Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.11. bls. 4-7
  • Bjartari tímar framundan

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bjartari tímar framundan
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Matvælaskortur sagður fyrir
  • Jehóva annaðist þjóna sína í fortíðinni
  • Guð sér fyrir þjónum sínum nú á dögum
  • Bjartari tímar framundan
  • Hefur þú smakkað „brauð lífsins“?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Hvað segir Biblían um hungursneyðir nú á dögum?
    Fleiri viðfangsefni
  • „Brauð lífsins“ öllum aðgengilegt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hver getur bjargað þeim sem hrópa á hjálp?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.11. bls. 4-7

Bjartari tímar framundan

„VIÐ borðum einn-núll-einn,“ segir kona.

„Það er enn verra hjá mér,“ svarar vinkona hennar. „Ég er á núll-núll-einum.“

Sums staðar í Vestur-Afríku þarfnast slík orðaskipti engra frekari skýringa. Í stað þess að borða þrjár máltíðir á dag (einn-einn-einn) hefur sá sem er á einn-núll-einum aðeins efni á tveim máltíðum á dag — að morgni og að kvöldi. Ungur maður, sem er á núll-núll-einu mataræði, segir um stöðu sína: „Ég borða einu sinni á dag. Ég fylli kæliskápinn af vatnsbrúsum. Ég borða gari [kassavamjöl] á kvöldin áður en ég fer að sofa. Þannig bjargast þetta hjá mér.“

Þannig eru kjör vaxandi fjölda fólks nú á tímum. Verðlag hækkar og kaupmáttur rýrnar.

Matvælaskortur sagður fyrir

Í sýnaröð, sem Jóhannes postuli fékk að sjá, sagði Guð fyrir þá erfiðleika sem margir búa við nú á dögum. Einn þeirra var matvælaskortur. Jóhannes segir svo frá: „Ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.“ (Opinberunarbókin 6:5) Þessi óheillavænlegi hestur og riddarinn á honum tákna hungursneyð — matvæli yrðu svo fágæt að þau yrðu skömmtuð á vog.

Síðan segir Jóhannes postuli: „Heyrði ég . . . rödd er sagði: ‚Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun.‘“ Á dögum Jóhannesar var mælir hveitis daglegur skammtur hermanns og daglaunin voru denar. Versið hljóðar því svo í þýðingu Richards Weymouths: „Heil daglaun fyrir brauðhleif og heil daglaun fyrir þrjár byggkökur.“ — Opinberunarbókin 6:6.

Hver eru daglaun nú á dögum? Skýrslan State of World Population, 1994 segir: „Um 1,1 milljarður manna, eða um 30 af hundraði íbúa þróunarlandanna, lifir á um einum Bandaríkjadal [rösklega 60 íslenskum krónum] á dag.“ Hjá hinum fátæku í heiminum hrökkva því daglaunin bókstaflega rétt fyrir einum brauðhleif.

Það kemur hinum fátækustu auðvitað ekki á óvart. „Brauð!“ hrópaði maður nokkur upp yfir sig. „Hver borðar brauð? Brauð er munaðarvara nú til dags!“

Það er kaldhæðnislegt að í rauninni er enginn skortur á matvælum. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum jókst matvælaframleiðslan í heiminum um 24 af hundraði á síðastliðnum tíu árum sem er meira en fólksfjölgunin. En það fengu ekki allir að njóta þessarar aukningar. Í Afríku dróst matvælaframleiðsla til dæmis saman um 5 af hundraði en íbúum fjölgaði hins vegar um 34 af hundraði. Þrátt fyrir meira en næga matvælaframleiðslu í heiminum er skortur áfram víða um lönd.

Verðhækkanir fylgja matvælaskorti. Atvinnuleysi, lág laun og vaxandi verðbólga gera að verkum að erfitt reynist að finna peninga til að kaupa það sem þó er til. Skýrslan Human Development Report 1994 segir: „Fólk er hungrað, ekki af því að matvæli séu ófáanleg heldur af því að það hefur ekki efni á þeim.“

Vonbrigði, vonleysi og örvænting eykst. „Fólk hefur á tilfinningunni að dagurinn í dag sé slæmur en að morgundagurinn verði verri,“ segir Glory sem býr í Vestur-Afríku. Önnur kona sagði: „Fólki finnst stefna í meiriháttar ógæfu. Því finnst sá dagur munu koma að ekkert verði eftir á markaðinum.“

Jehóva annaðist þjóna sína í fortíðinni

Þjónar Jehóva vita að hann umbunar trúföstum þjónum sínum með því að fullnægja þörfum þeirra og veita þeim styrk til að takast á við erfiðleika. Slíkt traust á getu Guðs til að sjá fyrir þjónum sínum er reyndar ómissandi þáttur trúarinnar. Páll postuli skrifaði: „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6.

Jehóva hefur alltaf annast trúfasta þjóna sína. Á þriggja og hálfs árs þurrkatíma sá hann spámanni sínum Elía fyrir mat. Í fyrstu lét Guð hrafna færa Elía brauð og kjöt. (1. Konungabók 17:2-6) Síðar sá Jehóva ekkju einni á undraverðan hátt fyrir mjöli og olíu en hún sá Elía fyrir fæði. (1. Konungabók 17:8-16) Í þessu sama hallæri sá Jehóva til þess að spámenn hans fengju brauð og vatn, þrátt fyrir harðar trúarofsóknir hinnar illu Jesebelar drottningar. — 1. Konungabók 18:13.

Síðar, þegar konungur Babýlonar settist um hina fráföllnu Jerúsalem, þurftu menn að „eta brauðið eftir skammti og með angist.“ (Esekíel 4:16) Ástandið varð svo skelfilegt að einstaka konur átu sín eigin börn. (Harmljóðin 2:20) En jafnvel þótt spámaðurinn Jeremía væri í haldi vegna prédikunar sinnar sá Jehóva til þess að honum væri „gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni.“ — Jeremía 37:21.

Gleymdi Jehóva Jeremía er brauð var á þrotum? Greinilega ekki, því að þegar borgin féll fyrir Babýloníumönnum var Jeremía ‚fengið uppeldi og gjafir og látinn fara.‘ — Jeremía 40:5, 6; sjá einnig Sálm 37:25.

Guð sér fyrir þjónum sínum nú á dögum

Jehóva heldur nútímaþjónum sínum uppi á sama hátt og hann gerði fyrr á öldum og annast þá bæði efnislega og andlega. Tökum Lamitunde í Vestur-Afríku sem dæmi. Hann segir: „Ég átti allstórt alifuglabú. Dag nokkurn komu vopnaðir ræningjar og stálu flestum kjúklingunum, vararafstöðinni og peningum okkar. Skömmu síðar drápust þeir fáu kjúklingar, sem eftir voru, af völdum sjúkdóms. Þar með var reksturinn búinn að vera. Ég leitaði árangurslaust í tvö ár að vinnu. Það var hart í búi hjá okkur en Jehóva hélt okkur uppi.

Það sem hjálpaði mér gegnum erfiðleikana var að hafa hugfast að Jehóva leyfir ýmislegt til að fága okkur. Við hjónin héldum áfram regluföstu fjölskyldunámi okkar í Biblíunni og það hjálpaði okkur mikið. Bænin veitti líka mikinn styrk. Stundum langaði mig ekki til að biðja, en þegar ég gerði það leið mér betur.

Á þessu erfiða tímabili lærðist mér gildi þess að hugleiða Ritninguna. Ég hugsaði mikið um Sálm 23 sem talar um Jehóva sem hirði okkar. Annar ritningarstaður, sem hvatti mig, var Filippíbréfið 4:6, 7 sem talar um ‚frið Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ Fyrra Pétursbréf 5:6, 7 styrkti mig líka en þar stendur: ‚Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.‘ Öll þessi vers hjálpuðu mér á þessum erfiðum tímum. Með því að hugleiða Biblíuna getur maður rutt dapurlegum hugsunum úr vegi.

Núna er ég aftur kominn í vinnu, en ég verð að viðurkenna að lífið er samt ekki auðvelt. Eins og Biblían sagði fyrir í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 lifum við á ‚síðustu dögum‘ sem einkennast af ‚örðugum tímum.‘ Við getum ekki breytt því sem Biblían segir. Ég reikna þess vegna ekki með að lífið verði auðvelt. Samt finn ég að andi Jehóva hjálpar mér að takast á við hlutina.“

Þrátt fyrir þá erfiðu tíma, sem við lifum, verða þeir ekki fyrir vonbrigðum sem treysta á Jehóva og son hans og konung, Krist Jesú. (Rómverjabréfið 10:11, NW) Jesús fullvissar okkur: „Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði?“ — Matteus 6:25-28.

Þetta eru vissulega áleitnar spurningar á þessum erfiðu tímum. En Jesús hélt áfram með þessum hughreystandi orðum: „Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ — Matteus 6:28-33.

Bjartari tímar framundan

Allt bendir til að efnahags- og þjóðfélagsástandið í heiminum, sem er nógu slæmt fyrir, haldi áfram að versna. En fólk Guðs gerir sér ljóst að þetta ástand er tímabundið. Hin dýrlega stjórn Salómons konungs var tákn réttlátrar stjórnar konungs sem er meiri en Salómon og mun ríkja yfir allri jörðinni. (Matteus 12:42) Það er konungurinn Kristur Jesús, „Konungur konunga og Drottinn drottna.“ — Opinberunarbókin 19:16.

Sálmur 72, sem rættist upphaflega í tengslum við Salómon konung, lýsir hinni stórfenglegu stjórn Jesú Krists. Lítum á nokkur dæmi um þá dýrlegu framtíð sem hann boðar hér á jörð undir konungsstjórn Krists.

Friður um heim allan: „Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.“ — Sálmur 72:7, 8.

Umhyggja fyrir bágstöddum: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá.“ — Sálmur 72:12-14.

Nægur matur: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon.“ — Sálmur 72:16.

Dýrð Jehóva fyllir jörðina: „Lofaður sé [Jehóva], Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk, og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans.“ — Sálmur 72:18, 19.

Já, það eru sannarlega bjartari tímar framundan.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila