Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.2. bls. 14-19
  • Ræktið með ykkur sanngirni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ræktið með ykkur sanngirni
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Fús til að fyrirgefa“
  • Sveigjanleiki þegar aðstæður breytast
  • Sanngjörn meðferð valds
  • Líkjum eftir Jehóva og verum sanngjörn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Jehóva er sanngjarn!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Jehóva er örlátur og sanngjarn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • „Vitur í hjarta“ en lítillátur
    Nálgastu Jehóva
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.2. bls. 14-19

Ræktið með ykkur sanngirni

„Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:5, NW.

1. Af hverju er það vandasamt að vera sanngjarn í heimi nútímans?

ENSKI blaðamaðurinn Sir Alan Patrick Herbert sagði að „hinn sanngjarni maður“ væri goðsagnavera. Stundum lítur helst út fyrir að það sé enginn sanngjarn maður eftir í þessum stríðshrjáða heimi. Biblían sagði fyrir að á þessum ‚örðugu tíðum‘ yrðu mennirnir „grimmir,“ „framhleypnir“ og „ósáttfúsir“ — með öðrum orðum allt annað en sanngjarnir. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Engu að síður hafa sannkristnir menn sanngirni í hávegum því að þeir vita að hún er eitt af einkennum visku Guðs. (Jakobsbréfið 3:17) Okkur finnst ekki ógerlegt að vera sanngjarnir í ósanngjörnum heimi. Nei, við tökum hiklaust áskoruninni í innblásnum ráðleggingum Páls í Filippíbréfinu 4:5: „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum.“ — New World Translation.

2. Hvernig hjálpa orð Páls í Filippíbréfinu 4:5 okkur að kanna hvort við séum sanngjörn?

2 Tökum eftir hvernig orð Páls hjálpa okkur að prófa hvort við séum sanngjörn. Málið snýst ekki fyrst og fremst um það hvernig við sjáum okkur sjálf heldur hvernig aðrir sjá okkur, hvað við erum þekkt fyrir. Þýðing Phillips’ orðar versið svona: „Verið kunnir fyrir sanngirni.“ Eitt og sérhvert okkar gæti spurt sig: ‚Fyrir hvað er ég þekktur? Er ég álitinn sanngjarn, eftirgefanlegur og mildur? Eða er ég þekktur fyrir stífni, hörku eða þrjósku‘?

3. (a) Hvað merkir gríska orðið, sem þýtt er „sanngjarn,“ og hvers vegna er þessi eiginleiki aðlaðandi? (b) Hvernig gæti kristinn maður lært að vera sanngjarnari?

3 Orðspor okkar á þessu sviði endurspeglar einfaldlega hve vel við líkjum eftir Jesú Kristi. (1. Korintubréf 11:1) Þegar Jesús var hér á jörðinni endurspeglaði hann fullkomlega sanngirni föður síns. (Jóhannes 14:9) Þegar Páll skrifaði um „hógværð og mildi Krists“ notaði hann gríska orðið epieikiʹas, sem hér er þýtt „mildi.“ Það merkir einnig „sanngirni“ eða bókstaflega „eftirgefanleiki.“ (2. Korintubréf 10:1) The Expositor’s Bible Commentary kallar það „eitt hinna miklu mannlýsingarorða í Nýjatestamentinu.“ Það lýsir eiginleika sem er svo aðlaðandi að einn fræðimaður þýðir orðið „sæt sanngirni.“ Við skulum því ræða um það hvernig Jesús sýndi sanngirni á þrjá vegu eins og faðir hans, Jehóva. Þannig getum við lært að verða sanngjarnari sjálf. — 1. Pétursbréf 2:21.

„Fús til að fyrirgefa“

4. Hvernig sýndi Jesús að hann væri „fús til að fyrirgefa“?

4 Jesús sýndi sanngirni líkt og faðir hans með því að vera „fús til að fyrirgefa“ aftur og aftur. (Sálmur 86:5) Tökum sem dæmi þegar Pétur, sem var náinn félagi Jesú, afneitaði honum þrisvar nóttina sem hann var handtekinn og leiddur fyrir rétt. Jesús hafði sjálfur sagt áður: „Þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ (Matteus 10:33) Fylgdi Jesús þessari reglu stíft og miskunnarlaust gagnvart Pétri? Nei, eftir upprisu sína heimsótti Jesús Pétur sérstaklega, vafalaust til að hughreysta og róa þennan iðrunarfulla, sorgmædda postula. (Lúkas 24:34; 1. Korintubréf 15:5) Skömmu síðar leyfði Jesús Pétri að fá mikla ábyrgð. (Postulasagan 2:1-41) Hér var á ferðinni sæt sanngirni af besta tagi! Er það ekki hughreystandi að hugsa til þess að Jehóva skuli hafa skipað Jesú dómara yfir öllu mannkyni? — Jesaja 11:1-4; Jóhannes 5:22.

5. (a) Hvaða orðspor ættu öldungarnir að hafa meðal sauðanna? (b) Hvaða efni gætu öldungar rifjað upp áður en þeir taka dómsmál fyrir, og hvers vegna?

5 Þegar öldungar gegna hlutverki dómara í söfnuðinum leitast þeir við að fylgja fordæmi Jesú í sanngirni. Þeir vilja ekki að sauðirnir óttist þá sem refsara. Þeir leitast öllu heldur við að líkja eftir Jesú, þannig að sauðirnir finni til öryggiskenndar með þá sem ástríka hirða. Í dómsmálum leggja þeir sig í líma við að vera sanngjarnir og fúsir til að fyrirgefa. Sumum öldungum hefur fundist gagnlegt, áður en þeir taka slík mál til meðferðar, að rifja upp greinarnar „Jehóva, hinn óvilhalli ‚dómari alls jarðríkis‘“ og „Öldungar, dæmið með réttvísi“ í Varðturninum 1. desember 1992. Þeir hafa þá í huga kjarnann í dómsaðferð Jehóva: „Festa sé hún nauðsynleg, miskunn sé hún möguleg.“ Það er engin ávirðing að hneigjast til miskunnar þegar skynsamlegar forsendur liggja fyrir því. (Matteus 12:7) Það er hins vegar alvarleg ávirðing að vera harðneskjulegur eða miskunnarlaus. (Esekíel 34:4) Öldungar forðast þannig dómglöp með því að leitast við að fara kærleiksríkustu og miskunnsömustu leiðina sem hægt er innan ramma réttvísinnar. — Samanber Matteus 23:23; Jakobsbréfið 2:13.

Sveigjanleiki þegar aðstæður breytast

6. Hvernig sýndi Jesús sanngirni í samskiptum við konu af þjóðunum sem átti dóttur haldna illum öndum?

6 Líkt og Jehóva reyndist Jesús skjótur til að breyta um stefnu eða laga sig að nýjum aðstæðum eftir því sem þær komu upp. Einhverju sinni sárbændi kona, sem ekki var Gyðingur, hann að lækna dóttur sína sem kvalin var af illum öndum. Í byrjun gaf Jesús til kynna á þrjá mismunandi vegu að hann ætlaði ekki að hjálpa henni — fyrst með því að ansa henni ekki, síðan með því að segja beint að hann hafi ekki verið sendur til heiðingja heldur Gyðinga, og loks með því að koma með líkingu sem sagði það sama á vinsamlegan hátt. En konan gaf sig ekki sem bar vitni um óvenjusterka trú hennar. Í ljósi þessara óvenjulegu aðstæðna gerði Jesús sér ljóst að þetta var ekki rétti tíminn til að framfylgja almennri reglu heldur vera sveigjanlegur í samræmi við æðri meginreglur.a Eftir það gerði Jesús einmitt það sem hann hafði þrívegis sagt að hann ætlaði ekki. Hann læknaði dóttur konunnar! — Matteus 15:21-28.

7. Á hvaða vegu gætu foreldrar sýnt sanngirni og hvers vegna?

7 Erum við líka þekkt fyrir að vera fús til að gefa eftir þegar það á við? Foreldrar þurfa oft að sýna slíka sanngirni. Þar eð engin tvö börn eru eins getur verið að aðferðir, sem duga við eitt barn, dugi alls ekki við annað. Og þarfir barna breytast þegar þau stækka. Á að breyta útivistartíma barnanna? Þarf að lífga upp á fjölskyldunámið? Þegar foreldri bregst of harkalega við einhverju smábroti, er það þá fúst til að sýna auðmýkt og leiðrétta sig? Foreldrar, sem eru eftirgefanlegir á þann hátt, skaprauna börnum sínum ekki að þarflausu og gera þau ekki fjarlæg Jehóva. — Efesusbréfið 6:4.

8. Hvernig gætu safnaðaröldungar tekið forystuna í að laga sig að þörfum svæðisins?

8 Öldungar þurfa líka að laga sig að nýjum aðstæðum sem koma upp, þó svo að þeir slaki aldrei á skýrum lögum Guðs. Eruð þið vakandi fyrir breytingum á starfssvæðinu í sambandi við umsjón ykkar með prédikunarstarfinu? Með breyttum lífsstíl fólks í byggðarlaginu má hugsanlega hvetja til kvöldstarfs, götustarfs eða notkunar síma við boðun fagnaðarerindisins. Slík aðlögun hjálpar okkur að framfylgja með meiri árangri því verkefni okkar að prédika. (Matteus 28:19, 20; 1. Korintubréf 9:26) Páll gerði sér far um að laga sig að alls konar fólki í þjónustu sinni. Gerum við það líka, til dæmis með því að kynna okkur staðbundin trúarbrögð eða menningu nægilega vel til að geta hjálpað fólki? — 1. Korintubréf 9:19-23.

9. Hvers vegna ætti öldungur ekki að krefjast þess að alltaf sé tekið á vandamálum á sama hátt og hann hefur alltaf gert?

9 Hinir síðustu dagar verða æ erfiðari og vera má að hirðarnir þurfi líka að laga sig að þeim ruglingslegu, flóknu og óþægilegu vandamálum sem blasa við hjörðinni núna. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Öldungar: Nú er ekki rétti tíminn til að vera ósveigjanlegir! Vissulega ætti öldungur ekki að krefjast þess að það skuli tekið á vandamáli á sama hátt og hann hefur alltaf gert, ef aðferðir hans duga ekki lengur eða ef hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur álitið viðeigandi að birta nýtt efni um slík mál. (Matteus 24:45; samanber Prédikarann 7:10; 1. Korintubréf 7:31.) Trúfastur öldungur reyndi í einlægni að hjálpa niðurdreginni systur sem þarfnaðist meir en nokkurs annars að hlustað væri á hana. En honum fannst depurð hennar ekki svo alvarleg og stakk upp á grunnfærnislegum lausnum. Þá birti Varðturnsfélagið biblíulegar upplýsingar sem fjölluðu einmitt um vandamál hennar. Öldungurinn talaði við hana aftur og núna notaði hann nýja efnið og sýndi henni samúðarskilning. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 5:14, 15.) Það er mjög gott dæmi um sanngirni!

10. (a) Hvernig ættu öldungar að vera eftirgefanlegir hver við annan og við öldungaráðið í heild? (b) Hvernig ætti öldungaráðið að líta á þá sem reynast ósanngjarnir?

10 Öldungar þurfa líka að vera eftirgefanlegir hver við annan. Þegar öldungaráð fundar er mikilvægt að enginn einn öldungur yfirgnæfi hina! (Lúkas 9:48) Sá sem stýrir fundi þarf sérstaklega að gæta sín á því. Og þegar einn eða tveir öldungar eru ósammála ákvörðun öldungaráðsins í heild, heimta þeir ekki að fá sínum vilja framgengt. Þess í stað láta þeir undan, svo framarlega sem ekki er verið að brjóta neina meginreglu Biblíunnar, og hafa hugfast að öldungar verða að vera sanngjarnir. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, NW) Á hinn bóginn ætti öldungaráðið að hafa hugfast að Páll ávítaði Korintusöfnuðinn fyrir að ‚umbera ósanngjarna menn‘ sem þóttust vera ‚stórmiklir postular.‘ (2. Korintubréf 11:5, 19, 20) Þeir ættu því að vera fúsir til að leiðbeina samöldungi sem er þrjóskur og ósanngjarn í framkomu, en þeir ættu sjálfir að vera mildir og vingjarnlegir þegar þeir gera það. — Galatabréfið 6:1.

Sanngjörn meðferð valds

11. Hvernig beittu trúarleiðtogar Gyðinga á dögum Jesú valdi sínu ólíkt honum?

11 Þegar Jesús var hér á jörð birtist sanngirni hans greinilega í því hvernig hann beitti því valdi sem Guð hafði gefið honum. Hann var svo sannarlega ólíkur trúarleiðtogum samtíðar sinnar! Lýsum því með dæmi. Lög Guðs kváðu á um að ekki mætti vinna nein störf á hvíldardegi, ekki einu sinni safna eldiviði. (2. Mósebók 20:10; 4. Mósebók 15:32-36) Trúarleiðtogarnir vildu stjórna því hvernig fólk beitti þessum lögum. Þeir tóku sér því það vald að úrskurða nákvæmlega hve miklu maður mætti lyfta á hvíldardegi og ákváðu að það mætti ekki vera neitt þyngra en tvær þurrkaðar fíkjur. Þeir lögðu jafnvel bann við ilskóm með negldum sóla og fullyrtu að það jafngilti vinnu að lyfta þeirri auknu þyngd sem fylgdi nöglunum! Sagt er að rabbínarnir hafi bætt alls 39 reglum við lög Guðs um hvíldardaginn og síðan komið með endalausa viðauka við þessar reglur. Jesús reyndi á hinn bóginn ekki að stjórna öðrum með því að spila á sektarkennd og setja þeim endalausar, tálmandi reglur, eða með því að gera ósveigjanlegar kröfur sem ómögulegt var að framfylgja. — Matteus 23:2-4; Jóhannes 7:47-49.

12. Af hverju getum við sagt að Jesús hafi ekki hvikað þegar réttlátar kröfur Jehóva voru annars vegar?

12 Eigum við þá að halda að Jesús hafi ekki haldið réttlátum kröfum Guðs fram með festu? Nei, því að það gerði hann! Hann skildi að lögin eru áhrifaríkust þegar menn tileinka sér meginreglurnar sem liggja þeim að baki. Farísearnir einblíndu á það að reyna að stjórna fólki með ótal reglum en Jesús leitaðist við að ná til hjartans. Hann vissi til dæmis mætavel að það kom ekki til greina að gefa eftir í sambandi við lagaboð Guðs eins og „flýið saurlifnaðinn!“ (1. Korintubréf 6:18) Jesús varaði fólk því við hugsunum sem gætu leitt til siðleysis. (Matteus 5:28) Slík kennsla krafðist miklu meiri visku og dómgreindar en það að setja einfaldlega stífar og strangar reglur.

13. (a) Hvers vegna ættu öldungar að forðast að setja ósveigjanleg lög og reglur? (b) Nefndu nokkur svið þar sem það er mikilvægt að virða samvisku einstaklingsins.

13 Þeir bræður, sem gegna ábyrgðarstörfum nú á tímum, láta sér jafn-umhugað um að ná til hjartans. Þeir forðast því að setja gerræðislegar, ósveigjanlegar reglur eða gera persónulegar skoðanir sínar og sjónarmið að lagaboðum. (Samanber Daníel 6:7-16.) Af og til getur verið viðeigandi og tímabært að koma með vinsamlegar áminningar um mál á borð við klæðnað og snyrtingu, en öldungur getur hætt orðstír sínum sem sanngjarn maður ef hann staglast á slíku eða reynir að koma á einhverju sem endurspeglar fyrst og fremst persónulegan smekk hans. Reyndar ættu allir í söfnuðinum að forðast að reyna að stjórna öðrum. — Samanber 2. Korintubréf 1:24; Filippíbréfið 2:12.

14. Hvernig sýndi Jesús að hann væri sanngjarn í því sem hann vænti af öðrum?

14 Það getur verið skynsamlegt af öldungum að spyrja sjálfa sig um annað: ‚Er ég sanngjarn í því sem ég ætlast til af öðrum?‘ Jesús var það vissulega. Hann sýndi fylgjendum sínum alltaf að hann ætlaðist ekki til meir af þeim en að þeir leggðu sig fram af allri sálu og að hann mæti það mjög mikils. Hann hrósaði fátæku ekkjunni fyrir að gefa tvo smápeningana sem voru lítils virði. (Markús 12:42, 43) Hann ávítaði lærisveina sína þegar þeir gagnrýndu stórt framlag Maríu og sagði: „Látið hana í friði! . . . Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð.“ (Markús 14:6, 8) Hann var sanngjarn jafnvel þegar fylgjendur hans brugðust honum. Til dæmis hvatti hann þrjá nánustu postula sína til að vaka með sér handtökunótt sína en þeir brugðust honum með því að sofna aftur og aftur. Samt sem áður var hann skilningsríkur og sagði: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ — Markús 14:34-38.

15, 16. (a) Hvers vegna ættu öldungarnir að gæta þess að þvinga ekki hjörðina eða hræða með hótunum? (b) Hvernig þurfti trúföst systir að breyta um afstöðu til þess sem hún vænti af öðrum?

15 Vissulega hvatti Jesús fylgjendur sína til að leggja sig kappsamlega fram. (Lúkas 13:24) Hann þvingaði þá þó aldrei til þess. Hann örvaði þá, gaf þeim fordæmi, tók forystuna og leitaðist við að ná til hjartna þeirra. Hann treysti anda Jehóva fyrir framhaldinu. Öldungar nú á tímum ættu á sama hátt að hvetja sauðina til að þjóna Jehóva af öllu hjarta en ættu að forðast að skamma þá og gefa í skyn að það sem þeir væru að gera í þjónustu Jehóva þessa stundina sé á einhvern hátt ófullnægjandi eða ótækt. Stíf áminning: „Gerið meira! Gerið meira! Gerið meira!“ getur valdið því að þeir sem eru að gera allt sem þeir geta missi móðinn. Það væri sorglegt ef öldungur gæti sér orð fyrir að vera ‚ósanngjarn‘ en ekki sanngjarn! — 1. Pétursbréf 2:18.

16 Við ættum öll að vera sanngjörn í því sem við væntum af öðrum. Systir ein skrifaði eftir að hún og maðurinn hennar yfirgáfu trúboðssvæði sitt til að annast sjúka móður hennar: „Þetta er mjög erfiður tími fyrir okkur boðberana í söfnuðunum. Við sem vorum í farand- og umdæmisstarfi höfðum verið vernduð fyrir miklu af þessu álagi, en það rann skyndilega upp fyrir okkur og það var ekki þrautalaust. Ég var vön að segja við sjálfa mig eitthvað á þessa leið: ‚Af hverju býður þessi systir ekki réttu ritin í þessum mánuði? Les hún ekki Ríkisþjónustuna?‘ Núna veit ég ástæðuna. Sumir orka hreinlega ekki meir en að komast út [í starfið].“ Það er miklu betra að hrósa bræðrum okkar fyrir það sem þeir gera en að dæma þá fyrir það sem þeir gera ekki!

17. Hvernig gaf Jesús okkur fordæmi í sanngirni?

17 Tökum síðasta dæmið um það hvernig Jesús beitir valdi sínu með sanngirni. Jesús stendur ekki vörð um vald sitt með tortryggni. Hann fær öðrum líka vald í hendur og hefur skipað trúan þjónshóp sinn til að annast „allar eigur sínar“ hér á jörð. (Matteus 24:45-47) Og hann er ekki hræddur við að heyra hugmyndir annarra. Oft spurði hann áheyrendur sína: „Hvað virðist yður?“ (Matteus 17:25; 18:12; 21:28; 22:42) Þannig ætti það að vera meðal allra fylgjenda Krists nú á tímum. Óháð valdi sínu ættu þeir að vera fúsir til að hlusta. Foreldrar, hlustið! Eiginmenn, hlustið! Öldungar, hlustið!

18. (a) Hvernig gætum við komist að raun um hvort við höfum orð fyrir að vera sanngjörn? (b) Hvað gætum við öll einsett okkur?

18 Við ættum tvímælalaust öll að vilja ‚vera kunn fyrir sanngirni.‘ (Filippíbréfið 4:5, Phillips) En hvernig vitum við hvort við höfum slíkt orðspor? Þegar Jesús vildi vita hvað fólk segði um hann spurði hann félaga sína sem hann treysti. (Matteus 16:13) Hví ekki að fara að dæmi hans? Þú gætir spurt einhvern, sem þú getur treyst til að vera hreinskilinn, hvort þú sért álitinn sanngjarn og eftirgefanlegur. Við getum tvímælalaust öll gert margt til að líkja betur eftir fullkomnu fordæmi Jesú í sanngirni! Ef við förum með eitthvert vald yfir öðrum skulum við gera okkur sérstaklega far um að fylgja alltaf fordæmi Jehóva og Jesú og vera alltaf sanngjörn og eftirgefanleg, alltaf fús til að fyrirgefa, beygja okkur eða láta undan þegar það á við. Já, megum við öll kappkosta að vera ‚sanngjörn.‘ — Títusarbréfið 3:2.

[Neðanmáls]

a Bókin New Testament Words segir: „Sá maður, sem er epieikēs [sanngjarn], veit að stundum er eitthvað fullkomlega réttlætanlegt lagalega en hins vegar fullkomlega rangt siðferðilega. Sá maður, sem er epieikēs, veit hvenær hann á að slaka á lögunum sökum kraftar sem er æðri og meiri en lögin.“

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna ættu kristnir menn að vilja vera sanngjarnir?

◻ Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú í því að vera fúsir til að fyrirgefa?

◻ Af hverju ættum við að kappkosta að vera sveigjanleg eins og Jesús?

◻ Hvernig getum við sýnt sanngirni í meðferð valds?

◻ Hvernig gætum við kannað hvort við séum sanngjörn í reynd?

[Mynd á blaðsíðu 14]

Jesús fyrirgaf Pétri fúslega.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þegar kona sýndi óvenjusterka trú gerði Jesús sér ljóst að það væri ekki staður né stund til að framfylgja almennri reglu.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Foreldrar, hlustið!

[Mynd á blaðsíðu 17]

Eiginmenn, hlustið!

[Mynd á blaðsíðu 17]

Öldungar, hlustið!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila