Er til einhver sannleikur í trúmálum?
ANDLEGA leitandi maður í háskólabænum Uppsölum í Svíþjóð ákvað að kynna sér kenningar mismunandi trúfélaga þar í bæ. Meðal annars heimsótti hann tilbeiðslustaði þeirra. Hann hlustaði á prédikanir prestanna og spurði suma safnaðarmenn út úr. Hann tók eftir að engir nema vottar Jehóva virtust sannfærðir um að þeir hefðu „fundið sannleikann.“ Hann undraðist að þeir skyldu geta fullyrt slíkt, sérstaklega í ljósi hinna mörgu ólíku trúarskoðana sem menn hafa.
Álítur þú mögulegt að finna sannleikann í trúmálum? Er yfirleitt hægt að komast að því sem kalla mætti hinn endanlega sannleika?
Heimspeki og sannleikur
Þeir sem lagt hafa stund á heimspeki hafa tileinkað sér það viðhorf að hinn endanlegi sannleikur sé utan seilingar manna. Þú veist kannski að heimspeki hefur verið skilgreind sem „fræði sem reyna að veita heildarskilning á tilverunni og finna forsendur og lögmál mannlegrar þekkingar.“ Í reynd nær heimspekin sjaldan svo langt. Í bók sinni Filosofins Historia segir Svíinn Alf Ahlberg: „Margar heimspekilegar spurningar eru þess eðlis að ógerlegt er að veita ákveðið svar við þeim. . . . Margir eru þeirrar skoðunar að öll hin frumspekilegu viðfangsefni [sem fjalla um grundvallaratriði hlutanna] falli í þennan . . . flokk.“
Þar af leiðandi verða þeir, sem leita svara við stóru spurningunum í lífinu með hjálp heimspekinnar, oft á tíðum vonsviknir eða örvilnaðir. Í bók sinni Tankelinjer och trosformer segir sænski rithöfundurinn Gunnar Aspelin: „Eitt vitum við, og það er að náttúran hefur jafnlítinn áhuga á manninum og á fiðrildinu og mýflugunni . . . Við erum máttvana, algerlega máttvana andspænis þeim öflum sem leika lausum hala í alheiminum og í okkar innri heimi. Þetta er sú lífssýn sem hefur svo oft birst í bókmenntum undir lok aldar framfara og framtíðardrauma.“
Þarf sannleiksopinberun til?
Augljóst er að mönnum hefur ekki tekist af eigin rammleik að finna sannleikann um lífið, og það lítur ekki út fyrir að þeim takist það nokkurn tíma. Það er því fullt tilefni til að ætla að einhvers konar guðlega opinberun þurfi til. Sumt er opinberað í hinni svokölluðu bók náttúrunnar. Jafnvel þótt hún veiti ekki tæmandi svör um uppruna lífsins sýnir hún að til er langtum betri skýring á honum en hrein efnishyggja veitir. Grasstrá, sem vex upp úr moldinni, fylgir öðrum lögmálum en steinhrúga sem veðrast fyrir vatni og vindum. Lifandi verur í náttúrunni eru uppbyggðar og skipulagðar á allt annan hátt en lífvana hlutir. Virtur lög- og trúfræðingur hafði því tilefni til þessarar niðurstöðu: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ — Rómverjabréfið 1:20.
En frekari opinberunar er þörf til að komast að því hver standi að baki allri þessari uppbyggingu og skipulagningu. Ættum við ekki að búast við að slík opinberun sé til? Er ekki eðlilegt að reikna með að frumkvöðull lífsins á jörðinni opinberi sig sköpunarverum sínum?
Biblían fullyrðir að hún sé slík opinberun. Við höfum oft lagt fram haldgóð rök fyrir því í þessu tímariti og margt hugsandi fólk hefur látið sannfærast. Það er í sjálfu sér athyglisvert að mönnunum, sem skrifuðu Biblíuna, var mikið í mun að láta það koma skýrt fram að þeir væru ekki að halda fram eigin hugmyndum. Yfir 300 sinnum nota spámenn Biblíunnar orð í líkingu við: „Svo segir [Jehóva].“ (Jesaja 37:33; Jeremía 2:2; Nahúm 1:12) Þú veist sjálfsagt að körlum og konum, sem skrifa bækur nú á dögum, er yfirleitt mikið í mun að árita verk sín. En þeir sem skrifuðu biblíubækurnar létu lítið á sér bera. Í sumum tilfellum er jafnvel erfitt að ganga úr skugga um hver skrifaði hvað í Biblíunni.
