Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.12. bls. 17-21
  • Lútum yfirráðum með gleði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lútum yfirráðum með gleði
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fús undirgefni við drottinvald Jehóva
  • Undirgefin konungi okkar með gleði
  • Umsjónarmenn hlýða með gleði
  • Guðræðisleg undirgefni
  • Þjónað með gleði
  • Friðurinn sem fylgir því að vera undirgefinn með gleði
  • Verum undirgefin hirðum safnaðarins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Hirðar og sauðir í Guðveldi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Af hverju eigum við að virða yfirvald?
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Kristur leiðir söfnuð sinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.12. bls. 17-21

Lútum yfirráðum með gleði

„Þér . . . urðuð af hjarta hlýðnir.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 6:17.

1, 2. (a) Hvaða andi er augljós í heiminum nú á dögum, hvaðan er hann og hver eru áhrif hans? (b) Hvernig sýna vígðir þjónar Jehóva að þeir eru ólíkir?

‚Andi þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa‘ er skelfilega áberandi nú á dögum. Þetta er andi taumlauss sjálfstæðis sem er ættaður frá Satan, ‚valdhafanum í loftinu.‘ Þessi andi, þetta ‚loft‘ eða ríkjandi eigingirnis- og óhlýðnisandi fer með ‚vald‘ eða yfirráð yfir stærstum hluta mannkyns. Þetta er ein ástæðan fyrir því að heimurinn gengur nú gegnum það sem kallað hefur verið yfirráðakreppa. — Efesusbréfið 2:2.

2 Til allrar hamingju fylla vígðir þjónar Jehóva nú á tímum ekki andleg lungu sín með þessu mengaða ‚lofti‘ eða uppreisnaranda. Þeir vita að ‚reiði Guðs kemur yfir þá sem hlýða honum ekki.‘ Páll postuli bætir við: „Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.“ (Efesusbréfið 5:6, 7) Þess í stað leitast sannkristnir menn við að ‚fyllast anda Jehóva‘ og þeir drekka í sig ‚spekina að ofan‘ sem er „hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn [„fús að hlýða,“ NW].“ — Efesusbréfið 5:17, 18; Jakobsbréfið 3:17.

Fús undirgefni við drottinvald Jehóva

3. Hver er forsenda lykill fúsrar undirgefni og hvaða verðmæta lexíu kennir sagan okkur?

3 Forsenda fúsrar undirgefni er sú að viðurkenna lögmæt yfirráð. Saga mannkynsins sýnir að það er manninum ekki til gæfu að hafna drottinvaldi Jehóva. Það varð hvorki Adam og Evu til gæfu né frumkvöðli uppreisnar þeirra, Satan djöflinum. (1. Mósebók 3:16-19) Satan, sem er niðurlægður núna, er „í miklum móð“ því að hann veit að hann hefur nauman tíma. (Opinberunarbókin 12:12) Friður og hamingja mannkynsins, já, alls alheimsins, er undir því komin að réttlátt drottinvald Jehóva sé alls staðar viðurkennt. — Sálmur 103:19-22.

4. (a) Hvers konar undirgefni og hlýðni vill Jehóva að þjónar hans sýni? (b) Hvað ættum við að vera sannfærð um og hvernig lætur sálmaritarinn það í ljós?

4 Vegna þess hve eiginleikar Jehóva eru í stórkostlegu jafnvægi gerir hann sig þó ekki ánægðan með hugsunarlausa hlýðni. Vissulega er hann voldugur en hann er enginn harðstjóri. Hann er Guð kærleikans og hann vill að skynsemigæddar sköpunarverur hans hlýði honum fúslega vegna kærleika. Hann vill að þær beygi sig undir drottinvald hans vegna þess að þær kjósa heilshugar að vera undirgefnar réttlátum og lögmætum yfirráðum hans og eru sannfærðar um að ekkert geti verið betra fyrir þær en að hlýða honum að eilífu. Jehóva vill hafa þess konar persónur í alheiminum sem eru sammála sálmaritaranum er sagði: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun. Ótti [Jehóva] er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði [Jehóva] eru sannleikur, eru öll réttlát.“ (Sálmur 19:8-10) Ef við viljum lifa í nýjum heimi Jehóva verðum við að treysta skilyrðislaust að Jehóva beiti drottinvaldi sínu rétt og réttlátlega.

