Tímarnir eru breyttir
ÞAÐ hlýtur að hafa verið unaðslegt að búa í Forn-Ísrael undir dýrlegri stjórn Salómons konungs meðan hann var trúfastur. Þá ríkti friður, velmegun og hamingja. Jehóva blessaði þjóðina ríkulega meðan Salómon var staðfastur í sannri tilbeiðslu. Guð veitti Salómon konungi ekki aðeins mikla auðlegð heldur einnig „hyggið og skynugt hjarta“ til að stjórna í réttlæti og kærleika. (1. Konungabók 3:12) Biblían segir: „Alla konunga jarðarinnar fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.“ — 2. Kroníkubók 9:23.
Jehóva veitti þjóðinni öryggi, frið og alls konar gæði. Orð Guðs segir: „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.“ Bæði bókstaflega og táknrænt bjuggu „Júda og Ísrael . . . öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré . . . alla ævi Salómons.“ — 1. Konungabók 4:20, 25.
Nú eru breyttir tímar. Lífið er harla ólíkt þessum sæludögum endur fyrir löngu. Ólíkt því sem var á tímum Salómons er fátækt stórvandamál nú á dögum. Jafnvel meðal auðugra þjóða er fátækt. Til dæmis búa næstum 15 af hundraði manna undir fátæktarmörkum bæði í Bandaríkjunum og í löndum Evrópusambandsins samkvæmt upplýsingum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Skýrsla frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, The State of the World’s Children 1994, segir um heiminn í heild að fimmtungur jarðarbúa búi við algera örbirgð og bætir við að lífið verði „æ erfiðara og örvæntingarfyllra“ hjá þeim fátækustu í heiminum.
Í sumum löndum eykur óðaverðbólga á erfiðleika fátækra. Kona í einu Afríkulandi segir: „Maður sér eitthvað á markaðinum og segir: ‚Fínt, ég skrepp heim og sæki peninga til að kaupa það.‘ Þegar maður kemur til baka klukkustund síðar er sagt að peningarnir hrökkvi ekki til því að nýbúið sé að hækka verðið. Hvað á maður að gera? Þetta er mjög gremjulegt.“
Önnur kona þar í álfu sagði: ‚Til að komast af verðum við að gleyma öðrum þörfum. Það eina sem skiptir máli núna er að útvega mat.‘
Horfurnar eru ekki bjartar að mati Sameinuðu þjóðanna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar til dæmis að tala fátækra eigi eftir að fjórfaldast „innan mannsaldurs“ ef heldur fram sem horfir.
En þrátt fyrir versnandi efnahags- og þjóðfélagsástand hafa þjónar Guðs tilefni til að vera bjartsýnir. Enda þótt þeir búi meðal fólks sem verður æ svartsýnna á framtíðina horfa þeir með gleði og trúartrausti til framtíðarinnar. Greinin á eftir ræðir um ástæðurnar fyrir því.
[Rétthafi á blaðsíðu 3]
De Grunne/Sipa Press