Innra samræmi Biblíunnar er annað sem þér gæti þótt markvert. Það er í raun undravert þegar á það er litið að biblíubækurnar 66 voru skrifaðar á 1600 ára tímabili. Setjum sem svo að þú færir á almenningsbókasafn og veldir 66 trúarbækur sem hefðu verið skrifaðar á 16 alda tímabili. Síðan létir þú binda þessar bækur allar saman í eitt bindi. Myndirðu reikna með að finna samhljóða boðskap og eitt gegnumgangandi stef frá upphafi til enda? Varla. Það þyrfti kraftaverk til. Hugleiddu þá þetta: Biblíubækurnar hafa slíkt sameiginlegt stef og þær renna stoðum hver undir aðra. Það sýnir að það hlýtur að vera einn höfundur eða hugsuður að baki sem stýrði því hvað biblíuritararnir skrifuðu.
En eitt finnurðu sem sannar betur en nokkuð annað að Biblían er innblásin af Guði. Það eru spádómarnir sem eru fyrirframritaðar upplýsingar um óorðna atburði. Orðalag svo sem: „Á þeim degi mun“ og „það skal verða á hinum síðustu dögum,“ er einstakt fyrir Biblíuna. (Jesaja 2:2; 11:10, 11; 23:15; Esekíel 38:18; Hósea 2:21-23; Sakaría 13:2-4) Mörg hundruð árum áður en Jesús Kristur kom fram á jörðinni veittu spádómar í Hebresku ritningunum ítarlegar upplýsingar um ævi hans — allt frá fæðingu til dauða. Það er enga aðra rökrétta skýringu að finna en þá að Biblían sé uppspretta sannleikans um lífið. Jesús staðfesti það er hann sagði: „Þitt orð er sannleikur.“ — Jóhannes 17:17.
Trúarbrögðin og sannleikurinn
Jafnvel margir, sem segjast trúa Biblíunni, telja að ekki sé hægt að finna einhvern algildan sannleika. Bandaríski presturinn John S. Spong segir: „Við verðum . . . að breyta þeim hugsunarhætti að við höfum sannleikann, að aðrir verði að tileinka sér okkar viðhorf, og gera okkur ljóst að endanlegur sannleikur sé utan seilingar okkar.“ Rómversk-kaþólskur rithöfundur, Christopher Derrick, nefnir eina ástæðu fyrir þessari neikvæðu afstöðu gagnvart því að finna sannleika: „Sé minnst á trúarlegan ‚sannleika‘ felst í því einhvers konar fullyrðing um að maður viti . . . Maður gefur í skyn að einhver annar kunni að hafa rangt fyrir sér og það gengur bara ekki.“
Sem hugsandi maður ættirðu eigi að síður að íhuga nokkrar spurningar sem koma málinu við. Ef ekki væri hægt að finna sannleikann, af hverju sagði Jesús þá: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“? Og hvers vegna sagði þá einn af postulum Jesú að það sé vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“? Af hverju kemur orðið „sannleikur“ yfir hundrað sinnum fyrir í kristnu Grísku ritningunum í sambandi við trú? Já, af hverju ef ekki á að vera hægt að finna sannleikann? — Jóhannes 8:32; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
Jesús undirstrikaði ekki bara að það væri hægt að finna sannleikann heldur líka að það væri bráðnauðsynlegt til að tilbeiðsla okkar væri Guði þóknanleg. Þegar samversk kona velti fyrir sér hvort væri rétt tilbeiðsluform — tilbeiðsla Gyðinganna í Jerúsalem eða tilbeiðsla Samverja á Garísímfjalli — svaraði Jesús ekki sem svo að það væri ógerlegt að finna sannleikann. Hann sagði: „Hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:23, 24.
Margir fullyrða að það sé hægt að túlka Biblíuna á ólíka vegu, þannig að enginn geti verið viss um hver sannleikurinn sé. En er Biblían raunverulega skrifuð á svo óljósu máli að það sé ekki hægt að vera viss um hvernig beri að skilja hana? Auðvitað geta vissir spádómar og táknmál verið torskilið. Til dæmis sagði Guð spámanninum Daníel að bók hans, sem inniheldur marga spádóma, yrði ekki skilin til fulls fyrr en ‚endirinn kæmi.‘ (Daníel 12:9) Og ljóst er að það þarf að túlka vissar dæmisögur og táknmyndir.
Það er þó ljóst að Biblían er mjög skýr og skilmerkileg í sambandi við grundvallarkenningar kristninnar og þau siðferðisgildi sem eru nauðsynleg til að tilbiðja Guð í sannleika. Þar er ekki boðið upp á neina mótsagnakennda túlkun. Í bréfinu til Efesusmanna er talað um ‚eina‘ kristna trú og það sýnir að það áttu ekki að vera nokkrar jafnsannar trúarstefnur. (Efesusbréfið 4:4-6) Þér er kannski spurn hvers vegna til séu svona margir ólíkir „kristnir“ trúarsöfnuðir ef ekki sé með réttu hægt að túlka Biblíuna á marga ólíka vegu. Við finnum svarið með því að hverfa aftur í tímann þar til skömmu eftir að postular Jesú dóu og fráhvarfið frá sannkristinni trú var komið af stað.
‚Hveitið og illgresið‘
Jesús sagði þetta fráhvarf fyrir í dæmisögu sinni um hveitið og illgresið. Hann útskýrði sjálfur að „hveitið“ táknaði sannkristna menn en „illgresið“ falskristna menn eða fráhvarfsmenn. „Er menn voru í svefni,“ sagði Jesús, sáði „óvinur“ illgresi í hveitiakurinn. Þessi sáning hófst eftir að postularnir voru sofnaðir dauðasvefni. Dæmisagan sýnir að sannkristnum mönnum og falskristnum yrði blandað saman fram að „endi veraldar.“ Í aldanna rás hefur því verið torvelt að bera kennsl á sannkristna menn vegna þess að trúarakurinn var fullur af þeim sem voru kristnir aðeins að nafninu til. Við „endi veraldar“ átti að verða breyting á. „Mannssonurinn“ myndi „senda engla sína“ til að aðskilja falskristna menn og sannkristna. Það hefði í för með sér að kristni söfnuðurinn yrði auðþekktur og hefði sömu stöðu og hann naut á postulatímanum. — Matteus 13:24-30, 36-43.
Spádómar bæði Jesaja og Míka segja fyrir slíka endursöfnun sannra guðsdýrkenda „á hinum síðustu dögum.“ Jesaja segir: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ Ef grannt er skoðað sýna staðreyndirnar að spádómur Jesaja er að uppfyllast á okkar tímum. — Jesaja 2:2, 3; Míka 4:1-3.
Kristni söfnuðurinn hefur ekki vaxið fyrir tilverknað manna. Jesús sagði fyrir að hann myndi „senda engla sína“ til að safna mönnum saman. Hann sagði líka að það yrði gert í mjög sérstökum tilgangi: „Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra.“ (Matteus 13:43) Þetta sýnir að kristni söfnuðurinn myndi vinna að upplýsingar- eða fræðslustarfi um heim allan.
Vottar Jehóva sjá uppfyllingu þessara spádóma í fræðslustarfinu sem þeir vinna að í 232 löndum nú á dögum. Með því að bera skipulag votta Jehóva, trúarskoðanir og hegðunarreglur fordómalaust saman við Biblíuna geta menn séð greinilega að þær samræmast því sem frumkristni söfnuðurinn fylgdi. Vottarnir tala um trú sína sem „sannleikann,“ ekki af því að þeir telji sig yfir aðra hafna heldur af því að þeir hafa rannsakað orð Guðs, Biblíuna, rækilega og fylgja því sem eina rétta mælikvarðanum fyrir trúna.
Frumkristnir menn töluðu um trú sína sem „sannleikann.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15; 2. Pétursbréf 2:2; 2. Jóhannesarbréf 1) Það sem var sannleikur fyrir þá hlýtur líka að vera sannleikur fyrir okkur núna. Vottar Jehóva hvetja alla til að ganga úr skugga um það sjálfir með því að kynna sér Biblíuna. Við vonum að þú gerir það og kynnist þar með ekki aðeins þeirri gleði að finna trú sem er öllum öðrum fremri heldur líka gleðinni samfara því að finna sannleikann!
[Rammi á blaðsíðu 5]
HEIMSPEKIKENNINGAR OG SANNLEIKURINN
RAUNHYGGJA: Það sjónarmið að allar hugmyndir af trúarlegum toga séu ósannanlegar, hrein vitleysa, og að markmið heimspekinnar sé að sameina niðurstöður raunvísindanna í eina heild.
TILVISTARSTEFNA: Fylgjendur hennar urðu fyrir sterkum áhrifum af hryllingi síðari heimsstyrjaldarinnar og urðu þar af leiðandi svartsýnir á lífið. Hún leggur áherslu á að skoða angist mannsins andspænis dauðanum og tómleika lífsins. Rithöfundurinn og tilvistarsinninn Jean-Paul Sartre sagði að þar sem enginn Guð sé til lifi maðurinn yfirgefinn í alheimi sem stendur algerlega á sama um hann.
EFAHYGGJA: Telur ógerlegt að öðlast nokkra hlutlæga, algilda þekkingu um tilveruna — nokkurn sannleika — með athugunum og rökhyggju.
GAGNSEMISHYGGJA: Metur sannfæringu manna eingöngu út frá hagnýtu gildi hennar, svo sem til endurbóta á menntunar-, siðferðis- og stjórnmálasviði. Hún álítur sannleika ekki hafa neitt gildi sem slíkan.