Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.12. bls. 5-7
  • Heimur án styrjalda — hvenær?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Heimur án styrjalda — hvenær?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Trúarbrögðin — stór hindrun
  • Framtíð trúarbragðanna
  • Ófullkomið mannlegt eðli
  • Jesús Kristur — Friðarhöfðinginn
  • Friður, öryggi og ‚líkneski dýrsins‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Fímmtiu ára árangurslaus viðleitni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Friður frá Guði — hvenær?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Endalok falstrúarbragða eru í nánd!
    Endalok falstrúarbragða eru í nánd!
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.12. bls. 5-7

Heimur án styrjalda — hvenær?

SÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna tók gildi hinn 24. október 1945. Hann er umfangsmesta áætlun til tryggingar heimsfriði sem menn hafa nokkurn tíma gert. Með 51 stofnríki urðu Sameinuðu þjóðirnar stærstu alþjóðasamtök í sögu heims. Og í fyrsta sinn höfðu alþjóðasamtök aðgang að hersveitum til að knýja fram frið og öryggi og skapa heim án styrjalda.

Núna eru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna 185 og samtökin eru öflugri en nokkru sinni fyrr. Af hverju hefur voldugustu alþjóðasamtökum sögunnar þá mistekist að ná göfugum markmiðum sínum til fulls?

Trúarbrögðin — stór hindrun

Hlutverk trúarbragðanna í heimsmálunum flækir málið mjög. Vissulega hafa helstu trúarbrögð heims heitið Sameinuðu þjóðunum stuðningi sínum allt frá stofnun samtakanna. Í tengslum við 50 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna talaði Jóhannes Páll páfi II um þær sem „óviðjafnanlegt verkfæri til verndar og viðgangs friði.“ Aðrir trúarleiðtogar heims eru sama sinnis. En þessi háttvíslegu samskipti trúar og stjórnmála fá ekki dulið þá staðreynd að trúarbrögðin hafa verið Sameinuðu þjóðunum til trafala og óþurftar.

Um aldaraðir hafa trúarbrögðin öðrum fremur stutt og stuðlað að þjóðernishatri, styrjöldum og þjóðarmorðum. Á síðustu árum hafa nágrannar drepið hver annan undir yfirskini trúar. Orðið „þjóðernishreinsanir“ hefur verið mikið notað í sambandi við stríðið á Balkanskaga. En heift og hatur margra þar hver gegn öðrum byggist frekar á því hvaða trú menn aðhyllast en þjóðerni eða kynþætti, því að flestir eiga sömu þjóðernisrætur. Já, trúarbrögðin verða að axla stóran hluta ábyrgðarinnar á blóðbaðinu í fyrrverandi Júgóslavíu, og Sameinuðu þjóðunum hefur ekki tekist að stöðva það.

Prófessor í trúfræðum sagði nýlega að „í heimi vaxandi árásargirni af trúarlegum hvötum nú eftir kalda stríðið liggi kannski mest á að rannsaka trúarbrögð og þjóðarmorð, þrátt fyrir óþægindin sem fylgja því.“ Það hefur greinilega runnið upp fyrir mönnum hvílíkur þrándur trúarbrögðin eru í götu heimsfriðar.

Í einni ályktun Sameinuðu þjóðanna árið 1981 sagði: „Við lýsum áhyggjum yfir umburðarleysi og mismunun vegna trúar eða trúarbragða sem enn gætir sums staðar í heiminum. Við ályktum að öllum nauðsynlegum ráðum skuli beitt til að uppræta slíkt umburðarleysi sem skjótast í öllum sínum myndum og koma í veg fyrir og berjast gegn mismunun vegna trúar eða trúarbragða.“

Í samræmi við ályktun sína lýstu Sameinuðu þjóðirnar árið 1995 ár umburðarlyndis. En er raunhæft að ætla að það takist nokkurn tíma að koma á friði og öryggi í heimi sem er sundraður af trúarlegum orsökum?

Framtíð trúarbragðanna

Spádómur í Opinberunarbók Biblíunnar svarar því. Þar er talað um táknræna ‚mikla skækju‘ er situr sem „drottning“ og „heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.“ Skækjan lifir í ‚óhófi‘ og hefur mök við stjórnir heims. Þessum stjórnum er lýst sem ‚skarlatsrauðu dýri‘ er skækjan ríður í makindum. (Opinberunarbókin 17:1-5, 18; 18:7) Þessi volduga og siðlausa kona er kölluð „Babýlon hin mikla“ og er nefnd eftir Babýlon fortíðarinnar, vöggu skurðgoðadýrkunar. Skækjan er því viðeigandi táknmynd allra trúarbragða heims nú á tímum sem hafa blandað sér í stjórnmál.

