Hvaða þýðingu hefur trúfrelsi fyrir þig?
Enda þótt trúfrelsi sé álitið grundvallarmannréttindi í Bandaríkjunum máttu vottar Jehóva þar í landi þola endurteknar skrílsárásir á fimmta áratugnum.
MILLJÓNIR manna hafa barist fyrir því. Sumir hafa jafnvel látið lífið fyrir það. Það er eitt það verðmætasta sem mannkynið á. Hvað er það? Frelsi! Alfræðibókin The World Book Encyclopedia skilgreinir frelsi sem það „að geta valið og beitt valfrelsi sínu.“ Hún heldur áfram: „Frá lagalegu sjónarmiði er fólk frjálst ef þjóðfélagið setur því engar ranglátar, óþarfar eða ósanngjarnar skorður. Þjóðfélagið verður líka að verja réttindi fólksins — það er að segja grundvallarfrelsi þess, áhrif og sérréttindi.“
Hugmyndin virðist einföld. En í reynd virðist fólk alls ekki geta komið sér saman um hvar frelsismörkin skuli liggja. Sumir álíta til dæmis að stjórnvöld eigi að vernda frelsi þegna sinna með lögum. Aðrir halda því hins vegar fram að þessi lög séu einmitt fjötrarnir sem þurfi að losa þegnana við! Ljóst er að frelsi hefur ólíka merkingu í hugum ólíkra manna.
Hvað um trúfrelsi?
Umdeildasta frelsið er ef til vill trúfrelsi, skilgreint sem „frelsi til að aðhyllast og rækja þá trú sem hverjum líst.“ Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna segir: „Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar.“ Í því felst „frjálsræði til að skipta um trú eða játningu“ og frelsi „til að láta í ljós trú sína eða játningu . . . með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.“ — 18. grein.
Við skyldum því halda að hver sú þjóð, sem lætur sér annt um þegna sína, veiti þeim slíkt frelsi. Því miður er það ekki alltaf svo. „Trúin snertir innstu tilfinningar margra,“ segir The World Book Encyclopedia. „Sumar stjórnir eiga náin tengsl við ein ákveðin trúarbrögð og telja annarrar trúar fólk ógna pólitísku valdi sínu. Ríkisstjórn getur líka álitið trúarbrögð hættuleg í pólitískum skilningi vegna þess að trúarstefnur geta lagt meiri áherslu á hollustu við Guð en hlýðni við ríkið.“
Af þessum sökum leggja sumar ríkisstjórnir hömlur á trúariðkanir. Fáeinar eru andvígar trú af hvaða tagi sem er. Og enn aðrar, sem aðhyllast trúfrelsi í orði kveðnu, setja öllum trúariðkunum strangar skorður.
Tökum sem dæmi ástandið eins og það var um margra ára skeið í Mexíkó. Enda þótt stjórnarskráin kvæði á um trúfrelsi var það skilyrt: „Kirkjur notaðar til almennrar guðsdýrkunar eru eign þjóðarinnar með fulltingi sambandsstjórnarinnar sem ákveður hvaða kirkjur megi nota í þessum tilgangi.“ Árið 1991 var stjórnarskránni breytt og þetta skilyrði fellt niður. En þetta dæmi sýnir að trúfrelsi er stundum túlkað á mismunandi hátt eftir löndum.
Annars konar trúfrelsi
Nýtur þú trúfrelsis? Ef svo er, hvernig er það skilgreint? Geturðu tilbeðið Guð á þann hátt sem þú vilt eða ertu tilneyddur að tilheyra ríkistrúnni? Máttu lesa og dreifa trúarritum eða er slíkt prentefni á bannlista stjórnvalda? Geturðu talað við aðra um trú þína eða er það álitið brot á trúarlegum réttindum þeirra?
Svörin við þessum spurningum eru háð því hvar þú býrð. En athygli vekur að til er trúfrelsi sem er ekki staðbundið. Jesús sagði fylgjendum sínum í Jerúsalem árið 32: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:31, 32.
Hvað átti Jesús við með þessum orðum? Gyðingarnir, sem á hlýddu, þráðu frelsi undan stjórn Rómaveldis. En Jesús var ekki að ræða um frelsi frá pólitískri kúgun. Hann var að heita lærisveinunum miklu betra frelsi eins og við sjáum í greininni á eftir.