Jehóva — uppspretta réttlætis og réttvísi
„Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus.“ — 5. MÓSEBÓK 32:4.
1. Af hverju er réttlætisþörfin okkur eiginleg?
ÞÖRFIN fyrir að vera elskaður er okkur meðfædd á sama hátt og réttlætisþráin. „[Réttlætiskennd] er meðfædd og ásköpuð . . . jafneðlislæg og tilfinning, sjón og heyrn,“ skrifaði bandaríski stjórnmálamaðurinn Thomas Jefferson. Það er ekkert undarlegt því að Jehóva skapaði okkur í sinni mynd. (1. Mósebók 1:26) Hann gæddi okkur eiginleikum sem endurspegla persónuleika hans sjálfs, og einn þeirra er réttlætiskennd. Þess vegna er réttlætisþörfin okkur eiginleg svo lengi sem við lifum, og þess vegna þráum við að búa við ósvikið réttlæti og réttvísi.
2. Hve mikilvægt er réttlætið fyrir Jehóva og hvers vegna þurfum við að skilja hvað réttlæti hans merkir?
2 Biblían fullvissar okkur um að ‚allir vegir Jehóva séu réttlæti.‘ (5. Mósebók 32:4) En í heimi, sem er gagnsýrður ranglæti, er ekki auðhlaupið að því að skilja hvað hugtakið réttlæti Guðs merkir. Á blöðum Biblíunnar sjáum við hins vegar hvernig Guð beitir réttlæti sínu og við getum öðlast enn dýpri virðingu fyrir stórkostlegum vegum hans. (Rómverjabréfið 11:33) Það er mikilvægt að skilja biblíulega merkingu hugtakanna réttlætis og réttvísi því að réttlætishugmynd okkar gæti hafa orðið fyrir áhrifum af viðhorfum manna. Frá mannlegum sjónarhóli má líta svo á að réttlæti sé ekkert annað en hlutlaus beiting laga. Eða eins og heimspekingurinn Francis Bacon skrifaði: „Réttlæti er það að veita hverjum manni það sem hann verðskuldar.“ En réttlæti Jehóva er miklu meira en það.
Réttlæti Jehóva er hlýlegt
3. Hvað má læra af þeim orðum sem notuð eru á frummálum Biblíunnar um réttvísi og réttlæti?
3 Við getum glöggvað okkur á því hve yfirgripsmikið réttlæti Guðs er með því að skoða notkun viðkomandi hugtaka á frummálum Biblíunnar.a Athygli vekur að Ritningin gerir engan marktækan greinarmun á hugtökunum réttlæti og réttvísi. Hebresku orðin eru stundum notuð jafnhliða eins og til dæmis í Amosi 5:24 þar sem Jehóva hvetur fólk sitt: „Lát heldur réttinn [„réttvísina,“ NW] vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk.“ Stundum standa orðin ‚réttlæti og réttur‘ eða réttvísi saman í áhersluskyni. — Sálmur 33:5; Jesaja 33:5; Jeremía 33:15; Esekíel 18:21; 45:9.
4. Hvað merkir það að iðka réttlæti og hver er hinn fullkomni réttlætisstaðall?
4 Hvað merkja þessi hebresku og grísku orð? Að iðka réttlæti í biblíulegum skilningi merkir að gera það sem er rétt og sanngjarnt. Þar eð Jehóva setur lög og meginreglur um siðferði, um það hvað sé rétt og sanngjarnt, eru starfshættir hans hinn fullkomni réttlætisstaðall. Orðabókin Theological Wordbook of the Old Testament útskýrir að hebreska orðið, sem þýtt er réttlæti (tseʹðeq), ‚vísi til siðfræði- og siðferðilegs mælikvarða og í Gt [Gamla testamentinu] sé þessi mælikvarði auðvitað eðli og vilji Guðs.‘ Með öðrum orðum birtist raunverulegt réttlæti og réttvísi í því hvernig Guð beitir meginreglum sínum, sérstaklega þó hvernig hann kemur fram við ófullkomna menn.
5. Hvaða eiginleikar eru nátengdir réttlæti Guðs?
5 Ritningin sýnir greinilega að réttlæti Guðs er hlýlegt en ekki harðneskjulegt og ósveigjanlegt. Davíð söng: „[Jehóva] hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu.“ (Sálmur 37:28) Réttlæti Guðs fær hann til að vera trúfastan og meðaumkunarsaman í garð þjóna sinna. Réttlæti Guðs er næmt á þarfir okkar og tekur tillit til ófullkomleika okkar. (Sálmur 103:14) Þetta merkir ekki að Guð láti vonskuna viðgangast; þá væri hann að hvetja til ranglætis. (1. Samúelsbók 3:12, 13; Prédikarinn 8:11) Hann útskýrði fyrir Móse að hann væri „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.“ Þótt hann sé fús til að fyrirgefa misgerðir og afbrot lætur hann þeim ekki óhegnt sem verðskulda hegningu. — 2. Mósebók 34:6, 7.
6. Hvernig fer Jehóva með jarðnesk börn sín?
6 Þegar við hugleiðum hvernig Jehóva iðkar réttlæti ættum við ekki að sjá hann fyrir okkur sem strangan dómara sem hugsar um það eitt að dæma syndara. Við ættum að hugsa um hann sem kærleiksríkan og ákveðinn föður sem fer alltaf eins vel með börnin sín og hægt er. „[Jehóva]! Þú ert faðir vor!“ sagði spámaðurinn Jesaja. (Jesaja 64:7) Jehóva er réttsýnn og réttlátur faðir. Hann mildar fastheldni sína á það sem rétt er með blíðri umhyggju fyrir jarðneskum börnum sínum sem þarfnast hjálpar eða fyrirgefningar vegna erfiðra aðstæðna eða veikleika holdsins. — Sálmur 103:6, 10, 13.
Að skýra hvað réttlæti er
7. (a) Hvað lærum við af spádómi Jesaja um réttlæti Guðs? (b) Hvaða hlutverki gegnir Jesús í því að kenna þjóðunum réttlæti?
7 Meðaumkunin í réttlæti Jehóva sýndi sig vel með komu Messíasar. Jesús boðaði réttlæti Guðs og lifði eftir því eins og spámaðurinn Jesaja hafði spáð. Ljóst er að réttlæti Guðs felur í sér mildi gagnvart kúguðum. Þeir bugast því ekki. Jesús, ‚þjónn‘ Jehóva, kom til jarðar til að „boða þjóðunum rétt,“ það er að segja að kenna þessa hlið á réttlæti hans. Það gerði hann öðru fremur með því að gefa okkur lifandi fordæmi um það hvað réttlæti Guðs er. Jesús var hinn réttláti eða ‚rétti kvistur‘ Davíðs konungs og var áfram um að ‚leita réttinda og temja sér réttlæti.‘ — Jesaja 16:5; 42:1-4; Matteus 12:18-21; Jeremía 33:14, 15.
8. Hvers vegna voru réttlæti og réttvísi orðin óljós á fyrstu öldinni?
8 Á fyrstu öld var sérstaklega nauðsynlegt að skýra hvers eðlis réttlæti Jehóva væri. Öldungar og trúarleiðtogar Gyðinga — fræðimenn, farísear og fleiri — gáfu með fordæmi sínu og kennslu afskræmda mynd af réttvísi og réttlæti hans. Almenningur gat alls ekki staðið undir kröfum fræðimanna og farísea og ímyndaði sér líklega að réttlæti Guðs væri langt utan seilingar. (Matteus 23:4; Lúkas 11:46) Jesús sýndi fram á að svo væri ekki. Hann valdi sér lærisveina úr hópi almennings og kenndi þeim réttláta staðla Guðs. — Matteus 9:36; 11:28-30.
9, 10. (a) Hvernig reyndu fræðimenn og farísear að sýna fram á réttlæti sitt? (b) Hvernig og hvers vegna opinberaði Jesús að tilraunir fræðimanna og farísea væru til einskis?
9 Farísearnir leituðu hins vegar færis að flagga „réttlæti“ sínu með því að biðjast fyrir eða gefa ölmusugjafir á almannafæri. (Matteus 6:1-6) Þeir reyndu líka að sýna fram á réttlæti sitt með því að halda ótal lög og reglur — sem margar voru þeirra eigin smíð. Það varð þess valdandi að þeir ‚hirtu ekki um réttlæti og kærleika Guðs.‘ (Lúkas 11:42) Þeir virtust kannski réttlátir út á við en hið innra voru þeir ‚fullir ranglætis.‘ (Matteus 23:28) Þeir vissu hreinlega ósköp lítið um réttlæti Guðs.
10 Þar af leiðandi varaði Jesús fylgjendur sína við: „Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.“ (Matteus 5:20) Hin skýra andstæða milli réttlætis Guðs, sem birtist í fordæmi Jesú, og þröngsýni fræðimanna og farísea, sem voru réttlátir að eigin mati, var kveikjan að tíðum deilum milli þeirra.
Réttlæti Guðs og afskræmt réttlæti
11. (a) Af hverju spurðu farísearnir Jesú um lækningar á hvíldardegi? (b) Hvað leiddi svar Jesú í ljós?
11 Þegar Jesús starfaði í Galíleu vorið 31 kom hann auga á mann með visna hönd í samkunduhúsi einu. Þetta var á hvíldardegi svo að farísearnir spurðu Jesú: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?“ Þeir báru greinilega enga umhyggju fyrir þessum vesalings manni í þjáningum hans heldur voru þeir að leita að átyllu til að fordæma Jesú eins og spurning þeirra bar vott um. Harðúð þeirra hryggði Jesú sem vonlegt var. Hann spurði þá um hæl í sama dúr: ‚Er leyfilegt að gera gott á hvíldardegi?‘ Þeir þögðu og Jesús svaraði þá spurningu sinni með því að spyrja hvort þeir myndu ekki bjarga sauðkind sem félli í gryfju á hvíldardegi.b „Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri!“ Þetta voru óhrekjandi rök. „Það er því leyfilegt [eða rétt] að gjöra góðverk á hvíldardegi,“ bætti hann við. Erfðavenjur manna áttu aldrei að hefta réttlæti Guðs. Jesús læknaði manninn eftir að hann hafði komið því á framfæri. — Matteus 12:9-13; Markús 3:1-5.
12, 13. (a) Hvernig sýndi Jesús áhuga sinn á að hjálpa syndurum, ólíkt fræðimönnunum og faríseunum? (b) Hver er munurinn á réttlæti Guðs og því að vera réttlátur að eigin mati?
12 Umhyggja faríseanna fyrir sjúkum og fötluðum var ekki mikil, en minni var hún þó fyrir andlega snauðu fólki. Brengluð réttlætishugmynd þeirra olli því að þeir hunsuðu og fyrirlitu tollheimtumenn og syndara. (Jóhannes 7:49) Margt slíkt fólk tók hins vegar við kennslu Jesú. Það skynjaði eflaust að hann vildi hjálpa því en ekki dæma það. (Matteus 21:31; Lúkas 15:1) Farísearnir reyndu hins vegar að gera viðleitni Jesú til að lækna andlega sjúka menn tortryggilega. „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim,“ tautuðu þeir í ásökunartón. (Lúkas 15:2) Jesús tók aftur líkingu frá hjarðgæslu þegar hann svaraði ásökunum þeirra. Englarnir á himnum fagna þegar syndari iðrast, líkt og fjárhirðir fagnar því að finna týndan sauð. (Lúkas 15:3-7) Jesús fagnaði sjálfur þegar hann gat hjálpað Sakkeusi að iðrast syndugrar breytni sinnar. „Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það,“ sagði hann. — Lúkas 19:8-10.
13 Þessir árekstar sýna greinilega muninn á réttlæti Guðs, sem reynir að lækna og bjarga, og siðferðilegri sjálfumgleði manna sem reyna að upphefja fáeina og fordæma fjöldann. Innantómir trúarsiðir og erfðavenjur manna höfðu gert faríseana og fræðimennina hrokafulla og sjálfsánægða, en Jesús benti réttilega á að þeir hefðu ‚ekki hirt um það sem mikilvægast væri í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.‘ (Matteus 23:23) Megum við líkja eftir Jesú með því að iðka ósvikið réttlæti í öllu sem við gerum, og einnig með því að gæta þess að falla ekki í þá tálgryfju að álíta okkur réttlátari en aðra.
14. Hvernig sýnir eitt af kraftaverkum Jesú að réttlæti Guðs tekur tillit til aðstæðna fólks?
14 Jesús hélt Móselögmálið þótt hann hunsaði gerræðislegar reglur faríseanna. (Matteus 5:17, 18) Hann gætti þess þó að láta ekki bókstaf þessa réttláta lögmáls skyggja á meginreglur þess. Þegar kona, sem hafði þjáðst af blæðingum í 12 ár, snerti klæði hans og læknaðist sagði hann við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“ (Lúkas 8:43-48) Samúðin í orðum Jesú staðfesti að réttlæti Guðs hefði tekið tillit til aðstæðna hennar. Enda þótt hún væri trúarlega óhrein og hefði strangt til tekið brotið Móselögin með því að vera meðal fjöldans verðskuldaði hún umbun fyrir trú sína. — 3. Mósebók 15:25-27; samanber Rómverjabréfið 9:30-33.
Réttlætið er fyrir alla
15, 16. (a) Hvað kennir dæmisaga Jesú um miskunnsama Samverjann okkur um réttlæti? (b) Af hverju ættum við að gæta þess að vera ekki ‚of réttlát‘?
15 Auk þess að leggja áherslu á meðaumkunina í réttlæti Guðs kenndi Jesús lærisveinum sínum að það ætti að ná til allra manna. Það var vilji Jehóva að hann ‚boðaði þjóðunum rétt.‘ (Jesaja 42:1) Það var kjarninn í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann sem er ein frægasta dæmisaga Jesú. Hún var svar við spurningu lögvitrings sem vildi „réttlæta sjálfan sig.“ „Hver er þá náungi minn?“ spurði hann, eflaust í von um að takmarka náungaábyrgð sína við Gyðinga. Samverjinn í dæmisögu Jesú var réttlátur að fyrirmynd Guðs því að hann var tilbúinn til að eyða tíma sínum og fjármunum í að hjálpa ókunnum manni af öðru þjóðerni. Jesús lauk dæmisögunni með því að ráðleggja spyrjandanum: „Gjör hið sama.“ (Lúkas 10:25-37) Ef við gerum öllum mönnum gott óháð kynþætti eða þjóðerni erum við að líkja eftir réttlæti Guðs. — Postulasagan 10:34, 35.
16 Fordæmi fræðimanna og farísea minnir okkur hins vegar á að við megum ekki vera ‚of réttlát‘ ef við viljum iðka réttlæti Guði að skapi. (Prédikarinn 7:16) Við ávinnum okkur ekki velþóknun hans með því að reyna að flíka réttlæti okkar eða leggja óhóflega mikið upp úr mannareglum. — Matteus 6:1.
17. Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að sýna réttlæti að fyrirmynd Guðs?
17 Jesús opinberaði þjóðunum hvers eðlis réttlæti Guðs væri meðal annars til að allir lærisveinar hans gætu lært að sýna það. Af hverju er það svona mikilvægt? Ritningin hvetur okkur til að ‚verða eftirbreytendur Guðs,‘ og allir vegir Guðs eru réttlæti. (Efesusbréfið 5:1) Míka 6:8 bendir líka á að ein af kröfum Jehóva sé sú að „gjöra rétt“ er við göngum með honum, það er að segja að iðka réttlæti. Og Sefanía 2:2, 3 minnir á að við verðum að ‚ástunda réttlæti‘ áður en reiðidagur Jehóva rennur upp, ef við viljum njóta verndar þá.
18. Hvaða spurningum er svarað í greininni á eftir?
18 Þessir erfiðu síðustu dagar eru því „hagkvæm tíð“ til að iðka réttlæti. (2. Korintubréf 6:2) Við megum vera viss um að Jehóva blessar okkur ef við ‚íklæðumst réttlætinu‘ og höfum ‚ráðvendnina að skikkju,‘ líkt og Job. (Jobsbók 29:14) Hvernig hjálpar trú á réttlæti Jehóva okkur að horfa hugdjörf fram á veginn? Og hvernig er réttlæti Guðs okkur andleg vernd er við bíðum hinnar réttlátu ‚nýju jarðar‘? (2. Pétursbréf 3:13) Greinin á eftir svarar þessum spurningum.
[Neðanmáls]
a Í Hebresku ritningunum eru notuð þrjú aðalorð. Eitt þeirra (mishpatʹ) er oft þýtt „réttvísi“ eða „réttur.“ Hin tvö (tseʹðeq og skylt orð, tseðaqahʹ) eru oftast þýdd „réttlæti.“ Gríska orðið dikaiosyʹne, sem þýtt er „réttlæti,“ er skilgreint sem „það að vera rétt eða réttlátt.“
b Dæmið, sem Jesús tók, var vel valið því að munnleg lög Gyðinga kváðu sérstaklega á um að heimilt væri að hjálpa nauðstaddri skepnu á hvíldardegi. Tekist var á um þetta sama mál nokkrum sinnum, það er að segja hvort leyfilegt væri að lækna á hvíldardegi. — Lúkas 13:10-17; 14:1-6; Jóhannes 9:13-16.
Geturðu svarað?
◻ Hvað er fólgið í réttlæti Guðs?
◻ Hvernig boðaði Jesús þjóðunum réttlæti?
◻ Af hverju var réttlæti faríseanna afskræmt?
◻ Hvers vegna þurfum við að iðka réttlæti?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Jesús sýndi fram á hve yfirgripsmikið réttlæti Guðs væri.