Frásagan segir í framhaldinu að í fyllingu tímans leggi Guð árásargjörnum limum villidýrsins í brjóst að ráðast á hana. Þeir „munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16)a Þannig tekur Jehóva Guð sjálfur frumkvæðið með því að stjórna voldugum þjóðum þannig að þær skeri upp herör gegn falstrúarbrögðum. Trúarkerfi heimsins, með sínum íburðarmiklu musterum, hofum og helgidómum, verður gereytt. Trúarhindranir í vegi friðar og öryggis verða þá úr sögunni. En verður þá loksins kominn raunverulegur friður og öryggi á jörð?

Ófullkomið mannlegt eðli

Er nokkur trygging fyrir því að afnám trúarbragðanna ryðji friði braut í heiminum? Nei. Áfram blasir kaldhæðnisleg staða við Sameinuðu þjóðunum. Annars vegar þráir fólk frið og öryggi. Hins vegar er það fólkið sem er mesta ógnunin við frið og öryggi. Hatur, stolt, sjálfsþótti, eigingirni og fáfræði eru þeir eiginleikar manna sem eru undirrót allra átaka og styrjalda. — Jakobsbréfið 4:1-4.

Biblían sagði fyrir að á okkar dögum yrðu menn „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-4.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros Boutros-Ghali, viðurkennir að „heimurinn sé í félagslegri og siðferðilegri kreppu sem sé geigvænleg í mörgum þjóðfélögum.“ Það duga engir milliríkjasamningar til að eyða skaðlegum áhrifum ófullkomins mannlegs eðlis. — Samanber 1. Mósebók 8:21; Jeremía 17:9.

Jesús Kristur — Friðarhöfðinginn

Ljóst er að Sameinuðu þjóðirnar eru ekki þess megnugar að koma á friði í heiminum. Aðildarþjóðir þeirra og stuðningsmenn eru allir ófullkomnir, hvað sem göfugum markmiðum líður. Biblían segir að ‚örlög mannsins séu ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.‘ (Jeremía 10:23) Guð varar enn fremur við: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — Sálmur 146:3.

Biblían segir fyrir hverju Jehóva mun áorka fyrir milligöngu sonar síns, ‚Friðarhöfðingjans.‘ Jesaja 9:6, 7 segir: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“

Þjóðirnar eru teknar að lýjast á 50 ára árangurslausri viðleitni sinni. Mjög bráðlega munu þær eyða trúarstofnunum sem lifa skækjulífi. Þá mun Jesús Kristur, „Konungur konunga og Drottinn drottna,“ og himneskur her hans eyða öllum stjórnum manna og taka af lífi alla sem hafna drottinvaldi Guðs. (Opinberunarbókin 19:11-21; samanber Daníel 2:44.) Þannig mun Jehóva Guð útrýma styrjöldum í heiminum.

[Neðanmáls]

a Ítarlega umfjöllun um spádóm Opinberunarbókarinnar um Babýlon hina miklu er að finna í 33. til 37. kafla bókarinnar Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, gefin út árið 1988 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi á blaðsíðu 7]

AFSTAÐA KRISTINNA MANNA TIL SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Í spádómum Biblíunnar eru villidýr oft látin tákna stjórnir manna. (Daníel 7:6, 12, 23; 8:20-22) Þess vegna hefur tímaritið Varðturninn áratugum saman bent á að dýrin í 13. og 17. kafla Opinberunarbókarinnar séu veraldlegar stjórnir nútímans. Sameinuðu þjóðirnar eru þar meðtaldar og þeim er í 17. kafla Opinberunarbókarinnar lýst sem skarlatsrauðu dýri með sjö höfuð og tíu horn.

Þessi biblíulega afstaða leyfir þó ekkert virðingarleysi gagnvart stjórnvöldum eða fulltrúum þeirra. Biblían segir greinilega: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.“ — Rómverjabréfið 13:1, 2.

Vottar Jehóva eru algerlega hlutlausir í stjórnmálum og eru því stjórnum manna ekki til trafala. Þeir æsa aldrei til byltingar og taka aldrei þátt í opinberri óhlýðni við lög. Þeir viðurkenna að einhvers konar stjórn er nauðsynleg til að viðhalda lögum og reglu í mannlegu samfélagi. — Rómverjabréfið 13:1-7; Títusarbréfið 3:1.

Vottar Jehóva líta á Sameinuðu þjóðirnar eins og hverja aðra stjórn í heiminum. Þeir viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar standa og starfa með leyfi Guðs. Vottar Jehóva fara eftir Biblíunni og sýna öllum ríkisstjórnum tilhlýðilega virðingu og hlýða þeim svo framarlega sem slík hlýðni útheimtir ekki að þeir syndgi gegn Guði. — Postulasagan 5:29.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila