Er ranglæti óhjákvæmilegt?
„Ég trúi því, að mennirnir séu í innsta eðli sínu góðir, þrátt fyrir allt. Ég sé enga leið til þess að byggja vonir mínar á eintómri upplausn, eymd og dauða.“ — Anna Frank.
ANNA FRANK, 15 ára gyðingastúlka, skrifaði þessi áhrifamiklu orð í dagbók sína skömmu áður en hún dó. Fjölskylda hennar hafði verið í felum í húsi í Amsterdam í rösklega tvö ár. Vonir hennar um betri heim urðu að engu þegar uppljóstrari gerði nasistum viðvart um dvalarstað þeirra. Anna dó úr taugaveiki árið eftir í Bergen-Belsen fangabúðunum. Það var árið 1945. Sex milljónir Gyðinga hlutu áþekk örlög.
Hin djöfullega fyrirætlun Hitlers að útrýma heilli þjóð er ef til vill hrikalegasta dæmið um kynþáttamisrétti á okkar öld, en alls ekki það eina. Árið 1994 var rösklega hálf milljón Tútsa strádrepin í Rúanda fyrir það eitt að tilheyra „röngum“ ættflokki. Og um ein milljón Armena lést í þjóðernishreinsunum í fyrri heimsstyrjöldinni.
Grimmilegar ásjónur ranglætisins
Þjóðarmorð er aðeins ein af mörgum ásjónum ranglætisins. Um fimmtungur mannkyns er dæmdur til ævilangrar örbirgðar sökum þjóðfélagslegs ranglætis. Og mannréttindahópurinn Anti-Slavery International áætlar að rösklega 200.000.000 manna séu ánauðugar. Hugsanlegt er að fleiri þrælar séu í heiminum núna en nokkru sinni fyrr í sögunni. Þeir eru að vísu ekki seldir á opinberu uppboði en vinnuskilyrði þeirra eru iðulega verri en flestir þrælar fyrr á tímum máttu búa við.
Lagalegt ranglæti rænir milljónir manna grundvallarréttindum sínum. „Stórfelld mannréttindabrot eru framin nánast daglega einhvers staðar í heiminum,“ að því er segir í skýrslu Amnesty International um árið 1996. „Fátækir og bágstaddir, einkum konur, börn, aldraðir og flóttamenn, eru varnarlausastir.“ Í skýrslunni segir enn fremur: „Í sumum löndum eru innviðir þjóðríkisins næstum hrundir og engin lögleg yfirvöld eftir til að vernda hina veiku gegn hinum sterku.“
Árið 1996 voru tugþúsundir manna í meira en hundrað löndum hafðar í haldi og pyndaðar. Og á síðustu árum hafa hundruð þúsunda manna hreinlega horfið, trúlega rænt af öryggissveitum eða hryðjuverkahópum. Margir þeirra eru taldir af.
Stríð eru auðvitað alltaf ranglát en ranglætið fer versnandi. Nútímahernaður beinist gegn óbreyttum borgurum, þeirra á meðal konum og börnum. Og það stafar ekki eingöngu af sprengjuárásum á borgir. Það er orðinn fastur þáttur í hernaðaraðgerðum að nauðga konum og stúlkum, og uppreisnarmenn ræna börnum til að þjálfa þau í manndrápum. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum, sem nefnist „Áhrif hernaðarátaka á börn,“ er fjallað um þessa þróun mála. Þar segir: „Æ stærri hluti af heiminum er að sogast inn í ömurlegt siðferðilegt tómarúm.“
Enginn vafi leikur á því að þetta siðferðilega tómarúm hefur gert að verkum að heimurinn er gagnsýrður ranglæti — hvort heldur það er þjóðfélagslegt eða lagalegt, eða orsakast af hernaði og kynþáttamisrétti. Þetta er auðvitað engin nýlunda. Fyrir meira en tvö þúsund og fimm hundruð árum sagði hebreskur spámaður mæðulega: „Lögmálið er veikbyggt og gagnslaust og réttlætið nær aldrei fram að ganga. Vondir menn verða hinum réttlátu yfirsterkari svo að réttlætinu er rangsnúið.“ (Habakkuk 1:4, Today’s English Version) Ranglætið hefur alltaf verið mikið en það hefur hins vegar náð nýjum hápunkti á 20. öldinni.
Skiptir ranglætið máli?
Það skiptir máli þegar þú verður sjálfur fyrir barðinu á ranglætinu. Það skiptir máli af því að það sviptir meirihluta mannkyns rétti sínum til hamingju. Og það skiptir líka máli vegna þess að ranglætið er oft kveikja blóðugra átaka sem viðhalda síðan ranglætisbálinu.
Friður og hamingja eru órjúfanlega tengd réttlæti, en ranglætið spillir von og brýtur niður bjartsýni. Eins og Anna Frank komst að raun um með átakanlegum hætti getur fólk ekki byggt vonir sínar á eintómri upplausn, eymd og dauða. Líkt og hún þráum við öll eitthvað betra.
Þessi þrá hefur knúið einlægt fólk til að reyna að koma á einhvers konar réttlæti í mannlegu samfélagi. Það var þessi þrá sem var hvati mannréttindayfirlýsingarinnar sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1948. Þar segir: „Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvizku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“
Þetta eru göfug orð en það er enn langt í land að mannkynið nái þessu langþráða markmiði — að byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem allir njóta jafnra réttinda og allir koma fram hver við annan eins og bræður. Í inngangsorðum mannréttindayfirlýsingarinnar er bent á að náist þetta markmið sé það „undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“
Er ranglætið svo samgróið mannlegu samfélagi að það verði aldrei upprætt? Eða verður einhvern veginn hægt að leggja trausta undirstöðu að frelsi, friði og réttlæti? Ef svo er, hver getur þá gert það og tryggt að allir njóti góðs af?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 3]
UPI/Corbis-Bettmann