Hver er að baki öllu þessu?
FRANSKI landkönnuðurinn Henri Mouhot var að höggva sér leið gegnum frumskóginn í Kambódíu er hann kom allt í einu að breiðu díki sem umlukti mikið hof. Í næstum kílómetra fjarlægð þaðan sem hann stóð gnæfðu fimm turnar hofsins rösklega 60 metra upp í loftið. Þetta var Angkor Vat, stærsta trúarlega minnismerki jarðar sem hafði staðið af sér náttúruöflin í heilar sjö aldir uns Mouhot fann það á 19. öld.
Mouhot sá strax að þessar mosaþöktu byggingar voru mannaverk. „Þessar byggingar eru mikilfenglegri en nokkuð sem Grikkir eða Rómverjar skildu eftir sig og voru reistar af einhverjum Michelangelo fortíðar,“ skrifaði hann. Þótt þessar mikilfenglegu byggingar hefðu staðið yfirgefnar um aldaraðir var hann ekki í nokkrum vafa um að þær ættu sér hönnuð.
Athygli vekur að aldagamalt spekirit skuli hafa beitt svipuðum rökum til að skýra hvers vegna umheimurinn hljóti að vera verk einhvers hönnuðar, að hann hljóti að vera skapaður. Páll postuli skrifaði: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Sumir eru kannski ósammála þessari samlíkingu og telja að verk náttúrunnar séu ólík verkum manna. En það taka ekki allir vísindamenn undir það. Eftir að hafa viðurkennt að „lífefnakerfi séu ekki lífvana hlutir“ spyr Michael Behe, aðstoðarprófessor í lífefnafræði við Lehigh-háskóla: „Geta lifandi lífefnakerfi verið verk vitiborins hönnuðar?“ Hann bendir síðan á að vísindamenn séu núna beinlínis að breyta lifandi verum með erfðatækni. Ljóst er að það er hægt að hanna bæði lífvana hluti og lifandi. Behe kafar ofan í hinn smásæja heim lifandi frumna og ræðir um ótrúlega flókin kerfi mynduð úr einingum sem eru hver annarri háðar til að verka. Hver er niðurstaða hans? „Samanlögð niðurstaða allra þessara rannsókna á frumunni — lífrannsókna á sameindastiginu — er skýr, ákveðin og afdráttarlaus: Hönnun!“
Heimsfræðingar og eðlisfræðingar hafa einnig horft rannsakandi á umheiminn og alheiminn og dregið fram ýmsar undraverðar staðreyndir. Til dæmis vita þeir núna að jafnvel agnarsmá breyting á gildi einhvers af alheimsstuðlunum hefði gert að verkum að heimurinn væri lífvana.a Heimsfræðingurinn Brandon Carter kallar þetta furðulegar tilviljanir. En ef þú rækist á heila röð af dularfullum, samtvinnuðum tilviljunum myndi þig að minnsta kosti gruna að einhver stæði þar að baki.
Öll þessi flóknu kerfi og nákvæmlega samstilltu „tilviljanir“ eiga sér vissulega hönnuð. Hvern? „Það gæti reynst afar erfitt að beita vísindalegum aðferðum til að benda á hönnuðinn,“ viðurkennir prófessor Behe, og hann lætur „heimspeki og guðfræði“ eftir að freista þess að svara spurningunni. Þér finnst kannski að þessi spurning skipti þig persónulega litlu máli. En ef þú fengir fallegan pakka að gjöf og í honum væri einmitt það sem þig vantaði, myndirðu þá ekki vilja vita hver hefði sent þér hann?
Það má segja að við höfum fengið slíkan pakka — fullan af stórkostlegum gjöfum sem gera okkur kleift að lifa og njóta þess. Þessi pakki er jörðin með öllum sínum einstöku kerfum sem viðhalda lífinu. Ætti okkur ekki að langa til að vita hver gaf okkur þessar gjafir?
Sem betur fer hefur sendandinn fest miða á pakkann. Þessi „miði“ er hið forna spekirit sem við nefndum áðan — Biblían. Í inngangsorðum sínum svarar Biblían ósköp einfalt og skýrt hver hafi gefið okkur pakkann: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.
Skaparinn nefnir sjálfan sig með nafni á þessum „miða“: „Svo segir [Jehóva] Guð, sá er skóp himininn . . . sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni.“ (Jesaja 42:5) Já, Jehóva er nafn þess Guðs sem hannaði alheiminn og skapaði manninn og konuna á jörðinni. En hver er Jehóva? Hvers konar Guð er hann? Og hvers vegna eiga allir jarðarbúar að hlusta á hann?
[Neðanmáls]
a „Stuðlar“ eru stærðir sem virðast vera óbreyttar um allan alheiminn. Nefna má sem dæmi ljóshraðann og tengsl massa og þyngdarafls.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Angkor Vat var byggt af mönnum.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Langar þig ekki til að vita hver gefandinn er þegar þú færð gjöf?