Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.3. bls. 27-30
  • Það er ekkert betra en sannleikurinn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það er ekkert betra en sannleikurinn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ég kynnist sannleika Biblíunnar
  • Ég tek afstöðu með sannleikanum
  • Lífið í Sachsenhausen
  • Dauðagangan
  • Sannleikurinn hefur verið líf mitt
  • Fjarri heimahögum hét ég að þjóna Guði
    Vaknið! – 1992
  • Ráðvendni varðveitt á valdatímum nasista í Þýskalandi
    Vaknið! – 1993
  • Hvað á ég að gjalda Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Þakklát Jehóva Þrátt fyrir prófraunir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.3. bls. 27-30

Það er ekkert betra en sannleikurinn

Frásaga G. N. Van Der Bijls

Í júní árið 1941 var ég framseldur Gestapo og fluttur til Sachsenhausen-fangabúðanna í grennd við Berlín. Þar var ég í haldi sem fangi númer 38190 allt til hinnar illræmdu dauðagöngu í apríl 1945. En áður en ég kem að því ætla ég að segja frá því hvernig ég lenti í fangelsi.

ÉG FÆDDIST í Rotterdam í Hollandi árið 1914, skömmu eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út. Pabbi vann hjá járnbrautunum og við bjuggum í lítilli íbúð nálægt brautarsporinu. Undir lok stríðsins árið 1918 sá ég margar sjúkralestir þeysast hjá. Þær voru eflaust fullar af særðum hermönnum sem verið var að flytja heim af vígstöðvunum.

Ég hætti í skóla 12 ára og fór að vinna. Átta árum síðar réði ég mig sem bryta á farþegaskip og næstu fjögur árin var ég í siglingum milli Hollands og Bandaríkjanna.

Önnur heimsstyrjöld lá í loftinu þegar við lögðumst að bryggju í New York sumarið 1939. Þegar maður kom um borð og bauð mér bókina Stjórn, sem sagði frá réttlátri stjórn, þáði ég hana með þökkum. Við komuna til Rotterdam fór ég að leita mér að vinnu í landi því að það virtist ekki lengur óhætt að vera á sjó. Fyrsta september réðust Þjóðverjar inn í Pólland og þjóðirnar steyptust út í síðari heimsstyrjöldina.

Ég kynnist sannleika Biblíunnar

Ég var í heimsókn hjá kvæntum bróður mínum á sunnudagsmorgni í mars árið 1940 þegar einn af vottum Jehóva hringdi dyrabjöllunni. Ég sagði honum að ég ætti bókina Stjórn og spurði hann um himna og hverjir færu þangað. Svarið var svo skýrt og skynsamlegt að ég sagði við sjálfan mig: ‚Þetta er sannleikurinn.‘ Ég lét hann fá heimilisfang mitt og bauð honum í heimsókn.

Eftir aðeins þrjár heimsóknir og djúpar umræður um Biblíuna byrjaði ég að fara með vottinum hús úr húsi að prédika. Þegar við komum á starfssvæðið sýndi hann mér hvar ég ætti að byrja og svo þurfti ég að bjarga mér sjálfur. Þannig voru fyrstu kynni margra af prédikunarstarfinu á þeim tíma. Mér var ráðlagt að kynna ritin aldrei úti á götu, þar sem til mín sást, heldur inni í gangi eða anddyri. Það var nauðsynlegt að vera varkár í stríðsbyrjun.

Þrem vikum síðar, 10. maí 1940, réðst þýski herinn inn í Holland og 29. maí lýsti ríkislandsstjórinn, Seyss-Inquart, yfir því að skipulag votta Jehóva væri bannað. Við hittumst ekki nema í smáhópum og þess var gætt að halda samkomustöðunum leyndum. Heimsóknir farandumsjónarmanna voru sérstaklega styrkjandi.

Ég var stórreykingamaður og bauð vottinum, sem kenndi mér, sígarettu. Þegar ég komst að raun um að hann reykti ekki sagði ég: „Ég gæti aldrei hætt að reykja!“ En skömmu síðar var ég á gangi úti á götu og hugsaði með mér: ‚Ef ég ætla að vera vottur vil ég vera alvöruvottur.‘ Ég hef ekki reykt síðan.

Ég tek afstöðu með sannleikanum

Í júní 1940, innan við þrem mánuðum eftir að ég hitti vottinn í dyrunum hjá bróður mínum, skírðist ég til tákns um vígslu mína til Jehóva. Fáeinum mánuðum síðar, í október 1940, gerðist ég brautryðjandi eða boðberi í fullu starfi. Mér var þá gefinn svokallaður brautryðjandajakki. Hann var með fullt af vösum fyrir bækur og bæklinga og hægt var að klæðast frakka utan yfir.

Vottar Jehóva voru kerfisbundið leitaðir uppi og handteknir næstum alveg frá því að Þjóðverjar hernámu landið. Ég var í boðunarstarfinu með fáeinum öðrum vottum morgun einn í febrúar 1941. Þeir heimsóttu fólk öðrum megin í húsasamstæðu nokkurri en ég starfaði hinum megin á móts við þá. Þegar ég fór að kanna hvað tefði þá hitti ég mann sem spurði: „Átt þú líka eina af þessum smábókum?“

Ég jánkaði því og þá handtók hann mig og fór með mig á næstu lögreglustöð. Ég var í gæsluvarðhaldi í næstum fjórar vikur. Flestir lögreglumennirnir voru vinsamlegir. Meðan maður var ekki framseldur Gestapo var hægt að fá sig lausan með því einu að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að dreifa ekki biblíuritum framar. Þegar mér var boðið að undirrita slíka yfirlýsingu svaraði ég: „Þótt þið byðuð mér eina eða tvær milljónir gyllina skrifaði ég ekki undir.“

Mér var haldið enn um hríð en síðan framseldur Gestapo. Þá var ég fluttur í Sachsenhausen-fangabúðirnar í Þýskalandi.

Lífið í Sachsenhausen

Þegar ég kom til Sachsenhausen í júní 1941 voru þar fyrir um 150 vottar, aðallega þýskir. Farið var með okkur nýju fangana í þann hluta búðanna sem kallaðist Einangrun. Kristnir bræður okkar þar tóku okkur að sér og bjuggu okkur undir það sem í vændum var. Viku síðar kom annar vottahópur frá Hollandi. Í fyrstu vorum við látnir standa á sama stað fyrir framan skálana frá klukkan sjö að morgni til klukkan sex að kvöldi. Þetta urðu fangar stundum að gera daglega í viku eða lengur.

Þrátt fyrir harkalega meðferð var bræðrunum ljóst að þeir þyrftu að skipuleggja mál sín vel og nærast andlega. Daglega var einhverjum þeirra falið að undirbúa hugleiðingar um biblíutexta. Í garðinum þar sem fangar komu saman, gengu vottarnir síðan einn og einn til hans og hlustuðu á það sem hann hafði undirbúið. Með einum eða öðrum hætti var ritum smyglað að staðaldri inn í búðirnar og við hittumst meira að segja á hverjum sunnudegi og numum þessi biblíurit saman.

Einhvern veginn tókst að smygla eintaki af bókinni Börn inn í Sachsenhausen-búðirnar, en hún hafði komið út á mótinu í St. Louis í Bandaríkjunum sumarið 1941. Til að draga úr hættunni á að bókin fyndist og yrði eyðilögð tókum við hana í sundur og létum hlutana ganga milli bræðranna svo að allir gætu skipst á að lesa hana.

Að nokkrum tíma liðnum komst stjórn fangabúðanna á snoðir um að við værum að halda samkomur. Vottunum var þá dreift í mismunandi skála. Þar með bauðst okkur afbragðstækifæri til að prédika fyrir öðrum föngum með þeim árangri að margir Pólverjar, Úkraínumenn og fleiri tóku við sannleikanum.

Nasistar fóru ekki dult með þá ætlun sína að brjóta á bak aftur ráðvendni Bibelforscher eða Biblíunemendanna eins og vottarnir voru kallaðir, eða drepa þá ella. Þess vegna vorum við beittir gífurlegum þrýstingi. Okkur var sagt að okkur yrði sleppt ef við undirrituðum yfirlýsingu um að við afneituðum trú okkar. Sumir bræður fóru að hugsa með sér: „Ef ég fæ frelsi get ég gert meira í þjónustu Jehóva.“ Enda þótt fáeinir skrifuðu undir voru flestir bræðranna trúfastir þrátt fyrir allan skortinn, auðmýkinguna og misþyrmingarnar. Við fréttum aldrei framar af sumum þeirra sem létu undan. Sumir náðu sér hins vegar aftur og eru enn starfandi vottar.

Við vorum að staðaldri neyddir til að horfa upp á grimmilegar refsingar, svo sem þegar fangar voru barðir 25 högg með staf. Einu sinni vorum við látnir horfa á fjóra menn hengda. Svona lífsreynsla setur mark sitt á mann. Hávaxinn og myndarlegur bróðir, sem bjó í sama skála og ég, sagði við mig: „Áður en ég kom hingað leið yfir mig ef ég sá blóð. Nú er ég orðinn ónæmur fyrir því.“ En þótt við yrðum kannski ónæmari fyrir slíku urðum við ekki tilfinningalausir. Ég verð að segja að ég fann aldrei til illvilja í garð ofsækjenda okkar eða haturs á þeim.

Eftir að hafa unnið með kommando (vinnusveit) um hríð var ég lagður inn á spítala með háan hita. Góðviljaður norskur læknir og tékkneskur hjúkrunarfræðingur hjálpuðu mér, og góðvild þeirra bjargaði sennilega lífi mínu.

Dauðagangan

Í apríl 1945 var ljóst að Þýskaland var að tapa stríðinu. Bandamenn sóttu hratt fram úr vestri og Sovétmenn úr austri. Nasistar gátu með engu móti útrýmt þeim hundruðum þúsunda manna, sem voru í fangabúðunum, og losnað við líkin á fáeinum dögum án þess að skilja eftir nokkur ummerki. Þeir ákváðu því að drepa sjúklinga og flytja hina fangana til næstu hafnar. Þar ætluðu þeir að setja þá á skip og sökkva svo skipunum úti á rúmsjó.

Um 26.000 fangar hófu gönguna frá Sachsenhausen nóttina 20. apríl. Áður en við yfirgáfum búðirnar var sjúkum bræðrum okkar bjargað af sjúkrahúsinu. Við komumst yfir vagn sem við gátum flutt þá á. Við vorum alls 230 frá sex löndum. Í hópi hinna sjúku var bróðir Arthur Winkler sem hafði átt drjúgan þátt í vexti starfsins í Hollandi. Við vottarnir vorum aftastir í halarófunni og hvöttum hver annan í sífellu til að halda áfram göngunni.

Í fyrstu lotu gengum við hvíldarlaust í 36 klukkustundir. Einu sinni sofnaði ég hreinlega á göngunni, örþreyttur og þjáður. En það kom ekki til greina að dragast aftur úr eða hvílast því að þá var hætta á að verðirnir skytu mann. Á næturnar sváfum við á ökrum úti eða í skógunum. Matur var lítill sem enginn. Þegar sultarverkirnir urðu óbærilegir sleikti ég tannkrem sem sænski Rauði krossinn hafði gefið okkur.

Eitt sinn héldum við kyrru fyrir í skógunum í fjóra daga því að þýsku verðirnir vissu ekki hvar rússnesku og bandarísku hersveitirnar voru. Það kom sér vel því að það varð til þess að við komumst ekki til Lübeckflóa í tæka tíð til að ná skipunum sem áttu að flytja okkur í hina votu gröf. Að lokum komum við í Crivitz-skóg, eftir um 200 kílómetra göngu sem tekið hafði 12 daga. Það var stutt frá Schwerin, borg sem er um 50 kílómetra frá Lübeck.

Sovétmenn voru okkur á hægri hönd og Bandaríkjamenn á vinstri. Drunurnar í fallbyssunum og stöðugir skothvellir rifflanna sögðu okkur að við værum nærri víglínunum. Þýsku verðirnir voru skelfingu lostnir; sumir flúðu en aðrir afklæddust hermannabúningunum, og í von um að þekkjast ekki klæddust þeir fangabúningum sem þeir höfðu hirt af látnum. Í allri ringulreiðinni hópuðust vottarnir saman til að biðja um leiðsögn.

Bræðurnir, sem fóru með forystuna, ákváðu að við skyldum halda af stað snemma næsta dags í átt til bandarísku víglínunnar. Nálega helmingur fanganna, sem lagði af stað í dauðagönguna, var látinn en allir vottarnir höfðu lifað hana af.

Ég fékk far með nokkrum kanadískum hermönnum til borgarinnar Nijmegen þar sem systir mín hafði búið. Þegar ég kom á staðinn uppgötvaði ég að hún var flutt. Ég lagði því af stað fótgangandi til Rotterdam. Sem betur fer var mér boðið far með einkabifreið sem flutti mig rakleiðis á áfangastað.

Sannleikurinn hefur verið líf mitt

Ég sótti aftur um brautryðjandastarf daginn sem ég kom til Rotterdam. Þrem vikum síðar var ég kominn á starfssvæði mitt í bænum Zutphen þar sem ég starfaði í eitt og hálft ár. Á meðan tókst mér að endurheimta nokkuð af kröftum mínum. Þá var ég skipaður farandumsjónarmaður. Fáeinum mánuðum síðar var mér boðið að sækja Biblíuskólann Gíleað sem Varðturnsfélagið starfrækti í South Lansing í New York ríki. Ég var svo sendur til Belgíu eftir að ég útskrifaðist úr tólfta bekknum í febrúar 1949.

Ég hef starfað að ýmsum greinum þjónustunnar í Belgíu, þar á meðal næstum átta ár í útibúi Félagsins og um áratuga skeið í farandstarfi, bæði sem farandhirðir og umdæmishirðir. Árið 1958 gekk ég að eiga Justine sem varð þá ferðafélagi minn. Aldurinn er nú farinn að segja til sín en ég nýt enn þeirrar gleði að geta þjónað að einhverju marki sem vara-farandumsjónarmaður.

Þegar ég lít yfir farinn veg í þjónustu minni get ég sagt með sanni: „Það er ekkert betra en sannleikurinn.“ Auðvitað hefur lífið ekki alltaf verið auðvelt. Ég hef þurft að læra af göllum mínum og mistökum. Þegar ég tala við unga fólkið segi ég oft: „Þið eigið líka eftir að gera mistök og kannski brjótið þið alvarlega af ykkur, en ljúgið ekki til um það. Ræðið málið við foreldra ykkar eða öldung og bætið síðan úr því sem þarf.“

Á næstum 50 ára ferli í fullu starfi í Belgíu hef ég notið þeirra sérréttinda að sjá fólk, sem ég þekkti á barnsaldri, verða öldunga og farandhirða. Og ég hef séð boðberum Guðsríkis fjölga úr 1700 í rösklega 27.000.

Ég spyr: „Er hægt að öðlast meiri blessun í lífinu en þá að þjóna Jehóva?“ Það hefur aldrei verið hægt, er ekki hægt núna og verður aldrei hægt. Ég bið þess að Jehóva haldi áfram að leiðbeina og blessa okkur hjónin þannig að við getum haldið áfram að þjóna honum að eilífu.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Með eiginkonu minni skömmu eftir að við giftumst árið 1958.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila