Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw950901 bls. 21-26
  • Gengur Guð fyrir í fjölskyldu þinni?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gengur Guð fyrir í fjölskyldu þinni?
  • Námsgreinar úr Varðturninum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Andstaða frá fjölskyldunni er snara
  • Að standast álagið
  • Ríkuleg umbun er möguleg
  • Lærum af Jesú
  • Eiginmenn og eiginkonur — líkið eftir Kristi!
  • Hamingjuríkt fjölskyldulíf
    Hvað kennir Biblían?
  • Eiginmenn — líkið eftir forystu Krists
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Viturleg ráð til hjóna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Farsælt fjölskyldulíf
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
Sjá meira
Námsgreinar úr Varðturninum
brw950901 bls. 21-26

Gengur Guð fyrir í fjölskyldu þinni?

„Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu.“ — MARKÚS 12:29, 30.

1. Hve mikilvægt er að við elskum Jehóva?

„HVERT er æðst allra boðorða?“ spurði fræðimaður Jesú. Í stað þess að segja sína eigin skoðun svaraði Jesús spurningunni með því að vitna í orð Guðs í 5. Mósebók 6:4, 5. Hann sagði: „Æðst er þetta: ‚Heyr, Ísrael! [Jehóva], Guð vor, hann einn er [Jehóva]. Og þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘“ — Markús 12:28-30.

2. (a) Hvaða andstöðu þurfti Jesús að þola? (b) Hvað getur stundum gert okkur erfitt fyrir að þóknast Jehóva?

2 Til að hlýða því sem Jesús kallaði æðsta boðorðið — hið mikilvægasta — þurfum við alltaf að gera það sem er Jehóva þóknanlegt. Jesús gerði það jafnvel þótt Pétur postuli hafi einu sinni andmælt stefnu hans og síðan nákomnir ættingjar hans við annað tækifæri. (Matteus 16:21-23; Markús 3:21; Jóhannes 8:29) Hvað nú ef þú lendir í svipaðri aðstöðu? Setjum sem svo að ættingjar vilji að þú hættir biblíunámi þínu og félagsskap við votta Jehóva. Ætlarðu að láta Guð ganga fyrir með því að gera það sem honum er þóknanlegt? Læturðu Guð vera í fyrirrúmi jafnvel þótt ættingjar séu á móti því að þú þjónir honum?

Andstaða frá fjölskyldunni er snara

3. (a) Hvaða afleiðingar geta kenningar Jesú haft fyrir fjölskylduna? (b) Hvernig geta ættingjar sýnt hvern þeir elska öðrum fremur?

3 Jesús gerði ekki lítið úr þeim erfiðleikum sem það getur valdið þegar aðrir í fjölskyldunni snúast gegn þeim er tekur við kenningum hans. „Heimamenn manns verða óvinir hans,“ sagði hann. En þrátt fyrir dapurlegar afleiðingar af því tagi benti Jesús á hver ætti að ganga fyrir er hann sagði: „Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.“ (Matteus 10:34-37) Við látum Jehóva Guð ganga fyrir með því að fylgja kenningum sonar hans, Jesú Krists, sem er „ímynd veru“ Guðs. — Hebreabréfið 1:3; Jóhannes 14:9.

4. (a) Hvað sagði Jesús felast í því að vera fylgjandi hans? (b) Í hvaða skilningi eiga kristnir menn að hata ættingja sína?

4 Öðru sinni, er Jesús var að ræða um hvað raunverulega fælist í því að vera sannur fylgjandi hans, sagði hann: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ (Lúkas 14:26) Jesús átti augljóslega ekki við að fylgjendur hans ættu bókstaflega að hata ættingja sína því að hann fyrirskipaði fólki að elska jafnvel óvini sína. (Matteus 5:44) Það sem Jesús átti við var að fylgjendur hans yrðu að elska ættingja sína minna en þeir elskuðu Guð. (Samanber Matteus 6:24.) Í samræmi við þennan skilning segir Biblían að Jakob hafi ‚fyrirlitið‘ Leu og elskað Rakel, sem merkti að hann elskaði Leu ekki jafnheitt og Rakel systur hennar. (1. Mósebók 29:30-32) Við ættum jafnvel að hata „líf“ okkar eða elska það minna en Jehóva, að sögn Jesú.

5. Hvernig notfærir Satan sér fjölskyldufyrirkomulagið kænlega?

5 Jehóva er skaparinn og lífgjafinn og verðskuldar því fulla tryggð og hollustu allra þjóna sinna. (Opinberunarbókin 4:11) „Ég [beygi] kné mín fyrir föðurnum,“ skrifaði Páll postuli, „sem hvert faðerni [„fjölskylda,“ NW] fær nafn af á himni og jörðu.“ (Efesusbréfið 3:14, 15) Jehóva gerði fjölskylduna svo frábærlega úr garði að meðlimum hennar er eiginlegt að þykja vænt hver um annan. (1. Konungabók 3:25, 26; 1. Þessaloníkubréf 2:7) En Satan djöfullinn notfærir sér kænlega þessa eðlilegu ástúð innan fjölskyldunnar, þar á meðal löngunina til að þóknast ástvinum sínum. Hann kyndir undir andstöðu frá fjölskyldunni þannig að mörgum finnst erfitt að standa óhagganlegir með sannleika Biblíunnar. — Opinberunarbókin 12:9, 12.

Að standast álagið

6, 7. (a) Hvernig er hægt að hjálpa ættingjum að meta gildi biblíunáms og kristins félagsskapar? (b) Hvernig getum við sýnt að við elskum ættingja okkar í alvöru?

6 Hvað gerirðu ef þú neyðist til að velja milli þess að þóknast Guði eða ættingja þínum? Hugsarðu sem svo að Guð ætlist ekki til að við nemum orð hans og förum eftir meginreglum þess ef það veldur sundurlyndi í fjölskyldunni? En hugleiddu málið. Hvernig geta ástvinir þínir nokkurn tíma skilið að það sé lífsnauðsyn að hafa nákvæma þekkingu á Biblíunni, ef þú gefst upp og hættir biblíunámi þínu eða félagsskap við votta Jehóva? — Jóhannes 17:3; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8.

7 Við gætum lýst stöðunni með eftirfarandi dæmi: Setjum sem svo að einhver í fjölskyldunni sé óhóflega sólginn í áfengi. Væri það honum fyrir bestu að aðrir þættust ekki sjá drykkjuvandamálið eða létu það viðgangast? Væri best að halda friðinn með því að láta undan og gera ekkert til að taka á vandamáli hans? Nei, þú fellst trúlega á að best væri að reyna að hjálpa honum að sigrast á áfengisvandamáli sínu, jafnvel þótt það kostaði að standa uppi í hárinu á honum og kallaði yfir þig reiði hans og hótanir. (Orðskviðirnir 29:25) Þú lætur ekki heldur undan ættingjum þínum, sem reyna að fá þig til að hætta biblíunámi, ef þú virkilega elskar þá. Eindregin afstaða þín er eina leiðin til að sýna þeim fram á að líf okkar sé undir því komið að lifa eftir kenningum Krists.

8. Hvernig njótum við góðs af því að Jesús gerði trúfastur vilja Guðs?

8 Stundum getur verið býsna erfitt að láta Guð vera í fyrirrúmi. En mundu að Satan gerði Jesú líka erfitt fyrir að gera vilja Guðs. Samt gafst Jesús aldrei upp; hann þjáðist jafnvel á kvalastaur okkar vegna. Jesús Kristur er ‚frelsari okkar,‘ segir Biblían. Hann „dó fyrir oss.“ (Títusarbréfið 3:6; 1. Þessaloníkubréf 5:10) Erum við ekki þakklát fyrir að Jesús skyldi ekki láta undan andstöðunni? Vegna þess að hann færði líf sitt að fórn höfum við von um að lifa að eilífu í friðsömum, réttlátum heimi ef við trúum á úthellt blóð hans. — Jóhannes 3:16, 36; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Ríkuleg umbun er möguleg

9. (a) Hvernig geta kristnir menn átt þátt í að bjarga öðrum? (b) Lýstu fjölskylduaðstæðum Tímóteusar.

