fá kennslu frá Jehóva?

19 Að fá kennslu frá Jehóva felur meira í sér en að þekkja sannar kennisetningar, þótt það sé mikilvægt. Jehóva kennir okkur hvernig við eigum að lifa, hvernig við eigum að heimfæra kennslu Guðs á okkar eigið líf. Til dæmis stöndum við gegn þeirri eigingirni, siðleysi og sjálfstæðisanda sem er svo skefjalaus í heiminum í kringum okkur. Við gerum okkur ljóst hvað hin vægðarlausa eftirsókn í auð í þessum heimi er í eðli sínu — banvæn. (Jakobsbréfið 5:1-3) Við gleymum aldrei þeirri kennslu Guðs sem tjáð er með orðum Jóhannesar postula: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:15.

20, 21. (a) Hvað notar Satan í viðleitni sinni til að blinda menn? (b) Hvaða blessun öðlast þeir sem halda sér fast við kennslu Guðs?

20 Áhrif kenninga illra anda á fórnarlömb þeirra sjást af orðum Páls til Korintumanna: „[Satan] hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ (2. Korintubréf 4:4) Satan vill gjarnan blinda sannkristna menn líka á þennan hátt. Í Eden notaði hann höggorm til að afvegaleiða einn af þjónum Guðs. Núna notar hann ofbeldisfullar eða siðlausar kvikmyndir og sjónvarpsefni. Hann hagnýtir sér útvarp, bókmenntir og tónlist. Rangur félagsskapur er öflugt vopn í hendi hans. (Orðskviðirnir 4:14; 28:7; 29:3) Gerðu þér alltaf ljóst hvað slíkir hlutir eru í eðli sínu — kænskubrögð og kenningar illra anda.

21 Mundu að orð Satans í Eden voru lygar; orð Jehóva reyndust sönn. Allan þann tíma sem síðan er liðinn hefur engin breyting orðið á því. Satan hefur alltaf reynst lygari og kennsla Guðs reynst sönn og óbrigðul. (Rómverjabréfið 3:4) Ef við höldum okkur fast við orð Guðs verðum við alltaf sigursæl í baráttu sannleikans og lyginnar. (2. Korintubréf 10:4, 5) Við skulum því vera staðráðin í að hafna öllum kenningum illra anda. Á þann hátt munum við þrauka uns sá tími kemur að stríði sannleikas og blekkinganna er lokið. Sannleikurinn hefur þá sigrað. Satan verður horfinn og aðeins kennsla Guðs mun heyrast á jörðinni. — Jesaja 11:9.

Til upprifjunar

◻ Hvenær heyrðust kenningar illra anda fyrst?

◻ Nefndu nokkur þeirra ósanninda sem Satan og illir andar hans halda á lofti.

◻ Á hvaða hátt er Satan afskaplega virkur nú á tímum?

◻ Hvað notar Satan til að vinna kenningum illra anda fylgi?

◻ Hvað blessun býðst þeim sem halda sér fast við kennslu Guðs?

[Mynd á blaðsíðu 8]

Kenning illra anda heyrðist fyrst í Edengarðinum.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Kennsla Guðs um lausnargjaldið og Guðsríki segir frá einu von mannkynsins.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila