Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.5. bls. 5-7
  • Hver er Jehóva?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hver er Jehóva?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þýðing nafns hans
  • Höfuðeiginleikar Jehóva
  • Guð allra þjóða
  • Gagnið af því að þekkja Jehóva
  • Jehóva — hver er hann?
    Jehóva – hver er hann?
  • Hver er hinn sanni Guð?
    Þekking sem leiðir til eilífs lífs
  • Miklum Jehóva, hinn eina sanna Guð
    Tilbiðjum hinn eina sanna Guð
  • Hvers vegna við verðum að þekkja nafn Guðs?
    Nafn Guðs sem vara mun að eilífu
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.5. bls. 5-7

Hver er Jehóva?

JEHÓVA sagði einum af trúföstum dýrkendum sínum: „Enginn maður fær séð mig og lífi haldið.“ (2. Mósebók 33:20) „Guð er andi“ og menn geta ekki séð hann með bókstaflegum augum sínum. (Jóhannes 4:24) Það væri stórskaðlegt fyrir augun að horfa beint í sólina um miðjan dag. Það myndi kosta okkur lífið að sjá þá gífurlegu orkulind sem skapaði bæði okkar skínandi sól og ótal aðrar sólir alheimsins.

Sem betur fer þurfum við ekki að sjá Guð til að fræðast um hann. Biblían bendir ekki einasta á þann sem bjó jörðina og gaf okkur þessa stórkostlegu gjöf heldur opinberar líka persónuleika hans. Það er þess virði að skyggnast inn í Biblíuna og kynnast föðurnum sem gaf okkur lífið og sá okkur fyrir undursamlegu heimili þar sem við getum notið lífsins.

Þýðing nafns hans

Öll nöfn merkja eitthvað þótt margir viti ekki hvað. Íslenska nafnið Davíð er til dæmis komið af hebresku orði sem merkir „elskaður.“ Nafn skaparans, Jehóva, hefur líka merkingu. Hver er hún? Á upprunalegu máli Biblíunnar, hebresku, er nafnið skrifað með fjórum bókstöfum sem samsvara JHVH, og það stendur næstum 7000 sinnum í hinum hebreska hluta hennar. Nafn Guðs er álitið merkja „hann kemur til leiðar.“ Það gefur í skyn að í visku sinni komi Jehóva því til leiðar að hann verði hvaðeina sem þarf til að ná fram tilgangi sínum. Hann er skapari, dómari og frelsari og hann viðheldur lífinu og getur þess vegna uppfyllt fyrirheit sín. Það sem meira er, á hebresku stendur nafnið í beygingarmynd sem gefur til kynna verknað sem stendur yfir. Jehóva er enn að vinna að því að láta tilgang sinn ná fram að ganga. Hann er lifandi Guð.

Höfuðeiginleikar Jehóva

Biblían segir að skaparinn sé „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ (2. Mósebók 34:6, 7) Hebreska orðið, sem hér er þýtt „gæskuríkur,“ er mjög merkingarþrungið. Það lýsir góðvild sem binst einhverju eða einhverjum með ástúð uns tilganginum með því er náð. Það má líka þýða það „tryggur kærleikur.“ Gæska Jehóva binst sköpunarverum hans á ástríkan hátt og lætur stórkostlegan tilgang hans ná fram að ganga. Myndi þér ekki þykja mikils virði að njóta slíkrar ástar frá lífgjafa þínum?

Jehóva er seinn til reiði og skjótur til að fyrirgefa mistök okkar. Það er notalegt að vera nátengdur slíkri persónu. En það merkir þó ekki að hann láti ranga breytni viðgangast. Hann lýsir yfir: „Ég, [Jehóva], elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán.“ (Jesaja 61:8) Hann er Guð réttlætisins og umber ekki endalaust óskammfeilna syndara sem halda áfram vonskuverkum sínum. Við megum því vera viss um að Jehóva leiðréttir ranglætið í heiminum þegar þar að kemur. Hann hunsar ekki þjakaða menn.

Það er ekki auðvelt að viðhalda fullkomnu jafnvægi milli kærleika og réttvísi. Ef þú ert foreldri finnst þér eflaust erfitt stundum að ákveða hvenær, hvernig og hve mikið þú átt að leiðrétta börn þín þegar þau hegða sér illa. Mikillar visku er krafist til að finna jafnvægið milli réttvísi og ástríkrar umhyggju. Jehóva sýnir þennan eiginleika ríkulega í samskiptum sínum við mennina. (Rómverjabréfið 11:33-36) Viska skaparans blasir reyndar alls staðar við, til dæmis í undrum sköpunarverksins sem eru allt í kringum okkur. — Sálmur 104:24; Orðskviðirnir 3:19.

En viska nægir ekki ein sér. Til að framkvæma tilgang sinn þarf skaparinn líka að vera máttugur og Biblían opinberar að hann sé afar máttugur: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ (Jesaja 40:26) Jehóva hrindir hlutunum í framkvæmd með ‚miklum krafti.‘ Finnst þér slíkur eiginleiki ekki aðlaðandi?

Guð allra þjóða

‚En er Jehóva ekki Guð Gamla testamentisins, Guð Gyðinga til forna?‘ spyrðu kannski. Það er rétt að Jehóva opinberaði sig Ísraelsmönnum. En sökum þess að Jehóva skapaði fyrstu mannhjónin er hann sá Guð sem „hvert faðerni fær nafn af á . . . jörðu.“ (Efesusbréfið 3:15) Ef þú telur rétt að virða forfeður þína, væri þá ekki viðeigandi að sýna lotningu honum sem gaf fyrsta manninum lífið, sameiginlegum forföður okkar sem allir ættstofnar jarðar nú á dögum eru sprottnir af?

Skapari mannkynsins er ekki þröngsýnn. Að vísu átti hann sérstakt samband við Ísraelsþjóðina forðum daga. En jafnvel á þeim tíma tók hann opnum örmum öllum sem ákölluðu nafn hans. Vitur Ísraelskonungur sagði í bæn til Jehóva: „Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns . . . þá heyr þú það á himnum . . . og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt.“ (1. Konungabók 8:41-43) Enn þann dag í dag geta menn af öllum þjóðum kynnst Jehóva og átt innihaldsríkt samband við hann. En hvernig snertir það þig?

Gagnið af því að þekkja Jehóva

Víkjum aftur að líkingunni í greininni á undan. Ef þú fengir pakka í fallegum umbúðum vildirðu auðvitað vita frá hverjum gjöfin væri. Hvernig áttu að nota hana og annast hana? Við viljum gjarnan vita hvað Guð hafði í huga þegar hann skapaði jörðina og bjó hana undir ábúð okkar. Biblían segir að hann hafi „eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn,“ heldur „myndað hana svo, að hún væri byggileg,“ það er að segja byggð mönnum. — Jesaja 45:18.

Flestir menn hafa hins vegar ekki farið vel með gjöf skaparans. Þeir eru að eyðileggja jörðina, Jehóva til mikillar skapraunar. En Jehóva er trúr nafni sínu og er staðráðinn í að láta upphaflegan tilgang sinn með manninn og jörðina rætast. (Sálmur 115:16; Opinberunarbókin 11:18) Hann mun lagfæra jörðina og gefa hana þeim sem eru fúsir til að lifa eins og hlýðin börn hans. — Matteus 5:5.

Síðasta bók Biblíunnar lýsir ástandinu þá: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans . . . Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Enginn mun þá fella sorgartár eða syrgja látinn ástvin. Enginn mun kalla örvæntingarfullur á hjálp eða þjást vegna banvænna sjúkdóma. Jafnvel „dauðinn . . . verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26; Jesaja 25:8; 33:24) Þetta er það líf sem Jehóva ætlaði okkur í upphafi að njóta þegar hann skapaði fyrstu forfeður okkar.

Nú þegar geturðu fengið forsmekk af slíkum paradísarskilyrðum meðal dýrkenda Jehóva. Hann segir þeim: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Jehóva er góður faðir sem kennir okkur, börnum sínum, að ganga bestu lífsleiðina. Lífsreglur hans byggjast ekki á óþörfum hömlum heldur kærleiksríkri vernd. Hamingja og frelsi fylgir því að lifa eftir lífsreglum hans eins og ritað er: „[Jehóva] er andinn, og þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ (2. Korintubréf 3:17) Þeir sem viðurkenna stjórn Guðs njóta nú þegar þess hugarfriðar sem síðar mun gagntaka allan mannheim, af því að þeir fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. — Filippíbréfið 4:7.

Jehóva er svo sannarlega góðviljaður faðir. Ertu fús til að kynnast betur þeim Guði sem stendur á bak við öll sköpunarundrin? Þeir sem gera það uppskera ómetanlega blessun nú þegar. Og í framtíðinni verður blessunin eilíf.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Nafn Guðs skrifað með hebresku bókstöfunum fjórum er að finna víða á veggjum gamalla kirkna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila