Orð Guðs varir að eilífu
„Orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.“ — JESAJA 40:8.
1. (a) Hvað er átt við hér með ‚orði Guðs vors‘? (b) Hvernig eru loforð manna í samanburði við orð Guðs?
MÖNNUM hættir til að treysta loforðum þekktra karla og kvenna. En hversu girnileg sem þessi loforð virðast vera í augum þeirra sem vilja bæta hlutskipti sitt í lífinu eru þau eins og fölnandi blóm í samanburði við orð Guðs. (Sálmur 146:3, 4) Fyrir meira en 2700 árum innblés Jehóva Guð spámanninum Jesaja að skrifa: „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. . . . Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.“ (Jesaja 40:6, 8) Hvert er þetta varanlega „orð“? Það er yfirlýsing Guðs um tilgang sinn. Núna höfum við þetta „orð“ skráð í Biblíunni. — 1. Pétursbréf 1:24, 25.
2. Við hvaða aðstæður uppfyllti Jehóva orð sitt um Forn-Ísrael og Júda?
2 Á dögum Forn-Ísraels fann fólk fyrir sannleiksgildi orðanna sem Jesaja skráði. Fyrir munn spámanna sinna sagði Jehóva fyrir að íbúar tíuættkvíslaríkisins Ísraels og síðan tveggjaættkvíslaríkisins Júda yrðu fluttir í útlegð sökum grófrar ótrúmennsku sinnar við hann. (Jeremía 20:4; Amos 5:2, 27) Orð Jehóva brást ekki enda þótt þeir ofsæktu og jafnvel dræpu spámenn hans, brenndu bókrollu með viðvörunarboðskap frá honum og leituðu hernaðaraðstoðar hjá Egyptum til að reyna að koma í veg fyrir að spádómur hans uppfylltist. (Jeremía 36:1, 2, 21-24; 37:5-10; Lúkas 13:34) Og loforð Guðs um að skila iðrunarfullum leifum Gyðinga aftur heim í land sitt uppfylltist með athyglisverðum hætti. — Jesaja 35. kafli.
3. (a) Hvaða loforð, sem Jesaja skráði, eru sérstaklega áhugaverð fyrir okkur? (b) Af hverju ertu sannfærður um að þetta rætist?
3 Fyrir munn Jesaja boðaði Jehóva líka réttláta stjórn yfir mannkyni fyrir atbeina Messíasar, lausn undan synd og dauða og að jörðinni yrði breytt í paradís. (Jesaja 9:6, 7; 11:1-9; 25:6-8; 35:5-7; 65:17-25) Rætist það líka? Á því leikur enginn vafi! ‚Guð lýgur ekki.‘ Hann lét skrá spádómsorð sitt okkur til gagns og hefur séð um að það varðveittist. — Títusarbréfið 1:2; Rómverjabréfið 15:4.
4. Hvernig er orð Guðs „lifandi“ enda þótt upprunalegu biblíuhandritin hafi ekki varðveist?
4 Jehóva varðveitti ekki hin upprunalegu handrit þar sem hann lét ritara sína til forna færa þessa spádóma í letur. En „orð“ hans eða yfirlýstur tilgangur hefur reynst lifandi orð. Þessum tilgangi vindur ómótstæðilega fram og um leið dregur hann fram í dagsljósið innstu hugsanir og hvatir þess fólks sem hann snertir. (Hebreabréfið 4:12) Auk þess sýnir sagan að guðleg forsjá stóð að baki varðveislu og þýðingu hinnar innblásnu Ritningar.
Þegar reynt var að stöðva orð Guðs
5. (a) Hvernig reyndi sýrlenskur konungur að eyða hinum innblásnu, Hebresku ritningum? (b) Hvers vegna mistókst það?
5 Oftar en einu sinni hafa valdhafar reynt að eyðileggja hin innblásnu rit. Árið 168 f.o.t. reisti Antíokos Epífanes (sjá mynd á blaðsíðu 9) Seifi altari í musterinu sem helgað var Jehóva. Hann leitaði einnig uppi ‚lögmálsbækurnar,‘ brenndi þær og lýsti yfir að hver sem hefði slíkar ritningar undir höndum yrði líflátinn. En hversu mörg eintök sem hann lét brenna í Jerúsalem og Júdeu tókst honum ekki að útrýma Ritningunni með öllu. Á þeim tíma voru dreifðar Gyðinganýlendur víða um lönd og í hverri samkundu var bókrollusafn. — Samanber Postulasöguna 13:14, 15.
6. (a) Hvernig var reynt með hörku að eyða þeim ritningum sem frumkristnir menn notuðu? (b) Hvernig fór það?
6 Árið 303 fyrirskipaði Díókletíanus Rómarkeisari að samkomustaðir kristinna manna skyldu jafnaðir við jörðu og ‚Ritningar þeirra brenndar.‘ Þetta eyðileggingarstarf stóð í áratug. Þótt ofsóknirnar væru hræðilegar tókst Díókletíanusi ekki að útrýma kristninni og Guð leyfði útsendurum keisarans ekki að eyðileggja öll eintök af innblásnu orði sínu, ekki einum einasta hluta þess. En með viðbrögðum sínum við útbreiðslu og prédikun orðs Guðs létu andstæðingarnir í ljós hvað bjó í hjörtum þeirra. Þeir sýndu að þeir voru blindaðir af Satan og gerðu vilja hans. — Jóhannes 8:44; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.
7. (a) Hvernig var reynt að tálma útbreiðslu biblíuþekkingar í Vestur-Evrópu? (b) Hvaða árangur náðist í þýðingu og útgáfu Biblíunnar?
7 Tilraunir til að tálma útbreiðslu biblíuþekkingar tóku líka á sig aðrar myndir. Þegar latína dó út sem daglegt alþýðumál voru það ekki heiðnir valdhafar heldur menn sem kölluðu sig kristna — Gregoríus páfi sjöundi (1073-85) og Innócentíus páfi þriðji (1198-1216) — sem beittu sér gegn því að Biblían væri þýdd á alþýðumál. Í von um að bæla niður andóf gegn valdi kirkjunnar fyrirskipaði rómversk-kaþólska kirkjuþingið í Toulouse í Frakklandi árið 1229 að leikmaður mætti ekki eiga bækur Biblíunnar á alþýðumáli. Rannsóknarrétturinn var notaður til að framfylgja tilskipuninni af hörku. En eftir að rannsóknarrétturinn hafði starfað í 400 ár höfðu þeir sem elskuðu orð Guðs þýtt alla Biblíuna og voru að dreifa prentuðum eintökum á um það bil 20 tungumálum, auk nokkurra mállýskna, og helstu hlutum hennar á 16 tungumálum að auki.
8. Hvað gerðist í sambandi við þýðingu og dreifingu Biblíunnar á rússnesku á 19. öld?
8 Það var ekki bara rómversk-kaþólska kirkjan sem reyndi að halda Biblíunni utan seilingar almennings. Snemma á 19. öld þýddi Pavsky, sem var prófessor við Guðfræðiakademíuna í St. Pétursborg, Matteusarguðspjall úr grísku á rússnesku. Aðrar bækur kristnu Grísku ritninganna voru einnig þýddar á rússnesku undir ritstjórn Pavskys. Þeim var dreift í miklum mæli fram til ársins 1826 þegar kirkjuleg yfirvöld fengu keisarann til að setja Rússneska biblíufélagið undir stjórn „heilags kirkjuráðs“ rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem stöðvaði starf þess að mestu. Síðar þýddi Pavsky Hebresku ritningarnar úr hebresku á rússnesku. Um svipað leyti þýddi Makaríos, trúboði og erkimandriti rétttrúnaðarkirkjunnar, Hebresku ritningarnar einnig úr hebresku á rússnesku. Báðum var refsað fyrir og þýðingarnar lokaðar inni í skjalasöfnum kirkjunnar. Kirkjan var staðráðin í að halda Biblíunni á hinu forna, slavneska tungumáli sem almenningur hvorki las né skildi á þeim tíma. Það var ekki fyrr en ógerlegt reyndist að bæla niður löngun fólksins í biblíuþekkingu að hið „heilaga kirkjuráð“ lét gera sína eigin þýðingu árið 1856, og þá eftir ströngum viðmiðunarreglum til að tryggja að orðalag hennar samrýmdist viðhorfum kirkjunnar. Þannig reyndist mikill munur á þeim áhuga sem trúarleiðtogarnir þóttust hafa á útbreiðslu orðs Guðs og raunverulegum vilja þeirra eins og hann birtist í orðum þeirra og verkum. — 2. Þessaloníkubréf 2:3, 4.
Að varðveita orðið óspillt
9. Hvernig sýndu sumir biblíuþýðendur ást sína á orði Guðs?
9 Í hópi þeirra sem þýddu og afrituðu Ritninguna voru menn sem elskuðu orð Guðs í sannleika og lögðu sig í líma við að gera það aðgengilegt fyrir alla. William Tyndale dó píslarvættisdauða (árið 1536) fyrir það sem hann gerði til að koma Biblíunni út á ensku. Kaþólski rannsóknarrétturinn hneppti Francisco de Enzinas í fangelsi (eftir 1544) fyrir að þýða kristnu Grísku ritningarnar á spænsku og gefa þær út. Robert Morrison hætti lífinu til að þýða Biblíuna á kínversku (á árunum 1807 til 1818).
10. Hvaða dæmi sýna að sumir þýðendur létu aðrar hvatir en ást á orði Guðs ráða gerðum sínum?
10 En stundum var það annað en kærleikur til orðs Guðs sem hafði áhrif á störf afritara og þýðenda. Tökum fjögur dæmi: (1) Samverjar reistu musteri á Garísímfjalli til að keppa við musterið í Jerúsalem. Því til stuðnings var skotið inn viðbót í samverska Fimmbókaritið í 2. Mósebók 20:17. Þar var því bætt við boðorðin tíu að reisa skyldi steinaltari á Garísímfjalli og færa þar fórnir. (2) Sá sem fyrstur þýddi Daníelsbók í grísku Sjötíumannaþýðingunni fór frjálslega með efnið. Hann skaut inn ýmsu sem hann taldi skýra hebreska textann. Hann sleppti smáatriðum sem hann taldi lesendur ekki geta meðtekið. Þegar hann þýddi spádóminn um komutíma Messíasar, sem er að finna í Daníel 9:24-27, falsaði hann tímann og bætti við, breytti og víxlaði orðum, að því er virðist til að láta líta út sem spádómurinn styddi baráttu Makkabeanna. (3) Í fræðiriti á fjórðu öld bætti ofurákafur þrenningarsinni við orðunum „í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt“ eins og þau væru tilvitnun í 1. Jóhannesarbréf 5:7. Síðar voru þessi orð sett beint inn í latneskt biblíuhandrit. (4) Loðvík 13. Frakklandskonungur (1610-43) fól Jacques Corbin að þýða Biblíuna á frönsku til að vega upp á móti áhrifum mótmælenda. Með þetta markmið í huga bætti Corbin við textann á nokkrum stöðum, þar á meðal innskoti um „hina heilögu fórn við messuna“ í Postulasögunni 13:2.
11. (a) Hvernig stóðst orð Guðs óheiðarleika sumra þýðenda? (b) Hve mikið er til af fornum handritum sem sanna hvað stóð upphaflega í Biblíunni? (Sjá rammagrein.)
11 Jehóva kom ekki í veg fyrir að orð sitt væri falsað með þessum hætti og það breytti ekki heldur tilgangi hans. Hvaða áhrif hafði það? Þótt skotið væri inn viðbót um Garísímfjall varð það ekki til þess að trú Samverja yrði verkfæri Guðs til blessunar mannkyni, heldur bar það vitni um að ekki væri hægt að treysta trú þeirra til að kenna sannleikann, enda þótt þeir þættust trúa Fimmbókaritinu. (Jóhannes 4:20-24) Brenglaða orðalagið í Sjötíumannaþýðingunni kom ekki í veg fyrir að Messías kæmi á þeim tíma sem boðað hafði verið fyrir munn spámannsins Daníels. Og enda þótt Sjötíumannaþýðingin væri í notkun á fyrstu öld voru Gyðingar vanir að heyra Ritninguna lesna á hebresku í samkunduhúsunum, að því er best verður séð. Þar af leiðandi „var eftirvænting vakin hjá lýðnum“ þegar uppfyllingartími spádómsins nálgaðist. (Lúkas 3:15) Innskotin í 1. Jóhannesarbréfi 5:7 til stuðnings þrenningarkenningunni og í Postulasögunni 13:2 til að réttlæta messuna breyttu ekki sannleikanum. Og að því kom að svikin voru afhjúpuð. Hinn mikli sjóður frummálshandrita Biblíunnar býður upp á að hægt sé að sannprófa hverja einustu þýðingu.
12. (a) Hvaða alvarlegar breytingar gerðu sumir biblíuþýðendur? (b) Hve víðtækar voru þær?
12 Sumar tilraunir til að breyta Ritningunni voru ekki takmarkaðar við það að umorða fáein vers heldur var ráðist gegn hinum sanna Guði sjálfum. Eðli breytinganna og umfang þeirra var skýrt merki þess að áhrifin væru runnin undan rifjum voldugri aðila en nokkurs einstaks manns eða stofnunar manna — já, áhrifavaldurinn var erkióvinur Jehóva, Satan djöfullinn. Undir þessum áhrifum tóku biblíuþýðendur og afritarar — sumir með ákefð, aðrir með tregðu — að fjarlægja einkanafn Guðs, Jehóva, úr innblásnu orði hans á þeim þúsundum staða þar sem það stóð. Mjög snemma felldu sumir þýðendur, sem þýddu úr hebresku á grísku, latínu, þýsku, ensku, ítölsku og hollensku, svo dæmi séu nefnd, nafn Guðs algerlega niður eða héldu því aðeins á fáeinum stöðum. Það var líka fellt úr kristnu Grísku ritningunum.
13. Hvers vegna urðu hinar víðtæku tilraunir til að breyta Biblíunni ekki til þess að afmá nafn Guðs úr minni manna?
13 En hið dýrlega nafn var ekki afmáð úr minni manna. Þýðingar Hebresku ritninganna á spænsku, portúgölsku, þýsku, ensku, frönsku og mörg önnur tungumál innihéldu nafn Guðs. Á 16. öld tók nafn Guðs einnig að birtast á ný í ýmsum hebreskum þýðingum kristnu Grísku ritninganna; á 18. öld á þýsku og á 19. öld á króatísku og ensku. Enda þótt menn hafi reynt að fela nafn Guðs munu ‚þjóðirnar þurfa að viðurkenna að ég er Jehóva‘ þegar ‚dagur Jehóva‘ rennur upp, eins og hann sjálfur segir. Þessi yfirlýsti tilgangur Guðs bregst ekki. — 2. Pétursbréf 3:10; Esekíel 38:23; Jesaja 11:9; 55:11.
Boðskapurinn berst um allan hnöttinn
14. (a) Á hve mörgum Evrópumálum var Biblían til um síðastu aldamót og hvaða áhrif hafði það? (b) Á hve mörgum Afríkumálum var Biblían til undir árslok 1914?
14 Um síðustu aldamót var Biblían þegar komin út á 94 Evrópumálum. Hún vakti biblíunemendur þar til vitundar um að miklir heimsviðburðir myndu haldast í hendur við endi heiðingjatímanna árið 1914 eins og raunin varð! (Lúkas 21:24) Áður en tímamótaárið 1914 var á enda var öll Biblían eða einhverjar bækur hennar komnar út á 157 Afríkumálum, auk ensku, frönsku og portúgölsku sem töluð eru víða þar í álfu. Þannig var grunnurinn lagður að því að kenna auðmjúkum mönnum af mörgum ættflokkum og þjóðernum, sem þar búa, andlega frelsandi biblíusannindi.
15. Í hvaða mæli var Biblían fáanleg á tungum Ameríku um þær mundir er síðustu dagar hófust?
15 Þegar hinir síðustu dagar runnu upp eins og spáð hafði verið, var Biblían auðfengin í Norður-, Mið- og Suður-Ameríku. Innflytjendur frá Evrópu höfðu flutt hana með sér á sínum ýmsu tungumálum. Umfangsmikil biblíufræðsluherferð var í gangi með opinberum fyrirlestrum og mikilli dreifingu biblíurita sem gefin voru út af Alþjóðlegum biblíunemendum eins og vottar Jehóva voru þá kallaðir. Auk þess prentuðu biblíufélög Biblíuna á 57 öðrum tungumálum til að koma til móts við þarfir innfæddra í Vesturálfu.
16, 17. (a) Í hvaða mæli var Biblían orðin fáanleg þegar að því kom að prédika um heim allan? (b) Hvernig hefur Biblían reynst varanleg og mjög áhrifamikil?
16 Þegar stundin rann upp til að prédika fagnaðarerindið um allan heim áður en ‚endirinn kæmi‘ var Biblían löngu komin til Asíu og eyja Kyrrahafsins. (Matteus 24:14) Hún var þegar komin út á 232 tungumálum sem töluð eru í þeim heimshluta. Öll Biblían var til á sumum þessara mála, kristnu Grísku ritningarnar á mörgum þeirra og einstakar bækur hinnar helgu ritningar á öðrum.
17 Ljóst er að Biblían varðveittist ekki aðeins sem safngripur. Af öllum bókum, sem til voru, var hún útbreiddasta bókin og sú sem þýdd hafði verið á flest tungumál. Í samræmi við þetta tákn um hylli Guðs var það að koma fram sem bókin sagði. Kenningar hennar og heilagur andi sem innblés hana hafði líka varanleg áhrif á líf fólks víða um lönd. (1. Pétursbréf 1:24, 25) En meira var í vændum — miklu meira.
Manstu?
◻ Hvert er „orð Guðs vors“ sem varir að eilífu?
◻ Hvaða tilraunir hafa verið gerðar til að stöðva þýðingu og útbreiðslu Biblíunnar og með hvaða árangri?
◻ Hvernig hefur Biblían varðveist óspillt?
◻ Hvernig hefur yfirlýstur tilgangur Guðs reynst vera lifandi orð?
[Rammi á blaðsíðu 11]
Vitum við raunverulega hvað stóð upphaflega í Biblíunni?
Um 6000 hebresk handrit staðfesta efni Hebresku ritninganna. Fáein þeirra eru frá því fyrir daga kristninnar. Að minnsta kosti 19 handrit Hebresku ritninganna í heild, sem enn eru til, eru eldri en prentun með lausu letri. Auk þess eru til þýðingar frá sama tíma á 28 öðrum tungumálum.
Skráð hafa verið um 5000 handrit kristnu Grísku ritninganna á grísku. Eitt er frá því fyrir árið 125, aðeins nokkrum árum yngra en frumritið. Og sum slitur eru talin þó nokkuð eldri. Af 22 hinna 27 innblásnu rita eru til á bilinu 10 til 19 heil handrit með hástafaletri. Af Opinberunarbókinni eru aðeins til þrjú heil hástafahandrit, en hún er sú bók í þessum hluta Biblíunnar sem fæst handrit eru til af. Til er eitt handrit frá fjórðu öld með öllum bókum kristnu Grísku ritninganna.
Ekkert annað fornt ritverk á sér að baki svona gríðarlegan sjóð handrita.