Undirgefin konungi okkar með gleði

5. Hvernig var Jesú umbunuð hlýðni hans og hvað viðurkennum við fúslega?

5 Kristur Jesús er sjálfur afbragðsdæmi um undirgefni við himneskan föður sinn. Við lesum að hann hafi ‚lægt sjálfan sig og orðið hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á kvalastaur.‘ Páll bætir við: „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ (Filippíbréfið 2:8-11) Já, við beygjum kné okkar með gleði fyrir leiðtoga okkar og ríkjandi konungi, Kristi Jesú. — Matteus 23:10.

6. Hvernig hefur Jesús reynst vera vottur og leiðtogi þjóðanna, og hvernig heldur ‚höfðingjadómur‘ hans áfram eftir þrenginguna miklu?

6 Jehóva spáði um Krist sem leiðtoga okkar: „Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ (Jesaja 55:4) Með jarðneskri þjónustu sinni og með því að stjórna prédikunarstarfinu frá himnum eftir dauða sinn og upprisu, hefur Jesús sýnt sig ‚trúan og sannan vott‘ föður síns gagnvart fólki af öllum þjóðum. (Opinberunarbókin 3:14; Matteus 28:18-20) Slíkar þjóðir eiga sér nú æ fleiri fulltrúa meðal ‚múgsins mikla‘ sem á að lifa ‚þrenginguna miklu‘ af undir forystu Krists. (Opinberunarbókin 7:9, 14) En forysta Krists tekur ekki enda þar. ‚Höfðingjadómur‘ hans mun standa í þúsund ár. Í þágu hlýðinna manna mun hann rísa undir nafni sínu sem „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ — Jesaja 9:6, 7; Opinberunarbókin 20:6.

7. Hvað verðum við að gera tafarlaust ef við viljum að Kristur Jesús leiði okkur til „vatnslinda lífsins,“ og hvað fær Jesú og Jehóva til að elska okkur?

7 Ef við viljum njóta góðs af ‚vatnslindum lífsins,‘ sem lambið, Kristur Jesús, leiðir réttsinnaða menn til, verðum við tafarlaust að sanna í verki að við beygjum okkur með gleði undir yfirráð hans sem konungs. (Opinberunarbókin 7:17; 22:1, 2; samanber Sálm 2:12, 13.) Jesús sagði: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann.“ (Jóhannes 14:15, 21) Langar þig til að njóta elsku Jesú og föður hans? Þá skaltu vera undirgefinn yfirráðum þeirra.

Umsjónarmenn hlýða með gleði

8, 9. (a) Hvað hefur Kristur látið söfnuðinum í té til uppbyggingar, og á hvaða hátt ættu þessir menn að vera fyrirmynd hjarðarinnar? (b) Hvernig er undirgefni kristinna umsjónarmanna táknuð í Opinberunarbókinni, og hvernig ættu þeir að leitast við að hafa hlýðið eða ‚gaumgæfið hjarta‘ þegar þeir taka á dómsmálum?

8 ‚Söfnuðurinn er undirgefinn Kristi.‘ Sem umsjónarmaður hans hefur hann gefið ‚gjafir í mönnum‘ söfnuðinum „til uppbyggingar“. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12; 5:24) Þessum andlegu mönnum eða öldungum er sagt að ‚vera hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið þeim,‘ ekki að „drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pétursbréf 5:1-3) Hjörðin tilheyrir Jehóva og Kristur er hinn ‚góði hirðir‘ hennar. (Jóhannes 10:14) Þar eð umsjónarmenn vænta réttilega fúsrar samvinnu sauðanna, sem Jehóva og Kristur hafa falið þeim til umsjónar, ættu þeir sjálfir að vera góð fyrirmynd í undirgefni. — Postulasagan 20:28.

9 Á fyrstu öldinni var smurðum umsjónarmönnum lýst með táknmáli sem væru þeir „í“ hægri hendi Krists. Það táknaði undirgefni þeirra við hann sem höfuð safnaðarins. (Opinberunarbókin 1:16, 20; 2:1) Umsjónarmenn í söfnuðum votta Jehóva nú á dögum ættu ekkert síður að lúta stjórn Krists og ‚auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd.‘ (1. Pétursbréf 5:6) Þegar þeir eru beðnir að fjalla um dómsmál ættu þeir, eins og Salómon gerði á þeim árum sem hann var trúfastur, að biðja til Jehóva: „Gef . . . þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu.“ (1. Konungabók 3:9) Gaumgæfið og hlýðið hjarta fær öldung til að leitast við að sjá hlutina sömu augum og Jehóva og Kristur Jesús sjá þá, þannig að ákvörðunin, sem tekin er á jörðu, líkist eins vel og hægt er þeirri sem tekin er á himnum. — Matteus 18:18-20.

10. Hvernig ættu allir umsjónarmenn að leitast við að líkja eftir framkomu Jesú við sauðina?

10 Farandumsjónarmenn og safnaðaröldungar leitast einnig við að líkja eftir framkomu Krists við sauðina. Ólíkt faríseunum setti Jesús ekki ótal reglur sem erfitt var að fylgja. (Matteus 23:2-11) Hann sagði sauðumlíkum mönnum: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Enda þótt hver einstakur kristinn maður verði vissulega að „bera sína byrði,“ ættu umsjónarmennirnir að muna eftir fordæmi Jesú og hjálpa bræðrum sínum að finna að sú kristna ábyrgð, sem á þeim hvílir, er ‚ljúf‘ og „létt“ og ánægjulegt að bera hana. — Galatabréfið 6:5.

Guðræðisleg undirgefni

11. (a) Hvernig væri hægt að virða forystu en vera þó ekki guðræðislegur í reynd? Lýstu með dæmi. (b) Hvað merkir það að vera guðræðislegur í reynd?

11 Guðræði er stjórn Guðs. Það felur í sér meginregluna um forystu sem fram kemur í 1. Korintubréfi 11:3. En það er meira en það. Einhver gæti virst sýna virðingu fyrir forystu en samt ekki verið guðræðislegur í fyllsta skilningi orðsins. Hvernig má það vera? Lýsum því með dæmi: Lýðræði er stjórn í höndum fólksins, og lýðræðissinni er sagður vera „maður sem trúir á hugsjónir lýðræðis.“ Maður gæti sagst vera lýðræðissinni, tekið þátt í kosningum og jafnvel verið virkur stjórnmálamaður. En ef hann virðir að vettugi anda lýðræðisins og allar grundvallarreglur þess með hegðun sinni almennt, er þá hægt að segja að hann sé sannur lýðræðissinni? Eins verður sá sem vill sannarlega vera guðræðislegur að gera meira en að lúta yfirráðum í orði kveðnu. Hann verður að líkja eftir vegum Jehóva og eiginleikum. Hann verður að láta Jehóva leiða sig á allan hátt. Og þar eð Jehóva hefur fengið syni sínum öll völd í hendur verðum við einnig að líkja eftir Jesú til að vera guðræðisleg.

12, 13. (a) Hvað er sérstaklega fólgið í því að vera guðræðislegur? (b) Felur guðræðisleg undirgefni í sér að hlíta fjölmörgum reglum? Lýstu með dæmi.

12 Munum að Jehóva vill fá fúsa undirgefni sem er sprottin af kærleika. Það er þannig sem hann stjórnar alheiminum. Hann er persónugervingur kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Kristur Jesús er „ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans.“ (Hebreabréfið 1:3) Hann krefst þess að sannir lærisveinar hans elski hver annan. (Jóhannes 15:17) Að vera guðræðislegur felur því ekki bara í sér að vera undirgefinn heldur einnig að vera kærleiksríkur. Það mætti draga þetta þannig saman: Guðræði er stjórn Guðs; Guð er kærleikur; þess vegna ræður kærleikurinn ríkjum í guðræði.

13 Öldungur gæti hugsað sem svo að bræðurnir ættu að hlíta alls konar reglum til þess að vera guðræðislegir. Sumir öldungar hafa búið til reglur úr uppástungum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur af og til komið með. (Matteus 24:45) Til dæmis var einu sinni stungið upp á að það gæti verið góð leið til að kynnast bræðrunum í söfnuðinum að sitja ekki alltaf á sama stað í ríkissalnum. Þetta var hugsað sem gagnleg tillaga, ekki fastákveðin regla. En sumir öldungar hafa kannski tilhneigingu til að breyta henni í reglu og finnast að þeir sem fylgja henni ekki séu ekki guðræðislegir. En það geta verið margar góðar ástæður fyrir því að bróðir eða systir kýs að sitja á vissu svæði. Ef öldungur tekur ekki tillit til slíks á kærleiksríkan hátt, er hann þá sjálfur guðræðislegur í reynd? Til að vera guðræðisleg þarf ‚allt hjá okkur að vera í kærleika gjört.‘ — 1. Korintubréf 16:14.

Þjónað með gleði

14, 15. (a) Hvernig gæti öldungur rænt vissa bræður eða systur gleði sinni í þjónustunni við Jehóva, og hvers vegna væri það ekki guðræðislegt? (b) Hvernig sýndi Jesús að hann metur kærleikann, sem þjónusta okkar ber vitni, frekar en magnið? (c) Hvers ættu öldungarnir að taka tillit til?

14 Sá sem er guðræðislegur þjónar einnig Jehóva með gleði. Jehóva er ‚hinn sæli Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi. 1912) Hann vill að tilbiðjendur hans þjóni honum með gleði. Þeir sem eru regluglaðir ættu að muna að meðal reglnanna, sem Ísrael þurfti að „gæta að breyta eftir,“ var þessi: „Þú skalt gleðjast frammi fyrir [Jehóva] Guði þínum yfir öllu því, sem þú [„tekur þér fyrir hendur,“ NW].“ (5. Mósebók 12:1, 18) Hvaðeina, sem við tökumst á hendur í þjónustu Jehóva, ætti að vera gleðilegt, ekki byrði. Umsjónarmenn geta gert margt til að láta bræðurna hafa ánægju af því sem þeir geta í þjónustu Jehóva. Ef öldungar eru ekki gætnir gætu þeir á hinn bóginn rænt suma bræðurna gleði sinni. Ef þeir til dæmis eru með samanburð, hrósa þeim sem hafa náð eða komist yfir meðaltíma safnaðarins í vitnisburðarstarfinu og gagnrýna óbeint þá sem náðu því ekki, hvernig ætli þeim líði þá sem haft hafa gildar ástæður til að gefa upp miklu minni tíma? Gæti það ekki valdið þeim óþarfri sektarkennd og rænt þá gleði sinni?

15 Þær fáu klukkustundir, sem sumir verja til opinbers vitnisburðar, geta kostað meiri áreynslu en þær mörgu stundir sem aðrir prédika. Þar getur aldur, heilsa og aðrar aðstæður ráðið miklu. Öldungarnir eiga ekki að dæma þá í þessu efni. Það er Jesús sem faðirinn hefur gefið „vald til að halda dóm.“ (Jóhannes 5:27) Gagnrýndi Jesús fátæku ekkjuna af því að hún gaf minna en flestir aðrir? Nei, hann bar næmt skyn á hvað þessir tveir smápeningar raunverulega kostuðu hana. Þeir voru ‚allt sem hún átti, öll björg hennar.‘ Þeir voru sannarlega tákn um djúpan kærleika til Jehóva! (Markús 12:41-44) Ættu öldungarnir að vera eitthvað ónæmari fyrir kærleiksríkri viðleitni þeirra sem eru tölulega séð undir „meðaltali“ þegar þeir gera allt sem þeir geta? Slík viðleitni getur hæglega verið yfir meðaltali mæld í kærleika til Jehóva!

16. (a) Hvers vegna þurfa öldungarnir að sýna góða dómgreind og jafnvægi ef þeir nefna tölur í ræðum sínum? (b) Hvernig getum við best hjálpað bræðrunum að auka þjónustu sína?

16 Ætti nú að breyta þessum athugasemdum í nýja „reglu“ þess efnis að það ætti aldrei að nefna tölur — ekki einu sinni meðaltöl? Alls ekki! Kjarni málsins er sá að umsjónarmenn ættu að finna meðalveginn milli þess að hvetja bræðurna til að auka þjónustu sína og hjálpa þeim að gera með gleði það sem þeir geta. (Galatabréfið 6:4) Í dæmisögu Jesú um talenturnar fól húsbóndinn þjónum sínum eigur sínar „hverjum eftir hæfni.“ (Matteus 25:14, 15) Öldungar ættu á sama hátt að taka tillit til möguleika hvers einstaks boðbera Guðsríkis. Til þess þarf góða dómgreind. Vel má vera að sumir þurfi hvatningu til að gera meira. Kannski kunna þeir að meta hjálp til að skipuleggja starf sitt betur. Ef hægt er að hjálpa þeim til að gera það sem þeir geta með gleði, er líklegt að gleði þeirra styrki þá til að auka kristna þjónustu sína þar sem þeir geta. — Nehemíabók 8:10; Sálmur 59:17; Jeremía 20:9.

Friðurinn sem fylgir því að vera undirgefinn með gleði

17, 18. (a) Hvernig getur það veitt okkur frið og réttlæti að vera undirgefin með gleði? (b) Hvað getur fallið okkur í skaut ef við gefum virkilega gaum að boðorðum Guðs?

17 Að vera undirgefinn réttmætu drottinvaldi Jehóva með gleði veitir okkur mikinn frið. Sálmaritarinn sagði í bæn til Jehóva: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.“ (Sálmur 119:165) Með því að hlýða lögum Jehóva gerum við sjálfum okkur gagn. Jehóva sagði Ísrael: „Svo segir [Jehóva], frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín [„friður þinn,“ NW] verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.

18 Lausnarfórn Krists veitir okkur frið við Guð. (2. Korintubréf 5:18, 19) Ef við höfum trú á endurlausnarblóð Krists og leitumst samviskusamir við að berjast gegn veikleikum okkar og gera vilja Guðs, léttir það af okkur sektarkennd. (1. Jóhannesarbréf 3:19-23) Slík trú, studd verkum, veitir okkur réttláta stöðu frammi fyrir Jehóva og þá stórkostlegu von að komast lífs af úr „þrengingunni miklu“ og lifa að eilífu í nýjum heimi Jehóva. (Opinberunarbókin 7:14-17; Jóhannes 3:36; Jakobsbréfið 2:22, 23) Allt þetta getur fallið okkur í skaut ‚ef við aðeins gefum gaum að boðorðum Guðs.‘

19. Undir hverju er hamingja okkar komin núna og von um eilíft líf, og hvernig lét Davíð í ljós innilega sannfæringu okkar?

19 Já, hamingja okkar núna og von um eilíft líf í paradís á jörð byggist á því að við séum með gleði undirgefin yfirráðum Jehóva sem drottinvalds alheimsins. Megum við alltaf vera sama sinnis og Davíð sem sagði: „Þín, [Jehóva], er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, [Jehóva], og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi. Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.“ — 1. Kroníkubók 29:11, 13.

Minnisatriði

◻ Hvers konar undirgefni og hlýðni vill Jehóva að þjónar hans sýni?

◻ Hvernig var Jesú umbunuð hlýðni hans og hvað verðum við að sanna með breytni okkar?

◻ Hvernig ættu allir umsjónarmenn að leitast við að líkja eftir framkomu Jesú við sauðina?

◻ Hvað er fólgið í því að vera guðræðislegur?

◻ Hvaða blessun veitir það okkur að vera undirgefin með gleði?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Öldungar hvetja hjörðina til að gera hvaðeina sem hún getur með gleði.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jehóva hefur yndi af þeim sem hlýða honum af alhug.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila