Er kjarnorkuváin loksins liðin hjá?
„FRIÐUR á jörðinni virðist líklegri núna en nokkurn tíma síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk.“ Þetta bjartsýna mat fréttadálkahöfundar í lok níunda áratugarins var byggt á þeirri staðreynd að mikilvægir afvopnunarsamningar og óvænt pólitískt umrót höfðu loks bundið endi á kalda stríðið. En var kjarnorkuváin, sem svo mjög hafði einkennt ágreining risaveldanna fyrrum, líka liðin hjá? Var varanlegur friður og öryggi virkilega innan seilingar?
Ógnunin af útbreiðslu kjarnorkuvopna
Meðan kalda stríðið stóð yfir og risaveldin treystu á „ógnunarjafnvægi“ til að varðveita friðinn komu þau sér saman um að leyfa framvindu þekkingar á kjarnorkunni í friðsamlegum tilgangi en að takmarka notkun hennar til framleiðslu kjarnorkuvopna. Árið 1970 tók gildi sáttmáli um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Seinna staðfestu um 140 þjóðir hann. Samt hafa möguleg kjarnorkuveldi, eins og Argentína, Brasilía, Indland og Ísrael, allt til þessa dags neitað að undirrita hann.
Hins vegar undirritaði annað mögulegt kjarnorkuveldi, Norður-Kórea, sáttmálann árið 1985. Þegar það tilkynnti hinn 12. mars 1993 að það drægi sig út úr sáttmálanum olli það skiljanlega óróa í heiminum. Þýska fréttatímaritið Der Spiegel sagði: „Tilkynningin um að dregin væri til baka aðild að sáttmálanum um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna skapaði fordæmi. Nú hefur skapast hætta á kjarnorkuvopnakapphlaupi sem hæfist í Asíu og gæti orðið hættulegra en sprengjukeppnin milli risaveldanna.“
Kjarnorkuveldunum á líklega eftir að fjölga núna þegar þjóðernishyggjan getur af sér ótrúlega margar nýjar þjóðir. Blaðamaðurinn Charles Krauthammer gefur þessa viðvörun: „Endalok Sovétógnunarinnar þýða ekki endalok kjarnorkuhættunnar. Raunverulega hættan er útbreiðsla kjarnorkuvopna og sú útbreiðsla er rétt að byrja.“
Sprengjur til sölu
Hugsanleg kjarnorkuveldi sækjast ákaft eftir þeim orðstír og því valdi sem þessi vopn veita. Land eitt er sagt hafa keypt að minnsta kosti tvo kjarnaodda frá Kazakhstan. Stjórnvöld þessa fyrrverandi lýðveldis í Sovétríkjunum segja að kjarnaoddanna sé „saknað.“
Í október 1992 voru nokkrir menn handteknir í Frankfurt í Þýskalandi með tvö hundruð grömm af mjög geislavirku sesín sem myndi nægja til að eitra vatnsveitu heillar stórborgar. Viku síðar voru sjö smyglarar gripnir í München með 2,2 kíló af úrani. Það kom stjórnvöldum í opna skjöldu að tveir slíkir smyglhringir skyldu uppgötvast á minna en tveimur vikum því að allt árið á undan hafði aðeins verið greint frá fimm slíkum tilvikum um allan heim.
Ekki er vitað hvort þessir einstaklingar ætluðu sér að selja hryðjuverkahópum eða ríkisstjórnum vöru sína. Engu að síður fara líkurnar á kjarnorkuhryðjuverkum vaxandi. Dr. David Lowry í Evrópsku upplýsingamiðstöðinni um útbreiðslu kjarnorkuvopna útskýrir hættuna: „Allt sem hryðjuverkamaður þarf að gera er að senda sýni af auðguðu úrani til virtrar rannsóknarstofu til athugunar með þeim skilaboðum að hann og félagar hans hafi svo og svo mikið af því undir höndum og hér sé sönnunin. Það er eins og mannræningi sem sendir eyrað af fórnarlambi sínu.“
Friðsamlegar „tímasprengjur“ og „dauðagildrur“
Í ársbyrjun 1992 unnu 420 kjarnakljúfar það friðsama starf að framleiða rafmagn; aðrir 76 voru í smíðum. En á undanförnum árum hafa óhöpp í kjarnorkuverum leitt til þess að greint hefur verið frá auknum veikindum, fósturlátum og fæðingargöllum. Í einni frétt er greint frá því að til ársins 1967 hafi atvik í plútonverksmiðju í Sovétríkjunum valdið þrisvar sinnum meiri geislavirkni en stórslysið í Tsjernobyl.
Það var að sjálfsögðu síðarnefnda atvikið í Tsjernobyl í Úkraínu, í apríl 1986, sem komst á forsíðurnar. Grigori Medwedew, aðstoðaryfirkjarnorkuverkfræðingur við Tsjernobyl kjarnorkuverið á áttunda áratugnum, segir að „langtímaáhrif þess ógrynnis efna með langvarandi geislavirkni,“ sem þeyttist út í andrúmsloftið, „jafnist á við tíu Híróshímasprengjur.“
Í bók sinni Tschernobylskaja chronika telur Medwedew upp 11 alvarleg óhöpp í kjarnakljúfum í fyrrverandi Sovétríkjunum fram á miðjan níunda áratuginn og önnur 12 í Bandaríkjunum. Meðal þeirra síðarnefndu var hið alvarlega óhapp á Three Mile Island árið 1979. Medwedew segir um þann atburð: „Það var fyrsta alvarlega áfallið sem orkuframleiðsla með kjarnorku varð fyrir og feykti burt tálsýnum um öryggi kjarnorkuvera í hugum margra — en þó ekki í hugum allra.“
Það skýrir hvers vegna óhöpp eru enn að gerast. Á árinu 1992 fjölgaði þeim um næstum 20 af hundraði í Rússlandi. Eftir einn slíkan atburð, í mars það ár í Sosnovy Bore-orkuverinu í Pétursborg í Rússlandi, jókst geislavirknin um 50 af hundraði í norðausturhluta Englands og náði tvöföldu leyfilegu magni í Eistlandi og sunnanverðu Finnlandi. John Urquhart, prófessor við háskólann í Newcastle viðurkennir: „Ég get ekki sannað að það hafi verið Sosnovy Bore sem olli aukningunni — en ef það var ekki Sosnovy Bore, hvað var það þá?“
Sumir heimildarmenn fullyrða að kjarnakljúfar af þeirri gerð, sem notuð var í Tsjernobyl, búi yfir hönnunargalla og það sé einfaldlega of hættulegt að nota þá. Engu að síður er meira en tylft slíkra kjarnakljúfa enn í notkun til að mæta að einhverju leyti hinni miklu rafmagnsþörf. Sumir þeirra sem reka kjarnorkuver hafa jafnvel verið sakaðir um að slökkva á öryggiskerfum, sem leyfa mönnum að grípa inn í gang mála, í þeim tilgangi að auka orkuframleiðsluna. Slíkar fregnir valda skelfingu í löndum eins og Frakklandi sem framleiðir yfir 70 prósent raforku sinnar í kjarnorkuverum. Mörg orkuver í Frakklandi kunna að neyðast til að hætta starfsemi sinni til frambúðar komi upp annað „Tsjernobyl.“
Jafnvel „öruggir“ kjarnakljúfar virðast verða óöruggir með aldrinum. Snemma árs 1993 fundust við reglubundið öryggiseftirlit meira en eitt hundrað sprungur í stálleiðslum í kjarnakljúfnum í Brunsbüttel, sem er eitt af elstu kjarnorkuverum Þýskalands. Álíka sprungur hafa fundist í kjarnakljúfum í Frakklandi og Sviss. Fyrsta alvarlega slysið í japönsku orkuveri átti sér stað árið 1991, og er aldur talinn hafa getað átt þar hlut að máli. Þetta veit á illt fyrir Bandaríkin þar sem um tveir þriðju kjarnorkuveranna voru reist fyrir meira en áratug.
Óhöpp í kjarnakljúf geta gerst hvar sem er og hvenær sem er. Því fleiri sem kjarnakljúfarnir eru, þeim mun meiri vá fyrir dyrum; því eldri sem kljúfurinn er, þeim mun meiri er hættan. Það var ekki að ástæðulausu að dagblað uppnefndi þá gangandi tímasprengjur og geislavirkar dauðagildrur.
Hvar á að að fleygja úrganginum?
Nýlega kom það fólki á óvart að sjá að lögreglan hafði girt af og vaktaði útivistarsvæði við árbakka í frönsku Ölpunum. Blaðið The European kom með skýringu: „Venjulegar athuganir, sem gefnar höfðu verið fyrirmæli um eftir að kona í því byggðarlagi dó af völdum beryllín-eitrunar fyrir tveimur mánuðum, leiddu í ljós að geislavirknin á útivistarsvæðinu var 100 sinnum meiri en á nærliggjandi svæði.“
Beryllín, merkilega léttur málmur sem er unninn með ýmsum aðferðum, er notaður í flugvélaiðnaði og, eftir ágeislun, í kjarnorkuverum. Svo virðist sem verksmiðja, sem framleiðir beryllín, hafi losað sig við úrgang frá hinni hættulegu vinnsluaðferð með ágeislun á eða nálægt þessu útivistarsvæði. „Beryllín-ryk, jafnvel þótt það sé ekki ágeislað, er einhver eitraðasti iðnaðarúrgangurinn sem vitað er um,“ segir The European.
Að því er fréttir herma var um 17.000 gámum af geislavirkum úrgangi fleygt í sjóinn á 30 ára tímabili úti fyrir ströndum Novaja Semlja sem Sovétríkin notuðu sem kjarnorkutilraunastað snemma á sjötta áratugnum. Þar að auki var geislavirkum hlutum kjarnorkukafbáta og hlutum að minnsta kosti 12 kjarnakljúfa fleygt á þennan þægilega ruslahaug.
Kjarnorkumengun er hættuleg, hvort sem hún er af ásettu ráði eða ekki. Blaðið Time sagði um kafbát sem sökk undan Noregsströndum árið 1989: „Nú þegar lekur úr flakinu sesín-137, krabbameinsvaldandi samsæta. Lekinn er enn sem komið er álitinn of lítill til að hafa áhrif á lífríki sjávar eða heilsu manna. En í kafbátnum Komsomolets voru einnig tvö kjarnorkutundurskeyti sem innihéldu 13 kg af plútoni með helmingunartíma upp á 24.000 ár og svo mikil eituráhrif að ein ögn er banvæn. Rússneskir sérfræðingar vöruðu við að plútonið gæti lekið út í sjóinn og mengað víðáttumikið hafsvæði strax árið 1994.“
Losun kjarnorkuúrgangs er að sjálfsögðu ekki vandamál sem einskorðað er við Frakkland og Rússland. Í Bandaríkjunum eru „fjallháir haugar kjarnorkuúrgangs og engir varanlegir geymslustaðir til,“ segir blaðið Time. Það segir að milljón tunnur af lífshættulegum efnum sitji í tímabundinni geymslu og „hætta á tjóni, þjófnaði og umhverfisspjöllum vegna rangrar meðhöndlunar“ sé ávallt fyrir hendi.
Eins og til að sýna þessa hættu, sprakk í apríl 1993 geymir með kjarnorkuúrgangi í fyrrverandi vopnaverksmiðju í Tomsk í Síberíu og vakti upp ugg um annað Tsjernobyl.
Ljóst er að hver sú yfirlýsing um frið og öryggi, sem gefin er út á þeim grunni að ætla megi að ekki stafi lengur ógn af kjarnorkunni, er ekki á rökum reist. En friður og öryggi er engu að síður á næstu grösum. Hvernig vitum við það?
[Rammi á blaðsíðu 4]
Kjarnorkuveldi 12 og fjölgar enn
YFIRLÝST eða RAUNVERULEG: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Hvíta-Rússland, Indland, Ísrael, Kazakhstan, Kína, Pakistan, Rússland, Suður-Afríka, Úkraína
MÖGULEG: Alsír, Argentína, Brasilía, Írak, Íran, Líbýa, Norður-Kórea, Suður-Kórea, Sýrland, Taívan
[Mynd á blaðsíðu 5]
Jafnvel friðsamleg notkun kjarnorkunnar getur verið hættuleg.
[Rétthafi]
Bakgrunnsmynd: Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 2]
Cover: Stockman/International Stock
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
Mynd: Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna