Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.12. bls. 8-11
  • Hvernig er komið fyrir yfirráðum?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig er komið fyrir yfirráðum?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Yfirráðakreppa
  • Leit mannsins að lögmætu yfirvaldi
  • „Veldin tvö,“ „sverðin tvö“
  • Goðsagan um yfirráð fólksins
  • Goðsagan um fullveldi þjóða
  • Viðleitni manna misheppnuð
  • Viðhorf kristins manns til yfirvalds
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju nauðsynleg?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Drottinvald Jehóva og ríki hans
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Af hverju eigum við að virða yfirvald?
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.12. bls. 8-11

Hvernig er komið fyrir yfirráðum?

HUGSANDI menn viðurkenna þörfina fyrir yfirvald. Án einhvers konar stjórnarfyrirkomulags yrði fljótt upplausn í mannlegu samfélagi. Þess vegna segir sígild, frönsk kennslubók um stjórnlagafræði: „Í öllum hópum manna skiptist fólk í tvo flokka: þá sem stjórna og þá sem lúta stjórn, þá sem skipa fyrir og þá sem hlýða, leiðtoga og þegna, yfirmenn og undirmenn. . . . Yfirráð er að finna í öllum mannlegum samfélögum.“a

En afstaða manna til yfirvalda og yfirráða hefur breyst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar og þó einkum frá því á sjöunda áratugnum. Í umfjöllun um þetta tímabil talar franska alfræðibókin Encyclopædia Universalis um „kreppu sem einkennist af andstöðu gegn hvers kyns yfirráðum og yfirvöldum.“ Slíkt kreppuástand kemur biblíunemendum ekki á óvart. Páll postuli spáði: „Mundu að endalokatímar þessa heims verða ólgutímar! Fólk mun ekkert elska nema sjálft sig og peninga; það verður raupsamt, hrokafullt og lastmált; óhlýðið foreldrum . . . það verður ósættanlegt í hatri sínu, . . . stjórnlaust og ofbeldisfullt . . . uppblásið af stórlæti. Það mun elska munað sinn meira en Guð.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-4, The Revised English Bible.

Yfirráðakreppa

Þessi spádómur lýsir okkar tímum býsna vel. Yfirráðum er ögrað á öllum stigum — í fjölskyldunni, grunnskólunum, háskólunum, viðskiptalífinu og á sviði stjórnsýslu bæði í héraði og á landsvísu. Kynlífsbyltingin, öfgafull rapptónlist, stúdentamótmæli, skæruverkföll, opinber óhlýðni borgara við löggjöf sem þeir telja óréttláta, og hryðjuverk eru allt merki hnignandi virðingar fyrir yfirráðum og yfirvöldum.

Prófessor Yves Mény sagði á málþingi sem haldið var í París að tilhlutan Frönsku stjórnmálafræðistofnunarinnar og Parísardagblaðsins Le Monde: „Yfirráð halda því aðeins að þau séu lögmæt.“ Ein ástæðan fyrir yfirráðakreppu nútímans er sú að margir véfengja að þeir sem með völdin fara séu lögmætir valdhafar. Með öðrum orðum véfengja þeir rétt valdhafanna til að fara með völd. Í skoðanakönnun kom í ljós að snemma á níunda áratugnum álitu 9 af hundraði Bandaríkjamanna, 10 af hundraði Ástrala, 24 af hundraði Breta, 26 af hundraði Frakka og 41 af hundraði Indverja stjórn lands síns ólögmæta.

Leit mannsins að lögmætu yfirvaldi

Að sögn Biblíunnar var maðurinn upphaflega undir beinum yfirráðum Guðs. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:16, 17) En mjög snemma í sögunni kröfðust menn siðferðilegs sjálfstæðis frá skapara sínum. (1. Mósebók 3:1-6) Eftir að hafa hafnað guðræði eða stjórn í höndum Guðs urðu þeir að finna sér annars konar yfirráðakerfi. (Prédikarinn 8:9) Sumir neyttu aflsmunar til að komast til valda. Í þeirra augum var máttur sama og réttur. Þeir þurftu ekki annað en vera nógu sterkir til að knýja fram vilja sinn. En flestum fannst nauðsynlegt að löghelga rétt sinn til að stjórna.

Allt frá öndverðu hafa margir valdhafar gert það með því að segjast annaðhvort vera guðir eða hafa fengið völd frá guðunum. Þetta er hin goðsagnakennda hugmynd um „heilagt konungsvald“ sem fyrstu valdhafar Mesópótamíu og faraóar Egyptalands til forna héldu fram.

Alexander mikli, aðrir hellenskir konungar sem á eftir honum komu og margir af keisurum Rómar fullyrtu líka að þeir væru guðir og heimtuðu jafnvel tilbeiðslu. Slíkt stjórnarform hefur verið kallað „valdhafadýrkun“ og markmið hennar var það að styrkja valdhafann í sessi yfir ólíkum þjóðum sem hann lagði undir sig. Ef einhver neitaði að tilbiðja hann var litið á það sem brot gegn ríkinu. Prófessor Ernest Barker segir í bókinni The Legacy of Rome: „Upphafning keisarans [í Róm] í guðatölu og hollustan, sem hann fékk vegna guðdóms síns, er augljóslega grundvöllur heimsveldisins eða að minnsta kosti það sem heldur því saman.“

Svo var einnig jafnvel eftir að Konstantínus keisari (ríkti 306-337) lögleiddi „kristni“ og eftir að Þeódósíus fyrsti, keisari Rómaveldis (ríkti 379-395), gerði hana að ríkistrú. Sumir hinna „kristnu“ keisara voru tilbeðnir sem guðir langt fram á fimmtu öld.

„Veldin tvö,“ „sverðin tvö“

Með auknum völdum páfastólsins skarst í odda með ríki og kirkju. Þess vegna setti Gelasíus páfi fyrsti fram meginregluna um „veldin tvö“ undir lok fimmtu aldar: hið helga vald páfanna ásamt konungsvaldi konunganna, og konungarnir voru undir páfana settir. Þessi meginregla þróaðist síðar yfir í kennisetninguna um „sverðin tvö“: „Hið andlega sverð, sem páfarnir beittu sjálfir, og hið veraldlega sverð fengið valdhöfum af leikmannastétt sem skyldu eigi að síður beita því samkvæmt fyrirmælum páfa.“ (The New Encyclopædia Britannica) Á grundvelli þessarar kennisetningar hélt kaþólska kirkjan því fram á miðöldum að hún hefði rétt til að krýna keisara og konunga og löghelga þar með yfirráð þeirra. Þannig hélt hún við hinni fornu goðsögn um „heilagt konungsvald.“

Þessu má hins vegar ekki rugla saman við kenninguna um hinn svokallaða konungsrétt af Guðs náð, en hún kom til skjalanna síðar og var ætlað það hlutverk að frelsa pólitíska valdhafa undan yfirdrottnun páfastólsins. Kenningin um konungsrétt af Guðs náð er á þá lund að vald konunganna til að ríkja sé komið beint frá Guði en ekki fyrir milligöngu páfans í Róm. New Catholic Encyclopedia segir: „Á þeim tíma þegar páfinn fór með allsherjarvald yfir þjóðhöfðingjum í andlegum og jafnvel veraldlegum málum, setti hugmyndin um konungsrétt af Guðs náð konunga þjóðríkja í aðstöðu til að réttlæta vald sitt með því að það væri ekkert síður frá Guði komið en vald páfans.“b

Goðsagan um yfirráð fólksins

Tímar liðu og menn komu fram með aðrar hugmyndir um hvaðan valdið átti að koma. Ein þeirra var yfirráð fólksins. Margir halda að þessi hugmynd hafi átt upptök sín í Grikklandi. Lýðræði ríkti þó aðeins í fáeinum borgríkjum í Forn-Grikklandi, og jafnvel þar höfðu aðeins karlar kosningarétt. Konur, þrælar og erlendir íbúar — taldir hafa verið á bilinu helmingur til fjórir fimmtu landsmanna — fengu ekki að kjósa. Varla voru það yfirráð fólksins!

Hver eða hverjir voru talsmenn hugmyndarinnar um yfirráð fólksins? Svo ótrúlegt sem það er voru það rómversk-kaþólskir guðfræðingar sem komu fram með hana á miðöldum. Á 13. öld hélt Tómas frá Aquino því fram að enda þótt yfirráð ættu upphaf sitt hjá Guði væru þau fengin fólkinu í hendur. Þessi hugmynd reyndist vinsæl. New Catholic Encyclopedia segir: „Þessi hugmynd um að fólkið hefði völdin í sínum höndum naut stuðnings langflestra kaþólskra guðfræðinga á 17. öld.“

Af hverju skyldu guðfræðingar kirkju, þar sem fólk fékk alls engin áhrif að hafa á val páfa, biskupa eða presta, hafa gerst talsmenn hugmyndarinnar um yfirráð fólksins? Af því að sumir konungar í Evrópu gerðust æ ókyrrari undir yfirráðum páfa. Kenningin um yfirráð fólksins gaf páfanum vald til að steypa keisara eða þjóðhöfðingja af stóli ef talið var nauðsynlegt. Sagnfræðingarnir Will og Ariel Durant segja: „Meðal þeirra sem vörðu yfirráð fólksins voru margir Jesúítar sem sáu þar leik á borði að veikja vald konungsins gagnvart páfanum. Bellarmine kardínáli hélt því fram að ef vald konunga væri komið frá fólkinu, og þar með háð vilja fólksins, bæri þeim augljóslega að lúta yfirráðum páfanna . . . Luis Milona, spænskur Jesúíti, hélt því fram að fólkið, sem veraldleg yfirráð væru komin frá, mætti réttilega setja ranglátan konung af, en þó með löglegum aðferðum.“

Páfinn átti auðvitað að ráða hinum ‚löglegu aðferðum.‘ Hið fransk-kaþólska verk, Histoire Universelle de l’Eglise Catholique vitnar í Biographie universelle sem segir: „Bellarmine . . . kennir sem almenna, kaþólska kenningu að þjóðhöfðingjar fái vald sitt með vali fólksins og að fólkið geti beitt þessum rétti aðeins undir áhrifum páfans.“ (Leturbreyting okkar) Yfirráð fólksins urðu þannig verkfæri sem páfinn gat beitt til að hafa áhrif á val valdhafa og, ef þess þurfti, til að setja þá af. Á síðari tímum hefur kenningin gefið klerkaveldi kaþólskra tækifæri til að hafa áhrif á kaþólska kjósendur ýmissa lýðræðisríkja.

Í lýðræðisríkjum nútímans byggist lögmæti stjórnarinnar á því sem kallað er „samþykki þegnanna.“ Þegar best lætur er það þó ekki nema „samþykki meirihlutans.“ Áhugaleysi kjósenda og pólitískir klækir valda því að í reyndinni er þessi „meirihluti“ oft ekki nema minnihluti landsmanna. Nú á dögum er „samþykki þegnanna“ oft lítið annað en „þegjandi samþykki eða uppgjöf þegnanna.“

Goðsagan um fullveldi þjóða

Goðsagan um heilagt konungsvald, sem páfar héldu fram fyrrum, snerist gegn páfastólnum þegar hún ummyndaðist í kenninguna um konungsrétt af Guðs náð. Kenningin um yfirráð fólksins kom kaþólsku kirkjunni í koll á sama hátt. Á 17. og 18. öld fjölluðu veraldlegir heimspekingar, svo sem Englendingarnir Thomas Hobbes og John Locke og Frakkinn Jean-Jacques Rousseau, nánar um hugmyndina um yfirráð fólksins. Þeir útfærðu kenninguna um „samfélagssáttmála“ milli valdhafanna og þegnanna. Kennisetningar þeirra byggðust ekki á guðfræði heldur „náttúrurétti,“ og af þeim spruttu hugmyndir sem reyndust kaþólsku kirkjunni og páfastólnum stórskaðlegar.

Skömmu eftir dauða Rousseaus braust franska byltingin út. Þessi bylting gerði út af við ýmsar hugmyndir um lögmæti valds, en hún skapaði nýja — hugmyndina um fullveldi þjóða. The New Encyclopædia Britannica segir: „Frakkar höfnuðu hugmyndinni um konungsrétt af Guðs náð, yfirráðum aðalsins og sérréttindastöðu rómversk-kaþólsku kirkjunnar.“ En Britannica heldur áfram: „Byltingin hafði fullþroskað nýju uppfinninguna, þjóðríkið.“ Byltingarmennirnir þörfnuðust þessarar nýju ‚uppfinningar.‘ Af hverju?

Undir því kerfi, sem Rousseau hafði beitt sér fyrir, áttu allir borgarar að hafa jafnmikil áhrif á val valdhafanna. Það hefði haft í för með sér lýðræði byggt á almennum kosningarétti — og leiðtogar frönsku byltingarinnar voru ekkert hlynntir því. Prófessor Duverger útskýrir: „Það var einmitt til að forðast þessa niðurstöðu, sem talin var óæskileg, sem miðstéttarmenn stjórnlagaþingsins fundu upp kenninguna um fullveldi þjóða á árunum 1789-1791. Þeir lögðu fólkið að jöfnu við ‚þjóðina‘ er þeir litu á sem raunverulega, sjálfstæða eind, aðskilda frá efnisþáttum hennar. Þjóðin ein hefur, fyrir atbeina fulltrúa sinna, rétt til að fara með fullveldi . . . Þótt fullveldiskenningin hafi á sér lýðræðisblæ er hún alls ekki lýðræðisleg í reynd því að það má nota hana til að réttlæta nánast hvers konar stjórnarform sem verkast vill, sérstaklega einræði.“ (Leturbreyting höfundar.)

Viðleitni manna misheppnuð

Þegar þjóðríkið var viðurkennt sem lögmæt uppspretta valds fylgdi þjóðernishyggja í kjölfarið. The New Encyclopædia Britannica segir: „Þjóðernishyggja er oft talin ævagömul; stundum er hún ranglega álitin varanlegur þáttur stjórnmálanna. En í raun mál telja að hún hafi fyrst sýnt sig fyrir alvöru í amerísku byltingunni og þeirri frönsku.“ Frá tímum þessara byltinga hefur þjóðernishyggjan farið eins og eldur í sinu um Ameríku, Evrópu, Afríku og Asíu. Blóðug stríð hafa verið réttlætt í nafni þjóðernishyggjunnar.

Breski sagnfræðingurinn Arnold Toynbee skrifaði: „Andi þjóðernishyggjunnar er súrgerjun hins nýja lýðræðisvíns í gömlum belgjum ættflokkahyggjunnar. . . . Þessi undarlega málamiðlun lýðræðis og ættflokkahyggju hefur reynst langtum sterkara afl í framkvæmd stjórnmálanna á Vesturlöndum nútímans en lýðræðið sjálft.“ Þjóðernishyggjan hefur ekki skapað friðsaman heim. Toynbee sagði: „Eftir örstutt hlé tóku þjóðernisstríðin við af trúarstríðunum; og á Vesturlöndum nútímans eru trúarofstæki og þjóðernisofstæki greinilega ein og sama illa ástríðan.“

Valdhafar hafa beitt goðsögum um „heilagt konungsvald,“ „konungsrétt af Guðs náð,“ „yfirráð fólksins“ og „fullveldi þjóða“ til að reyna að löghelga yfirráð sín yfir öðrum mönnum. En eftir að hafa virt fyrir sér sögu mennskra valdhafa getur kristinn maður ekki annað en tekið undir með Salómon: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.

Kristnir menn tilbiðja ekki hið pólitíska ríki heldur Guð, og þeir viðurkenna hann sem lögmæta uppsprettu allra yfirráða. Þeir samsinna sálmaritaranum Davíð sem sagði: „Þín, [Jehóva], er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, [Jehóva], og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi.“ (1. Kroníkubók 29:11) En vegna lotningar sinnar fyrir Guði sýna þeir tilhlýðilega virðingu fyrir yfirvaldi og yfirráðum, bæði á veraldlegum vettvangi og andlegum. Greinarnar tvær á eftir fjalla um hvernig þeir geta gert það með gleði.

[Neðanmáls]

a Droit constitutionnel et institutions politiques eftir Maurice Duverger.

b The Catholic Encyclopedia segir: „Kaþólska kirkjan hefur aldrei viðurkennt þessa kenningu um ‚konungsrétt af Guðs náð‘ (sem er gerólík þeirri kenningu að allt vald, hvort heldur konungs eða lýðveldis, sé frá Guði). Við siðaskiptin breyttist hún í ákafan fjandskap gegn kaþólskri trú og konungar, svo sem Hinrik áttundi og Jakob fyrsti á Englandi, héldu því fram að þeir færu með öll yfirráð í andlegum efnum sem og borgaralegum.“

[Mynd á blaðsíðu 9]

Kaþólska kirkjan áleit sig hafa vald til að krýna keisara og konunga.

[Rétthafi]

Krýning Karlamagnúsar: Bibliothèque Nationale, París

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila