Ert þú bjartsýnn eða bölsýnn?
„ÞAÐ voru bestu tímar, það voru verstu tímar, . . . það var vor vonarinnar, það var vetur örvæntingarinnar, allt lá fyrir okkur, ekkert lá fyrir okkur.“ Með þessum orðum hefst meistaraverk Charles Dickens, Saga tveggja borga, og þau lýsa snilldarlega þeim ólíku áhrifum sem atburðir geta haft á hugsun okkar, tilfinningar og viðhorf.
Borgirnar tvær, sem Dickens hafði í huga, voru Lundúnir og París á ólgutíma frönsku byltingarinnar. Mannréttindayfirlýsing byltingarsinna var sannarlega „vor vonarinnar“ fyrir kúgaða þegna Frakklands á 18. öld. Hjá stuðningsmönnum gamla stjórnskipulagsins var hins vegar runninn upp „vetur örvæntingarinnar“ með dauða og eyðileggingu.
Hvort menn voru bjartsýnir eða bölsýnir var undir því komið hvorum megin þeir stóðu og svo er enn.
Tími sjálfsrannsóknar
Ertu bjartsýnismaður? Sérðu björtu hliðarnar á tilverunni og býstu alltaf við því besta? Hefurðu kannski tilhneigingu til að vera bölsýnn eða svartsýnn á framtíð þína, vonast eftir því besta en búast við því versta?
Bandaríski skáldsagnahöfundurinn James Branch Cabell lýsti þessum tveim andstæðu lífsskoðunum þannig fyrir 60 árum: „Bjartsýnismaðurinn boðar að við lifum í besta heimi sem hugsast getur og bölsýnismaðurinn óttast að það sé rétt.“ Ef þér finnst þetta viðhorf bera vott um nokkra kaldhæðni skaltu velta fyrir þér þeim þrem þáttum heimsmálanna sem nefndir eru hér á eftir. Ígrundaðu síðan viðbrögð þín og spyrðu þig hvort þú sért bjartsýnn eða bölsýnn.
Varanlegur friður: Hve mörg spennu- og átakasvæði geturðu nefnt? Írland, fyrrverandi Júgóslavía, Miðausturlönd, Búrúndí og Rúanda eru nöfn sem koma strax upp í hugann. Tekst einhvern tíma að koma á friði á þessum og öðrum átakasvæðum og tryggja varanlegan heimsfrið? Stefnir heimurinn í átt til friðar?
Stöðugleiki í efnahagsmálum: Aðildarríki Evrópusambandsins stefna að því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil árið 1999 en standa frammi fyrir erfiðum vandamálum vegna verðbólgu og opinberrar skuldasöfnunar. Spilling grefur undan hagkerfi margra Ameríku- og Afríkuþjóða þar sem verðbólga er næstum óbærileg og þjóðernisrígur sundrar fólki. Er stöðugleiki í efnahagsmálum heims á næsta leiti?
Atvinnuleysi: Í kosningabaráttunni árið 1997 sameinuðust kirkjur Bretlands um að hvetja alla stjórnmálaflokka til að setja atvinnu handa öllum ofarlega á stefnuskrá sína. En er hægt að búast við atvinnu handa öllum til langframa — einkum unga fólkinu — miðað við það að næstum 30 prósent vinnufærra manna í heiminum eru atvinnulausir eða hafa ekki næga atvinnu?
Það er lítill vandi að vera bölsýnn! En það er til bjartari hlið á málinu og við hvetjum þig til að skoða hvernig hægt sé að verða bjartsýnn.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Franska byltingin
[Rétthafi]
Úr bókinni Pictorial History of the World