Jörðin — til hvers var hún gerð?
Þú ættir að velta fyrir þér einni spurningu: Er þessi fagra reikistjarna sköpuð af gáfuðum skapara sem hafði tilgang með því að gera hana og mennina sem búa á henni? Viðunandi svar við þeirri spurningu getur bent þér á hvaða framtíð jörðin eigi sér.
MARGIR vísindamenn, sem hafa stundað ítarlegar rannsóknir á alheiminum og jörðinni, hafa séð ýmis rök fyrir því að til sé skapari, að Guð standi að baki þessu öllu. Lítum á ábendingar eins þeirra:
Prófessor Paul Davies segir í bókinni The Mind of God: „Sú staðreynd að til er skipulegur og samfelldur alheimur með varanlegum, regluföstum og margbrotnum fyrirbærum kallar á mjög sérstök skilyrði og lög.“
Eftir að hafa fjallað um fjölmargar „tilviljanir,“ sem stjarneðlisfræðingar og aðrir vísindamenn hafa bent á, bætir prófessor Davies við: „Allar samanlagðar eru þær sterk rök fyrir því að lífið, eins og við þekkjum það, sé afar háð gerð eðlisfræðilögmálanna og gildum sem náttúran hefur valið fyrir ýmsa öreindamassa, krafta og svo framvegis, að því er virðist af hreinni hendingu. . . . Nægir að nefna að ef við gætum leikið Guð og valið þessi gildi að eigin geðþótta með því að fitla við nokkra hnappa, þá myndu næstum allar hnappastillingar gera alheiminn óbyggilegan. Í sumum tilfellum virðist þurfa að fínstilla hnappana af gríðarlegri nákvæmni til að alheimurinn geti framfleytt lífi. . . . Sú staðreynd að smávægilegustu breytingar á lögum og skipulagi alheimsins myndu gera hann ósýnilegan er vissulega afar þýðingarmikil.“
Í hugum margra gefur þetta til kynna að jörðin og alheimurinn allur sé verk skapara sem hefur tilgang. Ef svo er þurfum við að komast að raun um hvers vegna hann skapaði jörðina. Við þurfum líka að komast að því hver sé tilgangur hans með jörðina, ef hægt er. Hér rekumst við á kynlegt fyrirbæri. Þrátt fyrir útbreitt guðleysi trúa furðumargir enn þá að til sé vitur skapari. Flestar kirkjudeildir kristna heimsins tala til málamynda um alvaldan Guð og skapara alheimsins en minnast sárasjaldan með nokkurri sannfæringu og trausti á framtíð jarðar í fyrirætlun hans.
Hvað segir Biblían?
Það er rökrétt að leita fanga í upplýsingaheimild sem almennt er viðurkennt að sé frá skaparanum komin. Hér er átt við Biblíuna. Einhver einfaldasta og skýrasta yfirlýsing hennar um framtíð jarðar stendur í Prédikaranum 1:4. Þar lesum við: „Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.“ Biblían útskýrir hreint og beint hvers vegna Jehóva Guð skapaði jörðina. Hún sýnir líka fram á að hann hafi staðsett hana rétt í alheiminum og í réttri fjarlægð frá sól til að geta viðhaldið lífi. Alvaldur Guð innblés spámanninum Jesaja að skrifa endur fyrir löngu: „Svo segir [Jehóva], sá er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er [Jehóva], og enginn annar.“ — Jesaja 45:18.
En hvað um það að maðurinn skuli nú geta gereytt öllu lífi á jörðinni? Í óviðjafnanlegri visku sinni lýsir Guð yfir að hann muni grípa í taumana áður en mannkynið getur eytt öllu lífi á jörðinni. Lestu hughreystandi loforð hans í síðustu bók Biblíunnar, Opinberunarbókinni: „Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:18.
Jehóva upplýsir okkur um hver hafi verið upphaflegur tilgangur hans með sköpun jarðar, þessa gimsteins í geimnum eins og geimfari á braut um jörð lýsti henni. Það var ætlun Guðs að jörðin öll yrði ein paradís byggð mönnum — körlum og konum — að þægilegu marki. Allir áttu að búa saman í sátt og samlyndi. Hann gerði ráðstafanir til að byggja jörðina smám saman með því að leyfa fyrstu mannhjónunum að eignast börn. Jehóva gróðursetti paradís á litlum jarðarskika, þessum fyrstu hjónum til yndis og ánægju. Þegar ár og aldir liðu og mönnunum fjölgaði myndi Edengarðurinn smám saman stækka uns 1. Mósebók 1:28 uppfylltist: „Guð sagði við þau: ‚Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.‘“
Þegar við lítum á hið sorglega ástand jarðar og jarðarbúa má spyrja hvort þessi upphaflegi tilgangur Guðs hafi brugðist. Hefur hann kannski skipt um skoðun og ákveðið að leyfa einþykku mannkyni að gereyða jörðina, svo að hann geti síðan byrjað aftur upp á nýtt? Nei, við megum vera viss um að hvorugt er rétt. Biblían segir okkur að allt sem Jehóva ætlar sér hljóti að eiga sér stað fyrr eða síðar, og að hvorki menn né óvænt þróun mála geti haggað því sem hann ákveður. Hann fullvissar okkur: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.
Tilgangur Guðs hefur ekki breyst
Með svikum Adams og Evu og brottrekstri þeirra úr Edengarðinum varð ljóst að tilgangur Guðs með paradís á jörð yrði að nást án þeirra. En Jehóva lét í ljós þar og þá að sumir afkomenda þeirra myndu framkvæma tilskipun hans. Það tæki að vísu tíma, jafnvel margar aldir, en það er enga vísbendingu að finna um það hve langan tíma það hefði tekið að gera það jafnvel þótt Adam og Eva hefðu bæði lifað fullkomin áfram. Staðreyndin er sú að við lok þúsund ára stjórnar Jesú Krists — eftir rösklega þúsund ár frá deginum í dag — verða paradísarskilyrði Edengarðsins búin að teygja sig út um alla jörðina og hún verður byggð friðsömum og hamingjusömum afkomendum fyrstu mannhjónanna. Jehóva verður réttlættur um eilífð fyrir það að tilgangur hans nái alltaf fram að ganga.
Þá uppfyllast hrífandi spádómar sem Guð innblés endur fyrir löngu. Ritningargreinar eins og Jesaja 11:6-9 rætast með stórkostlegum hætti: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“
Heilsubrestur og banvænir sjúkdómar heyra þá sögunni til, rétt eins og dauðinn sjálfur. Er hægt að ímynda sér skýrari lýsingu en þessi einföldu orð í síðustu bók Biblíunnar? „Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Já, við getum verið hughraust — hið fagra heimili okkar, jörðin, á framtíð fyrir sér. Megir þú verða þeirrar gæfu aðnjótandi að lifa af endalok þessa illa heimskerfis og alls sem spillir jörðinni. Hinn nýi og hreini heimur, sem Guð skapar, er í nánd. Og látnir ástvinir verða vaktir af dauðasvefni hópum saman í upprisunni. (Jóhannes 5:28, 29) Já, jörðin á framtíð fyrir sér og við getum búið á henni endalaust og notið gæða hennar.