Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.4. bls. 4-7
  • Hvers vegna þarf að ákveða sig núna?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna þarf að ákveða sig núna?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna Ísrael var hafnað
  • Hið mikla fráhvarf kristna heimsins
  • Er siðbót óhugsandi?
  • Núna er rétti tíminn til að ‚ganga út úr henni‘
  • Hvernig „kristnir menn“ urðu hluti af þessum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Dómur guðs yfir ‚lögleysingjanum‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Skækjan illræmda — fall hennar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Hvers vegna veraldleg trúarbrögð líða undir lok
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.4. bls. 4-7

Hvers vegna þarf að ákveða sig núna?

Á SEXTÁNDU öld fyrir okkar tímatal útvaldi Guð Ísraelsmenn sem ‚eiginlega eign sína umfram allar þjóðir, heilagan lýð.‘ (2. Mósebók 19:5, 6) Þeir glötuðu fljótt heilagleika sínum eða trúarlegum hreinleika og létu spillast af skurðgoðadýrkun og siðspilltri hegðun grannþjóðanna. Þannig sýndu þeir sig vera ‚harðsvíraðan lýð.‘ (5. Mósebók 9:6, 13; 10:16; 1. Korintubréf 10:7-11) Á meira en þrjú hundruð ára tímabili eftir dauða Jósúa vakti Jehóva upp dómara, trúfasta leiðbeinendur sem reyndu að leiða Ísraelsmenn aftur til sannrar tilbeiðslu. En fólkið ‚lét eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.‘ — Dómarabókin 2:17-19.

Eftir það vakti Guð upp trúfasta konunga og spámenn til að hvetja fólkið til að snúa aftur til sannrar tilbeiðslu. Spámaðurinn Asarja hvatti Asa konung og samlanda sína til að leita Jehóva: „Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ Asa beitti sér fyrir trúarlegri siðbót í Júdaríki. (2. Kroníkubók 15:1-16) Seinna varð Guð að endurnýja boðið um að leita sín og gerði það fyrir munn spámannsins Jóels. (Jóel 2:12, 13) Enn síðar hvatti Sefanía Júdamenn til að ‚leita Jehóva.‘ Hinn ungi Jósía konungur gerði það í siðbótarherferð þar sem hann upprætti skurðgoðadýrkun og spillingu. — Sefanía 2:3; 2. Kroníkubók 34:3-7.

Þrátt fyrir slík iðrunarskeið hallaði sífellt undan fæti í trúarlífi þjóðarinnar. (Jeremía 2:13; 44:4, 5) Jeremía fordæmdi trúarkerfið, sem var spillt af skurðgoðadýrkun, og lýsti því sem óforbetranlegu: „Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.“ (Jeremía 13:23) Af þessari ástæðu refsaði Guð Júdaríkinu harðlega. Jerúsalem og musteri hennar var jafnað við jörðu árið 607 f.o.t. og þeir sem eftir lifðu voru fluttir sem þrælar til Babýlonar þar sem þeir voru í 70 ár.

Þegar því tímabili lauk sýndi Guð miskunn. Hann lét Kýrus konung frelsa Ísraelsmenn úr ánauðinni, og hluti þjóðarinnar sneri heim til Jerúsalem til að endurreisa musterið. Í stað þess að læra sína lexíu af öllu þessu viku þeir frá sannri tilbeiðslu enn einu sinni þannig að Jehóva Guð þurfti að endurnýja boð sitt: „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar.“ — Malakí 3:7.

Hvers vegna Ísrael var hafnað

Hvernig voru Ísraelsmenn trúarlega á vegi staddir á dögum Jesú? Hinir hræsnisfullu trúarleiðtogar voru ‚blindir leiðtogar‘ sem kenndu „mannasetningar.“ ‚Þeir brutu boðorð Guðs sakir erfikenningar sinnar.‘ Menn heiðruðu Guð „með vörunum“ en hjörtu þeirra voru langt frá honum. (Matteus 15:3, 4, 8, 9, 14) Áttu þeir sem þjóð að fá enn eitt tækifæri til að iðrast? Nei. Jesús sagði: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ Hann sagði enn fremur: „Hús yðar,“ musterið í Jerúsalem, „verður í eyði látið.“ (Matteus 21:43; 23:38) Þeir áttu sér ekki viðreisnar von. Þeir höfnuðu Jesú sem Messíasi, fengu hann líflátinn og kusu hinn harðráða rómverska keisara sem konung. — Matteus 27:25; Jóhannes 19:15.

Ísraelsmenn vildu ekki skilja að tíminn, sem þjónusta Jesú stóð yfir, var dómstími. Jesús sagði hinni ótrúu Jerúsalem: „Þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ — Lúkas 19:44.

Á hvítasunnunni árið 33 myndaði Guð nýja þjóð, hina andasmurðu lærisveina sonar síns Jesú Krists sem myndu verða valdir af sérhverjum kynþætti og þjóð. (Postulasagan 10:34, 35; 15:14) Var einhver von um að trúarkerfi Gyðinga yrði loksins siðbætt? Rómverskar hersveitir svöruðu því árið 70 þegar þær jöfnuðu Jerúsalem við jörðu. Guð hafði hafnað þessu trúarkerfi algerlega. — Lúkas 21:5, 6.

Hið mikla fráhvarf kristna heimsins

Andasmurðir kristnir menn mynduðu líka ‚heilaga þjóð, eignarlýð.‘ (1. Pétursbréf 2:9; Galatabréfið 6:16) En jafnvel frumkristni söfnuðurinn varðveitti ekki trúarlegan hreinleika sinn til langframa.

Ritningin sagði fyrir mikið fráhvarf frá sannri trú. Hið táknræna illgresi í dæmisögu Jesú, það er að segja gervikristnir menn, myndu reyna að kæfa hið táknræna hveiti eða sannkristna menn, þá sem væru smurðir með anda Guðs. Dæmisagan sýnir að fölsk kristni var, að undirlagi erkióvinar Guðs, djöfulsins, í þann mund að byrja að breiðast út, „er menn voru í svefni.“ Það átti sér stað á tímabili andlegrar syfju sem fylgdi í kjölfar þess að trúfastir postular Krists dóu. (Matteus 13:24-30, 36-43; 2. Þessaloníkubréf 2:6-8) Eins og postularnir sögðu fyrir smeygðu margir gervikristnir menn sér inn í sauðabyrgið. (Postulasagan 20:29, 30; 1. Tímóteusarbréf 4:1-3; 2. Tímóteusarbréf 2:16-18; 2. Pétursbréf 2:1-3) Jóhannes dó síðastur postulanna. Um árið 98 skrifaði hann að „hin síðasta stund,“ síðasti hluti postulatímans, væri þegar runninn upp. — 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.

Með bandalagi trúarinnar og stjórnmálaaflanna, sem Konstantínus Rómarkeisari innsiglaði, hnignaði kristna heiminum andlega, kenningalega og siðferðilega. Margir sagnfræðingar eru sammála um að „sigur kirkjunnar á fjórðu öld“ hafi í rauninni verið „stórslys“ frá kristnum bæjardyrum séð. ‚Kristnin glataði háleitu siðferði sínu‘ og tók upp margar siðvenjur og heimspekikenningar ættaða úr heiðni, svo sem „Maríudýrkun“ og „dýrlingatrú“ sem og þrenningarkenninguna.

Eftir blekkingarsigur sinn hrakaði kristna heiminum. Tilskipanir og kenningalegar skilgreiningar páfa og kirkjuþinga, að ekki sé minnst á Rannsóknarréttinn, krossferðirnar og hin „heilögu“ stríð milli kaþólskra og mótmælenda, sköpuðu óforbetranlegt trúarkerfi.

Í bók sinni, A World Lit Only by Fire, segir William Manchester: „Páfar fimmtándu og sextándu aldar lifðu eins og rómverskir keisarar. Þeir voru auðugustu menn í heimi, og þeir og kardínálar þeirra auðguðust enn meir með því að selja heilög kirkjuembætti.“ Á tímum fráhvarfsins mikla leituðust litlir hópar eða einstaklingar við að finna sanna kristni á ný og sýndu með því einkenni hins táknræna hveitis. Oft guldu þeir dýru verði fyrir. Sama bók segir: „Stundum virtust hinir sönnu dýrlingar kristninnar, jafnt meðal mótmælenda sem kaþólskra, vera orðnir svertir píslarvottar á bálkestinum.“ Öðrum, svokölluðum siðbótarmönnum eins og Marteini Lúter og Jóhannesi Kalvín, tókst að koma á fót varanlegum trúarstofnunum sem voru aðskildar kaþólsku kirkjunni en deildu grundvallarkenningum hennar með henni eftir sem áður. Þeir voru líka á kafi í stjórnmálum.

Mótmælendur freistuðu þess að koma á svokallaðri trúarlegri endurvakningu. Til dæmis leiddu þessar tilraunir til kröftugs trúboðsstarfs erlendis á 18. og 19. öld. En hirðar mótmælenda viðurkenna sjálfir að andlegt ástand sauða þeirra sé allt annað en uppörvandi nú á tímum. Mótmælendaguðfræðingurinn Oscar Cullmann viðurkenndi nýverið að það væri „trúarkreppa innan kirknanna sjálfra.“

Siðbætur og gagnsiðbætur hafa líka verið reyndar innan kaþólsku kirkjunnar. Andstætt gífurlegri auðsöfnun klerkastéttarinnar voru stofnaðar klausturreglur frá 11. öld og fram á þá 13. sem fylgdu fátækraheitinu út í ystu æsar. En klerkaveldið fylgdist grannt með þeim og bældi þær niður að sögn fræðimanna. Þá kom gagnsiðbótin á 16. öld að undirlagi kirkjuþingsins í Trent sem beindist aðallega að því að berjast gegn siðbót mótmælenda.

Á fyrri helmingi 19. aldar, á tímum kirkjulegrar viðreisnar, tók kaþólska kirkjan ráðríka og íhaldssama afstöðu. Ekki verður þó sagt að nokkur raunveruleg siðbót hafi átt sér stað í þá átt að endurreisa sanna kristni. Þarna var einfaldlega um að ræða tilraun til að tryggja vald klerkanna á breytingatímum í trúmálum, stjórnmálum og þjóðfélagsmálum um heim allan.

En nýverið, frá og með hinu öðru almenna Vatíkanþingi á sjöunda áratug þessarar aldar, virtist kaþólska kirkjan vilja fara út í rækilegar breytingar. En hin svokallaða þinglega endurnýjun tók snöggan endi er núverandi páfi stöðvaði hana til að halda aftur af framfarasinnuðum kirkjumönnum. Kaþólskur hópur hefur skilgreint þennan áfanga, sem sumir kalla endurreisn Wojtyła, sem „Konstantínisma í nýrri mynd.“ Eins og jesúítatímaritið La Civiltà Cattolica bendir á stendur kaþólska kirkjan, líkt og aðrar kirkjudeildir, frammi fyrir „djúpstæðri heimskreppu; djúpstæðri vegna þess að hún snertir sjálfar rætur trúar og kristilegs lífs; heimskreppu vegna þess að hún snertir alla þætti kristninnar.“

Kirkjudeildir kristna heimsins gengu raunar ekki gegnum neina siðbót, og gátu aldrei, af því að endurreisn sannrar kristni átti ekki að eiga sér stað fyrr en við ‚kornskurðinn,‘ á uppskerutímanum, þegar hinu táknræna ‚hveiti‘ yrði safnað inn í einn hreinan söfnuð. (Matteus 13:30, 39) Hinn langi listi glæpa og ódæðisverka í nafni trúarinnar, hvort sem sú trú þóttist kristin eða ekki, vekur þá spurningu hvort raunhæft sé að búast við ósvikinni siðbót kristna heimsins.

Er siðbót óhugsandi?

Opinberunarbók Biblíunnar talar um mikla, táknræna skækju er ber hið dularfulla nafn „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 17:1, 5) Um aldaraðir hafa lesendur Biblíunnar reynt að skýra leyndardóm þessarar táknmyndar. Mörgum bauð við auðsöfnun og spillingu klerkastéttarinnar. Sumir héldu þess vegna að Babýlon hin mikla táknaði klerkaveldi kirkjunnar. Þeirra á meðal var Jóhann Húss, kaþólskur prestur frá Bæheimi sem brenndur var lifandi árið 1415, og Aonio Paleario, ítalskur húmanisti sem var hengdur og brenndur árið 1570. Báðir börðust árangurslaust fyrir siðbót kaþólsku kirkjunnar í von um að hún myndi endurheimta „upphaflega reisn sína.“

En 17. og 18. kafli Opinberunarbókarinnar gefa til kynna að Babýlon hin mikla tákni heimsveldi allra falskra trúarbragða.a Þessi samsetta ‚mikla skækja‘ er óforbetranleg sökum þess að ‚syndir hennar hafa hlaðist allt upp til himins.‘ Núna á 20. öldinni bera nálega öll trúfélög, ekki bara þau sem tilheyra kristna heiminum, sameiginlega ábyrgð á þeim stríðum sem halda áfram að úthella miklu blóði og á þeirri alvarlegu siðspillingu sem hrjáir mannkynið. Guð hefur þess vegna ákveðið að „Babýlon“ skuli eytt. — Opinberunarbókin 18:5, 8.

Núna er rétti tíminn til að ‚ganga út úr henni‘

Uppfylling biblíuspádómanna leiðir í ljós að okkar dagar eru ‚endalokatími‘ þessarar óguðlegu „veraldar.“ (Matteus 24:3) Enginn, sem þráir í einlægni að tilbiðja Guð, getur leyft sér að fylgja sínum eigin hugmyndum og smekk. Hann verður að ‚leita Jehóva meðan hann er að finna,‘ já, nú þegar, því að ‚þrengingin mikla,‘ sem Jesús sagði fyrir, er nálæg. (Jesaja 55:6; Matteus 24:21) Guð mun ekki frekar umbera spillingu trúfélags, aðeins af því að það gortar af háum aldri sínum, en hann umbar spillingu Ísraelsmanna. Í stað þess að keppast við að lappa upp á skip, sem ekki verður bjargað, verða allir sem þrá velþóknun Guðs og hjálpræði að hlýða tafarlaust hinni innblásnu fyrirskipun í Opinberunarbókinni 18:4: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“

En hvert á að fara þegar ‚gengið er út‘? Hvar annars staðar er hjálpræði að finna? Er ekki hætta á því að menn leiti hælis á skökkum stað? Hvernig er hægt að bera kennsl á einu trúna sem Guð hefur velþóknun á? Einu áreiðanlegu svörin er að finna í orði Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Vottar Jehóva hvetja þig til að rannsaka Biblíuna nánar. Þá geturðu skilið hverja Guð hefur útvalið sem ‚lýð er ber nafn hans‘ og hann mun vernda á yfirvofandi reiðidegi sínum. — Postulasagan 15:14; Sefanía 2:3; Opinberunarbókin 16:14-16.

[Neðanmáls]

a Til að bera biblíulega rétt kennsl á Babýlon hina miklu, sjá kafla 33 til 37 í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út árið 1988 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ef trúarskip þitt er að sökkva skaltu forða þér yfir í björgunarbát sannrar kristni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila