Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.3. bls. 12-17
  • Farandumsjónarmenn þjóna sem trúfastir ráðsmenn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Farandumsjónarmenn þjóna sem trúfastir ráðsmenn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þakklátir fyrir þjónustusérréttindi
  • Farsæl ráðsmennska
  • Aðrir mikilvægir eiginleikar
  • Þeim er umbunað fyrir að starfa með gleði
  • Farandumsjónarmenn — gjafir í mönnum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Farandumsjónarmenn – samverkamenn í sannleikanum
    Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim
  • Hvað gera farandhirðar fyrir okkur?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
  • Allir uppörvast saman
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.3. bls. 12-17

Farandumsjónarmenn þjóna sem trúfastir ráðsmenn

„Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:10.

1, 2. (a) Hvernig skilgreinir þú orðið „ráðsmaður“? (b) Hverjir eru í hópi þeirra ráðsmanna sem Guð notar?

JEHÓVA notar alla trúfasta kristna menn sem ráðsmenn. Ráðsmaður er gjarnan þjónn sem settur er yfir heimilisrekstur eða annan rekstur húsbóndans. (Lúkas 16:1-3; Galatabréfið 4:1, 2) Jesús kallaði drottinholla, smurða þjóna sína á jörðinni ‚trúa ráðsmanninn.‘ Hann hefur sett þennan ráðsmann yfir „allar eigur sínar,“ þar á meðal prédikun Guðsríkis. — Lúkas 12:42-44; Matteus 24:14, 45.

2 Pétur postuli segir að allir kristnir menn séu ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Hver einstakur kristinn maður getur gegnt trúfastri ráðsmennsku á sínu sviði. (1. Pétursbréf 4:10) Útnefndir, kristnir öldungar eru ráðsmenn og þeirra á meðal eru farandumsjónarmennirnir. (Títusarbréfið 1:7) Hvernig ber að líta á þessa farandöldunga? Hvaða eiginleika og hvaða markmið ættu þeir að hafa? Og hvernig geta þeir látið sem mest gott af sér leiða?

Þakklátir fyrir þjónustusérréttindi

3. Hvers vegna er hægt að kalla farandumsjónarmenn ‚góða ráðsmenn‘?

3 Kristin hjón sögðu í bréfi til farandhirðis og eiginkonu hans: „Við viljum þakka ykkur allan tímann, sem þið hafið gefið okkur, og kærleikann sem þið hafið sýnt okkur. Fjölskyldan hefur haft mikið gagn af öllum ráðleggingum ykkar og hvatningu. Við vitum að við þurfum að halda áfram að vaxa andlega, en með hjálp Jehóva og bræðra og systra eins og ykkar verða vaxtarverkirnir minni.“ Oft falla orð sem þessi af því að farandumsjónarmenn sýna trúbræðrum sínum persónulegan áhuga, alveg eins og góður ráðsmaður annast þarfir heimilisins vel. Sumir eru afburðaræðumenn. Margir bera af í prédikunarstarfinu en aðrir eru þekktir fyrir hlýju og meðaumkun. Þegar farandumsjónarmenn leggja rækt við slíkar gáfur og nota þær til að þjóna öðrum eru þeir réttnefndir „góðir ráðsmenn.“

4. Hvaða spurningu athugum við núna?

4 „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr,“ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 4:2) Það eru einstök og ánægjuleg sérréttindi að þjóna trúbræðrum sínum í mismunandi söfnuðum viku eftir viku. En það er líka alvarleg ábyrgð. Hvernig geta farandumsjónarmenn þjónað með trúfesti og verið farsælir ráðsmenn?

Farsæl ráðsmennska

5, 6. Hvers vegna er bænartraust til Jehóva mjög mikilvægt fyrir farandumsjónarmann?

5 Bænartraust til Jehóva er ein af forsendum farsællar ráðsmennsku. Stundum getur farandumsjónarmönnum fundist hinar margvíslegu skyldur og stíf stundaskrá þjakandi. (Samanber 2. Korintubréf 5:4.) Þeir þurfa því að fara eftir hvatningu sálmaritarans Davíðs: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Orð Davíðs í Sálmi 68:20 eru líka hughreystandi: „Lofaður sé [Jehóva], er ber oss dag eftir dag.“

6 Hvaðan fékk Páll styrk til að rísa undir andlegri ábyrgð sinni? „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir,“ skrifaði hann. (Filippíbréfið 4:13) Já, styrkur Páls var frá Jehóva Guði. Pétur ráðlagði á svipaðan hátt: „Sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist.“ (1. Pétursbréf 4:11) Bróðir nokkur, sem var farandumsjónarmaður í mörg ár, leggur áherslu á nauðsyn þess að reiða sig á Guð: „Biðjið Jehóva alltaf ásjár þegar þið þurfið að taka á vandamálum, og leitið hjálpar skipulags hans.“

7. Hvaða hlutverki gegnir jafnvægi í starfi farandumsjónarmanns?

7 Jafnvægi er nauðsynlegt til að vera farsæll farandumsjónarmaður. Líkt og aðrir kristnir menn kappkostar hann að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:10)a Þegar öldungar safnaðarins eru með spurningar um tiltekið mál er hyggilegt af þeim að leita til farandhirðisins þegar hann er í heimsókn. (Orðskviðirnir 11:14; 15:22) Líklegt er að yfirvegaðar ábendingar hans og biblíuleg ráð reynist öldungunum mjög gagnleg við að taka á málinu áfram eftir að hann er farinn frá söfnuðinum. Páll tók í svipaðan streng og sagði við Tímóteus: „Það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:2.

8. Hvers vegna er biblíunám, heimildaleit og hugleiðing nauðsynleg?

8 Biblíunám, heimildaleit og hugleiðing er nauðsynleg til að gefa góð ráð. (Orðskviðirnir 15:28) Umdæmishirðir segir: „Maður ætti ekki að vera hræddur við að viðurkenna á öldungafundi að maður viti ekki svarið við ákveðinni spurningu.“ Með því að leggja það á sig að kynna sér „huga Krists“ til ákveðins máls er hægt að gefa biblíuleg ráð sem hjálpa öðrum að fara eftir vilja Guðs. (1. Korintubréf 2:16) Stundum þarf farandumsjónarmaður að skrifa Varðturnsfélaginu og biðja um leiðbeiningar. En hvað sem því líður er trú á Jehóva og kærleikur til sannleikans miklu mikilvægari en ímynd eða mælska. Páll hóf ekki þjónustu sína í Korintu með „frábærri mælskusnilld eða speki“ heldur með „veikleika, ótta og mikilli angist.“ Dró það úr áhrifamætti hans? Alls ekki heldur hjálpaði það Korintumönnum að byggja trúna ekki á ‚vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.‘ — 1. Korintubréf 2:1-5.

Aðrir mikilvægir eiginleikar

9. Hvers vegna þurfa farandöldungar að vera skilningsríkir og samúðarfullir?

9 Samúðarskilningur hjálpar farandumsjónarmönnum að ná góðum árangri. Pétur hvatti alla kristna menn til að vera „hluttekningarsamir.“ (1. Pétursbréf 3:8) Farandhirði nokkrum finnst hann þurfa að ‚hafa áhuga á öllum í söfnuðinum og vera mjög eftirtektarsamur.‘ Páll tók í sama streng og skrifaði: „Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.“ (Rómverjabréfið 12:15) Slíkt viðhorf fær farandumsjónarmenn til að leggja sig fram um að skilja vandamál og aðstæður trúbræðra sinna. Þeir geta veitt uppbyggjandi biblíuráð sem geta skilað mjög góðum árangri ef eftir þeim er farið. Farandhirðir, sem er einstaklega skilningsríkur og samúðarfullur, fékk bréf frá söfnuði í grennd við Tórínó á Ítalíu. Í bréfinu stóð: „Viljirðu vera áhugaverður, sýndu þá áhuga; viljirðu geðjast öðrum, vertu þá geðfelldur; viljirðu vera elskaður, vertu þá elskuverður; viljirðu fá hjálp, vertu þá hjálpfús. Þetta lærðum við af þér!“

10. Hvað hafa farand- og umdæmishirðar sagt um auðmýkt, og hvaða fordæmi gaf Jesús þar um?

10 Auðmýkt og gott viðmót auðveldar farandumsjónarmönnum að láta margt gott af sér leiða. Farandhirðir sagði: „Það er mjög þýðingarmikið að vera auðmjúkur.“ Hann minnir nýja farandumsjónarmenn á þetta: „Látið efnameiri bræður ekki hafa of mikil áhrif á ykkur vegna þess sem þeir geta gert fyrir ykkur, og einskorðið félagsskap ykkar ekki við þá, heldur reynið alltaf að vera óhlutdrægir í samskiptum við aðra.“ (2. Kroníkubók 19:6, 7) Og auðmjúkur farandhirðir lítur ekki stórt á sjálfan sig þótt hann sé fulltrúi Félagsins. Umdæmishirðir segir: „Verið auðmjúkir og fúsir til að hlusta á bræðurna. Verið alltaf viðmótsgóðir.“ Jesús Kristur, mesta mikilmenni sem lifað hefur, hefði getað komið þannig fram að fólki hefði liðið illa í návist hans, en hann var svo auðmjúkur og viðmótsgóður að jafnvel börnum leið vel í návist hans. (Matteus 18:5; Markús 10:13-16) Farandumsjónarmaður vill að börn, táningar og aldraðir — já, hver sem er í söfnuðinum — finni að þeir geti komið að máli við hann hvenær sem er.

11. Hvaða áhrif getur það haft að biðjast afsökunar þegar þörf er á?

11 Að sjálfsögðu ‚hrösum við allir margvíslega‘ og enginn farandhirðir er ónæmur fyrir mistökum. (Jakobsbréfið 3:2) Þegar þeim verða á mistök gefur einlæg afsökunarbeiðni hinum öldungunum fordæmi um auðmýkt. Að sögn Orðskviðanna 22:4 eru ‚laun auðmýktar, lotningarfulls ótta Jehóva auður, heiður og líf.‘ Og þurfa ekki allir þjónar Guðs að ‚framganga í lítillæti fyrir honum‘? (Míka 6:8) Farandhirðir var spurður hvað hann ráðlegði nýjum starfsbróður. Hann sagði: „Berðu mikla virðingu fyrir öllum bræðrunum og líttu svo á að þeir séu þér betri menn. Þú lærir mikið af þeim. Vertu auðmjúkur. Vertu þú sjálfur. Gerðu þig ekki merkilegan.“ — Filippíbréfið 2:3.

12. Hvers vegna er kostgæfni í hinni kristnu þjónustu mjög þýðingarmikil?

12 Orð farandumsjónarmanns verða áherslumeiri ef hann er kostgæfinn í hinni kristnu þjónustu. Þegar hann og konan hans eru kostgæfin í boðunarstarfinu er það öldungum, eiginkonum þeirra og öðrum í söfnuðinum hvatning til að vera kostgæfnir í þjónustunni. „Verið kostgæfnir í þjónustunni,“ hvetur farandhirðir nokkur og bætir við: „Ég hef komist að raun um að yfirleitt eru vandamál í söfnuðinum þeim mun færri sem hann er kostgæfnari í þjónustunni.“ Annar farandhirðir segir: „Ég held að það hafi í för með sér hugarró og mikla ánægju í þjónustunni við Jehóva ef öldungarnir starfa á akrinum með bræðrunum og systrunum og hjálpa þeim að hafa yndi af starfinu.“ Páll postuli fékk ‚djörfung til að tala fagnaðarerindi Guðs til Þessaloníkumanna þótt baráttan væri mikil.‘ Það er engin furða að þeir skyldu eiga ljúfar minningar frá heimsókn hans og prédikunarstarfi og skyldu þrá að sjá hann aftur! — 1. Þessaloníkubréf 2:1, 2; 3:6.

13. Hvað tekur farandumsjónarmaður með í reikninginn þegar hann er með kristnum bróður eða systur í boðunarstarfinu?

13 Þegar farandumsjónarmaður er með öðrum kristnum manni í boðunarstarfinu tekur hann tillit til aðstæðna hans og takmarka. Enda þótt tillögur hans geti komið að gagni veit hann að sumir eru taugaóstyrkir þegar þeir prédika með reyndum öldungi. Í sumum tilvikum getur hvatning því komið að meira gagni en leiðbeiningar. Þegar hann fer með boðberum eða brautryðjendum í biblíunám vilja þeir kannski að hann stjórni því. Þannig kynnast þeir líklega ýmsum aðferðum til að bæta kennslu sína.

14. Hvers vegna má segja að kostgæfnir farandumsjónarmenn örvi kostgæfni annarra?

14 Kostgæfnir farandumsjónarmenn örva kostgæfni annarra. Farandhirðir í Úganda gekk klukkustundarleið gegnum skógarþykkni til að fara með bróður til fjölskyldu sem tók litlum framförum í biblíunámi sínu. Á göngunni rigndi svo mikið að þeir urðu holdvotir. Þegar þessi sex manna fjölskylda komst að raun um að gesturinn væri farandumsjónarmaður þótti henni mikið til koma. Þau vissu að prestar kirkjunnar þeirra myndu aldrei sýna hjörðinni slíkan áhuga. Næsta sunnudag sóttu þau samkomu í fyrsta sinn og létu í ljós að þau langaði til að verða vottar Jehóva.

15. Hvað gerði kostgæfinn farandhirðir í Mexíkó?

15 Í Oaxaca-ríki í Mexíkó gerði farandhirðir nokkuð sem enginn bjóst við að hann gerði. Hann gisti fangaklefa í fjórar nætur til að heimsækja sjö fanga sem voru orðnir boðberar Guðsríkis. Í nokkra daga fylgdi hann þessum föngum þegar þeir báru vitni klefa úr klefa og höfðu biblíunám með öðrum föngum. Slíkur var áhuginn að námið með sumum föngunum stóð langt fram á nótt. „Þegar heimsókninni lauk voru bæði ég og fangarnir mjög glaðir vegna þessarar gagnkvæmu uppörvunar,“ skrifar þessi kostgæfni farandhirðir.

16. Hvers vegna er það gagnlegt að farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra séu hvetjandi?

16 Farandumsjónarmenn reyna að vera hvetjandi og uppörvandi. Þegar Páll heimsótti söfnuðina í Makedóníu ‚uppörvaði hann þá með mörgum orðum.‘ (Postulasagan 20:1, 2) Uppörvunar- og hvatningarorð geta verið mjög góð til þess að beina bæði ungum og gömlum að andlegum markmiðum. Óformleg könnun við stórt útibú Varðturnsfélagsins leiddi í ljós að farandumsjónarmenn höfðu hvatt næstum 20 af hundraði sjálfboðaliðanna þar til að velja sér þjónustu í fullu starfi. Með góðu fordæmi sínu sem boðberi í fullu starfi, getur eiginkona farandumsjónarmanns einnig verið mjög hvetjandi.

17. Hvað finnst rosknum farandhirði um þau sérréttindi að aðstoða aðra?

17 Aldraðir og niðurdregnir eru sérstaklega hvatningarþurfi. Roskinn farandhirðir skrifar: „Þau sérréttindi að aðstoða óvirka og lasburða meðal hjarðar Guðs veita mér ólýsanlega innri gleði. Orðin í Rómverjabréfinu 1:11, 12 hafa sérstaka þýðingu fyrir mig, því að ég fæ sjálfur mikla hvatningu og styrk af því að ‚veita þeim andlega náðargjöf svo að þeir styrkist.‘“

Þeim er umbunað fyrir að starfa með gleði

18. Hvaða biblíuleg markmið hafa farandumsjónarmenn?

18 Farandumsjónarmenn bera hag trúbræðra sinna fyrir brjósti. Þeir vilja styrkja söfnuðina og uppbyggja þá andlega. (Postulasagan 15:41) Farandumsjónarmaður einn leggur hart að sér „til að hvetja og uppörva, hressa og ýta undir löngun til að gera þjónustunni góð skil og lifa í sannleikanum.“ (3. Jóhannesarbréf 3) Annar leitast við að gera trúbræður sína staðfasta í trúnni. (Kólossubréfið 2:6, 7) Munum að farandumsjónarmaðurinn er ‚trúlyndur samþjónn‘ en vill ekki drottna yfir trú annarra. (Filippíbréfið 4:3; 2. Korintubréf 1:24) Heimsókn hans er tækifæri til hvatningar og aukins starfs, og jafnframt tækifæri fyrir öldungaráðið til að kanna þær framfarir, sem hafa orðið, og íhuga framtíðarmarkmið. Safnaðarboðberar, brautryðjendur, þjónar og öldungar geta vænst þess að orð hans og fordæmi byggi þá upp og hvetji til starfsins framundan. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 5:11.) Styðjum því heimsóknir farandhirðisins af heilum hug og notfærum okkur þjónustu umdæmishirðisins til hins ítrasta.

19, 20. Hvernig hefur farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra verið umbunuð trúföst þjónusta sín?

19 Farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra er ríkulega umbunuð trúföst þjónusta sín, og þau mega treysta að Jehóva blessi þau fyrir hið góða sem þau gera. (Orðskviðirnir 19:17; Efesusbréfið 6:8) Georg og Magdalena eru öldruð hjón sem eiga að baki mörg ár í farandstarfinu. Kona gaf sig á tal við Magdalenu á móti í Lúxemborg, en Magdalena hafði borið vitni fyrir henni um 20 árum áður. Biblíuritin, sem Magdalena hafði skilið eftir hjá þessari Gyðingakonu, höfðu vakið áhuga hennar á sannleikanum, og síðar lét hún skírast. Georg hitti trúsystur sem minntist heimsóknar hans fyrir nálega 40 árum. Hann hafði kynnt fagnaðarerindið með slíkum eldmóði að bæði hún og maðurinn hennar tóku við sannleikanum. Eins og gefur að skilja voru Georg og Magdalena himinlifandi.

20 Árangursrík þjónusta Páls í Efesus gladdi hann og kann að hafa verið kveikjan að tilvitnun hans í orð Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Þar eð farandstarfið felur í sér að gefa stöðugt af sér, uppskera þeir sem gegna því mikla hamingju, einkum þegar árangurinn af erfiði þeirra kemur í ljós. Farandhirðir, sem hjálpaði niðurdregnum öldungi, fékk bréf þar sem sagði: „Þú hefur verið mér ‚til mikillar huggunar‘ andlega — meiri en þú veist. . . . Þú getur aldrei ímyndað þér hve mikil hjálp þú hefur verið einum manni sem ‚nærri lá að hrasaði‘ eins og Asaf forðum.“ — Kólossubréfið 4:11; Sálmur 73:2.

21. Hvers vegna finnst þér 1. Korintubréf 15:58 eiga við starf farandumsjónarmanna?

21 Roskinn kristinn maður, sem gegndi farandstarfi um árabil, er hrifinn af orðum Páls í 1. Korintubréfi 15:58 þar sem hann hvetur: „Verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ Farandumsjónarmenn eru vissulega önnum kafnir í verki Drottins. Og við erum þakklátir að þeir skuli þjóna svona glaðir sem trúfastir ráðsmenn óverðskuldaðrar góðvildar Jehóva!

[Neðanmáls]

a Sjá greinina „Er hægt að vera ánægður í annríki?“ („Can You Be Happy With Much to Do?“) í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. maí 1991, bls. 28-31.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna má líta á farandumsjónarmenn sem ‚trúa ráðsmenn‘?

◻ Nefndu sumt sem hjálpar farand- og umdæmishirðum að koma miklu góðu til leiðar.

◻ Hvers vegna er auðmýkt og kostgæfni mjög mikilvæg fyrir þá sem gegna farandstarfi?

◻ Hvaða góð markmið hafa farandumsjónarmenn?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Farandumsjónarmenn leitast við að hvetja og uppörva trúbræður sína.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Jafnt ungir sem gamlir geta haft gagn af samverunni við farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila