Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.11. bls. 5-7
  • Leit þeirra að hinni réttu trú

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leit þeirra að hinni réttu trú
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna sumir hafa alvarlegar efasemdir
  • Hún lærði sannleikann um hina dánu
  • Þau fundu líf sem hefur tilgang
  • Hvernig hafa sumir fengið svör?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.11. bls. 5-7

Leit þeirra að hinni réttu trú

SUMIR hafa allt frá barnæsku leitað að fullnægjandi svörum við spurningum sínum um lífið. Á unga aldri sóttu þeir kannski guðsþjónustur. En margir þeirra komust að raun um að hvorki svörin sem þeir fengu né helgiathafnir kirkjunnar hjálpuðu þeim í raun og veru að takast á við vandamál lífsins.

Þeir segjast kannski enn tilheyra trúarsöfnuði foreldra sinna þótt þeir sæki sjaldan guðsþjónustur. Samkvæmt því sem biskup ensku biskupakirkjunnar segir, eru vart nema leifar af trú eftir hjá þeim. Þeir hafa látið trúna sitja á hakanum. Öðrum býður við hræsninni sem þeir sjá innan trúarhópa og þeir hafa alfarið hafnað trúnni. En spurningum þeirra um lífið er eftir sem áður ósvarað.

Hvers vegna sumir hafa alvarlegar efasemdir

Flestir vita að margar kirkjur reka stofnanir til að hjálpa heimilislausum, dreifa matvælum til nauðstaddra og til að styrkja menningarviðburði. En næstum daglega frétta þeir einnig af ofbeldi og blóðsúthellingum sem eiga rætur að rekja til trúarbragða, ekki aðeins meðal heiðinna manna heldur einnig meðal þeirra sem segjast vera kristnir. Ætti það að koma okkur á óvart ef þeir efast um að hópar, sem viðriðnir eru slíkt ofbeldi, séu að iðka hina réttu trú?

Mörgum, sem fengu trúarlegt uppeldi, fannst það vera af hinu góða að kirkjur skyldu styrkja munaðarleysingjahæli. En síðastliðin ár hefur þeim blöskrað þegar prestar á einum stað af öðrum hafa verið ákærðir fyrir að misnota kynferðislega þau börn, sem þeim var falið umsjón með. Í fyrstu héldu menn að aðeins væri við fáeina presta að sakast. Nú eru sumir farnir að velta fyrir sér hvort eitthvað sé stórlega athugavert við kirkjuna sjálfa.

Fáeinir, eins og til dæmis Eugenia, lögðu mikla rækt við trú sína. Sem ungmenni í Argentínu fór hún í pílagrímsferðir til þess að tilbiðja meyna af Itatí. Hún gekk í klaustur og var nunna í 14 ár. Síðan yfirgaf hún klaustrið til að gerast félagi í alþjóðlegum trúar- og stjórnmálahópi sem barðist með byltingarkenndum aðferðum fyrir tafarlausum, róttækum breytingum á hinni félagslegu og efnahagslegu þjóðfélagsgerð. Það sem hún sá og reyndi leiddi til þess að hún hætti að treysta Guði og missti trúna. Hún var í rauninni ekki að leita að trúarbrögðum sem hún gæti aðhyllst. Það sem hún vildi var að finna leið til að koma á réttlæti fyrir þá sem voru fátækir — já, og vin sem hún gæti treyst.

Aðrir fylgjast með því sem er að gerast í kirkjunum og hafa haldið sig í hæfilegri fjarlægð. Trúleysingi, sem fékk skoðanir sínar birtar í tímaritinu Sputnik árið 1991, sagði hreinskilnislega: „Ég get ekki séð nokkurn eðlismun á einkennum heiðinnar og kristinnar goðafræði.“ Sem dæmi lýsti hann skrúðgöngu þar sem prestar í gullskreyttum skikkjum báru múmíu í steinkistu rólega um götur Moskvu. Þetta var lík „kristins dýrlings úr rétttrúnaðarkirkjunni,“ sem verið var að flytja frá safni til kirkju, og það minnti greinarhöfundinn á presta og múmíur Forn-Egypta. Hann minntist þess líka að þeir sem tóku þátt í skrúðgöngunni í Moskvu trúðu á „hina kristnu þrenningu,“ en að Egyptar höfðu einnig tilbeðið guðaþrenningu —  Ósíris, Ísis og Hórus.

Þessi sami greinarhöfundur minntist á hið kristna hugtak kærleikann — „Guð er kærleikur“ og „elska skaltu náunga þinn“ — og sagði að ekkert sambærilegt væri að finna hjá hinum heiðnu Egyptum. En honum varð að orði: „Bróðurkærleika hefur mistekist að sigra í heiminum, jafnvel í þeim hluta hans sem kallar sig hinn kristna heim.“ Og hann fylgdi því eftir með athugasemdum um hinn slæma ávöxt af ítrekuðum afskiptum kirkjunnar af málefnum ríkisins. Miðað við það sem hann sá fannst honum kirkjur kristna heimsins ekki bjóða upp á það sem hann leitaði að.

Aðrir hafa aftur á móti fundið fullnægjandi svör en ekki í kirkjum kristna heimsins.

Hún lærði sannleikann um hina dánu

Magdalena, sem nú er 37 ára gömul, býr í Búlgaríu. Hún var örvilnuð eftir að tengdafaðir hennar lést árið 1991. Hvað eftir annað spurði hún sig: ‚Hvert fara hinir dánu? Hvar er tengdafaðir minn?‘ Hún fór í kirkju og hún bað frammi fyrir helgimynd heima hjá sér en fékk engin svör.

Þá dag nokkurn hringdi nágranni í hana og bauð henni í heimsókn til sín. Ungur maður, sem var að nema með vottum Jehóva, var í heimsókn hjá nágrannanum. Hún hlustaði þegar hann talaði um ríki Guðs og tilgang hans að gera jörðina að paradís þar sem fólk gæti lifað hamingjusamt að eilífu. Bókin Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð lá á borðinu. Ungi maðurinn notaði hana til að beina athygli hennar að ritningarstaðnum í Biblíunni í Prédikaranum 9:5 sem segir: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ Hún las meira þetta sama kvöld. Hún komst að raun um að hinir dánu hafa ekki flust yfir í annað líf á himnum eða í helvíti; þeir hafa enga meðvitund, líkt og þeir væru steinsofandi. Glöð þáði hún boð um að vera viðstödd samkomu hjá söfnuði votta Jehóva á staðnum. Eftir samkomuna féllst hún á að nema Biblíuna reglulega. Á samkomunni hafði hún tekið eftir hvernig beðið var til Jehóva og hún byrjaði líka að biðja til Jehóva um hjálp til að sigrast á rótgrónum veikleika. Þegar hún var bænheyrð var hún viss um að hún hefði fundið hina réttu trú.

Þau fundu líf sem hefur tilgang

André hafði alist upp á rammkaþólsku heimili í Belgíu og hafði þjónað sem aðstoðarmaður prestsins á staðnum. Á þeim tíma sá hann hins vegar ýmislegt sem gróf undan virðingu hans fyrir kirkjunni. Það leiddi til þess að hann var kaþólskur aðeins að nafninu til.

Hann hafði verið atvinnumaður í knattspyrnu í 15 ár. Eitt sinn, þegar lið hans keppti á móti á Ítalíu, var því boðið til áheyrnar hjá páfanum. Heimsóknin var á engan hátt andlega uppbyggjandi og veraldarauðurinn umhverfis páfann kom André í uppnám. Efasemdir hans um kirkjuna jukust. Hann var ekki hamingjusamur í einkalífi sínu vegna tveggja misheppnaðra hjónabanda. Heimsástandið gerði honum gramt í geði. Árið 1989 skrifaði hann í dagbókina sína: ‚Hvað merkir öll þessi vitleysa sem á sér stað í kringum okkur?‘ Trú hans veitti honum engin svör.

Iiris, sem er trúboði hjá vottum Jehóva, hitti André árið 1990 þegar hann vann sem knattspyrnuþjálfari á Íslandi. Hann þáði rit og bauð trúboðanum að koma aftur. Hún kom aftur með Kjell, eiginmanni sínum. Þegar þau loksins gátu sest niður og talað við André var það augljóst að hann hafði mikinn áhuga á að skilja Biblíuna. Ásta, eiginkona hans, var líka áhugasöm. Um miðjan dag hafði hann þriggja klukkustunda hlé milli æfinga og þau ákváðu að nota þann tíma til að nema Biblíuna. „Mér finnst ég endurnærast meira við að nema Biblíuna heldur en að hvíla mig bara,“ sagði hann. Stig af stigi svaraði Biblían spurningum þeirra. Smám saman tók trú þeirra á Jehóva og ríki hans að vaxa. Hin dásamlegu fyrirheit Biblíunnar um friðsaman nýjan heim urðu raunveruleg fyrir þeim, heim sem væri laus við ‚alla þessa vitleysu sem á sér stað.‘ Bæði André og Ásta segja nú öðrum frá sinni nýfundnu trú.

Magdalena, André og Ásta eru fullviss um að hafa loksins fundið hina réttu trú. Eugenia, sem hafði reynt að leysa vandamál heimsins með stjórnmálalegum aðferðum, fann að lokum einnig hjá vottum Jehóva þá trú sem henni virtist vera sú rétta. En hvað er það sem raunverulega ákvarðar hvort trú sé sú rétta eða ekki? Kynntu þér efnið sem hér fer á eftir.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Reglulegt nám í Biblíunni með vottum Jehóva hjálpar yfir fimm milljónum manna í leit sinni að fullnægjandi svörum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila