Barist gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi
„Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:6.
1. Í hvaða tilgangi voru mennirnir skapaðir?
„GUÐ skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ (1. Mósebók 1:27) Mynd er endurspeglun hlutar eða frummyndar. Mennirnir voru þannig skapaðir til að endurspegla dýrð Guðs. Með því að sýna guðlega eiginleika — eins og kærleika, gæsku, réttvísi og andlega göfgi — í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur, færa þeir skapara sínum lof og dýrð og sjálfum sér hamingju og ánægju. — 1. Korintubréf 11:7; 1. Pétursbréf 2:12.
2. Hvernig misstu fyrstu mennsku hjónin marks?
2 Fyrstu mennsku hjónin voru mjög vel búin til þessa hlutverks, enda sköpuð fullkomin. Eins og gljáfægðir speglar gátu þau endurspeglað dýrð Guðs með miklum glans og gæðum. Hins vegar leyfðu þau hinni gljáfægðu áferð að mattast og spillast þegar þau völdu af ráðnum hug að óhlýðnast skapara sínum og Guði. (1. Mósebók 3:6) Upp frá því gátu þau ekki endurspeglað dýrð Guðs fullkomlega. Þau skorti Guðs dýrð, fóru á mis við tilganginn með því að vera sköpuð eftir Guðs mynd. Með öðrum orðum, þau syndguðu.a
3. Hvert er hið sanna eðli syndarinnar?
3 Þetta hjálpar okkur að skilja hið sanna eðli syndarinnar sem spillir fyrir að maðurinn geti endurspeglað dýrð Guðs og það að hann sé skapaður í mynd hans. Syndin gerir manninn vanheilagan, það er að segja óhreinan og ógljáfægðan eða spilltan í andlegum og siðferðilegum skilningi. Allir menn, sem niðjar Adams og Evu, eru fæddir í þessu ógljáfægða og óhreina ásigkomulagi og ná ekki að rísa undir því sem Guð væntir af þeim sem börnum hans. Og hver er útkoman? Biblían útskýrir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12; samanber Jesaja 64:6.
Tangarhald syndarinnar á hinu fallna holdi
4-6. (a) Hvernig líta flestir á synd nú á tímum? (b) Til hvers leiða þessi nútímaviðhorf til syndar?
4 Flestir nú á dögum líta ekki á sig sem óhreina, spillta eða synduga. Meira að segja hefur hugtakið synd næstum horfið úr orðaforða flestra manna. Þeir tala kannski um villu, hrösun eða misreikning. En synd? Tæplega. Jafnvel fyrir þá sem enn segjast trúa á Guð „mynda kenningar hans samsafn skoðana í siðferðismálum frekar en siðareglur, ‚tillögurnar tíu‘ frekar en boðorðin tíu,“ segir Alan Wolfe, prófessor í félagsfræði.
5 Til hvers leiðir slíkur hugsunarháttur? Hann leiðir til þess að raunveruleika syndarinnar er afneitað, eða að minnsta kosti litið fram hjá honum. Þetta hefur alið af sér kynslóð manna með illilega afskræmda tilfinningu fyrir því hvað sé rétt og rangt, sem finnst þeir frjálsir til að setja sér sínar eigin hegðunarreglur og finnst þeir ekki ábyrgir gagnvart neinum fyrir það sem þeir velja að gera. Það einasta sem slíkt fólk miðar við, þegar dæma skal hvort eitthvert framferði sé tilhlýðilegt eða ekki, er að það sjálft sé sátt við það. — Orðskviðirnir 30:12, 13; samanber 5. Mósebók 32:5, 20.
6 Til dæmis var ungu fólki boðið, í samræðuþætti í sjónvarpi, að láta í ljós skoðun sína á „dauðasyndunum sjö“ sem svo eru nefndar.b „Hroki er ekki synd,“ sagði einn þátttakandinn. „Maður á að geta verið ánægður með sjálfan sig.“ Um leti sagði annar: „Það er stundum gott að vera latur. . . . Stundum er gott að slappa af og nota tímann í sjálfan sig.“ Sá sem stjórnaði umræðunum sagði jafnvel stutt og skorinort: ‚Dauðasyndirnar sjö eru ekki ill breytni heldur miklu fremur árátta sem almennt býr í mönnum og getur verið bagaleg en einnig veitt mikla ánægju.‘ Já, með syndinni er sektarkenndin einnig á bak og burt því að, þegar alls er gætt, þá er sektarkennd alger andhverfa þess að vera sáttur við sjálfan sig. — Efesusbréfið 4:17-19.
7. Hvaða áhrif hefur syndin á mennina samkvæmt orðum Biblíunnar?
7 Í greinilegri mótsögn við allt þetta fullyrðir Biblían einfaldlega: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Jafnvel Páll postuli viðurkenndi: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ (Rómverjabréfið 7:18, 19) Páll var ekki að sökkva sér niður í sjálfsvorkunn hér. Hann gerði sér einmitt fullkomlega ljóst hversu mjög mannkynið skorti Guðs dýrð og þess vegna fann hann enn sárar fyrir tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi. „Ég aumur maður!“ sagði hann, „hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ — Rómverjabréfið 7:24.
8. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur? Hvers vegna?
8 Hvaða augum lítur þú þetta mál? Þú kannt að viðurkenna að sem niðji Adams sért þú ófullkominn eins og allir aðrir. En hvaða áhrif hefur sú vitneskja á hugsanagang þinn og lífshætti? Tekur þú þessu sem óbreytanlegri staðreynd og gerir síðan einfaldlega það sem þú hefur tilhneigingu til að gera? Eða leggur þú þig sífellt fram við að berjast gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi og keppist við að endurspegla dýrð Guðs eins skært og mögulegt er í öllu sem þú gerir? Við ættum öll að taka þetta til alvarlegrar athugunar í ljósi þess sem Páll sagði: „Þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er. Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.“ — Rómverjabréfið 8:5, 6.
Hyggja holdsins
9. Hvernig stendur á því að „hyggja holdsins er dauði“?
9 Hvað átti Páll við þegar hann sagði að „hyggja holdsins er dauði“? Orðið „hold“ er oft notað í Biblíunni um manninn í sínu ófullkomna ástandi, ‚getinn í synd‘ sem afkomandi hins uppreisnargjarna Adams. (Sálmur 51:5; Jobsbók 14:4) Páll var þannig að áminna kristna menn menn um að láta hugann ekki dvelja við syndugar tilhneigingar, hvatir og fýsnir hins ófullkomna, fallna holds. Og hvers vegna ekki? Á öðrum stað sagði Páll okkur hvað verk holdsins væru og bætti síðan við þessari viðvörun: „Þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.“ — Galatabréfið 5:19-21.
10. Hvað er átt við með „hyggju“ eða „að hyggja“?
10 En er ekki mikill munur á að hyggja að einhverju og að gera það? Vissulega leiðir hugsun um eitthvað ekki alltaf til þess að menn geri það. Að hyggja að einhverju er hins vegar meira en að það komi aðeins skamma stund upp í hugann. Orðið, sem Páll notar, er phronema á grísku og það merkir „hugsunarhátt, hugfestingu, . . . ásetning, vonir, eftirsókn.“ „Hyggja holdsins“ þýðir þess vegna að fýsnir hins fallna holds heltaki mann, stýri og stjórni og knýi áfram. — 1. Jóhannesarbréf 2:16.
11. Hvernig var Kain að hyggja að holdinu, og hverjar urðu afleiðingarnar?
11 Sú braut, sem Kain fór út á, er gott dæmi um þetta. Þegar afbrýði og reiði kom upp í hjarta Kains varaði Jehóva Guð hann við með þessum orðum: „Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?“ (1. Mósebók 4:6, 7) Kain átti um tvennt að velja. Myndi hann ‚gjöra rétt,‘ það er að segja binda huga sinn, ásetning og vonir við eitthvað gott? Eða myndi hann halda áfram að hyggja að holdinu og einbeita huganum að slæmu tilhneigingunum sem leyndust í hjarta hans? Eins og Jehóva útskýrði ‚lá syndin við dyrnar‘ og beið þess að stökkva á Kain og gleypa hann í sig ef hann leyfði henni það. Í stað þess að berjast við og „drottna yfir“ holdlegum girndum sínum leyfði Kain þeim að stjórna sér — með hörmulegum afleiðingum.
12. Hvað ættum við að gera til að ganga ekki „á vegi Kains“?
12 Hvað um okkur nú á dögum? Vissulega viljum við ekki ganga „á vegi Kains“ eins og Júdas harmaði að nokkrir kristnir menn á fyrstu öldinni skyldu hafa gert. (Júdasarbréfið 11) Við ættum aldrei að álykta sem svo að svolítil eftirlátssemi eða frjálsræði hér og þar sé skaðlaust. Þvert á móti ættum við að vera vakandi fyrir því að bera kennsl á sérhver óguðleg eða spillandi áhrif sem kunna að hafa ratað inn í hjarta okkar og huga og fjarlægja þau snarlega áður en þau ná að skjóta rótum. Baráttan gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi hefst innan frá. — Markús 7:21.
13. Hvernig getur ‚eigin girnd freistað manns‘?
13 Fyrir augu þín gæti til dæmis borið hneykslanleg eða hryllileg sjón eða einstaklega djörf og æsandi mynd. Það gæti verið mynd í bók eða blaði, atriði á kvikmyndatjaldi eða í sjónvarpi, auglýsing á auglýsingaskilti eða eitthvað sem gerist í kringum þig. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera áhyggjuefni þar sem það bæði getur gerst og gerist. Hins vegar gæti þessi mynd eða sjón, þótt hún hafi kannski aðeins varað í fáeinar sekúndur, átt það til að sitja eftir í huganum og skjóta upp kollinum af og til. Hvað gerir þú þegar það gerist? Gerir þú samstundis eitthvað til að berjast gegn þeirri hugsun og ýta henni úr huga þér? Eða leyfir þú henni að dvelja í huganum og endurlifir ef til vill það sem fyrir augun bar? Ef þú gerir hið síðarnefnda tekur þú þá áhættu að koma af stað þeirri keðjuverkun sem Jakob lýsir: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“ Þess vegna sagði Páll: „Hyggja holdsins er dauði.“ — Jakobsbréfið 1:14, 15; Rómverjabréfið 8:6.
14. Hverju stöndum við andspænis daglega og hvernig ættum við að bregðast við?
14 Við lifum í heimi þar sem kynferðislegt siðleysi, ofbeldi og efnishyggja er vegsamað. Í bókum, tímaritum, kvikmyndum, sjónvarpi og dægurlögum er slíku komið opinskátt og ríflega á framfæri þannig að rangar hugsanir og hugmyndir bókstaflega dynja á okkur dag hvern. Hvernig bregst þú við? Hefur þú gaman af þessu öllu og finnst þér það skemmtilegt? Eða er þér innanbrjósts eins og hinum réttláta Lot „er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu . . . og mæddist í sinni réttlátu sálu . . . af þeim ólöglegu verkum [þeirra].“ (2. Pétursbréf 2:7, 8) Til þess að bera hærri hlut í baráttunni gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi þurfum við að einsetja okkur að gera eins og sálmaritarinn gerði: „Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.“ — Sálmur 101:3.
Hyggja andans
15. Hvaða hjálp höfum við til að berjast gegn tangarhaldi syndarinnar á okkur?
15 Páll hélt áfram og nefndi nokkuð sem getur hjálpað okkur að berjast gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi: „Hyggja andans [er] líf og friður.“ (Rómverjabréfið 8:6) Í stað þess að láta holdið ráða yfir okkur verðum við þannig að láta huga okkar komast undir áhrif andans og þrífast á því sem andans er. Hvað er það? Páll telur það upp í Filippíbréfinu 4:8: „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ Skoðum þetta nánar og fáum betri skilning á því sem við eigum að hugfesta.
16. Hvaða eiginleika hvatti Páll okkur til að ‚hugfesta‘ og hvað felur hver og einn þeirra í sér?
16 Páll telur upp átta siðferðilega eiginleika. Á undan þeim notar hann orðin „allt sem“ eða „hvað sem“ og gefur það til kynna að kristnum mönnum ber ekki að takmarka sig við það að hugsa um biblíulegt eða kenningalegt efni öllum stundum. Það eru fjölmörg og margvísleg viðfangsefni og umræðuefni sem við getum leitt hugann að. En það sem mestu máli skiptir er að þau samræmist þeim siðferðilegu eiginleikum sem Páll tilgreinir. Hvert og eitt þeirra atriða, sem Páll telur upp, verðskuldar að við gefum því gaum. Við skulum núna athuga þau hvert af öðru.
◻ „Satt“ felur meira í sér en að vera aðeins sannur eða ósannur. Það þýðir að vera sannsögull, ráðvandur, áreiðanlegur, eitthvað sem er ekta en virðist ekki aðeins vera það. — 1. Tímóteusarbréf 6:20.
◻ „Göfugt“ vísar til þess sem hefur yfir sér reisn og virðingu. Það vekur hjá manni lotningu, er háleitt, tilkomumikið og heiðvirt í stað þess að vera óheflað og lágkúrulegt.
◻ „Rétt“ þýðir að það kemur heim og saman við staðla Guðs, ekki manna. Veraldlegir menn nota hugarorku í óréttlátar ráðagerðir en við verðum að hugsa um og hafa ánægju af því sem er rétt í augum Guðs. — Samanber Sálm 26:4; Amos 8:4-6.
◻ „Hreint“ þýðir flekklaust og heilagt, ekki aðeins í hegðun (kynhegðun eða annarri) heldur einnig í hugsun og áhugahvötum. „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein,“ segir Jakob. Jesús, sem er „hreinn,“ er hin fullkomna fyrirmynd sem við ættum að virða fyrir okkur. — Jakobsbréfið 3:17; 1. Jóhannesarbréf 3:3.
◻ „Elskuvert“ er það sem hvetur til eða vekur upp elsku hjá öðrum. Við eigum að ‚gefa gætur hver að öðrum og hvetja hver annan til kærleika og góðra verka,‘ frekar en að láta hugann dvelja við hluti sem vekja upp hatur, beiskju og misklíð. — Hebreabréfið 10:24.
◻ „Gott afspurnar“ er ekki aðeins það að vera heiðvirt og hafa á sér gott orð heldur líka að vera uppbyggjandi og uppörvandi á virkan hátt. Við beinum huga okkar að því sem er heilnæmt og uppbyggjandi í stað þess sem er auvirðandi og fráhrindandi. — Efesusbréfið 4:29.
◻ „Dyggð“ þýðir eiginlega „góðsemi“ eða „siðferðislegt ágæti“ en það getur þýtt ágæti eða miklir og góðir eiginleikar af hvaða tagi sem er. Því getum við metið sem skyldi verðmæta eiginleika, verðleika og framkvæmdir annarra í samræmi við staðla Guðs.
◻ „Lofsvert“ má svo sannarlega kalla eitthvað ef það fær lof frá Guði eða frá þeim sem hann hefur veitt visst vald. — 1. Korintubréf 4:5; 1. Pétursbréf 2:14.
Fyrirheit um líf og frið
17. Hvaða blessun leiðir af því að „hyggja á það sem andans er“? Sama liberty og í grein
17 Þegar við fylgjum áminningu Páls og ‚höldum áfram að hugfesta þessa hluti‘ mun okkur takast að „hyggja á það sem andans er.“ Svindla svolítið hér: vitna í vers 5 í stað 6. Árangurinn er ekki aðeins að fá að njóta lífs, það er að segja eilífs lífs í hinum lofaða nýja heimi, heldur einnig friðar. (Rómverjabréfið 8:5, 6) Hvers vegna? Vegna þess að hugur okkar er varinn fyrir illum áhrifum holdlegra hluta og hin kvalafulla barátta milli holds og anda, sem Páll lýsir, hefur ekki lengur svo mikil áhrif á okkur. Með því að standa gegn áhrifum holdsins öðlumst við líka frið við Guð af því að „hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði.“ — Rómverjabréfið 7:21-24; 8:7.
18. Hvaða styrjöld heyr Satan og hvernig getum við gengið með sigur af hólmi?
18 Satan og erindrekar hans gera allt sem þeir geta til að skemma fyrir að við endurspeglum dýrð Guðs. Þeir reyna að ná stjórn á huga okkar með því að láta það sem holdið girnist dynja á honum, því þeir vita að það getur að lokum leitt til fjandskapar gegn Guði og til dauða. En við getum komið sigursæl út úr þessari orrustu. Eins og Páll getum við líka sagt: „[Við þökkum] Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn,“ að hann skuli hafa séð okkur fyrir því sem við þurfum til að berjast gegn tangarhaldi syndarinnar á hinu fallna holdi. — Rómverjabréfið 7:25.
[Neðanmáls]
a Biblían notar yfirleitt hebreska sagnorðið chataʼ og gríska sagnorðið hamartano um „að syndga.“ Bæði þessi orð merkja „að missa“ í þeim skilningi að missa marks eða ná ekki áfanga eða takmarki.
b Samkvæmt hefð eru dauðasyndirnar sjö hroki, ágirnd, losti, öfund, græðgi, reiði og leti.
Getur þú útskýrt?
◻ Hvað er synd og hvernig getur hún náð tangarhaldi á hinu fallna holdi?
◻ Hvernig getum við barist gegn ‚hyggju holdsins‘?
◻ Hvað getum við gert til að stuðla að ‚hyggju andans‘?
◻ Hvernig færir „hyggja andans“ líf og frið?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Kain leyfði holdlegum tilhneigingum að stjórna sér og það varð honum að falli.
[Myndir á blaðsíðu 23]
Hyggja andans er líf og friður.