9 Er þér ljóst að þú getur líka átt þátt í að bjarga öðrum, þeirra á meðal ástkærum ættingjum? Páll postuli hvatti Tímóteus: „Ver stöðugur við þetta [sem þér hefur verið kennt]. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Tímóteus átti grískan föður sem var ekki í trúnni þannig að hann bjó á trúarlega skiptu heimili. (Postulasagan 16:1; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14) Við vitum ekki hvort faðir Tímóteusar snerist nokkurn tíma til trúar, en trúfesti Evníke eiginkonu hans og Tímóteusar hefur stóraukið líkurnar á því.

10. Hvað geta kristnir menn gert fyrir maka sína sem eru ekki í trúnni?

10 Ritningin segir að eiginmenn og eiginkonur, sem halda sannleika Biblíunnar staðfastlega á loft, geti stuðlað að björgun eða frelsun maka síns með því að hjálpa honum að taka trú. Páll postuli skrifaði: „Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn. Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?“ (1. Korintubréf 7:12, 13, 16) Pétur postuli lýsti því hvernig eiginkonur gætu í reynd bjargað eiginmönnum sínum og hvatti: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna.“ — 1. Pétursbréf 3:1.

11, 12. (a) Hvaða umbun hafa þúsundir kristinna manna hlotið og hvað gerðu þeir til þess? (b) Greindu frá umbun sem eiginkona hlaut fyrir trúfesti sína og þolgæði.

11 Á síðustu árum hafa þúsundir manna gerst vottar Jehóva eftir að hafa staðið gegn kristnu starfi ættingja sinna svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir. Hvílík umbun fyrir kristna menn sem hafa verið staðfastir, og hvílík blessun fyrir fyrrverandi andstæðinga! Kristinn öldungur, 74 ára, segir með geðshræringu: „Ég þakka konu minni og börnum oft fyrir að halda sig við sannleikann þau ár sem ég var þeim andsnúinn.“ Hann segist hafa verið svo þrjóskur að í þrjú ár hafi hann jafnvel ekki leyft konunni sinni að tala við sig um Biblíuna. „En hún valdi rétta augnablikið og byrjaði að vitna fyrir mér meðan hún var að nudda á mér fæturna,“ segir hann. „Ég er innilega þakklátur að hún skyldi ekki láta undan andstöðu minni!“

12 Annar eiginmaður, sem var andsnúinn fjölskyldu sinni, skrifar: ‚Ég var versti óvinur konunnar minnar vegna þess að eftir að hún tók við sannleikanum hafði ég í hótunum við hana og við rifumst daglega, það er að segja ég hóf rifrildið. En allt kom fyrir ekki; konan mín hélt sig við Biblíuna. Þannig liðu tólf ár meðan ég barðist hatrammlega gegn sannleikanum og gegn konu minni og barni. Ég var þeim báðum djöfullinn holdi klæddur.‘ En um síðir tók þessi maður að horfa gagnrýnu auga á líf sitt. ‚Ég áttaði mig á hve grimmur ég hafði verið,‘ segir hann. ‚Ég las Biblíuna og svo er leiðbeiningum hennar fyrir að þakka að ég er nú skírður vottur.‘ Hugsaðu þér hve stórkostleg umbun það er fyrir eiginkonuna að hafa átt þátt í að ‚frelsa manninn sinn‘ með því að þola andstöðu hans trúföst í 12 ár!

Lærum af Jesú

13. (a) Hver er helsti lærdómurinn sem eiginmenn og eiginkonur ættu að draga af lífsstefnu Jesú? (b) Hvernig getur fólk, sem finnst erfitt að lúta vilja Guðs, haft gagn af fordæmi Jesú?

13 Helsti lærdómurinn, sem eiginmenn og eiginkonur ættu að draga af lífsstefnu Jesú, er sú að hlýða Guði. „Ég gjöri ætíð það sem honum þóknast,“ sagði Jesús. „Ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ (Jóhannes 5:30; 8:29) Jesús hlýddi jafnvel einu sinni þegar honum fannst viss þáttur vilja Guðs sérlega ógeðfelldur. „Ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér,“ bað hann en bætti svo strax við: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Jesús bað Guð ekki að breyta vilja sínum; hann sýndi að hann elskaði Guð í raun og sannleika með því að lúta vilja hans, hver sem sá vilji var. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Ef við viljum að okkur vegni vel, ekki aðeins ógiftum heldur einnig hjónum og fjölskyldum, er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að láta vilja Guðs alltaf ganga fyrir eins og Jesús gerði. Við skulum hugleiða ástæðuna.

14. Hvernig hugsa sumir kristnir menn ranglega?

14 Trúaðir, sem láta Guð ganga fyrir, leitast við að búa áfram með vantrúuðum maka sínum eins og áður er nefnt, og tekst oft að hjálpa honum að eiga möguleika á hjálpræði. Jafnvel þegar bæði hjónin eru í trúnni getur ýmsu verið ábótavant í hjónabandinu. Vegna syndugra tilhneiginga hugsa hjón ekki alltaf með kærleika hvort um annað. (Rómverjabréfið 7:19, 20; 1. Korintubréf 7:28) Sumir ganga jafnvel svo langt að reyna að finna sér nýjan maka þótt þeir hafi enga biblíulega skilnaðarforsendu. (Matteus 19:9; Hebreabréfið 13:4) Þeir hugsa sem svo að það sé þeim fyrir bestu og að það sé hreinlega of erfitt að fara eftir vilja Guðs um að hjón haldi saman. (Malakí 2:16; Matteus 19:5, 6) Þarna er greinilega um að ræða hugsanir manna en ekki Guðs.

15. Af hverju er það vernd að láta Guð ganga fyrir?

15 Það er mikil vernd að láta Guð ganga fyrir! Hjón sem gera það reyna að halda saman og leysa vandamál sín með því að fara eftir ráðleggingum Biblíunnar. Þannig umflýja þau alls konar hugarangur sem hlýst af því að hunsa vilja hans. (Sálmur 19:8-12) Ung hjón, sem voru að því komin að skilja er þau ákváðu að fara eftir ráðum Biblíunnar, eru dæmi um það. Mörgum árum síðar sagði konan er hún rifjaði upp þá gleði sem hún hafði notið í hjónabandi sínu: „Ég græt og verð að setjast niður þegar ég leiði hugann að því að svo hefði getað farið að ég hefði ekki búið með manninum mínum öll þessi ár. Þá bið ég til Jehóva Guðs og þakka honum fyrir heilræði hans og handleiðslu sem veitti okkur svona hamingjuríkt samband.“

Eiginmenn og eiginkonur — líkið eftir Kristi!

16. Hvaða fordæmi gaf Jesús bæði eiginmönnum og eiginkonum?

16 Jesús, sem lét vilja Guðs alltaf ganga fyrir, er afbragðsfordæmi bæði fyrir eiginmenn og eiginkonur, og þau ættu að gefa því nákvæman gaum. Eiginmenn eru hvattir til að líkja eftir blíðlegri forystu Jesú fyrir kristna söfnuðinum. (Efesusbréfið 5:23) Og kristnar eiginkonur geta lært af algerri undirgefni Jesú við Guð. — 1. Korintubréf 11:3.

17, 18. Á hvaða vegu gaf Jesús eiginmönnum gott fordæmi?

17 Biblían fyrirskipar: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna [söfnuðinn] og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:25) Jesús sýndi söfnuði fylgjenda sinna kærleika meðal annars með því að vera náinn vinur þeirra. „Ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum,“ sagði hann. (Jóhannes 15:15) Hugsaðu þér hve mikinn tíma Jesús notaði til að tala við lærisveina sína — hinar ótalmörgu samræður sem hann átti við þá — og traustið sem hann bar til þeirra! Er það ekki frábært fordæmi fyrir eiginmenn?

18 Jesús sýndi lærisveinum sínum ósvikinn áhuga og hafði dálæti á þeim. (Jóhannes 13:1) Þegar kenningar hans voru þeim ekki ljósar tók hann sér þolinmóður tíma til að skýra málin fyrir þeim einslega. (Matteus 13:36-43) Eiginmenn, leggið þið jafnmikla áherslu á andlega velferð eiginkvenna ykkar? Eyðirðu tíma með konunni þinni og fullvissar þig um að þið bæði hafið sannleika Biblíunnar skýran í huga og hjarta? Jesús fór með postulum sínum í þjónustuna og þjálfaði kannski hvern þeirra persónulega. Ferð þú með eiginkonu þinni í boðunarstarfið, bæði hús úr húsi og í biblíunám?

19. Hvaða fordæmi gaf Jesús eiginmönnum með því hvernig hann tók á þrálátum veikleikum postulanna?

19 Jesús er eiginmönnum sérstaklega gott fordæmi í því hvernig hann brást við ófullkomleika postulanna. Við síðustu máltíðina með þeim tók hann eftir þrálátum samkeppnisanda meðal þeirra. Gagnrýndi hann þá harkalega? Nei, auðmjúkur þvoði hann fætur þeirra allra. (Markús 9:33-37; 10:35-45; Jóhannes 13:2-17) Ert þú svona þolinmóður við eiginkonu þína? Reynirðu þolinmóður að hjálpa henni og ná til hjarta hennar með fordæmi þínu í stað þess að kvarta undan þrálátum veikleika? Líklegt er að eiginkonur bregðist á sama hátt við slíkri ást og umhyggju og postularnir gerðu að lokum.

20. Hverju ættu kristnar eiginkonur aldrei að gleyma og hver er þeim fordæmi?

20 Eiginkonur þurfa líka að íhuga fordæmi Jesú sem gleymdi aldrei að ‚Guð er höfuð Krists.‘ Hann var himneskum föður sínum alltaf undirgefinn. Á sama hátt ætti eiginkona ekki að gleyma að „maðurinn er höfuð konunnar,“ já, að eiginmaðurinn er höfuð hennar. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:23) Pétur postuli hvatti kristnar eiginkonur til að íhuga fordæmi ‚helgra kvenna‘ fyrr á tímum, einkum Söru sem „hlýddi Abraham og kallaði hann herra.“ — 1. Pétursbréf 3:5, 6.

21. Hvers vegna var hjónaband Abrahams og Söru farsælt en ekki hjónaband Lots og konu hans?

21 Sara yfirgaf þægilegt heimili í efnaðri borg til að búa í tjöldum í ókunnu landi. Hvers vegna? Vildi hún heldur lifa þannig? Trúlega ekki. Af því að eiginmaður hennar bað hana? Það átti vafalaust sinn þátt í því vegna þess að Sara elskaði og virti Abraham vegna guðrækilegra eiginleika hans. (1. Mósebók 18:12) En aðalástæðan fyrir því að hún fór með manni sínum var ást hennar á Jehóva og innileg löngun til að fylgja handleiðslu hans. (1. Mósebók 12:1) Hún hafði yndi af því að hlýða Guði. Kona Lots hikaði aftur á móti við að gera vilja Guðs og horfði þess vegna löngunaraugum um öxl til þess sem hún skildi eftir í heimaborg sinni, Sódómu. (1. Mósebók 19:15, 25, 26; Lúkas 17:32) Það hjónaband hlaut sorglegan endi — aðeins vegna þess að hún óhlýðnaðist Guði!

22. (a) Hvaða sjálfsrannsókn er viturlegt fyrir sérhvern í fjölskyldunni að gera? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

22 Það er því mikilvægt fyrir þig sem eiginmann eða eiginkonu að spyrja þig hvort þú látir Guð ganga fyrir í fjölskyldu þinni. Leitastu í sannleika við að gegna þeim skyldum í fjölskyldunni sem Guð hefur gefið þér? Leggurðu þig í einlægni fram um að elska maka þinn og hjálpa honum að öðlast eða viðhalda góðu sambandi við Jehóva? Í flestum fjölskyldum eru líka einhver börn. Við fjöllum næst um hlutverk foreldra og nauðsyn þess að bæði þeir og börnin láti Guð ganga fyrir.

Manstu?

◻ Hvaða afleiðingar geta kenningar Jesú haft fyrir margar fjölskyldur?

◻ Hvaða umbun hafa þúsundir staðfastra kristinna manna hlotið?

◻ Hvað hjálpar hjónum að forðast siðleysi og skilnað?

◻ Hvað geta eiginmenn lært af fordæmi Jesú?

◻ Hvernig geta eiginkonur stuðlað að hamingjusömu hjónabandi?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hvernig stuðlaði Sara að farsælu hjónabandi?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila