Vísindi, trúarbrögð og leitin að sannleikanum
„Sú staðreynd að mörg falstrúarbrögð hafa breiðst út . . . hafði viss áhrif á mig.“ — Charles Darwin.
Á FYRRI hluta 19. aldar fór vel á með trúnni og vísindunum. „Jafnvel í vísindaritverkum hikuðu menn ekki við að tala um Guð á þann hátt að það var þeim greinilega eðlilegt og einlægt,“ segir í bókinni Darwin: Before and After.
Bók Darwins, Uppruni tegundanna, átti sinn þátt í að breyta því. Vísindi og þróunarkenning tóku höndum saman um að gera ekki ráð fyrir trú og Guði. „Samkvæmt hugsunarhætti þróunarsinna er hvorki þörf né rúm lengur fyrir hið yfirnáttúrlega,“ segir Sir Julian Huxley.
Nú á dögum er þróunarkenningin sögð vera ómissandi undirstaða vísinda. Eðlisfræðingurinn Fred Hoyle bendir á eina aðalástæðu þessa sambands: „Vísindamönnum, sem aðhyllast hefðbundnar skoðanir, er meira í mun að koma í veg fyrir að trúaröfgar fortíðarinnar skjóti upp kollinum á ný en að horfa fram veginn til sannleikans.“ Hvers konar öfgar hafa gert trúarbrögðin svona ógeðfelld í augum vísindanna?
Trúarbrögðin koma óorði á sköpunina
„Sköpunarsinnar“ — aðallega bókstafstrúarmenn úr röðum mótmælenda — hafa staðið á því fastara en fótunum að jörðin og alheimurinn séu innan við 10.000 ára gömul. Með því hyggjast þeir verja Biblíuna. Jarðfræðingar, stjarnfræðingar og eðlisfræðingar hafa skopast að þessari öfgakenndu afstöðu því að hún gengur í berhögg við uppgötvanir þeirra.
En hvað segir Biblían í alvöru? „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Tíminn, sem það tók, er ekki tiltekinn. „Hinn fyrsti dagur“ sköpunarinnar er ekki einu sinni nefndur fyrr en í 1. Mósebók 1:3-5. ‚Himinn og jörð‘ voru þegar til er þessi fyrsti „dagur“ hófst. Gætu himinn og jörð þá verið jafnvel milljarða ára gömul eins og vísindamenn fullyrða? Svo gæti vel verið. Biblían segir einfaldlega ekki til um aldurinn.
Túlkun sumra á ‚sköpunardögunum‘ sex er annað dæmi um trúaröfgar. Sumir bókstafstrúarmenn halda því ákveðið fram að þetta hafi verið bókstaflegir dagar, þannig að hið jarðneska sköpunartímabil hafi ekki verið nema 144 klukkustundir. Þetta ýtir undir efahyggju hjá vísindamönnum því að þeim finnst þessi fullyrðing stangast á við skýrar vísindaniðurstöður.
En í rauninni er það túlkun bókstafstrúarmannanna á Biblíunni — ekki Biblían sjálf — sem stangast á við vísindin. Biblían segir ekki að hver ‚sköpunardagur‘ hafi verið sólarhringur að lengd; meira að segja innifelur hún alla þessa ‚daga‘ í hinum miklu lengri „degi er Jehóva Guð gerði jörð og himin“ sem sýnir að það eru ekki allir ‚dagar‘ í Biblíunni aðeins sólarhringslangir. (1. Mósebók 2:4, NW) Sumir hafa getað verið þúsundir ára að lengd.a
Sköpunarsinnar og bókstafstrúarmenn hafa þannig komið óorði á sköpunarhugmyndina. Kenningar þeirra um aldur alheimsins og lengd ‚sköpunardaganna‘ samrýmast hvorki rökrænum vísindum né Biblíunni. En það eru líka aðrar öfgar sem hafa vakið óbeit vísindamanna á trúarbrögðunum.
Valdníðsla
Trúarbrögðin eiga sök á miklu ranglæti í sögu mannkyns. Á miðöldum var kennisetningin um sköpun til dæmis rangfærð til að réttlæta stuðning kirkjunnar við alræðisstjórnir Evrópu. Gengið var út frá því að menn, ríkir eða fátækir, væru settir hver í sína stöðu samkvæmt tilskipun Guðs. Bókin The Intelligent Universe segir: „Yngri sonum auðmanna var sagt að það væri ‚tilhögun Guðs‘ að þeir fengju lítið eða ekkert af eignum fjölskyldunnar í arf, og vinnandi menn voru sífellt hvattir til að gera sig ánægða með ‚þá stöðu sem Guði hefði þóknast að kalla þá í.‘“
Það er engin furða að margir skuli hræðast afturhvarf til ‚trúaröfga fortíðarinnar‘! Í stað þess að fullnægja andlegum þörfum mannsins hafa trúarbrögðin oft notað þær sem auðvelda bráð. (Esekíel 34:2) Ritstjórnargrein í tímaritinu India Today segir: „Miðað við feril trúarbragðanna í aldanna rás er það mesta furða að þau skuli enn vera talin trúverðug á nokkurn hátt. . . . Í nafni alvalds skapara . . . hafa menn framið ægilegustu ódæðisverk gagnvart öðrum mönnum.“
Hinn skelfilegi ferill falstrúarbragðanna hafði veruleg áhrif á hugsunarhátt Darwins. „Ég hætti smám saman að trúa á kristnina sem opinberun frá Guði,“ skrifaði hann. „Sú staðreynd að mörg falstrúarbrögð hafa breiðst út um stóra hluta jarðar eins og eldur í sinu hafði viss áhrif á mig.“
Sigur sannrar trúar
Trúhræsni er engin nýlunda í þessum heimi. Jesús sagði við valdagráðuga trúarleiðtoga sinnar samtíðar: „Þið sýnist vera góðir menn hið ytra — en hið innra eruð þið ekkert nema illskan og sýndarmennskan ein.“ — Matteus 23:28, Phillips.
Sönn kristni er hins vegar „ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Fylgjendur hennar taka ekki þátt í spilltum trúarbrögðum og stjórnmálum, og þeir láta ekki heldur heimspekihugmyndir, sem afneita tilvist skapara, leiða sig á villigötur. „Speki þessa heims er heimska hjá Guði,“ skrifaði Páll postuli. — 1. Korintubréf 3:19.
En þetta merkir ekki að sannkristnir menn séu fáfróðir um vísindi. Þvert á móti hafa fylgjendur sannra trúarbragða áhuga á vísindum. „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um,“ var spámanninum Jesaja til forna sagt. „Hver hefir skapað stjörnurnar?“ (Jesaja 40:26) Á sama hátt var Job boðið að rannsaka undur náttúrunnar og alheimsins til að skilja skaparann betur. — Jobsbók 38.-41. kafli.
Já, þeir sem trúa á skapara bera virðingu og lotningu fyrir sköpunarverkinu. (Sálmur 139:14) Þeir treysta enn fremur því sem skaparinn, Jehóva Guð, segir um stórkostlega framtíðarvon. (Opinberunarbókin 21:1-4) Með athugun á Biblíunni eru milljónir manna að uppgötva að hvorki uppruni mannsins né framtíð ráðist af blindri tilviljun. Jehóva hafði tilgang með því að skapa manninn og sá tilgangur mun ná fram að ganga — til blessunar öllum hlýðnum mönnum. Við hvetjum þig til að kynna þér málið sjálfur.
[Neðanmáls]
a Sjá Vaknið!, apríl-júní 1983, bls. 6-9 og Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 545, útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. Nánari upplýsingar um sköpunarhyggju bókstafstrúarmanna og árekstra hennar við vísindin og Biblíuna er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. mars 1983, bls. 12-15, og 22. mars 1983, bls. 12-15.
[Rammi á blaðsíðu 6]
ÓKUNNUGT UM HIN VÍSINDALEGU RÖK?
„JAFNVEL vottar Jehóva hafa lært heilmikið í líffræði,“ skrifaði lögfræðingurinn Norman Macbeth í bók sinni Darwin Retried — An Appeal to Reason sem út kom árið 1971. Eftir að hafa lesið grein í tímaritinu Vaknið! um þróunarkenninguna sagði Macbeth: „Ég undraðist að ég skyldi finna í henni skarplega gagnrýni á þróunarkenningu Darwins.“ Höfundur sagði eftir að hafa bent á hinar ítarlegu rannsóknir og vel völdu tilvitnanir í heimildarmenn um þetta efni: „Það er ekki lengur rétt af Simpson að segja: ‚ . . . það er augljóst að þeim sem trúa ekki á hana [þróunarkenninguna] er nánast öllum ókunnugt um hin vísindalegu rök.‘“
[Mynd á blaðsíðu 7]
Framtíð mannkynsins er ekki látin ráðast af blindri tilviljun