Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.7. bls. 3-5
  • Er reikistjarnan jörð dauðadæmd?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er reikistjarnan jörð dauðadæmd?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Myndræn ‚dómsdagslýsing‘
  • Óstjórn mannsins snúið við
  • Það er hægt
  • Guð lofar að jörðinni verði bjargað
    Vaknið! – 2023
  • Einstök reikistjarna ber vitni
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Getur jörðin framfleytt komandi kynslóðum?
    Vaknið! – 2008
  • Sköpuð til að vera varanlegt heimili mannsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.7. bls. 3-5

Er reikistjarnan jörð dauðadæmd?

TUTTUGASTA öldin er brátt á enda og sú 21. er að renna upp. Fólk sem að öllu jöfnu gefur lítinn eða engan gaum að dómsdagsspám fer við þessar aðstæður að velta fyrir sér hvort einhver atburður sé á næsta leiti sem setur heiminn á annan endann.

Kannski hefurðu séð greinar um þetta mál í dagblöðum eða tímaritum — eða jafnvel heilar bækur. Tíminn einn leiðir í ljós hvaða atburðir gerast við upphaf 21. aldar. Sumir benda á að munurinn á árinu 2000 og 2001 sé aðeins eitt ár (eða ein mínúta) og því fylgi trúlega engir stórviðburðir. Margir hafa meiri áhyggjur af framtíð jarðar til lengri tíma litið.

Einn spádómur heyrist æ oftar nú orðið og hann er sá að einhvern tíma — annaðhvort í náinni framtíð eða fjarlægri — sé reikistjarnan jörð dæmd til gereyðingar. Tökum dæmi um tvær hrakspár af þessu tagi.

Heimspekingurinn John Leslie segir í bók sinni frá 1996, The End of the World — The Science and Ethics of Human Extinction, að líf mannkynsins á jörðinni kunni að enda á þrjá vegu. Fyrst spyr hann: „Gæti mannkynið liðið undir lok í allsherjarkjarnorkustríði?“ Síðan bætir hann við: „Það er öllu líklegra . . . að mannkynið deyi út af völdum geislunar sem veldur krabbameini og veiklar ónæmiskerfið svo að smitsjúkdómar verða óviðráðanlegir, eða þá að fæðingargallar stóraukist. Þá er hugsanlegt að ýmsar örverur deyi sem eru umhverfinu lífsnauðsynlegar.“ Þriðji möguleikinn, sem Leslie setur fram, er sá að halastjarna eða smástirni rekist á jörðina: „Það virðast vera til um 2000 halastjörnur og smástirni sem eru á bilinu einn til tíu kílómetrar í þvermál og eru á braut sem gæti skorið braut jarðar. Þá eru til miklu færri halastjörnur og smástirni sem eru stærri en þetta (það væri hrein ágiskun að reyna að áætla fjöldann) og miklu fleiri sem eru smærri.“

Myndræn ‚dómsdagslýsing‘

Og þá er að nefna hrakspá vísindamannsins, Pauls Davies sem er prófessor við Adelaide-háskóla í Ástralíu. Honum var lýst í dagblaðinu Washington Times sem „besta vísindarithöfundi í heimi.“ Árið 1994 skrifaði hann bókina The Last Three Minutes sem hefur verið kölluð „móðir allra dómsdagsbóka.“ Fyrsti kafli þessarar bókar er kallaður „Dómsdagur“ og lýsir ímyndaðri atburðarás ef halastjarna rækist á jörðina. Lestu hrollvekjandi lýsingu hans:

„Jörðin nötrar eins og undan tíu þúsund jarðskjálftum. Loft-höggbylgja geysist um hnöttinn, jafnar allar byggingar við jörðu og mölbrýtur allt sem verður á vegi hennar. Flatneskjan umhverfis árekstrarstaðinn þrýstist upp í nokkurra kílómetra háum fjallahring úr bráðnu grjóti og iður jarðar blasa við ofan í gíg sem er 150 kílómetrar í þvermál. . . . Gríðarleg skýsúla úr ryki og grjóti stígur upp í andrúmsloftið og byrgir fyrir sólarljósið um alla jörðina. Í stað sólarljóssins kemur óheillavænlegur og flöktandi glampi frá milljarði, sjóðheitra loftsteina sem steikja jörðina þegar grjóti rignir aftur inn í gufuhvolfið utan úr geimi.“

Prófessor Davies tengir þessa ímynduðu atburðarás við þá spá að halastjarnan Swift-Tuttle rekist á jörðina. Hann bætir við að enda þótt slíkur atburður sé ekki líklegur í náinni framtíð gerist það „fyrr eða síðar að Swift-Tuttle eða eitthvað henni líkt rekist á jörðina.“ Þessi ályktun hans er byggð á því mati að 10.000 smástirni eða halastjörnur, sem eru hálfur kílómetri eða meira í þvermál, skeri braut jarðar.

Trúirðu að það sé fótur fyrir þessari ógnvekjandi framtíðarsýn? Ótrúlega margir gera það. En þeir telja sér trú um að það sé ástæðulaust að óttast því að það gerist ekki meðan þeir lifi. Hvers vegna ætti reikistjarnan jörð að tortímast — annaðhvort bráðlega eða eftir einhverjar árþúsundir? Jörðin sjálf er auðvitað ekki meginorsök þeirra erfiðleika sem byggjendur hennar, bæði menn og dýr, eiga við að etja. Er það ekki maðurinn sjálfur sem ber sök á flestum vandamálum 20. aldar, meðal annars þeim möguleika að ‚eyða jörðina‘ með öllu? — Opinberunarbókin 11:18.

Óstjórn mannsins snúið við

Hvað um þann möguleika, sem er öllu líklegri, að maðurinn sjálfur eyðileggi jörðina algerlega með óstjórn sinni og græðgi? Ljóst er að feikilegt tjón hefur verið unnið á stórum jarðarflæmum með gegndarlausri eyðingu skóga, stjórnlausri loftmengun og spillingu vatnsfalla. Þau Barbara Ward og René Dubos lýstu ástandinu vel fyrir aldarfjórðungi í bók sinni Only One Earth: „Þrjú helstu mengunarsvæðin sem við þurfum að athuga — loft, vatn og jarðvegur — eru að sjálfsögðu þrjár helstu meginforsendur lífs á jörðinni.“ Og ástandið hefur í meginatriðum ekki batnað síðan, er það?

Þegar á það er litið að maðurinn skuli geta eytt jörðina sökum eigin heimsku er það mjög hvetjandi hve einstaka hæfni reikistjarnan jörð hefur til að endurnýja sig. Í annarri bók, The Resilience of Ecosystems, lýsir René Dubos þessari undraverðu endurnýjunarhæfni og segir:

„Margir óttast að maðurinn hafi vaknað of seint til vitundar um umhverfiseyðinguna því að tjónið á vistkerfunum sé óbætanlegt. Ég tel þessa bölsýni ekki eiga rétt á sér því að vistkerfin hafa gríðarlegt endurnýjunarafl eftir tjón og áföll.

Vistkerfin ráða yfir margþættum sjálflæknibúnaði. . . . Hann auðveldar vistkerfunum að ná sér eftir að þeim hefur verið raskað, með því einfaldlega að koma smám saman á upphaflegu jafnvægi.“

Það er hægt

Hreinsun hinnar frægu Thamesár í Lundúnum er afbragðsdæmi um slíka endurnýjun og sýnir hverju má áorka til almannaheilla með samstilltu átaki. Bókin The Thames Transformed, eftir þá Jeffery Harrison og Peter Grant, lýsir þessu einstæða afreki. Hertoginn af Edinborg skrifaði í formála bókarinnar: „Loksins getum við sagt sögu sem hefur farsælan endi, svo mikla afrekssögu að hún er þess virði að birta hana jafnvel þótt sumir gætu dregið þá ályktun af henni að umhverfisverndarvandinn sé ekki eins alvarlegur og þeim hafði verið talin trú um. . . . Það sem áunnist hefur í Thamesá er þeim öllum hvatning. Góðu tíðindin eru þau að þetta er gerlegt og að áform þeirra geta líka heppnast.“

Í kaflanum „Hreinsunin mikla“ fjalla Harrison og Grant með ákefð um það sem áunnist hefur síðastliðin 50 ár: „Í fyrsta sinn í sögu heims hefur gríðarlega menguð iðnaðará verið hreinsuð nægilega til að vatnafugl og fiskur hafa snúið aftur í stórum stíl. Svona hröð umskipti við aðstæður, sem virtust vonlausar í fyrstu, vekja vonir í brjósti svartsýnustu náttúruverndarsinna.“

Síðan lýsa þeir umskiptunum: „Ástand árinnar versnaði jafnt og þétt með árunum og kannski má segja að rothöggið hafi komið í síðari heimsstyrjöldinni þegar stórar skolphreinsistöðvar og skolplagnir skemmdust eða eyðilögðust. Á fimmta og sjötta áratugnum var ástand Thamesárinnar hrikalegt. Hún var varla annað en opið skolpræsi. Vatnið var svart og súrefnislaust, og yfir sumarmánuðina barst fnykurinn frá ánni langar leiðir. . . . Áin hafði verið kvik af fiski sem nú var horfinn, ef frá eru taldir fáeinir álar sem tórðu af því að þeir gátu andað að sér lofti beint frá yfirborðinu. Ekkert var eftir af fuglalífinu á byggðu svæðunum milli Lundúna og Woolwich nema fáeinar stokkendur og hnúðsvanir, og viðurværi þeirra var ekki náttúrlegt heldur lifðu þeir á korninu sem fór niður við kornbryggjurnar. . . . Hver hefði getað ímyndað sér þá hversu gríðarleg umskipti áttu eftir að verða? Á innan við tíu árum breyttust þessi sömu ársvæði úr hreinni fuglaauðn í athvarf fyrir margar tegundir vatnafugla. Nú hafa þar vetursetu allt að 10.000 endur og gæsir og 12.000 vaðfuglar.“

En þetta er auðvitað aðeins dæmi um umskipti sem orðið hafa á einum afkima jarðar. Engu að síður má draga nokkurn lærdóm af. Þetta dæmi sýnir að reikistjarnan jörð þarf ekki að vera dauðadæmd sökum óstjórnar, græðgi og hugsunarleysis manna. Með réttri menntun og samstilltu átaki til almannaheilla má snúa þróuninni við og lagfæra jafnvel gríðarlegar skemmdir á vistkerfi og lífríki jarðar. En hvað um hugsanleg ragnarök af völdum utanaðkomandi afla, svo sem halastjörnu eða smástirnis?

Í greininni á eftir er að finna lykil að viðunandi svari við þessari torræðu spurningu.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Með menntun og samstilltu átaki er hægt að snúa þróuninni við og lagfæra jafnvel gríðarlegar skemmdir á vistkerfi jarðar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila